Eldri fréttir - Ágúst 2005


Jay Leno´s Oldsmobile Toronado

Þeir sem sjá Discovery Channel hafa kannski rekist á þátt nýlega þar sem fjallað var um uppgerð á 1966 Oldsmobile Toronado sem er í eigu skemmtikraftsins Jay Leno. Eins og margir vita þá er Jay mikill bílamaður og á stórt safn bíla og mótorhjóla, sitt eigið verkstæði þar sem nokkur fjöldi manna er á launum við að gera upp bíla og halda þeim við. Þegar menn eins og Jay ákveða að gera eitthvað þá er ekkert verið að spá í kostnað og allt gert eins og hann vill hafa það, t.d. fékk hann sérsmíðaða vél frá GM sem er aðeins rúmlega 1000 hestöfl og með tvær túrbínur. Hérna er hægt að lesa smá grein um þessa uppgerð og tækniupplýsingar bílsins. [31.08]jsl


Nýtt á fornbill.is

Nú hefur verið bætt við þægilegri leið fyrir félaga til að senda inn skráningu á bílaeign og eins leiðréttingar. Undir liðnum Starfsemi FBÍ er að finna valið Senda inn skráningu á bílaeign og opnast þá form til að fylla út vegna skráningu á bílaeign. Fyrir þá sem eru ekki klárir í að senda myndir með e-mail er þetta sérstaklega auðveld leið þar sem eingöngu þarf að velja mynd(ir) á sinni tölvu og munu þær sjálfkrafa sendast með. Eftir því sem bílskráin stækkar, þess fullkomnari sögu getum við skilið eftir handa næstu kynslóðum fornbílamanna. [30.08]jslAukaferð síðasta laugardag

Þriðja árið í röð bauð Byggðasafnið á Akranesi félögum í heimsókn, og voru móttökur frábærar að venju. Frítt var inn á safnið og eins í Hvalfjarðargöng fyrir félaga og öllum boðið í kaffihlaðborð sem var að venju glæsilegt. Mættu 30 bílar að þessu sinni og voru þeir til sýnis við safnið. Fjöldi félaga sem mæta í þessa ferð hefur farið ört vaxandi, enda vel boðið og safnið vel þess virði að skoða. Farinn var rúntur um Akranes bæði við upphaf og enda ferðar. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [29.08]jslKvöldrúntur í gær

Í gærkvöldi var síðasti kvöldrúntur sumars og var farinn stór rúntur um Höfuðborgarsvæðið. Byrjað var á Essó við Ægissíðu, en síðan var ekið í Kópavog og hann ekinn endilangur og síðan var farið í Salahverfið þar sem gert var stutt stopp. Þaðan var síðan haldið til Reykjavíkur og endað á Grand Hótel þar sem farið var í kaffi. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [26.08]jslChitty Chitty Bang Bang

Flestir ef ekki allir hafa heyrt um Chitty Chitty Bang Bang, söguna um bílinn sem gat flogið, siglt og nánast hvað sem er. Þó að myndin, sem var gerð eftir samnefndri bók, hafi orðið mjög vinsæl og flestir muna eftir bílnum úr henni, þá eru ekki margir sem muna hver höfundur Chitty Chitty Bang Bang var, en það var Ian Fleming skapari James Bond, 007. Ian fann samt þetta nafn á bílnum ekki upp þar sem það hafði verið notað áður. Count Louis Zborowski vann keppni sem var haldin á Englandi þann 23. ágúst árið1922 á bíl sem bar nafnið Chitty Chitty Bang Bang. Sá bíll var með 23 lítra 6 strokka Maybach flugvélamótor og heimasmíðað body á lengdri Mercedes grind. Ian fékk önnur nöfn að láni þar sem nafnið James Bond er komið frá höfundi bókar um fugla í Karabískahafinu sem Ian var með í húsi sínu Goldeneye á Jamaíku. Tveir af þeim sex bílum sem voru notaðir í 1968 myndinni eru til á safni á Englandi, svifbíllinn og götubíllinn, en hann hefur verið nokkrum sinnum sýndur á stærri fornbílasýningum. Upprunalegi Chitty var aftur á móti seldur árið 1925 til sona Sir Arthur Conan Doyle (skapari Sherlock Holmes) og var sýndur á Brooklands, en grotnaði þar síðan niður eftir að hafa staðið lengi úti. [23.08]jslRúntur í gærkvöldi

Í gær var næst síðasti kvöldrúntur sumars og voru að þessu sinni gestir með okkur, en núna eru staddir á landinu nokkrir félagar úr Breskum MG klúbbi með bíla sína. Farið var um miðbæinn og síðan út á Granda, þar sem Sjóminjasafnið var skoðað. Eftir það var stuttur rúntur á Seltjarnarnesi og endað á BSÍ þar sem fleiri bílar bættust í hópinn. Bresku gestunum fannst mikið til koma allur þessi bílafjöldi sem var á ferðinni í gærkvöldi og höfðu á orði að þetta væri eitthvað sem sæist sjaldan hjá þeim þar sem meira er um sérhæfðari klúbba og lítið um að allar tegundir og árgerðir væru saman á ferð. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [19.08]jslÁttu 106 milljónir?

Ef svo væri þá hefðir þú getað boðið í þennan 1935 Duesenberg SJ Torpedo phaeton sem var boðinn upp nýlega hjá 2005 Concours d'Elegance uppboðinu í Meadow Brook. Duesenberg hefur alltaf verið eftirsóttur af söfnurum og ekkert hámark virðist vera á hvað þeir eru tilbúnir til að greiða fyrir þá. En á þessu uppboði voru margir aðrir bílar sem slegnir voru kaupendum og á upphæðum sem teljast eðlilegri. Hérna eru myndir af nokkrum þeirra. [18.08]jsl


Bensín-skömmtun

Í gær voru 60 ár liðin frá því að bensín-skömmtun var afnumin í Ameríku, en sú ráðstöfun var ein af mörgum sem voru teknar upp á tímum seinni heimstyrjaldar til þess að herinn hefði nóg af birgðum. Í dag á Íslandi má segja að það sé komin nokkurs konar skömmtun í gang þar sem bensínverð hefur aldrei verið eins hátt og nú. Hátt verð kemur ekki bara illa við fólk sem er að reka sinn bíl til daglegra nota heldur kemur það hart niður á okkar áhugamáli þar sem bensín er einn stærsti liðurinn í rekstri fornbíla, þ.e.a.s.hjá þeim sem vilja reyna að halda þeim í gangfæru ástandi. Eins og allir vita þá er ekkert sem fer verr með eldri bíla en að láta þá standa til langs tíma óhreyfða. Nú hefur FÍB hafið undirskriftarsöfnun þar sem er skorað á stjörnvöld að lækka álögur á bensín meðan heimsverð er þetta hátt. Áskorun til stjórnvalda - undirskriftasöfnun [16.08]jslFatadagur

Síðasta laugardag var hinn árlegi fatadagur klúbbsins. Farið var út á Snæfellsnes og komið við í Stykkishólmi þar sem "Danskir dagar" voru um helgina. Félagar og fjölskyldur voru að venju í klæðnaði sem passaði við árgerð bíla sinna, vakti þessi hópur athygli allstaðar þar sem stoppað var. Ein setning frá ferðamanni lýsir því best "I think I´m lost in some other time period". Mikill fjöldi fólks kom að skoða bílana, sem voru til sýnis niðri á höfn, á meðan félagar fóru í kaffi og kíktu á skemmtiatriði. Á heimferð var komið við í Ferstiklu og síðan var Hvalfjörður ekinn. Komu síðan ferðalangar í bæinn um kvöldið eftir að hafa átt góðan dag saman. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [15.08]jsl


Grand NASHional

Nýlega var haldin samkoma félaga í Nash Car Club of America, en sá klúbbur er opinn fyrir eigendur 1902-13 Rambler, 1914-17 Jeffery, 1917-57 Nash, 1925-26 Ajax, 1920-24 og 1934-40 Lafayette, 1951-54 Nash Healey, 1954-62 Metropolitan, 1955-57 Hudson og 1913-54 Jeffery og Nash trukka. Þessi sérhæfing klúbbsins er til komin vegna sögu Charles Nash (stofnanda Nash), samkrulls og samruna margra tegunda í gegnum árin, sem endaði sem AMC (American Motors Corp). Hérna er hægt að lesa smá yfirlit um sögu Nash og eins að sjá myndir frá þessu móti. [12.08]jsl"Wings and wheels"

Nýlega var félagi okkar, Kristinn Sigurðsson, á ferð í Svíþjóð og fór þar á bílasýningu sem er haldin ár hvert í Varberg. Um 4000 bílar voru þar, bæði til sýnis og svo á rúntinum, en Svíar eru duglegir að rúnta á kvöldin þegar svona sýningar eru haldnar. Hérna eru nokkrar myndir frá þessari helgi. [09.08]jslJeppaferð síðasta laugardag

Þar sem oft hefur verið rætt um að það vanti ferðir er væru hentugar fyrir félaga sem eiga jeppa, vörubíla, og önnur farartæki, hafa verið settar saman ferðir í sumar, bæði sem bæjarrúntar og eins dagsferð eins og þá er boðið var upp á síðasta laugardag. Því miður þá reynist ekki vera mikill áhugi meðal félaga þegar á reynir. Það voru samt 4 jeppar sem mættu í viðkomandi dagsferð og var farið til Krísuvíkur, Strandarkirkju, Selatanga. Síðan var Djúpavatnsleið og Bláfjallahringur ekinn til baka að Litlu kaffistofu. Þeir sem fóru þessa ferð höfðu mjög gaman af og höfðu ekki komið á marga þá staði sem eknir voru. Nokkrar myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [08.08]jslKvöldrúntur í gær

Í gærkvöldi mættu félagar í 11. ferð sumars á tæplega 30 bílum og fóru hring í Hafnarfirði. Farið var í kaffi í Firði, en síðan var stefnan tekin til Reykjavíkur og var farinn hringur um miðbæinn ásamt fleiri bílum sem voru í rúnti um bæinn. Um 40 bílar renndu niður Laugaveginn og var síðan endað á BSÍ. Nokkrar myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [05.08]jsl