Eldri fréttir - Febrúar 2005


Alltaf gaman af myndum

Margir bílaáhugamenn hafa sett bílamyndasafn sitt á netið og hér er ein svoleiðis heimasíða. Þarna er að finna myndir sem viðkomandi hefur tekið á sýningum í gegnum árin í Evrópu og nokkuð mikið magn af myndum er að finna þarna, flokkað eftir tegundum. [28.02]jslÍslensk dekkjamálning á heimsmarkað

Fyrir ári síðan var kynnt hér á heimasíðunni nýjung í formi dekkjamálningar, ætluð þeim sem ekki vilja fórna 50-100 þúsund krónum í innflutning á fornbíladekkjum með hvítum hringjum. Nokkrir tugir dósa hafa selst á innanlandsmarkaði, en nýlega hófst tilraun til útflutnings. Forn-mótorhjólamenn í Kaliforníu riðu á vaðið, enda enga venjulega hvíta hringi að fá lengur á gömul mótorhjól, og nú hafa fornbílamenn í fjórum heimsálfum tekið við sér, enda virðist sambærilegt efni hvergi vera fáanlegt í heiminum. Hér er heimasíða sem sett var sérstaklega upp fyrir dekkjamálninguna á vefsíðu alþjóða Ponton-bílafélagsins, sem staðsett er vestra. [25.02]ösSafnarakvöldið

Í gærkvöldi var haldið svokallað Safnarakvöld, en þá gátu félagar komið með sín söfn og sýnt öðrum. Heimilt var að koma með hvers konar safn og var greinilegt að félagar eru að safna ýmsum munum. Veitt voru verðlaun fyrir athyglisverðasta safnið og fyrstu verðlaun hlaut Ragnar Sigurðsson, en önnur verðlaun hlaut Ingibergur Bjarnason og þriðju verðlaun hlaut Sigurbjörn Helgason. Nokkrar myndir er að finna á myndasíðu og eins stærri og fleiri fyrir félaga hér. [24.02]jslGerlach-bíllinn fundinn?

Margir muna eflaust eftir Mercedes Benz-bíl þýska ræðismannsins Werner Gerlach, en þessi merkilegi bíll var samfleytt á Íslandi í rúmlega 30 ár. Þeir sem hafa gleymt honum er bent á Íslensku bílaöldina, þar sem fjallað er um hann á bls. 136-137, en þar kemur meðal annars fram að bíllinn hafi verið seldur til Bandaríkjanna skömmu eftir 1970. Í gær fékk ritstjóri heimasíðunnar erindi þess efnis að kunningi Eyjólfs Sigurðssonar framkvæmdastjóra Kiwanis International í Indianapolis hafi nýlega keypt gamlan Mercedes Benz sem sagður er vera þessi tiltekni bíll. Ritstjórinn hefur sent myndir af Gerlach-bílnum vestur og bíður nú spenntur eftir myndum af hinum grunaða Gerlach-bíl. Verða fluttar nánari fréttir af málinu hér á heimasíðunni um leið og þær berast. [23.02]ösVíða kviknar fornbílaáhuginn

Eftir að Fornbílaklúbburinn setti Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í Laugardal á sumardagskrá sína hafa starfsmenn garðsins smitast af fornbílaáhuga. Nýlega keypti markaðsstjóri garðsins Einar Þór Karlsson forláta Land Rover af árgerð 1964 sem lengstan sinn aldur hefur verið norður í Eyjafirði. Bíllinn er allur hinn besti og hyggst Einar ganga í klúbbinn á næstu dögum og taka þátt í ferðum klúbbsins næsta sumar. [21.02]ös


Sumarstaður klúbbsins ákveðinn

Eftir að fréttist að AK-Inn hefði lokað eftir síðustu áramót hafa formenn Ferðanefndar og Félaganefndar verið að leita eftir hentugum samkomustað fyrir félaga í sumar. Margir staðir voru upp á borði en einn stóð upp úr og var farið í viðræður við Árbæjarsafn. Formaður Ferðanefndar, Einar J. Gíslason, hóf viðræður við safnið og var frábærlega vel tekið og nú er búið að semja við Árbæjarsafn um afnot af einu húsi þar í sumar.. Húsið sem um ræðir er neðsta svarta húsið (næst Höfðabakkabrú) og fáum við efri hæðina fyrir okkur, þar er eldhúsaðstaða og möguleiki á myndasýningum ef svo ber undir. Þar verður opið frá kl. 20.30 til 23.30 alla þá miðvikudaga sem eru merktir AK-Inn á dagatalinu. Þeir félagar sem mæta á sínum fornbílum, fá að aka niður að húsinu svo ekki þarf að skilja þá eftir á bílastæðinu. Þær aukaferðir sem eru á dagatalinu, miðvikudögum) verða farnar frá Árbæjarsafni og jafnvel fleiri. Þessi sumarstaður okkar býður upp á marga nýja möguleika sem ennþá er verið að skoða og verða kynntir betur síðar meir. [17.02]jsl


Nýr Stjörnu-vefur

Stjarna.is opnaði um síðustu helgi nýtt útlit á vefnum sínum og er ekki annað hægt að segja en hann sé glæsilegur. Stjörnu klúbburinn byrjaði sem áhugamál nokkurra Mercedes-Benz fornbíla eigenda en þróaðist út í klúbb sem heitir í dag Mercedes-Benz klúbbur Íslands, og er opinn fyrir alla eigendur og áhugamenn Mercedes-Benz. Klúbburinn er nú orðinn aðili að Mercedes Benz Classic Car Club International (MBCCCI), sem er alþjóðlegt klúbbasamband á vegum Daimler-Chrysler. Sterk tengsl eru á milli þessa klúbbs og FBÍ þar sem margir félagar eru í báðum klúbbum og nokkrir þeirra mjög virkir í starfi beggja klúbbanna. [16.02]jsl


Hefur þú flutt nýlega?

Nú er búið að setja upp form á fornbill.is til að tilkynna okkur breytingar á heimilisfangi félaga. Það er nauðsynlegt fyrir alla aðila að hafa félagaskrá sem réttasta, svo félagar fái Skilaboð á réttum tíma, og eins sparar það okkur leit að nýju heimilisfangi viðkomandi félaga þegar póstur til þeirra kemur endursendur til okkar. Formið er að finna undir valinu Starfsemi FBÍ, "Senda inn breytt heimilisfang". [15.02]jslFlugbílar

Alveg frá lokum fyrri heimstyrjaldar hafa komið margar hugmyndir um bíla sem geta flogið. Margar af þessum hugmyndum voru gjörsamlega ónothæfar, en nokkrar náðu það langt að tilraunaútgáfa var smíðuð og prufuð. Sumar útfærslurnar virkuðu hvorki í lofti né á vegum en örfáar gátu flogið og hefðu kannski geta orðið nothæfar, en það vantaði alltaf fjársterka aðila sem kæmu að áframhaldandi þróun og framleiðslu. Í mörgum kvikmyndum sem voru gerðar á árunum 1950 - 1960 var framtíðarsýnin sú að allir höfðu sinn flugbíl sem leysti öll umferðarvandamál og flugu sjálfir til þeirra staða sem fólk vildi ferðast til. Fyrir mitt leyti mundi ég frekar vilja að menn keyrðu á ljósastaur á jörðu niðri heldur en að hrapa á húsið mitt ef þeir misstu vald á (flug)keyrslunni. Enn í dag er verið að gera tilraunir með flugbíla en áherslan orðin á flugvél sem er líka nothæf sem ökutæki. Hérna er grein um þessar tilraunir og eins heimasíða Paul Moller sem hefur verið að þróa flugbíla síðustu áratugina. [14.02]jslHraðskreiði geitungurinn sem stakk hina þrjá stóru (af)

Í dag, 11. febrúar, eru nákvæmlega 54 ár síðan að Marshall Teague vann glæstan sigur á 250 km langri Daytona brautinni í Flórída á Hudson Hornet-bíl sínum (Hornet = geitungur) og hóf þannig þriggja ára samfellda sigurgöngu Hudson á NASCAR. Árið 1948 hóf Hudson framleiðslu á hinum sögufræga "step-down" eða kjallarabílnum, sem hafði sjálfberandi grind og mun lægri þyngdarpunkt en bílar samkeppnisaðilana. Þetta bætti aksturseiginleikana til muna og ekki var verra að hafa 5 lítra 308 kúbika sex strokka línusleggju, sem skilaði þessum bílum vel áfram, að vísu með skelfilegri eldsneytisbrennslu. Í kjölfar sigursins hjá Teague lögðu forsvarsmenn Hudson mikla áherslu á stuðning við þá NASCAR-keppendur sem brúkuðu Hudson-bíla og nýttu sér síðan orðstýrinn óspart í auglýsingum. Því miður dugði það skammt í samkeppninni við V-8 vélarnar sem tröllriðu öllu vestanhafs um miðjan sjötta áratuginn. Nákvæmlega sjö árum eftir þennan góða árangur, eða þann 11. febrúar 1958, fórst Marshall Teague á Daytona-brautinni aðeins 37 ára að aldri. Hér eru nokkrar góðar NASCAR-myndir. [11.02]ösÓöruggur á öllum hraða í 40 ár

Nú eru 40 ár liðin síðan hin umdeilda bók neytendafrömuðarins Ralph Nader, Unsafe at Any Speed, kom út í Bandaríkjunum. Í bókinni réðst Nader harkalega á bandaríska bílaframleiðendur og ásakaði þá um að legga allt of litlar áherslur á öryggiþætti bíla. Á þessum tíma fórust 40.000 einstaklingar árlega í bílslysum, tala sem auðvelt var að lækka með bættu öryggi. Í Evrópu höfðu Volvo og Mercedes Benz forystu um að auka öryggi ökumanna og farþega, en Volvo byrjaði að setja öryggisbelti í alla bíla sína fyrir 1960. Ralph Nader réðst með kjafti og klóm gegn rassmótorbílnum Chevrolet Corvair, sem átti slysamet í Bandaríkjunum. GM snéri vörn í sókn, njósnaði um Nader og ásakaði hann um samkynhneigð og gyðingahatur. Nader lögsótti iðnaðarrisann og fékk 425.000 dollara í skaðabætur. Árið 1966 voru bílbelti síðan lögleidd í Bandaríkjunum. [10.02]ösGóð tíðindi úr Elliðaárdal

Síðasta fimmtudag var langþráðu marki náð þegar borgarstjórn Reykjavíkur tók endanlega ákvörðun um að úthluta Fornbílaklúbbnum lóð í Elliðaárdalnum undir fornbílasafn og félagsheimili. Auk þess ákvað borgarstjórn að styrkja klúbbinn um 16,6 milljónir króna vegna verkefnisins. Nú hefur arkitekt klúbbsins verið falið að klára teikningu hússins svo framkvæmdir geti hafist í vor. Að sögn formannsins, Sævars Péturssonar, var þetta langþráð stund í sögu klúbbsins, stund sem beðið hefur verið eftir í nokkur ár. Margt hefur tafið málið, einkum þó endalaus dráttur borgaryfirvalda á að samþykkja byggingarleyfi á þessari verðmætastu lóð borgarinnar. Nánari upplýsingar um málið verða birtar síðar hér á heimasíðunni og í Skilaboðunum.[09.02]ösVolvo á kvikmyndakvöldi á morgun!

Nú eru nærri 80 ár liðin síðan að frændur okka Svíar hófu framleiðslu á Volvo-bílum, en þeir hafa löngum verið í hávegum hafðir fyrir gæði og endingu. Til marks um það má enn sjá á götum Reykjavíkurborgar 40 ára gamla Amazon-bíla í fullri notkun allan ársins hring. Á kvikmyndakvöldinu á morgun, miðvikudaginn 9. febrúar, verður sýnd klukkustundarlöng heimildarkvikmynd um sögu Volvo, sem nær allt aftur til ársins 1927. Sýningin hefst stundvíslega klukkan 21.00 og gert verður gott kaffihlé. [08.02]ösVolvo-vikan hafin

Þegar Buick-vikan var haldin hér á heimasíðunni fyrir skömmu bárust ábendingar um að horft yrði örlítið meira til austurs. Því var ákveðið að taka stefnuna á frændur okkar Svía sem lengi hafa framleitt öndvegisbíla af gerðunum Volvo og SAAB. Volvo á sér marka sterka áhangendur meðal félaga Fornbílaklúbbsins og ekki eru þeir síðri erlendis eins og glöggt má sjá á þessari heimasíðu. [07.02]ös


Myndir af vængjum

Þar sem 57 ár eru liðin frá því að fyrstu vængirnir voru kynntir á Cadillac, er fínt tilefni til að skoða nokkar myndir af vængjum. Fyrst voru þetta bara smá stubbar en fóru stækkandi með árunum og síðustu árin voru bílarnir orðnir sæmilega flughæfir, en þetta voru líka árin sem bílar voru bílar, ekki eins og í dag, litlar plastdósir sem eru allar eins fyrir utan tegundarmerkið. Cadillac var alltaf með flottustu vængina og var jafnvel kominn mikill rígur á milli nágranna um hvor væri með stærri vængi á sínum bíl. Vængjatímabilið leið undir lok á árinu 1960. Flestar ef þessum myndum eru af Cadillac ´59 og ´60. [04.02]jslSumarfrí í Englandi eða Evrópu?

Ef svo er, af hverju ekki að leigja fornbíl til að ferðast í. The Grand Touring Club sér um að skipuleggja ferðir og leigir út fornbíla. Það er hægt að leigja bara bíl og fara sínar eigin leiðir, eða leigja bíl og fá skipulagða ferð þar sem maður fær ferðalýsingu á kortum og valda gististaði. Einnig eru þeir með skipulagðar hópferðir á ýmsar fornbílasamkomur. [03.02]jslSafn með sögu

Schlumpf Museum er stórt og sérstakt fornbílasafn í Frakklandi. Safnið byrjaði sem söfnunarástríða tveggja bræðra sem ráku vefnaðarverksmiðju. Fyrstu bílana eignuðust þeir á árunum 1950 til 1960 og upp frá því var ekki aftur snúið. Árið 1960 var farið í innkaup, 10 Bugatti, 2 Hispano Suiza, og 3 Rolls-Royce, fyrir utan marga aðra, í allt 40 bíla. Svo gekk þetta næstu árin, þar til verksmiðjan fór að ganga illa og þeir bræður komust í þrot. Eftir að verksmiðjan lokaði var í nokkur ár verið að þjarka um hvernig og hver ætti að selja safnið til þess að greiða skuldir, fyrir rest var ákveðið að opna safnið fyrir almenning og á næstu tveimur árum sóttu það 800 þúsund manns. Nokkrir aðilar tóku sig saman til þess að bjarga safninu en það gekk frekar illa. Árið 1999 tók nýr aðili við því og eftir að hafa tekið húsnæðið í gegn og enduruppsetningu var það opnað á ný ári seinna. Safnið er með 400 bíla til sýnis og aðra 120 sem bíða eftir plássi. Hérna er hægt að lesa meira um sögu safnsins og eins heimasíða þess. [02.02]jsl


Alexandra Palace Frá Birmingham
Sýningar á næstunni

Allt árið eru einhverstaðar fornbílasýningar, sú fyrsta í Englandi er í enda mars, í Alexandra Palace. Nokkuð góð sýning sem er búin að vera á sama stað í tugi ára í einu úthverfi London. Tilvalið að skreppa á þá sýningu og vera síðan páskana í stórborginni. Mánuði síðar er stór sölusýning í Birmingham (1½ tími frá London í lest). Einnig í apríl er á dagskrá Techno Classica í Essen, Þýskalandi. [01.02]jsl