Eldri fréttir - Janúar 2005


Nýjar gamlar bílamyndir

Nú er verið að vinna í myndasafni klúbbsins og koma þeim smá saman á netið. Búið er að yfirfara og bæta við rúmlega 60 myndum á kaflan Gamlar bílamyndir og verður bætt við slatta af myndum í hverjum mánuði, eftir því sem tími leyfir. Minnkuð útgáfa er öllum opin, en ef smellt er á mynd þá opnast hún í nýjum glugga og þarf að nota aðgangsorð FBÍ félaga til að geta séð hana. Stefnt er að hafa smá upplýsingar við hverja mynd og eins er þar tengill til að senda okkur upplýsingar um viðkomandi bíl. Ein ný viðbót á síðunni okkar er sú að ef bendill er færður yfir merki klúbbsins þá sjást næstu sex dagskrárliðir, ef smellt er á merkið er farið beint í Dagatal FBÍ, sem er alltaf með nýjustu upplýsingar um alla dagskrá klúbbsins. [31.01]jsl"Woodies"

Hérna er smá helgarlesning í 10 stuttum greinum um "Woodies", bílum sem hafa viðarklæðningu á hliðum og almennt um viðar notkun í bílum. From Woodies to Boattails [28.01]jslPontiac GTO og DeLorean

Og nú spyr einhver, hvað eiga þessir bílar sameiginlegt ? Jú það var sami maður sem stóð að baki þeim báðum. John Zachary DeLorean var um tíma yfirmaður Pontiac deildar GM og sá fyrir sér markað fyrir kraftmikinn götubíl, og úr varð Pontiac GTO. Seinna meir stofnaði hann DeLorean og sett þann fræga bíl á markað. Söguna vita flestir, en hann var ásakaður um stórfellt svindl og jafnvel fíkniefna smygl og fyrirtæki hans fór á hausinn. Seinna meir kom í ljós að flestar, ef ekki allar, ásakanir á hendur honum voru stórlega ýktar eða tilbúnar, en það var of seint til að bjarga DeLorean. Hér er hægt að lesa smá greinar um þessa bíla báða sem eru í dag eftirsóttir af bílaáhugamönnum, Pontiac GTO og DeLorean. [27.01]jslSígandi lukka er best

Í síðustu viku sýndi klúbburinn góða heimildarmynd um Buick, en því ágæta vörumerki tengdust margir góðir menn, m.a. David Dunbar Buick, Louis Chevrolet, Walter P. Chrysler, Charles Nash og síðast en ekki síst guðfaðir General Motors, William Durant. Þrír þessara manna áttu eftir að auðgast hratt en deyja fátækir: Buick, Chevrolet og Durant, en hinir tveir, Chrysler og Nash, auðguðust hægt en verulega og áttu náðugt ævikvöld. Það hefur löngum verið álitið gott dæmi um kaldhæðni örlaganna að Louis Chevrolet var í mörg ár óbreyttur verkamaður í þeirri verksmiðju sem framleiddi bíla með hans eigin nafni. [26.01]ösVolvo P-1800 45 ára

Í dag eru nákvæmlega 45 ár síðan að Volvo frumsýndi frumgerðina að P-1800 sportbílnum, sem átti eftir að njóta töluverðra vinsælda, einkum eftir að Símon nokkur Templar tók að aka um á einum slíkum í myndaflokknum um Dýrðlinginn. Nokkrir P-1800 bílar slæddust til Íslands á árum áður og nú eru að minnsta kosti þrír til í landinu. Fyrstu bílarnir voru smíðaðir hjá Jensen-bílasmiðjunum á Englandi en síðan var framleiðslan alfarið flutt yfir til Gautaborgar. Hér eru nokkrir fróðleiksmolar um P-1800 fyrir þá sem vilja fræðast nánar. [24.01]ösAldarafmælishátíð Buick 2003

Fyrir tæpum tveimur árum, sumarið 2003, var haldin gríðarmikil afmælishátíð í heimabæ Buick, Flint í Michiganríki, þar sem samankomnir voru eigendur hundruða Buick-bíla á öllum aldri til að halda upp á aldarafmæli þessa merkilega bílaframleiðanda. Hér eru skemmtilegar myndir frá afmælishátíðinni. [21.01]ösPark Avenue í hálfa öld

Flestir tengja nafnið Park Avenue við New York eða Buick, en fyrsti aðilinn til að nota þetta götuheiti á bíl var reyndar Cadillac. Í dag eru nákvæmlega 50 ár síðan að Cadillac Park Avenue sýningarbíllinn var frumsýndur á New York Motorama-sýningunni sem haldin var á Waldorf-Astoria hótelinu. Park Avenue var frumgerð hins glæsilega Eldorado Brougham, sem lengi hefur verið flaggskipið frá Cadillac. [19.01]ösBuick á kvikmyndakvöldi

Á árum áður voru Buick-bílar þeir flottustu á götum Reykjavíkur og oftar en ekki stöðutákn embættis- og viðskiptamanna. Annaðkvöld verður sýnd klukkustundar löng heimildarkvikmynd um þessa merkilegu bílgerð og til að gefa mönnum nasasjón af því sem þeir munu sjá í kvöld, eru hér nokkrar góðar Buick-ljósmyndir. Kvikmyndasýningin hefst stundvíslega klukkan 21.00 og gert verður gott kaffihlé. [18.01]ös
Buick-vikan hafin

Nú er Buick-vika hafin hjá Fornbílaklúbbnum, en hátindur hennar verður á miðvikudagskvöldið. Eins og margir vita þá var það Buick-bíllinn sem lagði grunninn að stórveldi General Motors, en það var árið 1903 sem hinn skoskættaði íbúi Detroit-borgar, David Dunbar Buick, stofnaði fyrirtæki sitt Buick Motor Car Company. Árið 1905 tókst William Durant að sölsa undir sig fyrirtækið og stofnaði GM þremur árum síðar, en þar hefur Buick síðan leikið eitt af aðalhlutverkunum. Í Bandaríkjunum er starfræktur firnasterkur Buick-klúbbur og hér eru myndir af bílum nokkurra meðlima hans. [17.01]ösHvað ertu að rækta í ár? Ford eða Chrysler ?

Svona brandarar sáust í blöðum um 1940 þegar Henry Ford var að kynna næstu byltingu í bílaframleiðslu = yfirbyggingu úr plasti unna úr sojabaunum. Henry var þegar árið 1928 farinn að hafa mikinn áhuga á hvað væri hægt að vinna úr ýmsum afurðum bænda og eins hvaða nýjar afurðir væri hægt að rækta. Um 1931 var hann kominn með áhuga á sojabaunum og hvað væri hægt að gera úr þeim. 1933 var farið að nota sojaolíu í bílalakk og til að smyrja steypumót ýmiskonar. Þegar Bandaríkin drógust inn í seinni heimstyrjöldina lagðist nánast öll bílaframleiðsla niður og hættu þá um leið þessar tilraunir. Í þessari grein er hægt að lesa meira um þessar tilraunir og þátt Henry Ford í sojaræktun. Myndirnar sýna Henry í fötum gerðum úr soja-afurðum og þegar hann sýnir styrk plastsins með exi. [14.01]jslFræðsluferð í gær

Í gærkvöldi var farin fræðsluferð í Borgarholtsskóla þar sem þeir Ingibergur og Kristján, kennarar í bílgreinum, tóku á móti félögum og sýndu kennsluaðstöðu skólans. Var farið vel yfir allar þær greinar sem kenndar eru, en Borgarholtsskóli er eini skólinn sem kennir til meistaranáms í bílgreinum. Nokkrar myndir eru komnar á Myndasíðu og eins hér fyrir félaga. [13.01]jsl


MG Iceland

" An exciting new trip to the land of ‘fire and ice’. Bathe in the natural springs of the Blue Lagoon, go whale spotting and see some of the most dramatic landscapes and natural phenomena the planet has to offer."
Svona er auglýst fyrirhuguð ferð MG eiganda til landsins í sumar. Áætlun þeirra er að vera frá 11. til 25. ágúst í hringferð um landið og síðustu upplýsingar um bókanir lofuðu nokkuð góðri þátttöku. Ferðanefnd hefur verið í sambandi við fararstjóra þeirra MG manna og er fyrirhugaður kvöldrúntur með þeim eða önnur dagskrá. Við munum kynna þetta betur þegar nær dregur. [12.01]jslUm litaval á fornbílum

Ein af þeim umræðum sem oft fer fram innan veggja klúbbsins er val á litum á fornbíla. Þar sem þessi ökutæki eru stolt eigenda sinna og stássmunir er oftar en ekki spáð töluvert í þessa hluti, hvort sem menn eru að kaupa bíl að utan eða að undirbúa sprautun á nýuppgerðum fornbíl. Einhver meginregla hefur myndast um þessa hluti t.d. sú að sportbílar, eða sportlegir fólksbílar, eiga t.d. helst ekki að vera svartir á litinn, heldur í björtum eða skærum litum. Svarti liturinn á hins vegar heima á 4ra dyra bílum og það helst af stærri gerðinni. Hvernig litist mönnum t.d. á að sjá Studebakerinn á meðfylgjandi myndum alsvartan? Það er varla nokkur spurning að guli liturinn gerbyltir útliti hans. [10.01]ösBæklingar, bækur og blöð

Ertu að leita að bók yfir bílinn þinn eða sölubæklingi? Kannski vantar handbókina eða tæknilýsingar. Ef svo er þá gæti kannski McLellan's Automotive History hjálpað. Þeir sérhæfa sig í sölu á prentuðu efni um bíla og bjóða eingöngu upprunalegt efni, ekki eftirprentanir, og allt efni hjá þeim er vandlega skoðað áður en það fer í sölu. Allt efni er geymt í sérhönnuðu húsnæði þar sem hita og rakastigi er haldið jöfnu og allt sent í kassa en ekki í umslagi. Grúskarar ættu örugglega að finna þarna eitthvað sem þeim vantar í safnið sitt. www.mclellansautomotive.com [07.01]jsl


Ak-inn hættir

Eins og síðustu sumur var áætlað að hittast á Ak-inn, en nú er komið í ljós að um áramót var staðnum lokað og ekkert sem bendir til þess að nýr aðili taki við. Við munum að sjálfsögðu fylgjast með hvort nýr aðili opni þarna á næstu mánuðum, en það stefnir allt í að það þurfi að finna nýjan stað fyrir sumarið. Sá guli á þakinu er víst til sölu ef einhver hefur áhuga og er hægt að sjá meira um það hér. Allar tillögur um nýjan stað eru vel þegnar. [06.01]jsl


Uppgerður eða "original" ?

Oft verða heitar umræður milli fornbílafólks þegar farið er að ræða um uppgerð á bílum. Fyrir nokkrum árum var mikið rætt um að fornbílar yrðu að vera "original" til þess að vera gjaldgengir, en aðrir vildu bara að þessar "druslur" virkuðu og skipti ekki máli hvort vél og annað væri upprunalegt. Seinni ár hefur samt borið meira á þeirri skilgreiningu að hafa viðkomandi bíl sem upprunalegastan, sem sagt bíllinn er eins og hann kom frá verksmiðju eða litur, innrétting, vél og annað sé lagfært eða endurgert og haft eins og var í viðkomandi tegund. En þá erum við komnir að smá vandamáli, á bíll sem er t.d. 40 ára að vera eins og nýr eða jafnvel betri? Er ekki hægt að gera bíl það mikið upp að hann er búinn að tapa sínum karakter? Bíll sem hefur verið gerður upp frá grunni, hvað er mikið eftir af upprunahlutum í honum? Hvernig á að skilgreina hann, "original", sem upprunalegastur eða endursmíðaður? Þegar jafnvel 40-70% er endursmíð eða nýir hlutir, er hann þá ennþá fornbíll bara af því að hann er eins og mynd af sömu árgerð? Almennt er litið svo á, en við megum þá ekki gleyma því að þeir eru oft litnir hornauga sem taka gamla bíla og breyta þeim í "hotrod" eða setja krómfelgur undir og annað sem tilheyrir yngri árgöngum fornbíla, þeir eru oft meira "original" en þessir uppgerðu. Sem betur fer eru þessar umræður oftast á léttum nótum en aðalmálið er að allir hafi gaman af þessu áhugamáli og taki tillit til sjónarmiðs hvors annars. Kveikjan að þessum vangaveltum er þessi grein, en þar er reynt að flokka niður fornbíla: Upprunalegur, uppgerður eða breyttur. [05.01]jsl


Bíla-bíómyndir

Oft finnst fornbílaáhugafólki gaman að sjá myndir þar sem mikið af bílum koma við sögu eða hafa sérstök bílaatriði sem lifa lengi í minningunni. Flestir eiga sínar uppáhaldsmyndir, oft hefur verið reynt að búa til lista yfir þær bestu. Í grein einni sem við rákumst á, eru taldar upp þær 10 myndir sem greinarhöfundur telur þær bestu og er smá lýsing á þeim. Ekki ætlum við að dæma þennan lista, en það er alltaf gaman að sjá hugmyndir annarra um góðar myndir. Top 10 Vintage Car Movies [03.01]jsl