Eldri fréttir - Apríl 2006

Bensínstyrkur félaga

Undanfarin ár hefur verið í boði bensínstyrkur til þeirra sem hafa farið í vissar ferðir klúbbsins í samvinnu við Esso. Síðustu ár hefur þessi styrkur staðið í sömu krónutölu og eftir því sem lítraverð hækkar verður minna til skiptanna. Í ár var lagt upp með nýja hugmynd að bensínstyrk og nú hefur formaður Ferða og félaganefndar, Einar J. Gíslason, náð samningum við Skeljung um bensínstyrk til félaga FBÍ. Stendur öllum félögum kostur á að sækja um Viðskiptakort Shell í gegnum FBÍ sem gefur 10 kr. afslátt af lítraverði Shell hverju sinni. Um er að ræða Viðskiptakort sem tengist kreditkorti viðkomandi félaga og skuldfærast úttektir mánaðarlega, eftir að afsláttur hefur verið reiknaður. Þar sem ekki er hægt að bjóða uppá afslátt við kassa, er þetta eina leiðin til að reikna afsláttinn. Þessi afsláttur mun gilda svo lengi sem þetta samstarf Skeljungs og FBÍ stendur og viðkomandi korthafi er félagi í FBÍ. Með þessu fyrirkomulagi nýtist bensínstyrkur fyrir alla félaga, óháð ferðum, búsetu og bílafjölda. Að lokum vill Ferða og félaganefnd þakka Skeljungi fyrir rausnarlegt boð til félaga FBÍ og hvetjum við alla félaga til að beina viðskiptum sínum til þeirra og sækja um Viðskiptakort sem fyrst. [28.04]jslÍ gærkvöldi

Á kvikmyndakvöldi í Árbænum í gærkvöldi var auðvelt að sjá að vorið er komið og stutt í að fornbílaflotinn fari á stjá. Nokkrir mættu á sínum bílum og eru þessar meðfylgjandi myndir teknar við það tækifæri. [27.04]jslAuburn, Cord Duesenberg safnið

Félagi okkar Sigurður Ólafsson var í þessum mánuði staddur í Indiana fylki og sendi okkur nokkrar myndir frá tveimur af hans uppáhalds bílasöfnum, Auburn, Cord Duesenberg safninu og National Automotive and Truck Museum. Þarna eru margir eðalvagnar til sýnis og ekki skemmir flott bygging ACD safnsins fyrir, sem er viðeigandi umgjörð þessara bíla. Hérna eru myndir Sigurðar. [24.04]jslSlökkvibílar

Margir hafa áhuga á gömlum slökkvibílum og eru nokkrir í eigu félaga. Þó nokkuð er til af eldri bílum hér á landi, bæði í einkaeigu og eins slökkviliða. Lítið hefur verið tekið saman um sögu þeirra hér á landi, allavega ekkert sem er aðgengilegt til skoðunar. Hérna er síða sem er gott dæmi um hvað hægt er að gera í viðhaldi sögu sérhæfðra bíla. Þar er hægt að skoða myndir af bílum og stöðvarhúsum slökkviliðs Cincinnati, en í Bandaríkjunum eru frekar fleiri og smærri stöðvar með 2-3 bíla á hverjum stað. (Efst á síðunni er hægt að velja viðkomandi stöðvar). [21.04]jsl


Fornbílasýning á Hjaltlandseyjum

Helgina 2. - 5. júní nk. verður gríðarmikil fornbílasýning á Hjaltlandseyjum, sem haldin af fornbílaklúbbi eyjanna. Eru fornbílamenn frá Íslandi og Færeyjum sérstaklega velkomnir, en ferjan Norræna gengur sem kunnugt er á milli Íslands og Hjaltlandseyja með viðkomu í Færeyjum. Nánari upplýsingar um sýninguna er að finna á heimasíðunni www.shetlandcms.com. [19.04]jsl


Góð innheimta félagsgjalda

Heimtur félagsgjalda hafa aldrei verið eins góðar og nú. Þakka menn öflugu félagsstarfi og breyttu innheimtukerfi þennan góða árangur. Enn eiga þó rúmlega 50 eftir að borga og eru þeir hvattir til að gera það sem allra fyrst, að öðrum kosti verða þeir strikaðir út af félagaskránni þann 20. apríl nk. [12.04]jsl


Vorverkin hafin í númeradeildinni

Nú hafa nærri 430 númerasett verið framleidd hjá númeradeild klúbbsins, en þrátt fyrir þann frábæra árangur virðist sem að nokkrum fornbílum sé enn misþyrmt með hvítum plötum og er það miður! Nú þarf að vinda bráðan bug að því að bjarga þessum bílum yfir á steðjanúmer og það fyrir skoðunardaginn í maí. Einungis þarf að hafa samband við Umferðarstofu, sem úthlutar skráningu gegn 500 kr. gjaldi, og síðan tekur númeradeildin við pöntunum í síma 895-2400. Alla fornbíla á forn-númer fyrir sumarið! [10.04]ös


Uppgerð á fornbílum

Þeir sem eru að taka fyrstu skrefin í uppgerð á bíl eru kannski ekki vissir um hvar á að byrja eða hvernig er best að raða niður verkefninu. Hér er smá grein frá Popular Machanics um þennan feril og örugglega eitthvað sem menn geta nýtt sér. [06.04]jsl/gösEnn meira GM

Þar sem þema vikunnar er orðið um GM bíla, þá er ekki úr vegi að benda á einn Chevy klúbb. Á heimasíðu þeirra er hægt að sjá mikið af myndum frá sýningu þeirra síðustu ár og eins eru myndir af nokkrum bílum félaga ásamt sögu þeirra. Northwest Classic Chevy Club [05.04]jsl/gös


Meira um GM

Í framhaldi af frétt gærdagsins, þá er hér GM síða þar sem hægt er að skoða helstu kafla í sögu GM eftir árum. Hægt er að sjá stuttar videó klippur við sum árin til nánari útskýringa. www.gm.com/history [04.04]jsl/gös


GM myndir

Hérna er góð síða fyrir GM eigendur, Gm Photo Store. Þar er hægt að kaupa flottar myndir af ýmsum GM tegundum, bæði gömlum og nýjum árgerðum. Ef það er ekki áhugi fyrir að versla myndir þá er allavega hægt að eyða smá tíma í að skoða þær og finna sinn draumabíl. Þarna er einnig að finna skemmtilegar myndir af GM bílum á sýningum fyrri ára. [03.04]jsl/gös