Eldri fréttir - Júní 2006

Tilkynning frá Ferða og félaganefnd

Bílanaust ehf hefur ákveðið að styrkja Ferða og félaganefnd með rausnarlegri gjöf. Um er að ræða gjöf á miklu magni af blýbæti, sem Ferða og félaganefnd getur selt til fornbílamanna til þess að fjármagna vissar uppákomur í ferða og félagastarfinu. Hver brúsi af blýbæti verður seldur á kr. 400 (búðarverð er kr. 930) en hægt er að kaupa kassa með 12 stk. á kr. 3500, (sem gerir kr. 291 á brúsa). Fyrir þá sem hafa ekki tök á að nálgast þetta hjá nefndarmönnum í ferðum, eða Árbænum, er hægt að panta blýbætinn hjá Jóni í síma 892 0045, eða á netfangið jsl@itn.is, verður hann þá sendur í póstkröfu og kaupandi greiðir sendingarkostnað. Ferða og félaganefnd vill þakka Bílanausti fyrir höfðinglega gjöf. [29.06]jslMyndir frá Landsmóti

Nú er búið að fara yfir þær myndir sem teknar voru á mótinu um helgina, undirritaður og Georg Theodórsson voru í því að mynda allt mótið og eru eitthvað um 600 myndir til að velja úr. Einnig sendi Kristinn Guðjónsson okkur nokkrar myndir sem eru hér fyrir ofan. Allt tekur þetta tíma að fara yfir og raða saman, en núna er yfirlit komið á Myndasíðu og eins fleiri og stærri fyrir félaga hér. Þegar farið er yfir mætingarskráningu er ánægjulegt að sjá að aldrei hafa jafn margir fengið mætingu fyrir alla helgina, og er þetta mót það fjölmennasta hingað til í gistingu. Svona mót gerist ekki af sjálfu sér og þó að það mæði einna mest á formanni Ferða og félaganefndar, Einari J, Gíslasyni, þá koma aðrir nefndarmenn að skipulagi og framkvæmd mótsins, en það hafa farið ófáir tímarnir í undirbúning og frágang. Fleiri koma að þessu eins og Guðbergur Guðbergsson (lán og uppsetning hljóðkerfis), Halldór Jónsson (flutningur bíla og aðstoð), Halldór Gíslason (flutningur) Farmur (lán á sendibíl), BG flutningar (flutningur bíla), Sigurbjörn Helgason (tónlist), Skeljungur og Orkan (hoppukastali) og fleiri aðilar. Er þeim öllum þakkað fyrir framlag sitt.[27.06]jslLandsmótið

Eins og flestir hafa tekið eftir þá var Landsmót FBÍ haldið um þessa helgi. Mótið var haldið á Selfossi hjá Gesthús-tjaldsvæði í þriðja skipti og tókst frábærlega vel. Mótið var sett af Guðna Ágústssyni, landbúnaðarráðherra, eftir akstur fornbíla um Selfoss síðasta föstudagskvöld. Um 80 bílar tóku þátt í þeim akstri og var strax mikið af fólki sem kom að skoða bílana það kvöld. Laugardagurinn var notaður til sýningar á bílum frá kl. 13 til 18 og voru 90 til 100 bílar sem tóku þátt í henni, en eitthvað um 30 bílar komu til viðbótar sem gestir í mislangan tíma. Stanslaus umferð fólks var allan daginn að skoða bílana og mikið verið að spjalla við bíleigendur. Eftir sýningu var sameiginlegt grill við tjaldið okkar, en núna hefur Ferða og félaganefnd eignast borð og bekki, og bætir það alla aðstöðu í tjaldinu.Skemmtu félagar sér síðan saman fram eftir, í fínu veðri á jónsmessukvöldi. Á sunnudeginum var farið í bílaleiki og var fyrst á dagskrá Velti-Pétur, en þar reyna menn að ná jafnvægi á sem stystum tíma. Í þeirri þraut lenti Stefán Hauksson í þriðja sæti, Magnús Magnússon í öðru og sigurvegari var Gunnar H. Þórisson. Síðan var farið í tímabraut þar sam keyrt var með fullt glas af vatni eftir braut og þurfti að snerta borða eða prik á nokkrum stöðum, takmarkið var að ná sem stystum tíma og koma með sem mest af vatni í mark. Í þeim hluta varð Einar J. Gíslason í þriðja sæti, Gunnar B. Pálsson í öðru sæti og Jón S. Loftsson í fyrsta sæti. Mótinu lauk síðan með hópakstri um Selfoss í lögreglufylgd. Í heild var þetta eitt af betri mótum síðustu ára og ekki spillti fyrir að fá mjög gott veður alla helgina, sérstaklega var gaman hversu margir komu til að gista alla helgina, en tæplega 50 bílar voru á svæðinu alla helgina. Að lokum vill Ferða og félaganefnd þakka þeim öllum sem komu og tóku þátt í mótinu yfir helgina, eins Gesthúsi fyrir frábærar móttökur og öllum þeim félögum sem unnu mikla vinnu fyrir og um þessa helgi. Þar sem ekki hefur náðst að vinna úr þeim mikla fjölda mynda sem teknar voru um helgina bíða þær birtingar til morguns. [26.06]jslLandsmótið hafið

Í kvöld var Landsmót FBÍ sett af Guðna Ágústssyni, landbúnaðarráðherra, þegar hann ók einum fornbíl til mótsstaðar. Um 80 bílar tóku þátt í keyrslu um Selfoss og var strax góð stemmning á svæðinu. Veðrið eins gott og hægt er að hafa það, og svæðið hjá Gesthús-tjaldsvæði gott að venju. Á morgun, laugardag, verður síðan sýning milli kl. 13 og 18 á þeim bílum sem mættir eru, einnig þeim sem koma í heimsókn í dag. Hér er hægt aðsjá nokkrar myndir frá því kvöld. [23.06]jslRickenbacker Motor Company

Tegund sem hefur lítið heyrst af, en Rickenbacker Motor Company var stofnað árið 1921 og kom fyrsti bíll frá þeim árið eftir. Þetta fyrirtæki náði ekki að lifa lengi, en árið 1927 var starfsemi lokið. Gaman væri að fá að vita hvort Rickenbacker hafi verið til hér á landi, en hérna er hægt að lesa um sögu þessa fyrirtækis og eins að sjá myndir af nokkrum þeim bílum sem ennþá eru til og eins myndir frá framleiðslu þeirra. [22.06]jsl/gösÍslenskt safn stækkar

Síðasta vetur og í vor hefur verið unnið að stækkun Samgönguminjasafnsins á Ystafelli. Stefnt er að opna nýja húsið 8. júlí, en fyrra húsið var opnað sama dag árið 2000. Það var árið 1995 sem fyrst var farið að skoða með opnun safns á Ystafelli, en mikill fjöldi bíla hafði safnast þar fyrir í gegnum árin. Hjónin Ingólfur L. Kristjánsson og Kristbjörg Jónsdóttir stofnuðu síðan formlega Samgönguminjasafnið 28. desember 1998. Ingólfur og Kristbjörg er nú bæði látin fyrir þremur árum, en sonur þeirra, Sverrir Ingólfsson, hefur haldið áfram því starfi sem byrjað var á Ystafelli. Hér er heimasíða safnsins og þar er hægt að lesa um sögu þeirra bíla sem þar eru og eins um safnið sjálft. [21.06]jslÞjóðhátíðarakstur

Annað árið í röð var safnast saman í Árbæjarsafni fyrir þjóðhátíðarakstur og sýningu á miðbakka. Árbæjarsafnið býður upp á góða aðstöðu til að raða bílum fyrir akstur og eins er þó nokkuð um að fólk komi þangað til að skoða bílana og hitta fornbílaeigendur. Þrátt fyrir leiðinda spá síðustu daga rættist vel úr veðrinu og fyrir utan smá skúr fengum við ágætt veður, og varð þetta hinn fínasti dagur og var ekki að heyra annað en að þeir félagar sem mættu hafi haft gaman af eins og venjulega. Eftir akstur niður í bæ um Laugaveg og Hverfisgötu var sýning á miðbakka sem sem eitthvað um 70 bílar tóku þátt í og var mikill fjöldi fólks sem kom að skoða og rabba við félaga. Margir fornbílaeigendur voru með sínar fjölskyldur með sér og fóru í bæinn meðan á sýningu stóð til að fylgjast með hátíðarhöldum, enda er ekki hægt að fá betri frátekin vöktuð bílastæði í miðbænum á þessum degi. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. Einnig er hægt að sjá myndir eftir Þorgeir Baldursson frá Bíladögum á Akureyri sem voru um helgina. [19.06]jslYpsilanti Automotive Heritage Collection

Síðustu 10 ár hefur verið haldin sýning á vegum Ypsilanti Automotive Heritage Collection, en á henni er lögð áhersla á að sýna bíla sem eru sjaldgæfir, framleiddir í fáum eintökum eða voru ekki framleiddir í Ameríku. Hérna eru nokkrar myndir frá þessari sýningu sem haldin var nýlega. [15.06]jslLaugardalurinn um helgina

Fornbílar voru vel sýnilegir um helgina í Laugardalnum, en þá var hinn árlegi dagur félaga í Fjölskyldu og húsdýragarðinum. Mættu rúmlega 30 bílar og á meðan bílar félaga voru til sýnis yfir daginn, skemmtu félagar og fjölskyldur þeirra sér í leiktækjum og öðru sem garðurinn hefur upp á að bjóða. Grillaðar voru pylsur síðar um daginn og var þetta hinn fínasti dagur. Um helgina var einnig sýning í Laugardalshöll á vegum Bílar & Sport, en klúbbnum var boðið að vera þar með bás til að kynna starfsemi klúbbsins. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [12.06]jslFlottir fornbílar á sýningu

Síðustu helgi var fornbílasamkoma í Rochester, Michigan, og voru þar margir flottir fornbílar til sýnis. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessari samkomu. [07.06]jslStar, Starling og Stuart

Eins og flestir bílaframleiðendur byrjaði Edward Lisle og fjölskylda hans á reiðhjólaframleiðslu, en árið 1897 hafði hann gert sinn fyrsta bíl sem þróaðist síðan út í bílategund sem fékk nafnið Star. Fyrirtækið var í Wolverhampton, Englandi, og strax árið 1899 var byrjað að selja þessa bíla í öðrum löndum, aðallega Ástralíu og Nýja Sjálandi. Framleiðsla var líka á ýmsum vélarhlutum sem voru seldir til annarra framleiðenda og fyrirtækið blómstraði. Fleiri tegundir voru settar á markað, minni útgáfa sem hét Starling og síðan Stuart. Í fyrri heimstyrjöld var aðallega framleiðsla á flugvélahlutum og herbílum, en eftir lok stríðs átti fyrirtækið erfitt og var það yfirtekið af Guy Motors, en náði sér aldrei á strik og árið 1932 varð það gjaldþrota. Hérna er hægt að lesa meira um sögu Star og sjá myndir af Star bílum í gegnum árin. [06.06]jsl/gösHafnarfjörður í gærkvöldi

Nú standa yfir "Bjartir dagar" í Hafnarfirði og hófust þeir í gær. Í tilefni þess óskaði Byggðasafnið í Hafnarfirði eftir nokkrum fornbílum til þess að standa fyrir utan safnið um kvöldið. Þeir félagar sem mættu áttu gott kvöld þarna og höfðu kost á að skoða safnið vel og þá sýningu sem þar var sett upp um Bjarna Sívertsen. Hér er hægt að sjá nokkrar myndir fré þessu kvöldi. [02.06]jslKvöldrúntur í gær

Tæplega 30 bílar mættu í 4. ferð sumars í gærkvöldi í þessu fína vorveðri. Farið var frá Perlunni og ekið í gegnum Öskjuhlíð og síðan út á Seltjarnarnes. Síðan var haldið niður í miðbæ og lagt á Lækjartorgi fyrir framan SegoFredo kaffistaðinn, þar sem félagar fengu sér kaffi á meðan vegfarendur skoðuðu bílana. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [01.06]jsl