Eldri fréttir - Janúar 2006


Bíllinn 120 ára

Það var 29. janúar árið 1886 sem þýska einkaleyfisstofan veitti 41 árs gömlum þjóðverja, að nafni Karl Benz, einkaleyfi stofnunarinnar númer 37435. Leyfið var fyrir sjálfrennireið sem hann hafði þá hannað og smíðað árið áður. Farartækið var þriggja hjóla mótorvagn með sæti fyrir tvo, ökumann og farþega. Ökutækið var síðar framleitt undir nafninu Benz Patent-Motorwagen, en þýska orðið "patent" þýðir einkaleyfi. Hér var því á ferðinni fyrsta ökutæki sem ekki var hestvagn með einhverskonar vélbúnaði, og því var orðin til fyrsta bifreiðin sem markaði upphafið af sögu sem við flest allir þekkjum deili á. Jafnframt mörkuðu þessi tímamót upphafið af elsta og einum þekktasta bifreiðaframleiðanda heims, sem í dag heitir Daimler Chrysler og er meðal annars framleiðandi Mercedes-Benz sem er bein arfleið óslitinnar sögu frá hinu fyrrnefnda einkaleyfi. Hérna er hægt að sjá bílasögu Mercedes-Benz eftir árum [30.01]jsl/rúnar sigurjónsson


Bílar í hlöðum

Alveg eins og hér heima eru til bílar í öllum löndum sem standa árum saman og bíða eftir að eigandinn geri hann upp einhvern tímann. Oft er reynt að kaupa viðkomandi bíl, en þar sem þetta er "gullmoli" sem bíður uppgerðar er verðið oft mjög óraunhæft, og á meðan rotnar bíllinn áfram þar til hann verður ein ryðhrúga og ekki hægt að sjá hvað stóð einhvern tímann þarna. Hérna er síða með myndum af bílum sem muna betri daga. [27.01]jslHraðamet á gufubíl

Á þessum degi fyrir 100 árum setti Fred Marriot hraðamet á Stanley Steamer á sandströnd nokkurri, Ormond Beach, í dag kölluð Daytona Beach. Hraðinn sem Fred náði var 127 mílur, ca. 204 km, og stendur það enn, þar sem gufubíll hefur ekki slegið það met. Hérna er hægt að lesa meira um Fred Marriot og eins um Stanley gufubílinn. [26.01]jsl"Body" framleiðendur

Fyrir stuttu fjölluðum við um framleiðendur yfirbygginga á bílum, er mikið var um á fyrri parti síðustu aldar og var þá sérstaklega nefnt Brewster Carriage Co, en margir aðrir voru þekktir á þessum tíma einnig, t.d. Biddle and Smart, Bohman & Schwartz, Derham og Fisher. Margir fleiri voru í þessum yfirbyggingum og urðu margir þeirra bíla frægir og eftirsóttir, sérstaklega sérsmíði fyrir fyrirmenn og leikara. Hér er vísun í grein um þessa framleiðendur og nokkrar myndir af bílum þeirra. [25.01]jslAkureyrarferð

Síðustu helgi fór partur af stjórn FBÍ til Akureyrar og heimsótti félaga þar og hélt myndakvöld í Sjallanum. Góð mæting var á myndakvöldið, en þar voru sýndar myndir frá síðasta sumri og líka úr ferðum félaga á söfn og sýningar erlendis. Einnig voru til sýnis gamlar bílamyndir og úrklippur úr blöðum. Farið var víða um Akureyri og bílar skoðaðir. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [23.01]jslFræðsluferð

Í gærkvöldi var farið í heimsókn til þeirra feðga Kjartans og Þorgeirs, en þeir reka bílaverkstæði á Smiðjuveginum og eru vel þekktir fyrir uppgerðir bíla sinna og annarra félaga. Einnig var opið hús hjá félaga okkar Jóni Sigurjónssyni sem rekur Datek Ísland í næsta húsi, en Jón er að gera upp 1953 Chevrolet vörubíl. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [19.01]jslFord síða

Á "LOVEfords" er ýmislegt efni tengt Ford bílum, bæði ýmsar myndir og upplýsingar um margt sem tengist Ford. Oft eru tenglar sem leiða mann af einni síðu yfir á aðra svo það er auðvelt að gleyma sér yfir þessari síðu. [18.01]jsl/gös


Endurnýjun nafna

Eins og oft áður þá koma sum bílanöfn aftur og aftur á markaðinn, sum bara endurnotuð en sum koma á bílum sem eru endurskapaðir upp úr eldri týpum t.d. eins og nýjasti Mustang. Frá Dodge er búist við nýjum Challenger sem nær ótrúlega vel þeim klassíska. Ekki er von á þessum bíl fyrr en árið 2007-2008 svo menn þurfa ekki að vera hræddir um að vera of seinir til að panta. Chrysler er líka að koma með Aspen á markað, en í formi jeppa núna. [16.01]jsl


Vegna félagsgjalda

Nú er verið að senda út félagsgjöld Fornbílaklúbbsins og að þessu sinni eru þau send til félagsmanna frá Landsbankanum í formi greiðsluseðils. Síðustu ár hefur borið á óánægju með gíróseðlana þar sem þeir koma ekki fram í heimabönkum og ekki heldur fram hjá þeim sem eru í greiðsluþjónustu banka. Um leið og greiðsluseðlar eru teknir upp er óhjákvæmilegt annað en að innheimta seðilgjald sem bankinn tekur fyrir þessa þjónustu, en seðilgjald er á flest öllum reikningum sem berast til fólks nú á dögum, eins og frá Vísa, Orkuveitunni, Símanum og skuldabréfum. Til að losna við seðilgjaldið í framtíðinni er hægt að gefa gjaldkera okkar upp kreditkort og er þá um leið öruggt að aldrei gleymist að greiða árgjaldið og um leið ódýrari innheimta. Eru félagar hvattir til að bregðast vel við og greiða gjöldin sem allra fyrst og tryggja sér þannig regluleg skilaboð og áframhaldandi aðgang að lokuðum svæðum félagsmanna á heimasíðunni fornbill.is. [13.01]jslThe Brewster Carriage Co.

Á fyrstu árum bílsins voru margir aðilar sem sáu um yfirbyggingu bíla, keyptu undirvagn og vél frá einhverjum framleiðanda og smíðuðu síðan yfirbyggingu, oft eftir séróskum kaupanda, og gáfu bílnum sitt nafn. Eitt frægasta fyrirtækið var Brewster Carriage Co í New York. Brewster bílar eru í dag mjög eftirsóttir og seljast dýrum dómi á uppboðum. Það var stofnað árið 1810 af James Brewster og varð fljótt þekkt fyrir vandaða vinnu við smíði hestvagna. Þegar bílar fóru að verða vinsælir snéru margir af þessum vagnasmiðum sér að smíði yfirbygginga á bíla, var það mjög eðlilegt að menn færu þá leiðina þegar hestvagnar fóru að dala í vinsældum. Hérna er hægt að lesa smá grein um Brewster bíla og eins nokkrar myndir af þeim. [12.01]jsl


Síða um byggingu FBÍ

Nú eru komnar á heimasíðu okkar upplýsingar og teikningar af byggingu FBÍ í Elliðaárdal. Hægt er að skoða allar helstu teikningar og útlitsmyndir af húsinu. Þar verður hægt að fylgjast með framkvæmdum og nýjustu fréttum af þeim og stöðu mála. Birtar verða reglulega myndir af svæðinu eftir því sem framkvæmdum miðar áfram. Byggingasíða. [11.01]jslVolzhsky Automobilny Zavod

Í janúar árið 1967 byrjaði AvtoVAZ að reisa bílaverksmiðju á bökkum Volgu er framleiddi bíla í samvinnu við Ítali. Nýr bær var reistur við verksmiðjuna fyrir þá sem unnu þar, fékk hann nafnið Togliatti, eftir Palmiro Togliatti sem var formaður Ítalska kommúnistaflokksins. Þessir bílar voru síðan betur þekktir sem Lada og voru bæði framleiddir sem útfærslur af Fiat bílum og eins hannaðir af AvtoVAZ eins og t.d. VAZ-2121 sem er þekktur sem Lada Niva. Verksmiðja þessi er ein sú stærsta í heiminum með samsetningar línu upp á 144 km. [09.01]jsl


Myndasíða uppfærð

Nú er nokkuð liðið frá uppfærslu eldri bílamynda, en búið er að bæta við 40 myndum af ýmsum árgerðum. Vonandi verður hægt að bæta nokkrum tugum mynda við safnið í hverjum mánuði, eins og alltaf stóð til. Hægt er að senda okkur upplýsingar um viðkomandi mynd og eru allar viðbætur vel þegnar. Myndir > Eldri myndir. [06.01]jsl3. janúar merkilegur dagur

Árið 1921 tilkynnti Studebaker að félagið væri hætt framleiðslu á hestvögnum en Studebaker hafði verið einn stærsti framleiðandi hestvagna um aldamótin 1900. Árið 1897 hafði Studebaker byrjað tilraunir með "hestlausa vagna" og árið 1902 höfðu þeir framleitt margar gerðir af rafmagnsbílum. Fram til ársins 1954 var Studebaker einn af stærstu framleiðendum bíla, en eftir það lenti fyrirtækið í peningavandræðum og sameinaðist Packard. Þann 3. janúar 1899 var í fyrsta skipti svo vitað sé til notað orðið "automobile", en það var í ritstjórnargrein The New York Times. Einnig var tegundin Pontiac frá Gm kynnt til sögunnar þann 3. janúar árið 1926. [04.01jsl


20 ára draumur

Í tilefni skóflustungunnar á síðasta ári, rifjaði upp fyrsti formaður klúbbsins, Jóhann E. Björnsson, fyrirætlanir klúbbsins um byggingu húss á nákvæmlega sama stað fyrir 20 árum síðan. Hann fletti því upp ársskýrslu formanns frá aðalfundi 19. maí 1985 og sendi okkur, en þar segir í kafla 6. Lóðarmál:

“Á síðasta aðalfundi skýrði ég frá því að við hefðum sótt um lóð fyrir klúbbinn í Vatnsmýrinni, á mótum Njarðargötu og Fossagötu. Nokkru síðar sótti Þjóðminjasafn Íslands um lóð á þessu sama svæði, þar sem sambýli við Fornbílaklúbbinn gæti mjög vel farið saman. Síðar, eða 18. júní 1984, skrifaði formaður FBÍ og þjóðminjavörður sameiginlega undir bréf þar sem fyrrnefnd sambýlishugmynd var staðfest. Mál þetta velktist síðan í kerfinu fram eftir sumri og hausti og við fáum vitneskju um að fullur vilji sé fyrir hendi hjá borgaryfirvöldum að úthluta okkur þessari lóð, það átti aðeins eftir að ganga endanlega frá skipulagi svæðisins. Þá kemur upp að vel hugsanlegt sé að þessum aðilum, þ.e. Þjóðminjasafni og Fornbílaklúbbnum, verði heimiluð lóð í landi Árbæjarsafns, en áform Þjóðminjasafnsins er að reisa hús sem hýst gæti tækniminjasafn og okkar að reisa hús sem gæti þjónað þörfum klúbbsins fyrir bílageymslu sem jafnframt gæti verið sýningaraðstaða og önnur félagsaðstaða. Eftir fundarhöld með arkitektum og forstöðumanni Reykjavíkurskipulags samþykkti stjórn klúbbsins í janúar sl. að óska frekar eftir lóð í landi Árbæjarsafns en í Vatnsmýrinni, þó með þeim fyrirvara að sleppa ekki Vatnsmýrarlóðinni fyrr en tryggt væri að hin væri fengin. Nú standa mál þannig að arkitektar þeir sem falið var að leggja fram hugmyndir að skipulagi svæðis og mannvirkja Þjóðminjasafns og okkar, þeir Stefán Örn Stefánsson og Hjörleifur Stefánsson, hafa staðsett okkur á spildu á svokölluðu Ártúnssvæði, rétt hjá gömlu rafstöðinni við Elliðaár. Er um að ræða mjög góðan stað í skemmtilegu umhverfi og hafa viðkomandi borgaryfirvöld fullan vilja á að mál þetta nái fram að ganga, eftir því sem næst verður komist. Eru aðeins eftir ýmis formsatriði þar til endanlega verður gengið frá lóðarmálinu. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að ÁRBÚÐ okkar rísi á þessum fagra stað”
Þökkum við Jóhanni fyrir að senda okkur þessa upprifun okkur til fróðleiks. [03.01]jsl