Eldri fréttir - Maí 2005


Bílar og flugvélar

Bíla- og flugvélahönnuðir hafa verið nátengdir í gegnum árinn og oft voru þetta þeir sömu sem hönnuðu bíla jafnt og flugvélar. Hérna er smá myndasería sem sýnir nokkrar flugvélar og eins bíla sem gætu alveg eins verið flugvélar. [31.05]jslLandsmót FBÍ kynnt

Eins og félagar hafa örugglega tekið eftir er hafin mikil kynningarherferð á Landsmóti okkar sem verður haldið síðustu helgina í júní á Selfossi. Bílar hafa komið í þáttinn Ísland í bítið á Stöð2 síðustu tvo föstudagsmorgna, bílar verða einnig í næstu föstudagsþáttum fram að móti. Hægt er að sjá upptöku úr Ísland í bítið með því að smella á tengla sem eru í vali hér til vinstri. Smá greinar í bílablaði Morgunblaðsins verða í sumar til kynningar á ferðum okkar í sumar og Bylgjan verður með efni í kringum Landsmótið. Unnið er á fullu í undirbúningi mótsins, en auðvitað verða bílar félaga í aðalhlutverki, og án efa mæta fleiri en árið 2003, en þá voru um 110 bílar mættir á svæðið. Allar helstu upplýsingar um mótið er að finna á sérsíðu, tengill hér til hliðar, og verður hún uppfærð jafnóðum og dagskrá verður til. [30.05]jslHvítir eins og snjór!

Nú hafa 100 dósir af íslensku dekkjamálningunni verið fluttar út, þar af um 90 til Bandaríkjanna. Þessa dagana eru að berast ljósmyndir frá þeim sem hafa málað dekkin sín og er alltaf gaman að sjá hvað bílarnir taka miklum stakkaskiptum við það eitt að fá hvíta hringi. Það er líka við hæfi að íslenski hluti þessara bíla skuli vera hvítur eins og snjór! Meðfylgjandi mynd er af Dodge árgerð 1947 í eigu Robert Luxa í Tacomaborg í Washingtonríki, með íslenska hvíta hringi. [27.05]ös


Síðustu steðjaplötur fyrir sumarfrí!

Vegna sumarleyfa starfsmanna númeradeildar Fornbílaklúbbsins mun framleiðslan liggja niðri frá 1. júlí til 31. ágúst. Þeir sem þurfa númer fyrir þann tíma eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband sem allra fyrst í síma 895-2400. Sú regla er viðhöfð að eigi færri en 6 sett eru framleidd í einu og er það gert í hagræðingarskyni, m.a. vegna sprautuvinnu. Því þarf ávallt að panta númeraplötur með góðum fyrirvara, en ekki örfáum dögum áður en þeirra er þörf. [26.05]ös


Veskjakort

Eitthvað hefur borið á því að félagar sakni veskjakorts yfir ferðir í sumar, en vegna sérstakra aðstæðna var það ekki gert fyrir þetta sumar. Til þess að bæta úr þessu er hægt að nálgast núna veskjakort yfir ferðir hér. Geta þá félagar náð í kortið og prentað það út og er ekkert annað eftir en að brjóta það saman og stinga í veskið. Til þess að geta náð í það verður að vera Acrobat til staðar í tölvunni (sem flestar eru með) ef ekki þá er hægt að nálgast forritið hér [25.05]jslAðalfundur og keyrsla

Í gær, sunnudag, var aðalfundur Fornbílaklúbbs Íslands haldinn. Venjuleg aðalfundarstörf voru á dagskrá, en fundur hófst á ávarpi formanns, Sævars Péturssonar. Áður en fundur hófst formlega var tilkynnt um að stjórn FBÍ hefði ákveðið að gera Arngrím Marteinsson að heiðursfélaga Fornbílaklúbbsins og var honum afhent skjal þessu til staðfestingar. Arngrímur gekk í klúbbinn fljótlega eftir stofnun hans og tók sæti í stjórn FBÍ á fyrstu árum klúbbsins og starfaði lengi í stjórn og nefndum. Arngrímur tók virkan þátt í uppbyggingu bílageymsla FBÍ á Esjumel, en þá sat hann í bygginganefnd. Ekki nóg með að hann ynni í byggingu þeirra heldur lagði hann til vélarkost og kunnáttu.

Á þessum fundi var kosið um formann, þrjá stjórnarmenn og tvo varamenn. Sævar Pétursson var endurkjörinn sem formaður, í stjórn voru Halldór Gíslason og Rúnar Sigurjónsson endurkjörnir. Tveir aðrir buðu sig fram í stjórn, Bjarni Þorgilsson og Jón S. Loftsson, en Jón hlaut kjör í stjórn. Þrír buðu sig fram sem varamenn, þeir Bjarni Þorgilsson, Egill Mathíasson og Hróbjartur Ö. Guðmundsson. Voru þeir Egill og Hróbjartur kosnir sem varamenn. Nefndarformenn fluttu sínar skýrslur yfir störf nefnda og ýmisleg mál rædd. Fyrirhuguð bygging klúbbsins var rædd og farið yfir gang mála, en fljótlega verður tilkynnt formlega um stöðu mála og áætlanir kynntar fyrir félögum og er stefnt að það verði allt aðgengilegt hér á fornbill.is.
Eftir fund var farið í þriðju ferð sumars og var hefðbundin keyrsla um miðbæ Reykjavíkur. Nokkrar myndir eru komnar á myndasíðu og eins fleiri fyrir félaga. [23.05]jslVörubílarúntur í gær

Í gærkvöldi var farin aukaferð og voru vörubílar í aðalhlutverki. Farið var frá Árbæjarsafni og góður hringur ekinn, út í Hafnarfjörð, um Álftanes og síðan niður í bæ og endað á Ægisgarði. Frekar fáir vörubílar mættu, en þeir sem tóku þátt í þessu höfðu mjög gaman af, vöktu þessir glæsilegu vörubílar athygli þar sem farið var um. Allir voru velkomnir með, en vörubílar voru fremstir. Nokkrar svona aukaferðir verða í sumar þar sem áherslan er á vissar gerðir fornbíla. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins fleiri fyrir félaga.[19.05]jsl


Samstarf FBÍ og Essó

Í mörg ár hefur Fornbílaklúbburinn verið með samstarf við Essó í formi þess að Essó hefur styrkt félaga í lengri eða stærri ferðum klúbbsins. Svo verður einnig í ár þar sem Ferðanenfd hefur klárað að semja við Essó, en til þess að samstarfið sé sýnilegra er nú komið merki Essó á heimasíðu okkar og aftur verður tekið upp að merkja bíla í ferðum eins og var gert á árum áður. Mætingarstaður í ferðir verður í flestum tilfellum frá einhverri Essó stöð og jafnvel komið við á öðrum til þess að sýna bíla. Nánari útfærsla verður kynnt fyrir hverja ferð fyrir sig í sumar. [18.05]jslÍ gærkvöldi

Síðasta kvöld var önnur ferð sumars og að þessu sinni var farið um vesturbæinn og Fríða Frænka heimsótt, en það er forngripaverslun á Vesturgötu. Ægir þar saman hlutum frá öllum tímabilum og margt skemmtilegt að sjá inná milli. Var síðan endað í kaffi út á Granda í Grandakaffi þar sem vel var tekið á móti félögum. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins fleiri og stærri fyrir félaga.[13.05]jslHönnuðir bíla

Margir koma að hönnun bíls en stærtsa hönnun er á útlit hans. Margir hönnuðir hafa orðið frægir í gegnum árin fyrir sína hönnun og hafa teiknað bíla fyrir marga framleiðendur. Sumir bílana hafa eingöngu verið smíðaðir í örfáum eða jafnvel bara einu eintaki sem tilraunabílar og hafa haft þá áhrif á hönnun næstu ára. Í næsta mánuði er haldin sýning, átjánda árið, sem er tileinkuð bílahönnun. Hér er smá grein um hönnuði og eins myndamappa af nokkrum bílum.[11.05]jsl


Afstöðumynd
Árbæjarsafn á morgun

Eins og áður hefur komið fram þá er sumarstaður FBÍ í Árbæjarsafni. Annað kvöld, miðvikudagskvöld, er annað kvöldið okkar í safninu. Góð stemning myndaðist strax í þessu húsi sem við höfum fengið til afnota, nóg af kaffi og nýjustu blöðin eru þar fyrir félaga. Aðstaðan er í neðsta svarta húsinu, ekið er beint niður að húsinu frá hliði hjá bílastæði, hér fyrir ofan er afstöðumynd til að sjá þetta betur.[10.05]jslSkoðunardagur og vorferð

Síðasta laugardag var hinn árlegi skoðunardagur FBÍ og var skoðað hjá Frumherja. Rétt tæplega 90 bílar voru skoðaðir og var mikil stemning þennan morgun. Frumherji bauð upp á morgunkaffi og grillaðar pylsur þegar leið að hádegi. Myndir og gamlir munir voru til sýnis og video frá Daytona með tilheyrandi músik myndaði rétt andrúmsloft. Eftir skoðun fóru rúmlega 30 bílar í vorferð austur fyrir fjall og var keyrt í gegnum Hveragerði og Selfoss áður en haldið var til Stokkseyrar, þar sem Draugasetrið var skoðað og félagar fóru í kaffi. Á heimleið var keyrt í gegnum Eyrarbakka og Þorlákshöfn. Þrátt fyrir að dálítill kuldi hafi ennþá verið í lofti, þá var þetta hin besta ferð, eins og venjulega á skoðunardegi var sól allan morgunin. Nokkrar myndir eru komnar á myndasíðu og eins fleiri og stærri fyrir félaga. Ferðanefnd vill að lokum þakka Frumherja fyrir frábærar móttökur og veitingar. [09.05]jsl


Ný heimasíða FBÍ

Nú hefur verið opnuð ný heimasíða Fornbílaklúbbs Íslands og vonandi líkar félögum og öðrum nýja útlitið. Það er ekki bara nýtt útlit heldur hefur verið farið í gegnum allt efni okkar, lagfært og uppfært eftir þörfum, heimasíðan á að vera léttari í notkun og er líka auðveldari í uppfærslu fyrir okkur og fljótlegra að setja inn breytingar og viðbætur eftir þörfum. Þó að allt hafi verið prufað eins og hægt er, þá er aldrei hægt að sjá fyrir alla möguleika á villum, svo það væri gott ef við fengjum ábendingar ef notendur finna eitthvað sem er ekki að virka eða annað sem kemur upp. Öll heimasíðan fornbill.is svo og Markaður, Fornbílaspjallið og Félagaskrá er unnið, viðhaldið og hannað af undirrituðum. [06.05]Jón S. Loftsson (jsl)Árbær í gærkvöldi

Í gærkvöldi var fyrsta kvöldið í Árbæ og var góður gestagangur. Eins og flestir vita lánar Árbæjarsafn okkur húsnæðið í sumar og leist mönnum vel á þennan stað og eiga örugglega eftir að verða fleiri fjörug kvöld þarna í sumar. Aðstaða er til að sýna myndir þar og verða örugglega einhverjar myndasýningar á dagskrá í sumar. [05.05]jslUppboð

Nýlega var haldið uppboð í Michigan þar sem margir góðir bílar voru boðnir upp. Inná milli voru nokkrir bílar sem eru eftirsóttir og má þar nefna 1968 Ford Shelby GT500 Fastback sem fór á 5,2 milljónir og annar 1968 Shelby GT500, blæju, fékk boð upp á 7,5 milljónir en það dugði ekki upp í það verð sem eigandi hafði sett upp. Hérna er hægt að sjá myndir frá þessu uppboði. [04.05]jsl


Miðvikudagskvöld í Árbæjarsafni

Eins og flestir vita þá lokaði Ak-Inn um síðustu áramót og í framhaldi hófst leit að nýjum sumarstað fyrir klúbbfélaga. Árbæjarsafn hefur nú boðið klúbbnum húsnæði til afnota og verður opið þar frá klukkan 20.30 til 23.30 öll miðvikudagskvöld í sumar, auk þess sem nokkrar aukaferðir verða farnar þaðan. Ekið er í gegnum hliðið við enda bílaplansins og sem leið liggur niður að stóru svörtu húsunum, hinum svonefndu Vopnafjarðarhúsum. Fyrsta rabbkvöldið í Árbæ verður 4. maí. [03.05]jslFlottasta fornbílasala heims

Fyrir þá sem taka ekki neina áhættu við kaup á fornbílum og eru tilbúnir að borga uppsett verð fyrir 100% bíla ættu endilega að kíkja á heimasíðu The Auto Collections í Las Vegas, en þar eru öllum stundum um 250 fornbílar og safngripir til sýnis og sölu í gríðarmikilli bílahöll, sem er í raun glæsisafn í tengslum við Imperial Palace hótelið. [02.05]ös