Eldri fréttir - Apríl 2005

Stór bílasölusíða

Ef einhver er að leita að draumabílnum sínum þá gæti hann verið á þessari heimasíðu, tugir þúsunda bíla eru auglýstir þarna og allt flokkað eftir tegundum og árgerð. Bent var á þessa síðu á Fornbílaspjallinu, en þar er hægt að setja inn ábendingar um þær síður sem félagar luma á. [29.04]jsl


"My Daily Driver"

Þessi heimasíða er tileinkuð myndum og sögum af eldri bílum sem eru í daglegri notkun. Þarna er hægt að skrá sig og senda inn upplýsingar af sínum bíl, sögur af uppgerðum bílum og svo ýmisleg ráð vegna umhirðu bílsins. Þessa síðu þarf samt að skoða með það í huga að hún er mest öll um bíla í Bandaríkjunum svo það er ýmislegt þar sem okkur þykir frekar broslegt. [28.04]jsl


Eldri bílar frá Evrópu

Hér er smá myndasería sem sýnir nokkra bíla frá Evrópu, aðallega bílar sem fór ekki hátt um og voru jafnvel framleiddir eingöngu í stuttan tíma. [27.04]jslHjólkoppar í tímans rás

Hjólkoppurinn hefur fylgt bílnum frá árdögum hans og hefur lengi verið hans helsta skart. Hér má sjá hvernig hann er hefur þróast í heila í öld undir Cadillac-bílum. [25.04]ösVorfagnaður

Síðasta vetrardag var haldinn vorfagnaður FBÍ, í Húnabúð. Ágætis mæting var og var þetta hið besta kvöld. Sighvatur Sveinsson sá um tónlist og leiddi í söng. Það er ekki hægt að neita því að Félaganefnd mundi vilja sjá fleiri félaga á svona skemmtunum þar sem þetta er tilvalinn vettvangur til að kynnast félögum og mökum þeirra, í stað þess að hittast eingöngu með bílana okkar. [22.04]jslAustin 100 ára

Í ár eru 100 ár liðin frá stofnun Austin Motor Company í Longbridge Englandi. Í tilefni þess verður mikil samkoma og afmælisveisla dagana 8. til 10. júlí. Afmælið verður haldið í Cofton Park, sem er í suðvestur hluta Birmingham, rétt hjá Longbridge þar sem Austin var framleiddur. Að öllum líkindum verður þetta ein stærsta samkoma Austin bíla og eru margir klúbbar sem standa að þessari afmælishelgi. Hérna er hægt að lesa meira um þessa helgi. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kíkja á þetta afmæli, þá er Birmingham rétt rúmlega einn og hálfur tími í lest frá London, farið er frá Euston stöðinni. [20.04]jsl


Félag smábílasafnara

Nú geta fornbílamenn og konur gengið að mörgum áhugaverðum módelbílum af ýmsu tagi, stærðum, gerðum og aldri á einum stað í Reykjavík. Þeir fást hjá Steingrími Björnssyni, sem hefur opnað módelbíla-verslun í Tjarnargötu 10, í húsalengjunni milli Suðurgötu og Tjarnargötu. Stöðugt koma nýjar sendingar af módelbílum, svo flestir ættu að geta fundið þar eitthvað við sitt hæfi - evrópskt og amerískt að uppruna. Í Mogganum 11. apríl sl. var heilsíðuviðtal við Steingrím og forsvarsmenn nýstofnaðs Félags smábílasafnara. Annar þeirra hefur sett myndir og upplýsingar um hluta af bílasafni sínu á netið: www.simnet.is/orvarm [18.04]jslFalir fornbílar í Færeyjum

Frændi okkar og fornbílafélagi í Færeyjum, Hans Elmar Poulsen, hefur sent Fornbílaklúbbnum bréf. Eins og margir vita á Hans myndarlegt bílasafn á Vatnseyrum í Færeyjum sem nú telur 11 fornbíla og verður sá elsti, T-Ford, níræður í október nk. Nú hefur Hans í hyggju að fækka þeim aðeins og hafa Íslendingar forkaupsrétt. Efstur á listanum er stórglæsilegur Cadillac Coupe De Ville árgerð 1954, sem er í afar góðu ástandi. Verð hans er í kringum 1,5 milljónir kr. Einnig er falur Jagúar árgerð 1978, sem er annar frá vinstri á mynd hér að ofan. Verð hans er rúm milljón. Hans minnir á að stutt sé á milli eyjanna Íslands og Færeyja og reglulegar flugferðir frá Reykjavíkurflugvelli, þannig að ekki er miklum vandkvæðum búið að skreppa og skoða vagnana. Hans segist hafa verið á ferð um Danmörku á T-Fordinum og í maí eru væntanlegir níu T-Fordar frá Danmörku sem dvelja munu í Færeyjum í tíu daga. Netfangið hjá Hans Elmari er hep@h-window.fo. [15.04]ösDóta- og verkfærakvöld

Í gærkvöldi var haldið Dóta- og verkfærakvöld, en þá koma félagar með söfn sín og sýna öðrum. Veitt voru verðlaun fyrir athyglisverðasta safnið og hlaut Rúnar Sigurjónsson fyrsta sæti, Ragnar Geirdal annað sæti og Örn Sigurðsson þriðja sæti. Myndir frá þessu kvöldi eru komnar á Myndasíðu og eins hér fyrir félaga.Fyrr um kvöldið var haldinn fundur um byggingamál klúbbsins og var farið yfir stöðu mála og nýjustu teikningar sýndar. Margt var rætt og komu ýmsar fyrirspurnir í sal um þessa fyrirhuguðu byggingu. Nýjustu teikningar voru sýndar og eins tölvumyndir af útliti hússins. Er nú farið að styttast í loka teikningar og er þegar búið að leggja fyrir byggingafulltrúa frumteikningar til samþykkis. Farið var yfir kostnaðaráætlun safnsins en ekki liggja allar tölur endanlega fyrir, þar sem ekki er komið svar við þeim styrkveitingum sem hefur verið farið fram á, bæði frá Reykjavíkurborg og ríki. Ættu allar aðaltölur að vera komnar fyrir aðalfund sem verður í enda maí. Nokkuð var fjallað um árlegan rekstrarkostnað safnsins þar sem margir félagar hafa lýst yfir áhyggjum af miklum rekstrarkostnaði þessa safns, en þær tölur eru ekki komnar á hreint, þar sem opnunartími og annað vegna daglegs rekstur þess er ekki fullmótað ennþá. Væntanleg verða teikningar og aðrar upplýsingar um þessa byggingu birtar hér á netinu fljótlega. [14.04]jslFornbílar á frímerkjum

Margir fornbílamenn eru einnig frímerkjasafnarar og það má reyndar auðveldlega samræma þessi tvö áhugamál með því að einbeita sér að söfnun bílafrímerkja. Þegar vel er að gáð hafa flestar þjóðir gefið út frímerki með myndum af fornbílum, enda þessi tegund tæknihluta sú allra vinsælasta t.d. meðal þeirra sem heimsækja söfn. Hér er hins vegar frímerkjasafn tileinkað bílum. [13.04]ösMeira um GT 500KR

Í síðustu viku var fjallað um ný -innfluttann 1968 Mustang GT 500KR. Nú er hægt að upplýsa að þessi bíll er í eigu eins félaga okkar sem býr í Lúxemborg og á hann fyrir Mustang GT 350. Þennan bíl eignast hann í Bandaríkjunum og flytur hér í gegn, þar sem til stendur að sprauta hann og almennt yfirfara bílinn áður en hann fer til eiganda síns í Lúxemborg. Samkvæmt upplýsingum frá eiganda, þá eignast hann bílinn í byrjun þessa árs frá Illinois og hafa eingöngu þrír eigendur varið af honum, þar af sama fjölskyldan frá 1970 og af þeim tíma var hann í geymslu í 20 ár. GT500KR Fastback voru aðeins framleiddir í 933 eintökum árið 1968 og aðeins 299 sem voru framleiddir með þeim aukahlutum sem komu með þessum bíl frá verksmiðju. Eins og áður kom fram á sami aðili 1968 Mustang GT 350, en 1253 voru framleiddir árið 1968. Þann bíl eignast hann frá Svíþjóð og er hann fyrrum bílaleigubíll hjá Hertz, en samkvæmt skrám voru 225 Shelby Cobra bílar seldir til Hertz á árinu 1968. Þessi GT 350 verður fluttur hingað til uppgerðar frá grunni þó svo að hann sé í nokkuð góðu standi, en báða þessa bíla ætlar viðkomandi að gera sem upprunalegasta. Því miður verða þessir bílar ekki á götum hér, allavega ekki í bráð, en við munum fylgjast með uppgerð þeirra og reyna að birta myndir af þeim báðum eftir uppgerð. Við óskum eigandanum til hamingju með þá báða. [11.04]jsl


Frétt Ómars Ragnarssonar á RÚV
Gerlach-bíllinn fundinn!

Einn sögufrægasti bíll sem ekið hefur um íslenska vegi, Mercedes Benz árgerð 1937, er kominn í leitirnar í Bandaríkjunum, 33 árum eftir að hann var seldur frá Íslandi. Benzinn var embættisbíll Werner Gerlachs, aðalræðismanns Þjóðverja á Íslandi, og er talinn hafa verið njósnabíll Þriðja ríkisins. Bíllinn er uppgerður og allur sem nýr, málaður í gráum litum þýska flughersins Luftwaffe. Ekki hafa fundist í honum nein framleiðslunúmer, en það staðfestir að bíllinn hafi verið sérpantaður af njósnadeild þýska hersins. Í blæju hans fannst árið 1969 þéttriðið loftnet sem bendir eindregið til þess að bíllinn hafi verið færanleg talstöð ætluð til samskipta við kafbátaflota Þjóðverja í Norður-Atlantshafi. Þegar bílasafn Fornbílaklúbbsins er risið í Elliðaárdal verður unnið að því að fá bílinn lánaðan til landsins og kynni hans við Íslendinga endurnýjuð! Myndin lengst til vinstri hér að ofan sýnir bílinn eins og hann leit út árið 1969, en þá var hann í eigu Jóns Hjörleifssonar og Auðuns Gunnarssonar.
Miðmyndin var tekin árið 1974 í Columbus í Ohio-ríki, en við hlið hans stendur George Cradick sem síðar gerði bílinn upp. Myndin sýnir vel vínrauða litinn sem bíllinn var sprautaður í haustið 1968. Myndin lengst til hægri sýnir bílinn eins og hann lítur út í dag, uppgerður og glæsilegur, í einkennislitum þýska flughersins. Núverandi eigandi er Rudi Kamper sem búsettur er í Cleveland í Ohio-ríki. [08.04]ösSvona keypti maður sér bíl

Á eftirfarandi hátt gat maður keypt sér nýjan Cadillac á því herrans ári 1956. Einfalt og þægilegt ef buddan og eiginkonan leyfðu: www.car-nection.com [07.04]ösKádiljákar í kvikmyndum

Flestir fornbílamenn hafa gaman af kvikmyndum sem skarta fornbílum og oft gera menn sér far um að leita að slíkum myndum. Fáir bílar hafa sést oftar á hvíta tjaldinu en Cadillac og á meðfylgjandi heimasíðu eru gagnlegar upplýsingar um allar þær kvikmyndir sem skarta Cadillac-bílum og fylgja með margar ljósmyndir þannig að auðvelt er að átta sig á því tímabili sem verið er að fjalla um.
[06.04]ös
Fjölnota fornbílasafn

Í síðustu viku var Sigurbjörn Helgason með myndasýningu frá ferð sinni til Hershey síðasta haust. Sýndi hann meðal annars myndir frá hinu nýja bílasafni bandaríska fornbílaklúbbsins AACA sem hýsir marga merkilega bíla. Þetta safn hefur einnig tekið upp þá nýlundu að bjóða félögum sínum að halda veislur innan um fornbílana og er þá hluti sýningarsvæðisins rýmdur fyrir veisluborðin. Það er örugglega afar skemmtilegt að halda árshátíð fornbílamanna á slíkum stað. Hér er heimasíða safnsins [05.04]ösNýkominn Shelby GT 500KR

Í síðustu viku kom til landsins Ford Mustang Shelby GT 500KR sem fer til Keflavíkur. Er þetta annar Shelby bíllinn sem Íslendingur eignast á nokkuð stuttum tíma, en sá fyrri er reyndar ekki ennþá komin til landsins þar sem hann er í eigu eins félaga okkar sem býr erlendis eins og er. Eins og flestir vita er Shelby útgáfan mjög eftirsótt og ekki af ástæðulausu þar sem lítið var framleitt af þessum bílum og meira í þá lagt en venjulegan Mustang. GT500 kom með 428cid big block vél, sterkari stimpilstangir, hertum stimplum, önnur hedd en á std. 428 og betri fjöðrun. KR útfærslan er einnig með endurbætta útgáfu af CJ vélinni, nokkurskonar Super Drag Pack sem var svo kallað SUPER COBRA JET á árinu 1969 og 1970. Nú bíða bara bílaáhugamenn spenntir eftir að sjá þennan bíl á götunni í sumar. [04.04]jslÍ gær var 1. apríl

Eins og flestir hafa gert sér grein fyrir þá var 1. apríl í gær og er það gamall siður að láta menn hlaupa 1. apríl. Frétt okkar af "nýjum" innflutningsaðila, AG-bílar (AG=aprílgabb), var tómur uppspuni fréttasíðumanna. Sást til nokkurra fornbíla sem mættu og voru að spóka sig í góða veðrinu og þó nokkur umferð var á planinu hjá Perlunni. Sumir óku jafnvel nokkra hringi að leita að þessum fornbílum. Við vonum að engum hafi orðið meint af smá rúnti upp í Perlu í gær og lofum að allar fréttir okkar eru marktækar nema á 1. apríl. Sögu þess að gabba fólk á þessum degi má rekja til þess tíma þegar Gregory XIII páfi fyrirskipaði upptöku á nýju dagatali, í stað Júlíenska. Þá hafði verið haldið upp á nýársdag þann 1. apríl en hann var færður til 1. janúar eins og við þekkjum í dag. Þegar þetta dagatal var tekið upp í Frakklandi í lok sextándu aldar, neituðu margir, eða höfðu ekki frétt af þessari breytingu, og héldu áfram fast í 1. apríl. Fljótlega var farið að gera grín af þeim sem héldu í 1. apríl og var farið að senda þá í erindaleysur og plat nýársfagnaði.[02.04]jslNýtt fyrirtæki í innflutningi fornbíla!

Nýtt fyrirtæki, AG-bílar, hefur tekið til starfa, en það sérhæfir sig í innflutningi á fornbílum frá Bandaríkjunum. Að sögn forsvarsmanns fyrirtækisins, Alberts Guðlaugssonar, hefur hagstætt gengi dollarans og stóraukinn fornbílaáhugi lagt grundvöllinn að þessu fyrirtæki, sem kalla má algera himnasendingu, því oft er mikið vesen fyrir einstaklinga að standa í bílainnflutningi. Í tilefni af fyrstu bílasendingunni mun fyrirtækið halda sölusýningu á 8 glæsilegum fornbílum við Perluna í dag milli klukkan 17 og 20. Pylsuvagn verður á staðnum og býður öllum gestum upp á rjúkandi pylsur og kók að góðum amerískum sið. Fjölmennum í Perluna og fögnum nýrri og glæsilegri þjónustu við íslenska fornbílamenn! Myndirnar hér að ofan eru af helmingi þeirra fornbíla sem nýkomnir eru til landsins og verða sýndir (og vonandi seldir) í dag. [01.apríl]ös