Eldri fréttir - Júlí 2005

Olds til REO

Árið 1904 hætti Ransom E. Olds hjá Olds Motor Works vegna deilna við fjárfesta og stofnaði nýtt fyrirtæki og notaði hann upphafsstafi sína (R.E.O.) sem merki á fyrsta bílnum, þar sem Oldsmobile merkið var ennþá skráð hjá Olds Motor Works. Árið 1905 voru 864 REO bílar framleiddir á móti 6500 hjá Oldsmobile, en árið 1908 voru 4105 hjá REO á móti 1055 hjá Oldsmobile. Síðar á árinu 1908 eignast William Durant Oldsmobile og rann það inn í General Motors sem Durant var að byggja upp. REO hélt áfram sem sjálfstætt fyrirtæki og framleiddi bíla til 1936 og trukka allt til 1957, en þá rann REO saman við White Trucks og varð síðan til sem Diamond Reo trukkadeild. Það var síðan selt árið 1971 og varð gjaldþrota árið 1974. [28.07]jslOldsmobile samkoma

Nýlega var stór samkoma haldin af eigendum Oldsmobile fornbíla í Michican. Um 500 bílar voru þar samankomnir, allt frá fyrstu árgerðum til þeirra nýjustu. Árið 1897 fékk Ransom E. Olds nokkra fjárfesta með sér til að stofna Olds Motor Works og var fljótt farið í að reisa bílaverksmiðju. Alls voru gerðar 11 frumútgáfur að bílum til að vinna með, en árið 1901 eyðilagðist verksmiðjan í eldi og eini bíllinn sem bjargaðist var Curved Dash Olds, þar með byrjaði framleiðsla Olds á litlum og ódýrum bílum. Oldsmobile nafnið var síðan skráð árið 1902. Hér eru nokkrar myndir frá þessari samkomu. [27.07]jsl


Fornbílasýning í Birmingham og "London to Brighton" rallið

Nokkrir félagar stefna á að kíkja á fornbílaveislu í Birmingham og London fyrstu helgina í nóvember. Ein stærsta fornbílasýning í Bretlandi er um þá helgi, eitthvað um 1000 bílar verða sýndir, eins er "London to Brighton" rallið á sunnudeginum, þar sem yngstu bílarnir eru frá 1905. Upplýsingar um þessa ferð er hægt að finna hér. [26.07]jslGrillferð í gær

Í gærdag var 10. ferð sumars og jafnframt grillferð klúbbsins. Rúmlega 30 eigendur fornbíla mættu með fjölskyldur sínar og flúðu súldina í Reykjavík og óku til Þingvalla þar sem hópurinn tók virkan þátt í "Göngumessu". Eftir messu var farinn smá rúntur og endað í grilli sem var í boði klúbbsins. Ferðin endaði síðan undir kvöld eftir góðan dag í frábæru veðri fyrir austan. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [25.07]jslÁrbær í gær

Í gærkvöldi var aukarúntur, tileinkaður sportbílum og var nokkuð góð mæting af ýmsum bílagerðum og öllum árgerðum. Nokkrir voru að mæta í sína fyrstu ferð hjá klúbbnum og voru um leið að kynnast öðrum félögum. Farinn var síðan rúntur um miðbæinn. [21.07]jslMorris saga

Oft geta sumar tegundir komið víða við í lífi fólks. Í þessari stuttu grein eftir Philip Powell hjá Vintage Cars, rekur hann kynni sín af Morris Minor í lífi sínu, allt frá kappakstri á yngri árum til þess er hann kynnist seinni konu sinni, og alltaf kemur Morris Minor við sögu. [18.07]jslNýr í flotanum

Síðasta miðvikudagskvöld sýndi félagi okkar,Kjartan Sigurgeirsson, bíl sem hann flutti nýlega til landsins frá Kanada. Þetta er Jaguar MK IX árgerð 1958 sem er í mjög góðu standi og lítur vel út. Verður gaman að sjá þennan bíl í ferðum okkar svo og aðra bíla sem hafa verið að koma undanfarið, en áberandi er hversu mikil breidd er farin að vera í fornbílaflotanum hér á landi. Óskum við Kjartani til hamingju með bílinn. [15.07]jslLéttur vörubílarúntur

Í gærkvöldi var aukarúntur sem var tileinkaður vörubílum. Nokkrir bílar mættu í Árbæjarsafn og fóru góðan rúnt um bæinn. Gamlir vörubílar vekja alltaf athygli í okkar ferðum, hvað þá þegar nokkrir aka saman í röð um bæinn. [14.07]jslUral á Íslandi

Nú er hefur Ural.is umboðsaðili URAL á Íslandi hafið innflutning á þessum víðfrægu mótorhjólum. Hjólin sem upphaflega komu á markað í Rússlandi 1939 eru afar óvenjuleg, enda hafa þau nánast haldið sínu upprunalegu útliti. Þau koma með hliðarvagni sem hægt er að losa frá. Hægt er að fá þau í heilsársútfærslu með drifi á hliðarvagninum. Nánar upplýsingar um hjólin og sögu þeirra er að finna á www.ural.is [13.07]jsl


Markaður FBÍ

Þar sem margir fornbílaáhugamenn fara fljótlega að huga að verkefnum fyrir næsta vetur er ekki úr vegi að benda á markaðssíðu klúbbsins, þar geta allir sett inn auglýsingar svo framarlega að það sé verið að auglýsa bíla eldri en 25 ára. Margir eigulegir bílar eru auglýstir á markaðnum núna, en auglýsingar fá að standa í 60 daga, svo það borgar sig að skoða reglulega það sem er í boði. Einnig er verið að óska eftir ýmsum varahlutum þarna og eins er þetta kjörinn staður til að losna við sína umframhluti. [11.07]jslGróðursetning

Í gærkvöldi mættu vaskir félagar ásamt fjölskyldum sínum og tóku þátt í kvöldrúnti og gróðursetningu í spildu sem klúbburinn hefur fengið úthlutað. Settar voru niður 107 plöntur að þessu sinni, og verður plantað þarna árlega þar til svæðið er fullnýtt, en eftir það verður farið reglulega til að fylgjast með svæðinu. Með þessu vill klúbburinn taka þátt í uppgræðslu og eins koma upp svæði sem nýtist félögum seinna meir. Eftir þetta var farið í stutta keyrslu og endað í kaffi á Grandakaffi. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [08.07]jslMyndasería

Hér er smá myndasería frá sýningu sem haldin var á Edsel and Eleanor Ford setrinu. Þema sýningarinnar var "International Vehicle Design" og þar með var hærra hlutfall bíla frá Evrópu. Sjá myndir. [07.07]jsl


Frá Félaganefnd

Félaganefnd hefur áhuga á að fá nokkra félaga til að taka að sér ýmis verkefni í kringum árshátið klúbbsins, sem er áætluð í lok október. Nefndin veit að það eru margir félagar sem luma á góðum hugmyndum og eru fjölhæfir til verka. Við höfum áhuga á að heyra í öllum þeim sem vilja leggja sitt fram, hvort sem það er hugmynd að atriði eða þeir eru tilbúnir að taka að sér verkefni. Ekki eru nema þrír mánuðir til stefnu svo það er um að gera að hafa samband sem fyrst og bjóða sitt fram. Hægt er að hafa samband við Jón í síma 892 0045 eða í e-mail á jsl@itn.is. [05.07]jslFornbíladagur í Árbæ

Í gær var hinn árlegi Fornbíladagur í Árbæjarsafni og mættu um 40 bílar í safnið. Aðsókn að safninu var mjög góð eins og venjulega þegar félagar mæta þar með bíla sína. Ágætasta veður var allan daginn og var góð stemmning hjá félögum. Krökkum var boðið í rúnt á einum vörubílnum og á verkstæðinu var bíll í "uppgerð". Myndir eru komnar á myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [04.07]jslNýjar myndir

Klúbbnum hafa borist myndir sem félagi okkar Ólafur Ólafsson tók í Árbæ á 17. júní þegar farið var í keyrslu þaðan. Þessar myndir eru komnar inn í 17. júní albúmið. Þar sem við í Ferðanefnd eigum oft erfitt með bæði að taka þátt og taka myndir af keyrslu þá er þetta gott framlag hjá Ólafi og þökkum honum kærlega fyrir þessa sendingu. Það má bæta því við að FBÍ þiggur allar þær myndir sem félagar vilja senda okkur, þó er ekki hægt að ábyrgjast að allar verið birtar, en allar myndir fara í myndsafn klúbbsins og varðveitast þar. [01.07]jsl