Eldri fréttir - Desember 2004


Fréttasíðan er nú komin í jólafrí fram yfir áramót. Næstu fréttir verða þann 3. janúar 2005.
Óskum öllu fornbílafólki gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.Fortíðarljóminn í samvinnu við markaðsöflin

Í framhaldi af góðri frétt gærdagsins má geta þess að fornbílaáhuginn er bróðir fortíðarljómans, sem lýsir sér einkum í áhuga manna á að endurupplifa eldri tíma. Þá taka menn sig til og kaupa draumabíla æsku sinnar eða samskonar bíla og þeir voru aldir upp í eða dásömuðu á götum æskustöðvanna. Þetta birtist vel í verðlagningu fornbíla, sem virðist ganga eins og bóla á línuriti í gegnum áratugina. Nú er sú kynslóð fornbílamanna sem dýrkaði fyrirstríðsbíla hægt og rólega að fjara út og þessir bílar eru aftur að koma inn á markaðinn, mun ódýrari en áður. Að sama skapi er verðlagning bíla eftirstríðsáranna aðeins að lækka, en kraftabílar sjöunda áratugsins að sama skapi að hækka, enda ungdómsmenn þess tíma komnir til aldurs og aura. Þó eru alltaf undantekningar frá þessari reglu, enda sumir fornbílar merkilegri en aðrir. [22.12]ös


Vinsælasta áhugamálið 2005 = fornbílar

Samkvæmt grein einni er spáð enn meiri ásókn fólks í að eiga og gera upp eldri bíla. Núna er komin ný kynslóð sem horfir til bíla frá sínum æskuárum, árin líða og bílar sem ekki þóttu spennandi fyrir nokkrum árum, eru nú orðnir fornbílar. Margir eru farnir að skoða japönsku bílana og ekki seinna vænna svo að þeim tegundum verði bjargað líka. Í vesturheimi er farið að minnka framboðið af ´50 og ´60 árgerðum og verðið að hækka, jafnvel er farið að bera á hækkun á bílum frá árunum ´70 til ´77, svo áhugafólk er farið að skoða fleiri möguleika. Eldri trukkar, sendibílar og pallbílar eru alltaf að verða vinsælli efniviður til uppgerðar. Fornbílaáhugamálið er alltaf að verða vinsælla og ekki lengur litið á það sem eitthvað áhugamál sérvitringa. Á hverju ári fjölgar sýningum og samkomum fornbíla, og miðað við fréttir af þeim þá er nýtt aðsóknarmet sett á hverju ári. Hér heima finnum við fyrir stöðugt meiri áhuga fólks á þessu áhugamáli, bæði í aukningu félaga í þessum klúbbi og eins óskum eftir fornbílum til að mæta við ýmis tækifæri. Auðvelt er að sjá á greinum í blöðum að almennt er áhugi á gömlum bílum, þar sem varla líður sú vika án þess að fjallað sé um fornbíla. Fólk í ferðamannaþjónustu er farið að biðja um upplýsingar um sumarferðir okkar svo hægt sé að miðla því til ferðamanna, og eins hvar sé helst að sjá bílana. Miðað við þann innflutning sem hefur verið í haust og vetur af fornbílum þá ætti flotinn að vera ennþá glæsilegri þegar sumarkeyrslur hefjast aftur, sérstaklega ef við förum að sjá aftur marga af þeim bílum sem hafa verið í hvíld síðustu ár. [21.12]jslBlackhawk safnið

Í Danville, Kaliforníu, er Blackhawk safnið sem sérhæfir sig í sögufrægum og sérsmíðuðum fornbílum. Nýlega bættist í safnið þeirra 1923 Rolls-Royce Silver Ghost Oxford, en fyrir er á safninu 1911 Rolls-Royce Model 40/50 Silver Ghost. Meðal annarra fornbíla er 1924 Hispano-Suiza Model H6C "Tulipwood" Torpedo sem var sérsmíðaður fyrir Andre Dubonnet (vínframleiðandi), 1936 Dusenberg model SJ, 1936 Auburn model 852 Cabriolet sem var í eigu Maurice Chevalier, 1935 Duesenberg Model JN sem Clark Gable átti og síðan 1929 Mercedes-Benz Model S sem Al Jolson átti. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessu safni. [20.12]jslFornbílar yngri kynslóðarinnar

Þegar jólin nálgast eru eflaust nokkrir að skima eftir fornbílum handa fornbílamönnum framtíðarinnar, en slíkir fótstignir vagnar hafa lengi verið framleiddir. Þegar litið er aftur til áranna eftir síðari heimsstyrjöld kemur á óvart hvað mikið var framleitt af slíkum leikfangabílum, en það kemur enn meira á óvart hvað þessi gömlu leikföng eru hrikalega dýr á safnaramörkuðum. Nokkuð er hins vegar um endurgerðir, en þær eru heldur ekki í ódýrari kantinum. Hér er skemmtileg heimasíða tileinkuð þessari gerð fornbíla. [17.12]ösLifandi bílasöfn þrífast best

Mörg eru heimsins bílasöfn og misjöfn eru þau að gæðum. Það er hins vegar samdóma álit bílaáhugamanna að þau söfn sem skipta oft um bíla séu líflegust og þess virði að heimsækja þau sem oftast. Volo Auto Museum í Illinois-ríki er skemmtilegt sambland af fornbílasafni og fornbílasölu, þannig að reikna má með töluverðri hreyfingu á sýningargripunum 300 á hverju ári, enda má oft sjá auglýsingar frá þessu safni í ýmsum fornbílablöðum og á netinu. Hér er grein um safnið og myndamappa með hinum fölu fornbílum. [16.12]ösHvað fær fornbíllinn í jólagjöf ?

Ertu búinn að finna jólagjöf handa fornbílnum þínum? Ef ekki þá er klúbburinn búinn að fá ný vönduð grillmerki. Þetta grillmerki ásamt lyklakippu verður á tilboði til jóla á aðeins 3000 krónur. Hægt er að kaupa það hjá Rudolf gjaldkera í síma 565 9100. Sendum líka í póstkröfu fyrir þá sem það vilja. Það er hætt við að ljósin dofni á öðrum bílum næsta vor, þegar þeir sjá hvað þú hefur gefið þínum bíl í jólagjöf !Fyrsta mótorhjólið komið aftur

Fyrsta mótorhjólið er nú komið aftur til landsins. Hjól þetta er af svissneskri gerð er nefndist Motosacoche en var selt undir nafninu ELG í Danmörku. Þar fann Njáll Gunnlaugsson, höfundur nýrrar bókar um 100 ára sögu mótorhjólsins, hjólið á safni og fékk það lánað til landsins. "Leiða má líkum að því að þetta sé sama hjólið og Þorkell Clemenz flutti til landsins fyrir næstum 100 árum síðan" segir Njáll. "Hjólið er af 1903 árgerð og var prufueintak hjá söluaðila þess í Danmörku. Þorkell hugðist selja hjólin einnig hérlendis undir ELG nafninu og flutti það inn 19. júní 1905, líklega með því að fá það lánað hjá umboðinu. Á hjólinu sem við fengum frá Tækniminjasafni Danmerkur er númeraplata sem á stendur að hjólið sé reynsluaksturseintak og þess vegna getur vel verið að hér sé um sama hjólið að ræða" segir Njáll ennfremur. Hjólið verður til sýnis í Pennanum Hallarmúla fram að jólum en verður svo á sérstakri afmælissýningu á samgönguminjasafninu á Skógum um páskana. [13.12]jslStarfsafmæli Iacocca hjá Ford

Þennan dag árið 1970, fyrir sléttum 34 árum, tók undrabarnið Lee Iacocca við stjórnartaumunum hjá Ford. Lee byrjaði sem verkfræðingur hjá Ford rétt eftir stríð en var fljótlega færður yfir í markaðsdeildina, þar sem hann átti m.a. þátt í að skapa Fairlaine-bílana um miðjan sjötta áratuginn og Mustanginn tíu árum síðar. Eitthvað hefur farið illa á með honum og Henry Ford yngri, því árið 1978 var honum vísað á dyr hjá Ford. Leiðin lá yfir til Chrysler, sem þá átti í miklum fjárhagserfiðleikum, framleiðandi bensínþyrsta dreka á tímum olíkreppu. Iacocca gaf skipun um framleiðslu sparneytinna bíla og fjölnotabíla sem skiluðu góðum arði, þannig að Chrysler var aftur kominn á beinu brautina nokkrum árum síðar. [10.12]ösStudebaker geispar golunni

Fyrir nákvæmlega 41 ári síðan var síðasti bandaríski Studebakerinn framleiddur í verksmiðjum fyrirtækisins í South-Bend í Indianaríki. Árið 1852 hófu Studebaker-bræður framleiðslu hestvagna og töldust því elstu ökutækjaframleiðendur heims þegar fyrirtækið lognaðist útaf. Studebaker kom fram með marga merkilega bíla á ferli sínum og eigum við Íslendingar nokkra glæsilega minnisvarða, m.a. Studebaker Erskine árgerð 1927 og Studebaker President árgerð 1955, svo og nokkra vörubíla. Egill Vilhjálmsson hafði lengst af umboð fyrir þessa bíla hérlendis, en hann var einmitt eigandi ofangreinds Erskine-bíls. [09.12]ösKraftavagnar ganga í endurnýjun lífdaga

Nú bregður svo við á fornbílamarkaði vestanhafs, að hinir svokölluðu kraftavagnar sjöunda áratugsins, eða Muscle-cars, eru að verða með þeim allra dýrustu. Greinilegt er að þeir sem spenntastir voru fyrir þessum bílum, karlmenn sem nú eru að nálgast fimmtugt, hafa loks efni á að láta gamla drauminn rætast. Þegar þessir ágætu vagnar voru nýir þóttu þær æði sprækir en alls ekki öruggir miðað við núgildandi kröfur. Því hefur það færst í aukana hjá aurameiri áhugamönnum, að þeir hafa látið betrumbæta bílana stórlega með betri bremsum, jafnvel ABS, jafnvægisstöngum og auknum öryggisbúnaði innandyra, svo sem öryggisbeltum, loftpúðum og tilheyrandi dóti. Hér eru myndir af glæsilegustu kraftavögnunum frá GM: Camaro og Firebird. [08.12]ösFornbílar á Selfosssýningu

IB-bílar á Selfossi, sem um árabil hafa verið öflugir á sviði fornbílainnflutnings, verða með bílasýningu í höfðustöðvum sínum helgina 18. - 19. desember. Þar verður meðal annars frumsýndur stórglæsilegur Buick Roadmaster árgerð 1956, sem í þessum rituðu orðum er að koma til landsins frá New Jersey í Bandaríkjunum. Hefur honum einungis verið ekið 40.000 mílur frá upphafi og er fyrirmyndar fornbíll í alla staði að sögn forsvarsmanna IB-bíla á Selfossi. Það óneitanlega gleðilegt að sjá svo marga fornbíla koma til landsins þessa dagana, en þar skiptir að sjálfsögðu höfuðmáli afar hagstætt gengi bandaríkjadals ásamt lágum aðflutningsgjöldum. [06.12]ösCitroën DS

Þegar Citroën DS kom á markað árið 1955 þótti hann framúrstefnulegur þó ekki meira sé sagt. Mörgum fannst hann vera eitthvað furðufyrirbæri en Frakkar tóku honum með miklum ákafa og á fyrsta degi seldust 12.000 bílar og ennþá í dag eru margir sem telja hann eina mestu byltingu í bílaframleiðslu. Til að byrja með þótti hann vera aflvana en það breyttist seinna meir þegar vél var stækkuð, mörgum þótti hann erfiður í viðgerðum, en það var kannski fyrst og fremst af því að menn voru ekki vanir ýmsum sérútfærslum frá Citroën verksmiðjunum. Nokkrir eru hér á götunni af seinni árgerðunum, en fréttasíðan veit ekki hvort fyrsta árgerðin sé til hér. Hérna er smá grein um Citroën DS og önnur síða um hann. [03.12]jsl


V-8 vél verður til

Þann 2. desember fyrir 102 árum sótti frakkinn Léon-Marie-Joseph-Clement Levavasseur (1863-1922) um einkaleyfi fyrir nýrri bensínvél sem var átta strokka, en í stað þess að vera í línu var hún í "V". Vélar voru farnar að vera full langar til þess að vera hagkvæmar miðað við afl og hafði Levavasseur verið að vinna að þessari nýju hönnun frá 1900. Var hann sá fyrsti sem fékk skráð einkaleyfi vegna v-8 vélar og kallaði hann vélina "Antoinette". Levavasseur fékkst líka við hönnun og smíði flugvéla og voru vélar hans notaðar í mörgum þeirra. Hérna er hægt að lesa meira um Levavasseur og eins um eina flugvél hans. [02.12]jsl