Eldri fréttir - Ágúst 2006


Rúntur í gærkvöldi

Eins og venjulega hittust félagar í Árbænum, en þetta kvöld var líka aukarúntur á dagskrá, farinn var léttur rúntur um bæinn á nokkrum bílum. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá því í gær. [31.08]jsl


Chrysler safngripir

Hérna er eitthvað fyrir forfallna Chrysler/Dodge/Mopar eigendur, en á heimasíðu Walter P. Chrysler safnsins er að finna pöntunarlista yfir þær vörur sem hægt er að panta frá safninu. Örugglega eitthvað þarna sem hægt er að minnast á tímanlega fyrir jól að manni vanti endilega viðkomandi hlut. Annars er einnig hægt að sjá lista yfir þá bíla sem eru í eigu safnsins. [28.08]jsl/gös


Myndir á netinu

Margar síður hafa orðið til á netinu sem notendur geta notað til að sýna sínar myndir sem eru teknar við ýmis tækifæri, ferðalögum eða nánast hvenær sem er. Ein slík síða er Webshots og eru myndir flokkaðar eftir efni svo hægt er að leita að þeim myndum sem maður vill skoða. T.d. ef leitað er eftir "classic car" þá koma upp rúmlega 80 þúsund myndir. Hérna er linkur á þá leit og ætti það að vera nóg efni til að skoða um helgina ef manni vantar eitthvað til að gera. [25.08]jslRúntur í gærkvöldi

Einn af síðustu rúntum sumars var á dagskrá í gærkvöldi og var mæting hjá B&L, þar sem var tekið að móti félögum með smá hressingu fyrir keyrsluna. Var síðan tekinn rúntur um Árbæ, Breiðholt og Kópavog og endað á Amokka í kaffi. Rúmlega 30 bílar mættu í þessa ferð, en myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [24.08]jslSólstöðuhátíð síðustu helgi

Um síðustu helgi var haldin Sólstöðuhátíð við Garðsvita og voru nokkrir félagar okkar úr Garðinum mættir með bíla sína ásamt nokkrum úr bænum. Sýning bílanna var partur af dagskrá helgarinnar, og áttu menn þarna góðan dag. Vafalaust hefur dregið úr þátttöku manna úr bænum þar sem Menningarnótt var í Reykjavík og Fatadagur daginn eftir. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessum degi sem Jón H. Sigurjónsson tók við þetta tækifæri. [23.08]jslFatadagur

Í gær var hinn árlegi Fatadagur og var að þessu sinni haldið til Borgarness, eftir að hafa borðað saman á KFC í Mosfellsbæ. Í Borgarnesi tók Gylfi Árnason útibússtjóri KB Banka, ásamt starfsfólki, á móti hópnum og var boðið upp á kaffi og köku. Var síðan farið til Hvanneyrar og Búvélasafnið skoðað. Var síðan tekinn stuttur rúntur inn í Borgarnes, á heimleiðinni var borðað saman í Ferstiklu, en Hvalfjörðurinn var ekinn báðar leiðir, enda ekki hægt að fá betra veður til að njóta hans eins og það var í gær. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [21.08]jslKvennarúntur

Í gærkvöldi var svokallaður kvennarúntur, en þá var lögð áhersla á að konur ækju bílunum eða hefðu sinn mann sem bílstjóra. Um 30 bílar mættu og upp undir helmingur þeirra var með kvenbílstjóra undir stýri. Farinn var rúntur á leið í Perluna, þar sem farið var í kaffi, en allir kvenmenn sem mættu voru í boði Ferðanefndar, karlarnir þurftu að sjá um sig sjálfir. Eftir kaffið var annar rúntur um vesturbæinn og endaði niður á miðbakka. Var ekki annað að heyra en að þessi prufa líkaði vel og verður annað svona kvöld á dagskrá næsta árs. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [17.08]jsl


Myndir frá uppboði

Nýlega var Meadow Brook Classic Car Auction fornbílauppboðið haldið, eins og venjulega voru margir bílar sem fóru fyrir háar upphæðir. Virðist ekkert lát vera á söfnun manna á fornbílum erlendis og víða orðin "status" að eiga einn eða fleiri fornbíla í bílskúrnum til að geta sýnt sig á góðum dögum. Hérna eru nokkrar myndir frá þessu uppboði. [16.08]jsl


Bronco og Camaro

Þessar tvær tegundir eiga frekar lítið sameiginlegt fyrir utan að hafa verið kynntar á markaðinn á þessum degi árið 1965 og 1966. Bronco var framleiddur til að keppa við Jeep CJ5 og Scout. Hérna er hægt að lesa um sögu Bronco til 1977 og eins hér um seinni útgáfur af Bronco. Alveg eins og Mustang fæðist af Falcon, þá verður Camaro til út frá Novu og er ætlað að keppa við Mustang. Hvort sem menn eru hrifnir af þeim eða ekki þá hefur Camaro alltaf haft dálitla sérstöðu og góð eintök eru eftirsótt í dag. Hérna er hægt að lesa um sögu Camaro. [11.08]jsl


Vegna geymslugjalda

Nýtt fyrirkomulag á innheimtu geymslugjalda verður tekið upp frá og með þessum mánuði. Verða geymslugjöld hér eftir (með þessum mánuði) innheimt með greiðsluseðlum. Þýðir það að seðlar eiga að birtast í heimabönkum viðkomandi, og um leið í þjónustuleiðum banka, einhverjir gætu samt þurft að láta sinn banka vita að þessir seðlar eigi að vera með í þjónustusamningi viðkomandi. Um leið verður tekið upp að dráttarvaxta geymslugjöld, ef ekki er greitt á eindaga, og fastar verður tekið á vanskilum. Seðilgjald bætist við eins og er á flest öllum innheimtum með greiðsluseðlum og verður það sama og bankinn tekur fyrir þessa þjónustu af klúbbnum. Seðlar fyrir ágúst verða sendir út um og eftir helgina. [10.08]jsl


Góð myndasíða

Hérna er tengill á skemmtilega myndasíðu þar sem hægt er að sjá eldri bíla, mótorhjól og önnur eldri tæki. Einnig eru tenglar á ýmsar síður sem tengjast söfnum og myndir frá þeim. [09.08]jsl/gös

Fyrir helgina

Ef menn hafa ekki náð að græja sig upp fyrir helgina, þá er hérna síða með hjólhýsi til sölu, að vísu erlend, en það er hægt að skoða og spá. Einnig eru þarna nokkrar myndir af þessum eldri hjólhýsum og eins er reynt að gera sögu hjólhýsa skil. Fréttasíða er komin í frí fram á næsta þriðjudag. [04.08]jsl


Rúntur í gærkvöldi

Léttur rúntur um bæinn var farinn á rabbkvöldi í gærkvöldi. Eins og venjulega (þegar ferð er ekki á dagskrá) var opið í Árbænum frá kl. 20.30. Eftir að félagar höfðu rabbað saman og fengið sér kaffi var tekinn léttur rúntur um bæinn og endað á miðbakka. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá Árbænum í gær. [03.08]jslNew York til San Francisco

Þann 1. ágúst árið 1903 var í fyrsta skipti kláruð ferð þvert yfir Bandaríkin á bíl. Ferðin tók 52 daga fyrir Horation Nelson Jackson, 31 árs gamall læknir, sem varð fyrstur af þremur sem fóru þessa ferð á svipuðum tíma. Horation ók á Winton, en hinir tveir voru á Packard og Oldsmobile, reyndar kynnti Oldsmobile liðið að þeir væru hinir raunverulegu "sea-to-sea transit" þar sem þeir óku áfram niður í fjöru og létu dekkin snerta sjó. Á þessum árum voru ekki nema um 150 mílur af malbikuðum vegum og oft þurfti að fylgja járnbrautateinum, eða bara aka í vissa stefnu og vona að sú leið væri fær. Seinna sama ár var Horation sektaður fyrir að aka of hratt, var yfir 6 mílna hraða. [02.08]jsl