Eldri fréttir - Nóvember 2005


Bara í Ameríku

Allir hafa heyrt um Stonehenge í Englandi, steinahringur sem var reistur fyrir ca. 4000 árum, og er í dag vinsæll staður nýaldarfólks þegar sumarsólstöður eru, (reyndar er talið að mannvirkið hafi verið reist til að fagna vetrarsólstöðum). En Kaninn gerir hlutina öðruvísi og í Nebraska reisti Jim Reinders, árið 1987, Carhenge. Gamlir bílar sprautaðir gráir og reistir upp á endann og grafnir niður til að mynda eftirlíkingu af Stonehenge. Það ótrúlegasta við þetta allt saman er að þetta er orðinn ferðamannastaður, með minjagripum og öllu saman. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessum stað. [30.11]jsl/gösMyndir frá Birmingham á rabbkvöldi

Annað kvöld, 30. nóvember, mun Jón S. Loftsson sýna myndir frá fornbílasýningu í Birmingham á Englandi, en þangað fóru nokkrir félagar klúbbsins í byrjun nóvember. Þetta er stærsta fornbílasýning á Englandi og voru um 1000 bílar sýndir þar. Sýningin hefst klukkan 21.00. [29.11]jslBílastæðahús vígt

Síðasta laugardag var nýtt bílastæðahús við Laugarveg vígt með því að aka Alfreð Þorsteinssyni og fleiri ráðamönnum inn í húsið á þremur fornbílum. Þetta nýja hús tekur um 190 bíla og stendur þar sem Stjörnubíó var áður.Þessi athöfn, að fá fornbíla til að opna húsið, sýnir okkur hversu mikill áhugi er almennt á fornbílum og á því að fá bíla til að vera við ýmsar athafnir. Hérna er hægt að sjá fleiri myndir frá þessari athöfn. [28.11]jslŠkoda, ekki bara bílar

Allt frá árinu 1927 til 1951 framleiddi Škoda traktora. Škoda var ekki eingöngu í framleiðslu á þessum hefðbundnu traktorum fyrir bændur, heldur framleiddu þeir einnig stórvirk tæki til hernaðarnota. Hérna er smá grein um Škoda traktora og eins önnur um hertæki (enska neðarlega á síðu). Einnig úr sögu Škoda. [25.11]jslKruse Auto and Carriage Museum

Þetta safn sem er í Auburn, Indiana, geymir nokkra merkilega og sögufræga bíla ásamt sérsmíði fyrir bíómyndir og sjónvarpsþætti. Þarna er t.d. hægt að sjá 1929 Cadillac Fleetwood sem Hoover forseti átti, 1930 Duesenberg Willoughby sem Al Capone keypti nýjan og marga fleiri. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessu safni. [24.11]jsl50 ára afmæli

Á þessu ári átti Karmann Ghia 50 ára afmæli. Þessi sportbíll var hugmynd þeirra Wilhelm Karmann og Luigi Segre eigenda Ghia hönnunarstofu. Allt frá árinu 1951 var á borðinu hjá Volkswagen að koma með sportbíl og árið 1955 kom Karmann Ghia á markaðinn. Þessir bílar urðu fljótt vinsælir í Bandaríkjunum og víða um heim, í dag eru þeir ennþá eftirsóttir og margir klúbbar starfræktir í kringum þá. Hérna er síða um afmælið og eins um sögu Karmann Ghia. [23.11]jsl/gösGömul póstkort

Þegar Thomas Miller fór að skoða eitt uppáhalds bílasafnið sitt, Movie World, sem er búið að loka í dag, þá átti hann ekki nógu góða myndavél, svo hann keypti póstkort af þeim bílum sem sýndir voru þar. Kortin fóru síðan í kassa og voru geymd þar til nýlega að hann rakst á þau og ákvað að skanna þau bestu og setja á netið. Þarna er hægt að sjá myndir af mörgum bílum sem voru notaðir í bíómyndum og eins sérsmíðaða bíla fyrir stjörnur þess tíma. [21.11]jsl/gösSmá helgarlesning

Á þessari heimasíðu er hægt að lesa um örlög og ævi Buick bíla sem voru í eigu einnar fjölskyldu í Ástralíu. Eins og flestir vita þá gera þeir margt öðruvísi þarna neðst á hnettinum, og á það sérstaklega við um bíla. Oft er erfitt að vita hvaða tegund var upphafið að sumum bílunum, þar sem oft er tjaslað saman hlutum úr mörgum bílum. Á það sérstaklega við þá staði þar sem fólk býr afskekkt, þá erum við að tala jafnvel um dagsleið að næsta bæ, og aðalmálið er að nýta hlutina eins vel og hægt er. [18.11]jsl/gösFyrsti "bíllinn" á tunglinu

Á þessum degi árið 1970 ók Lunokhod 1 um á tunglinu og var það fyrsta tækið sem ók um þar og kannaði tunglið. Sovéska könnunarfarið sendi til jarðar myndir og upplýsingar sem það safnaði með tækjum sínum. Lunokhod 1 var fjarstýrt frá jörðu og fór samtals 10540 metra um yfirborð tunglsins. Tæplega ári seinna óku þeir David R. Scott og James B. Irwin um á Lunar Rover og voru um leið þeir fyrstu sem óku sjálfir um á tunglinu. Bæði tækin voru skilin eftir á tunglinu, eru þar ennþá í dag ásamt 170 tonnum af öðru dóti, og um leið varð til fyrsti bílakirkjugarðurinn á tunglinu. [17.11]jsl


Bílauppboð

Nýlega var haldið uppboð á fornbílum í Auburn, Indiana, en þar voru margir fallegir bílar boðnir til sölu. Hæst fór 1957 Chevrolet Bel Air á rúmlega þrjár milljónir, en líka var hægt að gera góð kaup, t.d. fór 1979 Chrysler Cordoba á tólf þúsund íslenskar. Hérna er hægt að sjá myndir frá þessu uppboði, það er ekkert að því að láta sig dreyma. [16.11]jslImpala á leiðinni

Félagi okkar Karl M. Karlsson er með þriðja bílinn í safn sitt á leiðinni til landsins, að þessu sinni er það 1958 Chevrolet Impala sem hefur orðið fyrir valinu. Fyrir á hann 1962 Ford Galaxie og í fyrra flutti hann inn 1959 Plymouth Fury sem hefur vakið mikla athygli, enda geysilega fallegur bíll. Nýjasta viðbótin virðist ekki vera síðri ef dæma á útfrá þeim myndum sem Karl hefur sent okkur. Fær hann númerið R 296, en fyrir er Karl með Y 296 á Ford og G 296 á Fury. Verður gaman að sjá Karl og syni hans mæta á flotanum í ferðir næsta sumar. [15.11]jslMódelsmiður

Margir bílaáhugamenn safna módelum eða gera þau sjálfir, annað hvort úr plasti eða við. Ein heimasíða sem við höfum rekist á sýnir safn eins manns sem gerir bílamódel úr Balsavið, byrjar með einn kubb af við og endar með fullmálaðan bíl án þess að nota teikningar, fer bara eftir myndum. Hérna er síða hans þar sem hann er að vinna við módel, til hliðar á þeirri síðu er hægt að velja ártugi til að skoða myndir af safni hans. [14.11]jsl/gös


Fyrsti "drive-in" bankinn

Á þessum degi árið 1946 opnaði Exchange National Bank of Chicago fyrsta bankann þar sem hægt var að sinna bankaviðskiptum sínum úr bíl. Eftir seinna stríð varð sprenging í bilaeign manna og allskyns þjónusta spratt upp, þar sem hægt var að sinna ýmsum viðskiptum í gegnum lúgur. Best er auðvitað þekkt allskonar lúgusala á skyndibitum en ótrúlegustu útgáfur af viðskiptum urðu til, sem sumar lifðu stutt. Hér á landi var reynt á tímabili að vera með bankaviðskipti í gegnum lúgu, í enda gamla Hekluhússins en það náði aldrei vinsældum. [11.11]jsl(Ekki) Spámenn síns tíma

Oft er reynt að sjá fram í tímann og spá um framtíð ýmissa nýjunga, árið 1899 var grein í Literary Digest þar sem fjallað var um "hestlausa vagninn" og var ekki verið að gefa þessu háværa og dýra tæki langlífi. Þar var aðallega nefnt að þetta væri eingöngu til skemmtunar ríka fólksins, sem hefði ekkert annað að gera og slík tæki yrðu aldrei jafnmikil almennings eign eins og reiðhjól. Þetta minnir á önnur ummæli Ken Olsen, forstjóra tölvufyrirtækis árið 1977, "...það verður engin þörf fyrir tölvur á heimilum fólks" !! [10.11]jsl


Elvis og Cadillac

Í gegnum árin átti Elvis Presley marga Cadillac bíla og hérna er síða sem fjallar um þá, bæði þá bíla sem vitað er að hann átti og eins óstaðfesta. Bara ein viðvörun, lækkið í hátalaranum þar sem niðursoðið Presley lag vælir stanslaust undir! [09.11]jsl/gös


Trabant Sputnik

Árið 1957 kom á markað í Austur-Þýskalandi nýr alþýðubíll sem fékk nafnið Trabant, en fyrsta modelið hét Sputnik til heiðurs fyrsta gerfitungli Sovétríkjanna. Trabant var framleiddur í fyrrverandi verksmiðjum Audi í Zwickau, en eftir að Þýskalandi var skipt upp og austurhluti féll undir stjórn Sovétríkjanna flúðu margir vesturyfir og þar á meðal August Horch stofnandi Audi. Eftir sríðið hófust tilraunir með að framleiða bíla gerða úr Duroplast og út úr þeim tilraunum varð til P50 modelið sem fékk síðan nafnið Trabant sem þýðir á ensku "servant" (þjónn, þjónar). Þar með fékk austurblokkin ódýran bíl sem gerði mörgum kleift að eignast farartæki. Þó nokkuð af Trabant var flutt hingað til lands í vöruskiptum á sínum tíma, þó það sé ekki mikið eftir af þeim núna.Í Þýskalandi, aðallega austurhlutanum, er ennþá mikið af þeim í notkun og hefur jafnvel orðið síðustu ár nokkurs konar tíska að taka einn gamlan Trabant og breyta honum í furðulegustu farartæki. [07.11]jsl


London til Brighton rallið

Næsta sunnudag verður hið árlega "London to Brighton rally" haldið, en það hefur verið haldið í nóvember frá 1927, fyrir utan eitt ár þegar bensínskortur var árið 1947. Tæplega 500 bílar taka þátt að þessu sinni og verða þeir að vera framleiddir fyrir 1. janúar 1905. Þeir sem fara hægast yfir geta verið allt að 9 tíma að fara þessa tæplega 100 km. til Brighton. Á laugardeginum verða 100 af þeim sem taka þátt sýndir á Regent Street, en það tengist öðrum uppákomum sem verða í götunni þann dag, þegar kveikt verður á jólaskreytingum þetta árið. Við munum sýna myndir frá þessari helgi seinna í mánuðinum í Árbæ, en undirritaður ásamt nokkrum félögum er í Englandi á fornbílasýningu og mun einnig skoða rallið. [04.11]jsl


Fyrsta bílasýning í Bandaríkjunum

Á þessum degi árið 1900 var haldin fyrsta alvöru bílasýningin og var hún í Madison Square Garden, New York. Sýningin var skipulögð af Automobile Club of America og voru sýndir 31 bíll ásamt ýmsum aukahlutum. Á meðal sýnenda var James Ward Packard, en hann hafði lokið smíði síns fyrsta bíls árið áður. Þarna voru saman komnir allir helstu bílaframleiðendur sem mörkuðu sín spor í sögu bílsins, þó að þau nöfn hafi ekki lifað lengi fram á síðustu öld. Á dagskrá var meðal annars sýning á getu bíla til að bremsa, startkeppni og á sérstökum rampi var sýnt hversu auðveldlega bílar ættu með að drífa upp brekkur ! [03.11]jslEin síðasta sýningin

Nýlega var haldin ein af síðustu fornbílasýningum þetta haustið í St. Clair Shores, Michican. Fjöldi bíla var takmarkaður við 200 og er þessi sýning höfð viljandi frekar lítil svo eigendur bílana njóti sín betur og hafi meira gaman af. Hérna eru nokkrar myndir frá þessari sýningu. [02.11]jsl"Penny Arcade"

Margir kannast við "Penny Arcade" úr bíómyndum og jafnvel séð svoleiðis á árum áður. Þessir salir voru í raun það sem kallast spilasalir í dag, en áður voru þetta allskonar apparöt þar sem hægt var að skoða "hreyfimyndir" (vinsælast What the butler saw) eða spádómsvélar og fl. Oft voru þarna líka kranavélar sem hægt var að reyna að ná í einhvern hlut í hrúgu eða spilakassar. William Edward Bryan var einn af þeim sem framleiddi og fann upp mörg af þessum tækjum, en eftir að hann hafði lært mótorfræði opnaði hann verkstæði árið 1920 í Englandi fyrir spilakassa og varð heillaður af gangverki þeirra og var sannfærður um að hægt væri að endurbæta þá. Í heildina fékk hann einkaleyfi á 48 gerðum af svona tækum og starfaði allt til ársins 1966, en hann lést árið 1984. Hérna er hægt að sjá meira um tæki hans, en þau og önnur svipuð tæki eru orðin efni safnara og má sjá mörg eldri tæki á söfnum í dag, enda mörg þeirra völundarsmíð. [01.11]jsl/gös