Eldri fréttir - Desember 2005


Fyrsta skóflustunga

Í dag var athöfn í Elliðaárdal við hlið Rafheima, þegar Sævar Pétursson formaður FBÍ, og Alfreð Þorsteinsson, Orkuveitan, tóku saman fyrstu skóflustunguna að nýju húsnæði Fornbílaklúbbs Íslands. Húsið mun rýma sýningarsal og félagsheimili klúbbsins og um leið er Orkuveitan að byggja við Rafheima, rými sem er hugsað sem þjónustubygging fyrir gesti Elliðaárdals, en hús FBÍ mun tengjast því rými. Að lokinni athöfn bauð Orkuveitan í kaffi og meðlæti í Rafheimum. Áætlað er að hús klúbbsins verði risið í lok næsta sumars og verði tekið í notkun fyrir vorið 2007. Hérna er hægt að sjá myndir frá þessari athöfn. [30.12]jslFrá Darracq til Talbot

Hérna er hægt að lesa smá grein um hvernig bílamerki geta þvælst á milli fyrirtækja og sýnir að ekki sé endilega nóg að framleiða fallega bíla, heldur kemur meira til. Í þessari grein er fjallað um bílamerki sem voru þekkt hér á landi líka, en náðu aldrei neinum vinsældum og vegna þessara hræringa á milli framleiðenda þá var umboð fyrir þessa bíla hjá nokkrum aðilum hér á landi í mis langan tíma. Hérna eru líka fleiri myndir sem tilheyra þessari sögu. [21.12]jslMustang safnið stækkar

Félagi okkar Björn Jónsson, sem býr núna í Lúxemborg, hefur undanfarið verið að safna Mustang. Áður vorum við búnir að segja frá kaupum hans á 1968 Shelby Cobra GT 350 og 1968 Shelby Cobra GT 500KR, núna hefur hann bætt við 1969 Mustang Boss 429 sem hann fann í Kaliforníu. Bíllinn er nánast eins og nýkominn úr verksmiðju, allir upprunalegir hlutir í honum og er lítið keyrður. Mun hann flytja bílinn til Lúxemborgar fljótlega, eins og er þá er GT 500 bíllinn hér heima í uppgerð en mun fara síðan aftur út. Óhætt er að segja að enginn Íslendingur eigi veglegra safn Mustang bíla en Björn og óskum við honum til hamingju með þessa viðbót. [20.12]jslSafn í Ástralíu

Southward Museum er með marga skemmtilega muni til sýnis, fornbíla, flugvélar, mótorhjól og kappaksturbíla. Hérna er hægt að lesa smá grein um safnið og eins að sjá nokkrar myndir frá því. Á heimasíðu safnsins er einnig hægt að sjá myndir af mörgum bílunum, en það sem er áhugaverðast er að lesa smá yfirlit um hvern bíl fyrir sig. [19.12]jslFramkvæmdir á Esjumel

Nú standa yfir miklar framkvæmdir við bílageymslur Fornbílaklúbbsins þar sem er verið að leggja rör fyrir niðurföll og drenlögn. Um leið er verið að tengja fyrir salerni í skemmu 2 og síðan verður lagfært svæðið fyrir framan skemmur 1 og 2, skipt um jarðveg og svæðið jafnað niður og undirbúið fyrir malbik, sem verður seinni tíma framkvæmd. Stóð til að gera þetta á síðasta ári (en þá var loks búið að ganga frá götu) en tafðist þar til núna. [16.12]jslVerkföll bönnuð

Á þessum degi árið 1941 voru settar reglur sem bönnuðu verkföll í hergagnaverksmiðjum og fyrirtækjum sem tengdust þeirri framleiðslu. Undir þetta féllu bílaframleiðendur, enda voru flestar verksmiðjur þeirra komnar undir hergagnaframleiðslu, allt frá hjálmum hermanna til skriðdreka.Þar á meðal var Cadillac sem framleiddi skriðdreka, en í ágúst árið 1945 var síðasti Cadillac skriðdrekinn framleiddur Hér fyrir ofan er mynd af M-24 skriðdreka sem Cadillac framleiddi og eins auglýsing frá Cadillac þar sem þeir sýna fram á sitt framlag til hjálpar stríðsins. [15.12]jslBlackhawk Museum

Áður höfum við sagt frá Blackhawk safninu sem er í Kaliforníu, en safnið sérhæfir sig í sjaldgæfum og einstökum fornbílum. Hérna eru fleiri myndir frá safninu sem sýna nokkrar tegundir í viðbót. [14.12]jslLondon-Brighton annað kvöld

Á síðasta rabbkvöldi ársins, miðvikudagskvöldið 14. desember, mun Jón S. Loftsson sýna videó frá hinu mjög svo merkilega London til Brighton-ralli, sem haldið var í byrjun nóvember, en þar eru yngstu bílarnir aðeins 100 ára gamlir. Jón, ásamt fjórum félögum, var mættur við startlínuna kl. 06 um morgun þann 6. nóvember, og fylgdust þeir félagar með þegar 470 bílar lögðu af stað til Brighton. Sýningin hefst klukkan 21.00. [13.12]jslEinn nýr á klakann

Félagi okkar í Keflavík, Magnús Magnússon (Maggi Hotrod), var að flytja inn 1959 Oldsmobile Super 88 Holiday Coupe, sem hann keypti frá Noregi. Þetta er svakalegur "prammi" (svo notað sé gott og gamalt bílalýsingarorð) eins og sést á meðfylgjandi myndum og er í mjög góðu standi. Má búast við að Maggi kíki til okkar í Árbæinn um leið og hann er kominn á númer. [12.12]jslÍslandsferð MG klúbbs

Síðastliðið sumar komu nokkrir félagar úr breskum MG klúbbi í heimsókn til Íslands á bílum sínum. Farið var í kvöldrúnt með þeim um bæinn og endað í kaffi á BSÍ þar sem fjöldi bíla var saman kominn. Nú höfum við fengið í hendur jólablað MG Owner´s Club þar sem ferðalýsing og myndir eru birtar. Hægt er að skoða þessa grein hér, en til þess þarf Adobe Reader sem flestir eru með í tölvum sínum, eða ættu allavega að vera með. [09.12]jslFrá fréttaritara okkar á Spáni

Félagi okkar, Bjarni Þorgilsson, fór í helgarferð til Barcelona um síðustu helgi og sendi okkur þessa grein og meðfylgjandi myndir.
Halda átti árshátíð Heimsferða þar í borg með pompi og prakt og þótti ferðin heppnast vel. Ekki spillti gleði minni þegar ég leit út um gluggann á hótelinu á laugardagsmorgun að við mér blasti risastór auglýsing “Auto Retro” fornbílasýning.. Vakti þetta strax áhuga minn og fór ég að athuga hvar þetta væri haldið, kom í ljós að sýningarhöllin var í um 300m fjarlægð frá hótelinu mínu. Ég dreif mig á sunnudagsmorgninum að kíkja á þetta og hafði 3 tíma til stefnu sem reyndist vera fjarri því nóg til að skoða almennilega allt það sem þarna var sýnt. Reyndi ég að taka sem bestar myndir fyrir ykkur félagana. Allar myndirnar eru teknar flasslaust, en þannig sést mun meira en bara það sem er næst myndavélinni, en á móti þá er mun meiri hætta á að þær verði hreyfðar, sem því miður er með nokkrar myndirnar. Enginn var þrífóturinn og ekki var höndin styrk eftir veisluna kvöldið áður. Um ¼ bílanna var til sölu, og þótti mér verðið í hærri kantinum fyrir marga bílana. Algengt var að sjá 20-30þ evrur fyrir “algenga” bíla. Gríðarlegt úrval varahluta var einnig til sölu þarna í allskonar bíla, fyrst og fremst frá Spáni og Ítalíu. Mjög þröngt var á milli margra bílanna þarna inni og tel ég fullvíst að ekki þætti þessi troðningur góður hérna á Íslandi. Þótti mér merkilegt að þarna reyktu menn um allt innan um bílana, og ekki þótti tiltökumál að drepa í rettunni á gólfteppinu sem var á gólfi hallarinnar. Sem dæmi þá varð talsverður bensínleki fyrir utan höllina og þótti mönnum eðlilegt að reykja bara áfram retturnar meðan fundað var um hvað ætti að gera í þessum bensínleka sem rann þarna um allt.... Vonandi njótið þið myndanna sem sýna varla meir en helming bílanna sem þarna voru. [08.12]jsl
Classic Cars Wallpaper

Fyrir þá sem hafa áhuga þá er hægt að finna mikið magn af "wallpaper" (skjámyndum) á þessari heimasíðu. Hægt er að velja um þrjár stærðir, 1280x960 1024x768 og 800x600, allt eftir því hvaða upplausn er stillt á skjánum. Eigandi og höfundur mynda, Fernando Gomez Viñaras, benti okkur á síðu sína, svo greinilega er heimasíða FBÍ skoðuð víða um heimin.. [07.12]jslFortíðar framtíðarsýn

Oft getur verið skondið að lesa um framtíðarsýn manna á ýmsum málum, þar á meðal er þessi ítarlega grein um bíla framtíðar sem birtist árið 1971. Á þessum árum voru miklar væntingar til upprennandi tölvubyltingar og nánast allt væri framkvæmalegt eftir nokkur ár, sérstaklega það sem snéri að þægindum fólks, sbr. að allir mundu vera með vélmenni á sínum heimilum og næstum öll heimilistæki væru sjálfvirk og hugsuðu fyrir mann. Sumt er hægt að sjá að komið hafi fram, þó í breyttri mynd, en annað er ennþá frekar framandlegt og alls óvíst að það verði að raunveruleika í framtíðinni.[05.12]jsl/gös


Mini Rod


Það er enginn maður með (fornbíla)mönnum nema viðkomandi eigi Mini Rod ! Nauðsynlegt fyrir næsta landsmót til að spara sér sporinn frá tjaldi að samkomutjaldi, eins góðir til að taka létta spyrnu þar sem þeir geta náð allt að 50km hraða. Hérna eru tækniupplýsingar um Mini Rod :
6HP Electric Start Gas Engine with Torque Converter Drive, 6AMP 12 Volt Charging System, Aluminum Billet Wheels, Polished Stainless Zoomies, (Foot Rests), Real Dual Exhaust, Machined Band Brake, Tig Welded, Powder Coated Tube Frame, Ball Bearing Steering Post, Working Frenched Headlights & Tailights & MORE...! Fyrir þá sem hafa áhuga þá kostar svona tæki 200 þúsund og þá á eftir að greiða gjöld og flutning heim. [02.12]jsl