Eldri fréttir - Október 2005


Meccano

Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur muna örugglega eftir Meccano, en úr því gátu tilvonandi verkfræðingar smíða allskonar tæki og hluti með því að raða saman mismunandi stöðluðum hlutum. Fyrir þá sem yngri eru þá var þetta ekki ósvipað Lego kerfinu. Meccano rauða og græna kerfið var aðeins framleitt í sex ár, en náði þó nokkrum vinsældum. Hérna er síða sem fjallar um sögu Meccano og yfirlit yfir hver ár og innihald hvers sölusetts. [31.10]jsl/gös


Skiltasafnari

Margir safna ýmsum hlutum, misstórum, en oft er safnið lokað inni í geymslu þar sem fáir geta séð það. Einn sem safnar umferðarmerkjum hefur sett upp góða síðu með myndum og upplýsingum um safn sitt og er gaman að kíkja í gegnum það og sjá hvernig umferðarmerki hafa þróast. [28.10]jsl/gösÁrbær í gærkvöldi

Fyrsta opna hús vetrarins var í gærkvöldi og á dagskrá var afhending viðurkenninga til félaga sem mættu í fleiri en 11 ferðir í sumar, en að þessu sinni fengu 12 viðurkenningu. Var síðan myndasýning til upprifjunar á ferðum sumarsins, en 16 ferðir voru á dagskrá og 4 aukaferðir. Síðasta sumar var með einna bestu mætingu síðustu ár, en 660 mætingar voru skráðar. Þegar félagar mættu í gærkvöldi mátti sjá að húsnæði það sem klúbburinn hefur til umráða í Árbæ er óðum að taka á sig mynd félagsheimilis, þar er búið að hengja upp myndir og koma fyrir 2 bílum á neðri hæð. Eitthvað af húsgögnum og öðrum munum klúbbsinns verður komið fyrir á næstu vikum. Myndir frá kvöldinu er á myndasíðu, og eins stærri fyrir félaga. [27.10]jsl


Chrysler - Dodge

Fréttasíðu berst oft ábending um ýmsar síður á netinu sem eru áhugaverðar og geta innihaldið mikinn fróðleik. Félagi okkar Guðjón Örn Stefánsson (Gaui) (rangt nafn var fyrst með þessari frétt fyrir mistök) hefur verið duglegur að senda okkur ábendingar og kemur það sér vel þar sem betur sjá augu en auga þegar leitað er eftir efni sem gæti höfðað til lesenda okkar. Hérna er góð síða fyrir Mopar eigendur en á henni er að finna ýmiskonar fróðleik um Chrysler, Jeep, Plymouth, Imperial, DeSoto og Dodge. [26.10]jsl/gös


Opið hús - Ferðaviðurkenningar

Næsta miðvikudagskvöld verður fyrsta opna hús vetrarins í félags-heimilinu í Árbæjarsafni. Þar mun Ferðanefndin afhenda viðurkenningar til þeirra 12 félaga sem mættu í 11 ferðir eða fleiri á liðnu sumri. Gullviðurkenningar fyrir 15-16 ferðir fá Ársæll Árnason, Jón S. Loftsson, Magnús Magnússon og Sigurður Ásgeirsson. Handhafar silfurviðurkenninga fyrir 13-14 ferðir eru Árni Þorsteinsson, Jens Kristján Jensson, Hróbjartur Örn Guðmundsson, Jóhann Árnason og Rudolf Kristinsson. Bronsviðurkenningar fyrir 11-12 ferðir hljóta Einar J. Gíslason, Jóhannes Þorsteinsson og Sævar Pétursson. Þessir aðilar eru beðnir um að mæta á miðvikudagskvöldið og taka á móti viðurkenningum úr hendi ferðanefndarmanna. Eftir afhendinguna munu félagar í ferðanefndinni sýna ljósmyndir frá liðnu ferðasumri. [25.10]jslÁrshátíð - Skemmtikvöld

Síðasta laugardagskvöld var Árshátið og skemmtikvöld klúbbsins og var farið á Le Sing sýninguna og Milljónamæringaball á Broadway. Tekið var á móti félögum og mökum með fordrykk. Strax og sest var að borðum hófst skemmtun Le Sings hópsins sem saman stóð af ýmsum uppákomum með söng, dans og gríni með þátttöku margra gesta. Í einu orði sagt þá var þessi skemmtun frábær og ótrúlegt að hægt sé að halda úti stanslausri dagskrá í 3 tíma án þess að missa niður stuðið. Nokkrar myndir eru komnar á myndasíðu, og eins stærri fyrir félaga, en þar sem atriðin voru flutt um allan sal og á miklum hraða var hreinlega erfitt að ná myndum af bestu atriðunum. [24.10]jslHotrod myndir

Það er alltaf gaman að skoða myndir af flottum bílum og láta sig dreyma, ef maður myndi nú vinna lottóið! Hérna er síða með myndum af nokkrum flottum, en um 14000 hotrod og aðrir breyttir bílar komu saman á Street Rod samkomu í Louisville, Kentucky í ár. Örfáir hotrod bílar eru til hér en því miður sjást þeir alltof sjaldan á götunni. [21.10]jsl"Teardrop Campers"

Einn angi af fornbílaáhuga er að ýmislegt sem tengist notkun bílanna og þar á meðal eru gamlir húsvagnar. Í Bandaríkjunum eftir seinni heimstyrjöld urðu til litlir vagnar sem fengu nafnið" Teardrop" vegna lögun sinnar. Í þessum vögnum var rétt pláss til að sofa og var eldunaraðstaða undir loki aftast. Á árunum 1948 til 1954 var mikið um að menn smíðuðu þessa vagna sjálfir eftir teikningum úr blöðum og urðu til ýmsar útgáfur af þeim. Síðustu ár hefur vaknað áhugi á að endurgera svona vagna, einnig er hægt að panta þá tilbúna eða þá hluti sem þarf til að smíða þá. Hafa eigendur verið að gera vagna sem eru í stíl við þeirra bíl og eru farnir að ferðast saman og hittast á litlum mótum. Hérna er hægt að sjá meira um þessa vagna og eins eru hér greinar úr eldri blöðum með teikningum. [20.10]jsl


Talnaupplýsingar

Þar sem undirritaður hefur gaman af að leika sér með ýmsar tölur og lesa úr þeim upplýsingar, var upplagt að birta nokkrar staðreyndir um fjölda félaga, bílaeign (úr bílaskrá á netinu) og ýmiskonar meðaltöl, svo sem aldur félaga og meðalárgang bíla eftir tegundum. Svona tölur geta gefið góða yfirsýn yfir starfsemi klúbbsins og samsetningu félaga og bílaeign. Sjá talnaefni. [19.10]jsl


Í leigubíl til Afríku

Ef einhverjum finnst dýrt að taka leigubíl úr miðbænum upp í Mosfellsbæ, hvað finndist þá viðkomandi um að borga fyrir leigubíl frá London til Afríku? Mark Aylett og Carlos Aresse gerðu það einmitt árið 1994, og var farið um Austur-Evrópu, Tyrkland, Sýrland, Jórdaníu og til Höfðaborgar í Suður-Afríku, endaði ferðin síðan aftur í London. Þessi ferð kostaði aðeins 40 þúsund pund eða 4.3 milljónir á gengi pundsins í dag. Þessi ferð var síðan kveikjan að fornbíla-rall keppni sem haldin var fyrst árið 1998, en þar er ekki endilega keppt um hraða heldur áreiðanleika bílanna, og að geta ratað leiðirnar á milli staða, enda ekki allir vegir vel merktir og eru jafnvel ekki til staðar og þá bara ekið á milli kennileita. [17.10]jsl


Fornbílar í Mannlíf

Með nýjasta tölublaði Mannlífs er viðtal við félaga okkar Sigurbjörn Helgason, Packard eiganda. Er farið yfir sögu bílsins og rætt við hann um ýmislegt sem við kemur fornbílum almennt og Fornbílaklúbbnum. Í sama blaði er einnig viðtal við Hermann Guðmundsson framkvæmdastóra Bílanausts, en hann eignaðist nýlega 1967 Mercury Cougar, síðan er stutt grein um lögreglubíla síðustu 84 ár. [14.10]jslHershey ferð

Nú eru aftur komnir heim þeir félagar sem kíktu til Hershey og eitthvað af myndum þeirra eru að koma í ljós. Stefnt verður að myndasýningu í Árbæ seinna í vetur en hérna er smá sýnishorn úr þessari ferð. [13.10]jsl


Sjónarhorn eiginkonu

Ert þú einn af þeim sem er alltaf að "bjarga" vélarhlutum, body-hlutum eða öðrum sem gætu endað í Hringrás ?. Ef svo er lestu þá þessa grein þar sem eiginkonan lýsir því hvernig er að búa með fornbílamanni sem er alltaf að kíkja eftir nýjum verkefnum. Að vísu sér hún líka björtu hliðarnar, hún getur séð alla sína uppáhalds þætti í sjónvarpinu þar sem kallinn er alltaf út í skúr og hún getur eytt meira í föt á sig, þar sam hann er alltaf í sömu peysunni og fl. [12.10]jslBílasýning breyttra bíla

Um síðustu helgi var haldin sýning á uppgerðum og breyttum bílum í Canton, Michigan, á vegum Chevelle Club of Michigan, Mobile Trim and Interiors og Biggs Auto Restoration. Af myndum að dæma þá voru þarna samankomnir virkilega flottir bílar og mikið í þá lagt. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessari sýningu. [11.10]jslGreenwich Concours d'Elegance

Í júní síðastliðnum var sýning og samkoma margra sjaldgæfra bíla, einnig bíla sem voru framleiddir í fáum eintökum. Var þetta 10. árið sem þessi samkoma var haldin og stóð hún yfir eina helgi, þar voru ýmsar uppákomur, t.d. klæddu margir eigendur sig upp í samræmi við árgang sinna bíla, svipað og gert er hjá okkur á fatadegi. Hérna er hægt að sjá grein og myndir frá þessari samkomu. [10.10]jslÓheppinn Malibu eigandi

Fyrir 13 árum í Peekskill, New York, sat eigandi að 1980 Chevrolet Malibu í sinni stofu og var að horfa á sjónvarpið þegar mikill hávaði heyrðist frá bílastæðinu. Þegar eigandinn fór út að athuga hvað hefði verið að gerast, sá hún að annað afturhornið á sínum Malibu var klesst og gat í gegnum skottið. Þar sem hún stóð gapandi af undrun tók hún eftir að steinn lá undir bílnum. Fljótlega kom í ljós að þarna voru leifar af loftsteini sem hafði komið inn í andrúmsloft jarðar með mikilli ljósadýrð, og sem þúsundir manna fylgdust með, og brotið endaði för sína í skotti þessa bíls. Safnarar keyptu síðan bílinn og steinbrotið og hefur hann verið sýndur víða um heim. Eigandanum fannst þetta ótrúlegt að steinn sem hefði verið að þvælast í kringum sólina í milljónir ára skyldi allt í einu þurfa að lenda í skottinu á sínum bíl og hefur örugglega spurt "Afhverju endilega minn bíll?" [07.10]jslWoodward rúnturinn

Síðastliðinn ágúst safnaðist bílaáhugafólk saman um eina helgi, eingöngu til að rúnta og sýna bíla sína. Er þetta ellefta árið sem þessi rúntur er haldinn og er áætlað að 40.000 bílar hafi verið á ferðinni þessa helgi og farið rúntinn sem er rétt um 50 km. Hérna eru nokkrar myndir frá þessum rúnti. [06.10]jslMorgunblaðið árið 1931

Eflaust hafa margir heyrt um að unnið er við að skanna inn Morgunblaðið frá fyrsta tölublaði. Hægt er að skoða blaðið frá 1913 til 1984, en það sem er skemmtilegast við þetta kerfi er að hægt er að leita í blaðinu eftir orðum eða nöfnum. T.d. er hægt að slá inn Studebaker og velja árin 1913 til 1984, þá kemur listi yfir allar blaðsíður þar sem orðið kemur fram, hvort sem er í greinum eða auglýsingum. Auðvelt er að eyða mörgum tímum í að skoða gamlar auglýsingar eða annað sem kemur upp í leit í kerfinu. Til að geta skoðað blaðið þarf að setja upp smá forrit (DjVu) í fyrsta skipti, en það tekur stutta stund og auðvelt að gera það. Morgunblaðið hjá Landsbókasafni. [05.10]jslBreskir í USA

Síðasta sumar var sýning á Breskum bílum í Malden Park, Windsor, í tilefni 25 ára afmælis MG klúbbs þar. Merkilegasti bíllinn þar var 1969 Bond Equippe (sjá mynd 1) en einungis 2 svoleiðis eru til í USA og 35 í öðrum löndum. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessari sýningu. [04.10]jsl


Hershey

Næsta miðvikudag byrjar markaðurinn / sýning á Hershey sem hefur verið haldin árlega síðustu 50 ár og er þetta um leið haustsamkoma AACA klúbbsins. Eins og síðustu ár fara nokkrir félagar okkar á þessa samkomu til að skoða og finna sér varahluti í vetrarverkefnin. Hérna er hægt að sjá dagskrá á Hershey og fleira efni, eins er hér loftmynd af svæðinu til að gera sér grein fyrir stærð þess. [03.10]jsl