Eldri fréttir - Mars 2005

Fyrstu Tatra vörubílarnir

Árið 1919 lauk smíði fyrsta Tatra vörubílsins, TL4, en Hans Ledwinka stóð að stofnun Tatra sem var deild út frá Koprivnicka Wagenbau í fyrrum Tékkóslóvakíu. (Saga þessa fyrirtækis nær reyndar allt til 1887). Nafnið er fengið frá Tatra fjöllunum sem var Bram Stoker notaði sem sögusvið fyrir heimil sögupersónu sinnar, Drakúla. Hans Ledwinka, sem var verkfræðingur, prufaði einmitt vörubíl sinn í þessum fjöllum. Árið 1923 kom síðan fyrsti fólksbíllinn frá Tatra, T11, en með honum gátu margir heimamenn eignast bíl á viðráðanlegu verði. Árið 1934 kom á markaðinn Tatra 77, en hann var fyrsti bíllinn sem hannaður var út frá loftflæði og var með loftkælda vélina afturí. Þegar Tatra 77 er skoðaður þá er auðvelt að sjá hvaðan hönnun "bjöllunnar" er komin frá. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir af Tatra 77. [30.03]jsl


Opið hús annað kvöld

Miðvikudagskvöldið 30. mars verður opið hús í félagsheimilinu Skeifunni 11. Þar mun Sigurbjörn Helgason sýna félögum sínum í klúbbnum myndir sem hann tók síðasta haust á Hershey-sýningunni í Bandaríkjunum. Þangað fór hann ásamt níu öðrum fornbílamönnum, en í Hershey er árlega haldin stærsta fornbílasýning heims. Þeir heimsóttu einnig nýja bílasafn bandaríska fornbíla-klúbbsins AACA, sem staðsett í Hershey. Eru félagar hvattir til að mæta á þessu myndasýningu og taka með sér gesti. Gert verður gott kaffihlé í miðri sýningu, en húsið verður opnað klukkan 20.00. [29.03]jsl


Packard Caribbean

Hérna er vísun í smá grein um Packard Caribbean til að lesa um páskana. Fréttasíðan er kominn í frí til 29. mars. [23.03]jsl


Eðalvagnar horfins tíma á kvikmyndakvöldi.

Á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld voru margir af verðmætustu bílum heims smíðaðir. Í merkilegri heimildarmynd fáum við að kynnast glæsivögnum á borð við Duesenberg, Packard og Cadillac og njótum leiðsagnar leikarans og fornbílamannsins Edward Hermann. Sýning myndarinnar hefst stundvíslega klukkan 21.00 og gert verður gott kaffihlé. [22.03]ösFornbílasýning í London

Eins og áður hefur komið fram voru nokkrir félagar á ferð í London þessa síðustu helgi og fóru á fornbílasýningu sem haldin var í Alexandra Palace. Eins og venjulega var margt að sjá og margir fallegir bílar sem sýndir voru þar. Hérna eru nokkrar myndir frá þessari sýningu, en henni verður gerð betur skil seinna með fleiri myndum. [21.03]jsl


Fréttasíða í fríi

Þar sem umsjónamaður fréttasíðu er í London á fornbílasýningu verður fréttasíða lítið uppfærð fyrr en eftir helgi. Í morgun, föstudag, eru 5 félagar í viðbót á leið til London á sömu sýningu og verða til mánudags. Hér úti er 17 stiga hiti og vorið komið á fulla ferð. [17.03]jsl


Skemmtileg grein um Mercury Comet

Philip Powell skrifar hér skemmtilega grein um bíl sem hann hafði ekki mikið álit á fyrr en hann sá hann frá nýrri hlið.Honum hafði alltaf þótt Mercury Comet lítt spennandi bíll og var með einn í láni, afstaða hans breyttist eftir að hafa rætt við unga konu á bensínstöð, og fór þá að hugsa betur um að það þurfa ekki endilega að vera bara flottustu og stærstu fornbílarnir sem vekja áhuga fólks. [16.03]jsl


Fyrir 94 árum

Þennan dag árið 1911 varð til fyrirtæki sem fékk nafnið Gustav Otto Flugmaschinenfabrik Munchen, stofnað af syni Nikolaus Otto sem var framarlega í þróun sprengivélarinnar. Fyrst í stað var framleiðslan aðallega fyrir flugvélar en sameinaðist seinna við annað fyrirtæki í eigu Karl Rapp og varð þar með til Bayerische Motoren-Werke eða betur þekkt sem BMW. Þar sem BMW á rætur sína í flugvélaiðnaðinum, á hið þekkta merki BMW að tákna snúning flugvélahreyfils. [15.03]jslDetroit Autorama

Síðustu helgi var haldin Detroit Autorama sýningin, sem er helguð "hotrod" og breyttum bílum. Margir af þessum bílum geta alveg eins verið úr einhverri vísindabíómynd,en flestir eru virkilega flottir og mikil vinna lögð í þá. Þarna voru bílar sem hafa verið smíðaðir bókstaflega upp á nýtt en byggðir á formi eldri bíls, en aðrir hafa ekki fengið aðrar breytingar en flotta málingarvinnu og meira króm. Hérna er hægt að sjá myndir frá þessari sýningu. [14.03]jslFornbílar í höfuðborg Rússlands

Á mánudaginn var sagt frá fornbílum í Eistlandi. Eins og margir muna var landið einu sinni hluti af gömlu Sovétríkjunum og var því nokkuð um austantjaldsbíla á myndasíðu eistnesku fornbílamannanna. Þegar ritstjóri heimasíðunnar var nýverið að kynna sér gistimöguleika í fyrrum höfuðborg þessara ríkja, Moskvu, datt hann niður á fróðleikskorn um fornbílamenn á staðnum. Verður því alls ekki úr vegi að kíkja á þessa kollega þegar leiðin liggur í austurveg, en þeir virðast eiga nokkuð af spennandi fornbílum: www.fashion.hobby.ru/moscow [11.03]ösBílaumboðið ASKJA

Í gærkvöldi var farið að skoða hið nýja Mercedes-Benz umboð á Íslandi, sem hlotið hefur nafnið Bílaumboðið ASKJA. Tóku þeir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri, og Páll Halldór Halldórsson, sölustjóri atvinnubíla, á móti félögum og sýndu húsnæði umboðsins og alla aðstöðu. Auðvitað var okkar félagi og stjórnarmaður FBÍ, Rúnar Sigurjónsson, þarna til að svara spurningum og til að sýna félögum um, en hann er þjónustufulltrúi í varahlutaverslun Öskju. Einum eldri Benz 190 árgerð 1956 var stillt upp í sal af þessu tilefni, sem Örn Sigurðsson, ritstjóri fréttasíðu FBÍ er eigandi af. Einnig voru mættir félagar úr Mercedes-Benz klúbbnum þetta sama kvöld.Í tilefni þessarar heimsóknar hefur Bílaumboðið ASKJA ákveðið að bjóða félögum í Fornbílaklúbbi Íslands 15 % staðgreiðsluafslátt af varahlutum. Myndir frá þessu kvöldi eru komnar á Myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [10.03]jsl


Fornbílaklúbburinn er fyrir alla

Þetta er fyrirsögn á viðtali við Sævar Pétursson, formann FBÍ, í DV í gær. Þar er verið að vísa í þann algenga misskilning að viðkomandi þurfi að eiga fornbíl til þess að ganga í klúbbinn, en það er alrangt. Margir félagar eiga ekki fornbíla, en hafa áhuga á þessu og vilja vera með í starfi og uppbyggingu klúbbsins. Ekki má gleyma því að margar konur eru líka skráðar í klúbbnum og fer þeim fjölgandi, Margar eiginkonur félaga taka líka virkan þátt í þessu áhugamáli. Farið er stuttlega yfir tilgang klúbbsins og félagsstarf, með viðtalinu er mynd af einum bíl Sævars, Ford Galaxy 1959 sem sést oft í ferðum klúbbsins. Fyrir þá sem misstu af þessari grein er hægt að skoða hana hér sem pdf skrá (Acrobat). [09.03]jslFornbílar ryðga víðar en hér

Þegar heimasíður fornbílamanna um víða veröld eru skoðaðar er oftar en ekki allt morandi af vel með förnum eða nýuppgerðum glæsivögnum og sakna margir mynda af vinnulúnum fornbílum. Ritstjóri heimasíðunnar rakst nýlega á eistneska heimasíðu sem rekur sögu margra bíltegunda og birtir oftar en ekki myndir af þeim í frekar döpru ástandi, sem er að mörgu leyti nýtt sjónarhorn á netinu. Tungumálið er líka mjög skemmtilegt, eða álíka ólæsilegt og okkar eigið tungumál er í augum flestra annarra. Bílamyndirnar eru hins vegar fínar og tala sínu máli, enda eru góðar ljósmyndir af bílum hið eina sanna alþjóðamál fornbílamanna. [07.03]ösMyndir frá uppboði

Nýlega var haldið uppboð á fornbílum í Arizona og þar voru margir eðalvagnarnir sem seldust á mis háu verði. Hæst fór tilraunaútgáfa af 1954 Oldsmobile F-88, aðeins 200 milljónir. Það væri nær að fjármálamenn landsins færu að fjárfesta í svona eðalvögnum, í stað þess að vera alltaf í Monopoly leik með byggingar og verslanir. Hérna eru myndir frá þessu uppboði. Fréttasíðunni barst ábending um heimasíðu bílakirkjugarðs. Það er alltaf sorglegt að skoða myndir frá svona stöðum þar sem bílar hægt og rólega eyðast og verða að ónýtu járnarusli, en það er alltaf möguleiki að hægt sé að finna á svona stöðum einn og einn sem hægt væri að bjarga. [04.03]jsl


Leit á netinu

Oft þegar verið er að leita á netinu kemur upp aragrúi af síðum, oft margar sem hafa ekkert sem kemur viðkomandi leit við. Á Google, og mörgum öðrum leitarvélum, er hægt að velja Flokkar og þar er hægt að velja sig áfram í þeim flokkum sem eru helst með að gera það sem maður leitar eftir. Oft er hægt að finna með þessu móti þær síður sem manni vantar fljótar, en að slá inn leitarorð og síðan fara í gegnum margar síður af niðurstöðum. Eins er misjafnt hvaða leitarorð hafa verið tengd við viðkomandi síðu svo hún finnst ekki undir því sem slegið er inn sem leitarorð, en kemur upp í þessum flokkum. Sem dæmi er hér tengill á flokk sem inniheldur parta og varahlutasala. [03.03]jslGufuvagnar

Á þeim árum sem liðu frá hestvögnum til bíla, var notað það afl sem var þekkt á þeim tíma, gufuafl. Þótti þetta hið mesta og besta uppfinning að knýja vagna með þessu afli enda hafði það virkað vel fyrir lestar og alla iðnvæðingu. En fljótt komust menn að því að það var ekki alveg svona einfalt þegar kom að þessum farartækjum. Það tók langan tíma að ná upp þrýstingi og eins þurfti oft að fylla á vatnsgeyminn og eldsneyti til að brenna, þar sem takmarkað pláss var á farartækinu. Í dag eru margir áhugamenn sem hafa gert upp gufuvagna og er viss rómantík við þessa tegund farartækja, enda líða þessi tæki áfram án nokkurs hávaða og vissa tækni þurfti til að aka þeim. Hérna er ein heimasíða um gufuvagna og myndir frá uppgerð nokkra vagna. [02.03]jsl


Bílamódel

Í tilefni af safnarakvöldi þar sem nokkrir félagar sýndu módelbílasafn sitt, og margir bílaáhugamenn safna módelum, eru hér nokkrar upplýsingasíður um þetta áhugamál. Á þessari síðu er farið yfir flesta framleiðendur módelbíla og vísað í heimasíður margra þeirra. Önnur síða er með myndir og tengla á framleiðendur og sölu aðila. Þriðja síðan er umræðuborð þar sem áhugamenn geta sent inn fyrirspurnir eða auglýst á. Að lokum er tengill á leit sem listar framleiðendur og söluaðila módela. [01.03]jsl