Eldri fréttir - Júlí 2006


Kea fornbílarall

Reyndar er þetta rall ekki á vegum Kaupfélags Eyfirðinga, en Kea rallið hefur verið haldið á Grísku eyjunni Kea, sem er farin að vera vinsæl meðal ferðamanna. Rallið virðist vera haldið í júní, en ekki er vitað hvort það sé árlega, en ef fornbílafólk er á ferð í Grikklandi er alveg vert að athuga hvort rallið sé á dagskrá. [31.07]jsl/gös


Hotrod´s

Ef þú hefur áhuga á að eignast Hotrod eða Street-rod með öllum nútíma þægindum en gamla útliðið, þá er hægt að panta sér eina alvöru græju frá Dearborn Deuce. Fyrir ca. 6.3 milljónir er hægt að fá eitt stk. "standard" hotrod eða eftir þínum óskum og þá er verðið eftir því. Svona bílar sem eru nýir en með gamla útlitinu eru orðnir gífurlega vinsælir fyrir vestan og í Kaliforníu af vissum árgöngum eru til fleiri bílar á skrá en voru framleiddir í byrjun. Síðan eru mörg fyrirtæki sem selja svona bíla sem kit-car og er hægt að fá þá mismikið tilbúna. Í raun er kannski ekki mikill munur þá þessum bílum og þeim sem hafa verið gerðir upp frá grunni og lítið eftir í þeim upprunalegt nema nokkrar skrúfur og annað dót sem hægt var að nota. [28.07]jslRúnturinn í gærkvöldi

Einn af kvöldrúntum sumars var á dagskrá í gærkvöldi og var stefnan tekin á Kjalarnes og listamaðurinn Teddi heimsóttur. Eins og þeir sem þekkja til hans þá vinnur hann sína skúlptúra út tré. Teddi sýndi félögum um sína vinnustofu og eins þau verk sem hafa verið unnin undanfarið, en Teddi verður með sína sjöundu einkasýningu í Perlunni frá 1. til 27. ágúst. Eftir að félagar höfðu þegið kaffi og kökur í vinnustofu Tedda var haldið í bæinn og stuttur rúntur farinn um miðbæinn. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [27.07]jsl


Trukkasíða

Hérna er ein góð síða með mikið af myndum af trukkum og rútum, bæði nýlegum og eldri. Ef farið er niður síðuna er þar að finna tengla á myndir, raðað eftir tegundum. Hank's Truck Pictures. [26.07]jsl/gösUm síðustu helgi

Helgar og grillferð klúbbsins var á dagskrá um helgina og var hún á Álfaskeiði, Flúðum. Margir gistu alla helgina og mættu á sínum fornbílum, og eða á ferðabílum sínum. Gist var á tjaldsvæðinu á Álfaskeiði, sem er rekið af Gistihúsinu í Syðra-Langholti. Sjálft grillið var haldið seinni part laugardagskvölds og mættu um 70-90 manns í mat um kvöldið. Boðið var upp á lambakjöt, meðlæti, gos og eða einn kaldan með matnum. Grillið var í boði FBÍ, Kjötsmiðjunnar (félagi okkar Sigurður V Gunnarsson) og Einars Gísla, formanns Ferðanefndar. Óvænt uppákoma var eftir matinn þegar tveir fallhlífastökkvarar svifu inn yfir svæðið og lentu innan um svæðisgesti. Seinni part sunnudags fóru síðan gestir að tínast heim. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [24.07]Kvöldrúntur / Gróðursetning

Í gærkvöldi fór hópur fornbílafólks að svæði því sem klúbburinn hefur fengið úthlutað til að gróðursetja trjáplöntur, en svæðið er við Heiðmerkurgirðingu rétt fyrir ofan Elliðavatn. Settar voru niður plöntur, einnig var sett upp skilti sem merkir svæðið, en félagi okkar Ingimundur Benediktsson gerði skiltið. Endað var síðan í kaffi í Grandakaffi. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [20.07]jsl


Corvettes Canton show

Um helgina komu saman Corvettu eigendur og sýndu bíla sína í Canton’s Heritage Park. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessari sýningu. [17.07]jsl


Remco's Classic Car Gallery

Hérna er ein góð síða til að skoða um helgina, þarna er hægt að sjá myndir af mörgum tegundum fornbíla sem viðkomandi hefur tekið á sýningum og samkomum víða um Evrópu. Myndirnar eru flokkaðar eftir tegundum og helstu löndum.
Remco's Classic Car Gallery [14.07]jsl/gösErlendar bílasamkomur

Þar sem sumarið er aðal samkomutími fornbíla í vesturheimi, þá er eitthvað að gerast þar um hverja helgi. Hérna eru tenglar á nokkrar myndaseríur frá samkomum síðustu vikna í Mitchican fylki. Canton show, Westland, Ypsilant og Greenfield Village’s. [13.07]jsl


Þjóðsaga um Jeep

Hérna er skemmtileg síða sem fjallar um þá lífsseigu sögu um að herjeppar væru seldir í kössum fyrir slikk eftir seinni heimstyrjöld. Þarna er farið yfir nokkrar útgáfur af því svindli sem var í kringum þessar sögur. [12.07]jsl/gös


Verkaskipting stjórnar

Á stjórnarfundi í gærkvöldi var samþykkt ný verkaskipting stjórnarmanna, en eftir síðasta aðalfund urðu mannabreytingar í stjórn. Ákveðið var að Egill Matthíasson verði fjármálastjóri klúbbsins og fari með yfirumsjón allra sjóða klúbbsins og haldi einnig utan um ársreikninga klúbbsins. Jón S. Loftsson (undirritaður) verður gjaldkeri og sér um innheimtu félagsgjalda / geymslugjalda og greiðslu daglegra reikninga.Einnig var ákveðið að Hróbjartur Ö. Guðmundsson tekur að sér Krambúð klúbbsins og því sem henni tilheyrir. Að lokum var ný nefnd formlega sett í gang, Afmælisnefnd, en eins og flestir félagar vita þá á klúbburinn 30 ára afmæli á næsta ári. Þessari nefnd er ætlað að skipuleggja hvernig haldið verði upp á afmælisárið. Í nefndinni eru, Egill Matthíasson (formaður), Hróbjartur Ö. Guðmundsson, Jón S. Loftsson, Jón H. Sigurjónsson, Kjartan Friðgeirsson og Örn Sigurðsson. [11.07]jslYstafell um helgina

Eins og áður hefur komið fram hér var verið að stækka safnið á Ystafelli, og var viðbótin formlega opnuð síðasta laugardag. Sverrir Ingólfsson ávarpaði gesti, en Halldór Blöndal vígði nýja salinn með því að klippa á borða í tengibyggingu. Nokkrir félagar okkar á norðurlandi voru viðstaddir og Björgvin Ólafsson sendi okkur nokkrar myndir frá þessum degi. [10.07]jsl


Toyota Automobile Museum

Ef þið eruð á ferð í Japan þá er tilvalið að kíkja á bílasafn Toyota, sem er í Nagakute. Þó að safnið sé í eigu Toyota og áherlsan á þeirra eigin bíla þá er gott úrval af öðrum tegundum. Hérna er hægt að skoða hvað safnið hefur upp á að bjóða og myndir af bílunum. Einnig er stutt saga hverrar tegundar á meðfylgjandi myndum. Þess má geta að Toyota umboðið hér á gott safn af eldri Toyotum sem félagar fóru að skoða fyrir nokkrum árum. [06.07]jsl/gös


Fredericksburg Vintage Car Club

Hérna er heimasíða eins fornbílaklúbbs í Texas, sem er partur af Veteran Motor Car Club of America. Klúbburinn virðist gera mikið af því að ferðast saman og vera með reglulega fundi, þar sem myndasýningar og fræðsluefni er á boðstólum og minnir margt á okkar klúbb, nema hvað þeir hafa greinilega betra veðurfar að reiða sig á til ferðalaga. [05.07]jsl/gös


Stækkun á Ystafelli opnuð

Næsta laugardag, 8. júlí, verður formleg opnun á þeirri stækkun Samgönguminjasafnsins á Ystafelli sem unnið hefur verið að síðustu mánuði. Opnunin er kl. 14 e.h., en þá verður nýr 720 fermetra salur tekinn í notkun. Einnig verður opnuð sýning á gömlum myndum sem Jón Þorgrímsson á Húsavík hefur safnað. Tilvalið fyrir bílaáhugafólk að koma þarna við næsta laugardag, svo og aðra daga þegar ferðast er um landið í sumar. Fréttasíðan óskar safninu til hamingju með þennan áfanga. [04.07]jslÁrbæjarsafnið í gær

Hinn árlegi Fornbíladagur var í Árbæjarsafni og mættu 45 bílar til sýningar um daginn. Mikið var um gesti í safninu þennan dag, þrátt fyrir að þetta sé mikil ferðahelgi. Ferða og félaganefnd bauð upp á kaffi og meðlæti í húsnæði okkar í safninu. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [03.07]jsl