Eldri fréttir - September 2005


James Dean

Í dag eru 50 ár liðin síðan James Dean dó í bílslysi á leið til kappakstursbrautar í Salinas, California. Það má segja að slys þetta sé eitt af frægari slysum og er ennþá verið að sýna þætti um slysið og viðtöl við lögreglumann sem kom fyrstur á staðinn. James þótti vera villtur ungur maður að leita að tilgangi og varð frægur fyrir að sýna það á hvíta tjaldinu. Hann keppti oft á bílum og mótohjólum og keyrði daglega á Porsche 550 Spyder, en það er einmitt bíllinn sem hann var á þegar hann keyrði út af til að forðast árekstur við annan bíl. Svo er alltaf spurning hvort hann hefði orðið svona frægur ef hann hefði ekki dáið í þessu slysi, þar sem þessar fáu myndir sem hann lék í voru nú misgóðar. [30.09]jslPanhard 24

Nýlega sást til Panhard 24, væntanlega 1963 árgerð, upp í Hrauneyjum, á erlendum númerum en lítið er vitað um eiganda. Panhard et Levassor var einn af þeim fyrstu til að framleiða bíla og voru bílar undir því merki framleiddir allt frá 1891 til 1967 er Citroën yfirtók það. Vitað er um einn annan Panhard á Húsavík. Gaman væri að fá að vita meira um þennan bíl ef einhver hefur meiri upplýsingar. [29.09]jsl


Videó frá því í sumar

Félagi okkar Magnús Sigurðsson hefur sett saman stutt videó frá 17. júní og Landsmóti. Þó að það sé ekki langt, þá er það vel unnið og sýnir marga bíla. Magnús hafði vísað áður á videóið, á Fornbílaspjallinu, en benti á það yrði ekki lengi þar vegna plássleysis, en núna verður það vistað hjá okkur svo það verði aðgengilegt áfram. Allir linkar á videó og önnur myndbrot (Stöð 2 og Rúv) verða í hliðarvali á forsíðu. Sjá videóið. [27.09]jsl


Grunnur að safni

Á þessum degi árið 1928 var hornsteinn lagður að Henry Ford safninu. Þótt safnið sé nefnt eftir Henry Ford, þá hefur það vaxið mikið og nær yfir fleira en bara Ford framleiðsluna og er orðið eitt stærsta safn í Bandaríkjunum. Meðal muna eru ýmis skjöl, auglýsingar, þúsundir bóka og nokkur hundruð bíla. Safnið er staðsett í Dearborn, Michigan, rétt fyrir utan Detroit. Heimasíða safnsins. [26.09]jslDagbók Jaguars

Martyn Moore ritstjóri Practical Classics hefur átt 1972 Jaguar XJ6 síðan árið 2001 og hefur haldið dagbók um bílinn á netinu, um viðgerðir, viðhald og þær ferðir sem hann hefur farið á honum. Þarna er líka hægt að lesa um sögu bílsins, fyrri eigendur og aðrar upplýsingar. Þegar kíkt er yfir þessar dagbókar færslur hans, þá er auðvelt að setja sig í hans spor því allir hafa lent í svipuðum atvikum, eins og að reyna að finna út hvað er að einhverju og svo er það alltaf það síðasta sem er skoðað, vandræði með rafgeymi og fl. Hérna er dagbók hans og eins saga bílsins. [22.09]jslTrukkar og pallbílar

Margir félagar eiga og hafa áhuga á eldri vöru- og pallbílum. Hérna er síða sem við fundum með mikið af myndum sem fólk hefur sent inn af bílum sínum og með smá umsögn um hvern bíl. Þarna er líka spjall og ýmsar greinar um uppgerð og viðhald þeirra. [21.09]jslOld Car Festival

Um helgina 10. og 11. september var haldin samkoma eldri bíla í Dearborn. Þar voru mættir rúmlega 600 bílar frá árunum 1900 til 1932. Athygli vakti hversu stór hluti bílana var óuppgerður, en í góðu standi að öðru leyti. Virðist vera að það sé að færast í tísku að hafa bílinn eins og hann er, með ryði og öllu saman, frekar en að gera hann eins og hann hefði komið úr verksmiðju í gær. Hérna er hægt að sjá myndir frá þessari samkomu. [20.09]jslNafnlaus bíll

Árið 1959 var fyrsti Plymouth Valiant framleiddur, en fékk ekki það nafn fyrr en árið 1961. Vinnuheiti bílsins var Falcon, eftir 1955 Chrysler Falcon, en þegar framleiðsla var komin á fullt uppgötvaðist að Ford var búinn að skrá nafnið Falcon. Búið var að framleiða öll merki á bílinn og allur framleiðslu ferillinn fór í uppnám. Leitað var innan Chrysler að nýju nafni og var Valiant vinsælast. Þar sem ekki var tími til að gera ný merki strax, var bíllinn kynntur bara sem Valiant og eingöngu með lítinn miða á vél sem á stóð Valiant. Það var ekki fyrr en árið 1961 sem Valiant varð þekktur sem Plymouth Valiant og með viðeigandi merkjum. Þessi bíll var líka til í örlítið breyttri mynd undir merki Dodge og þá sem Lancer. [19.09]jsl


Einkaleyfi byggt á ímyndaðri vél

Þegar saga bílsins er sögð þá koma oft fyrir nöfn eins og Ford, Daimler, Cugnot, Benz o.fl., en ekki er mikið talað um George Selden. Hans nafn var samt nánast á öllu bílum frá 1895 til 1911, ágrafinn skjöldur sem á stóð "Framleiddur undir einkaleyfi George Selden". Selden hafði sem sagt einkaleyfi á "Road Engine" þó að margir hafi komið að þróun vélar og drifbúnaðar, sem þýddi að allir framleiðendur bíla þurftu að greiða honum einkaleyfisgjöld til þess að geta framleitt bíla, þar sem þeir vildu forðast málarekstur. Þar til Henry Ford lét reyna á þetta einkaleyfi, og á þessum degi árið 1909 var felldur dómur þar sem Ford var skylt að greiða þessi gjöld. Seinna var þeim dómi snúið þar sem Selden gat ekki sýnt fram á að hans vél væri til í framleiðslu og þegar hann ætlaði að sanna sitt mál og kom fram með vél byggða á hans teikningum gekk hún eingöngu í nokkra tíma þar til hún gafst upp. Þar með var hans einkaleyfi úr sögunni.[15.09]jslFrankenmuth, Michican

Hinn árlega sýning í Frankenmuth var haldin um síðustu helgi, en þar koma saman eigendur breyttra bíla, (hotrods, muscle cars og custom cars) og voru 2500 skráðir þátttakendur og áætlað að 1000 aðrir hafi verið á staðnum um helgina. Þessi sýning byrjaði árið 1983 með 83 bíla og hefur vaxið gífurlega í gegnum árin og er þetta orðin ein af stærstu samkomum eldri bíla í Bandaríkjunum. Hér er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessari sýningu. [13.09]jslSíðasta ferð sumars

Í gær var hinn árlegi varahlutamarkaður og um leið síðasta ferð sumars. Boðið var upp á vöfflur og kaffi. Félagar fengu síðan að sýna hversu góðir þeir væru í "velti-pétrinum" en þar gildir að vera sem sneggstur að finna ballans á sínum bíl, og þar sem þetta var létt keppni í lok sumars fengu allir að taka þátt, hvort sem það var á fornbíl eða ekki. Þeir sem gátu þetta á skemmstum tíma voru Gunnar Pálsson, Kristján Pétursson og Rúnar Sigurjónsson. Seinni part dags fóru síðan nokkrir bílar að félagsheimili KFUM & K, en óskað hafði verið eftir bílum á hátíð þeirra sem fram fór í Fjölskyldugarðinum. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [12.09]jslPinto hneykslið

Í þessari viku fyrir 35 árum setti Ford á markað nýjan smábíl til að keppa við innflutning frá öðrum löndum. Fljótlega komst sá bíll á forsíður blaða og ekki fyrir það hversu ódýr hann var heldur hversu mikil sprengihætta var þegar keyrt væri aftan á hann vegna staðsetningar bensíntanks. Aðalhneykslið varð þegar kom í ljós að Ford vissi af þessari hættu, það var búið að reikna út hvað það kostaði að breyta þessu, um 11 dollara á bíl. En reiknimenn hjá Ford fundu það út að þeir gætu sparað 90 milljón dollara með því að gera ekki þessar breytingar og greiða frekar bætur við dauðsföll. Auðvitað varð almenningur ekki sáttur við þetta og eftir löng málaferli þurfti Ford að borga bætur sem voru svipaðar og hefðu farið í breytingar. [08.09]jsl


London to Brighton rallið

Eins og venjulega verður London to Brighton rallið fyrstu helgina í nóvember, en það var haldið fyrst árið 1896 til að minnast þess að lögum um hámarkshraða bíla var breytt, úr 4 í 14 mílur og ekki þurfti lengur að vera fótgangandi maður á undan með rautt flagg til að aðvara vegfarendur. Rallið var síðan endurvakið árið 1927 og hefur verið árlega síðan, fyrir utan eitt ár. Til að geta tekið þátt verður viðkomandi "bíll" að vera framleiddur fyrir árið 1905, fyrir utan einstaka gesta þátttakendur. Núna í ár stefnir í að rúmlega 500 taki þátt og þegar hafa 425 skráð sig. Fréttasíðan verður síðan með myndir frá þessu ralli þar sem nokkir félagar ætla að kíkja á það um leið og sýningu í Birmingham. [07.09]jslLjósanótt

Síðasta laugardag fjölmenntu félagar til Keflavíkur og tóku þátt í dagskrá Ljósanætur, um 70 bílar voru samankomnir og fóru í keyrslu um bæinn ásamt stórum hópi mótorhjóla. Síðan var sýning á bílunum meðan félagar og fjölskyldur kíktu á hátíðina. Um kvöldið varð nokkur hópur eftir sem kom saman hjá Magnúsi ferðanefndamanni og grillaði saman, var síðan haldið niður í Hafnargötu til að fylgjast með flugeldasýningu. Þessi ferð á Ljósanótt er farin að verða ein sú stærsta í sumardagskránni, fyrir utan 17. júní akstur, og alltaf hefur verið frábært veður á þessum degi, svo ekki hefur það skemmt fyrir. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [05.09]jsl


Fyrir 50 árum

Árið 1955 var sýndur fyrsti bíllinn sem gekk fyrir sólarorku, hönnuðurinn William G. Cobb sýndi hann á GM Powerama sýningunni í Chicago. Ennþá í dag er verið að gera tilraunir með sólarorkudrifna bíla, en ekki hefur verið fundin leið til að nota þessa orku fyrir fjöldaframleidda bíla, en miðað við hækkanir á bensínverði undanfarið væri ekki amalegt að eiga eitt stykki sólarorku-fornbíl. [02.09]jsl