Eldri fréttir - Nóvember 2004


Krómhúðun

Oft lenda fornbílamenn í því að þurfa að senda erlendis hluti til krómunar, en nú gætu verið nýir tímar í vændum. Jóhann Bjarki Júlíusson er byrjaður að bjóða þessa þjónustu, þó aðallega fyrir smærri hluti í byrjun, en stefnir á að geta tekið að sér stærri verkefni. Fréttasíðan hefur ekki spurnir af hvernig tekst til, en flestir vita að krómun er vandasamt verk og þarfnast góðs undirbúnings og vönduð vinnubrögð. Þeir sem vilja kynna sér þetta betur er bent á að skoða heimasíðu www.krom.is. [30.11]jslMerkileg uppgötvun

Í leiðangri sínum vestur um haf á haustmánuðum dvaldi undirritaður tvo daga í skjalasafni Detroit-borgar við leit að gögnum vegna nýrrar bílabókar, sem nú er í undirbúningi og áætlað er að gefin verði út haustið 2005. Við grúskið á skjalasafninu kom margt merkilegt í ljós, meðal annars gamlar bílaauglýsingar með íslenskum texta. Eru þessar auglýsingar flestar í heilsíðu tímaritsstærðum þess tíma (ca 25 x20 cm) og nær allar í fullum litum, sem telst einsdæmi hvað íslenskar auglýsingar varðar. Ekki er vitað með vissu hvort að þessar auglýsingar voru birtar hér heima á sínum tíma, en fullvíst er talið að þær hafi verið hannaðar af auglýsingadeildum bílaverksmiðjanna með íslenskan markað í huga. Þessar auglýsingar, ásamt mörgu öðru forvitnilegu, munu birtast í ofangreindri bók þegar hún kemur út á næsta ári, en hún verður sjálfstætt framhald Íslensku bílaaldarinnar sem kom út á síðasta ári. [29.11]ös


Saga bílsins á Íslandi 1904-2004
Jólabók fornbílamannsins

Nú er sala á bókinni Saga bílsins á Íslandi 1904 - 2004 komin á fullt skrið, og má búast við að flestir sem hafa áhuga á fornbílum og bílum almennt fái harðann pakka í ár. Kynning á bókinni verður væntanlega næsta miðvikudagskvöld í Húnabúð, þar sem höfundurinn Sigurður Hreiðar Hreiðarsson mun fara yfir efni hennar, sýna nokkrar myndir og ræða við félaga. Í Sögu bílsins á Íslandi 1904-2004 er rakið upphaf bíla og bílaaldar á Íslandi. Fjallað er um stefnumótun í samgöngumálum þjóðarinnar þar sem baráttan stóð milli bílsins og járnbrautanna. Fylgst er með þróun bílaumboða á Íslandi og sagt er frá Bifreiðaeinkasölu ríkisins og árunum þegar bílar voru skömmtunarvara. Um allt land er að finna áhugafólk um sögu bílsins sem lét góðfúslega í té heimildir og ljósmyndir. Um 300 þeirra nær 400 mynda sem bókina prýða hafa ekki birst opinberlega áður og um helmingur hinna eru afar sjaldséðar. Allt er þetta kryddað með lifandi frásögnum og tilvitnunum í heimildir víðs vegar að svo lesandinn hefur í höndunum skemmtilegan og fróðlegan texta með fjölda áhugaverðra mynda ­ verðugan minnisvarða um öld bílsins á Íslandi. Bókin er 384 blaðsíður, í stóru broti.

Tilboðsverð fyrir FBÍ félaga er krónur 6.200
, almennt verð er 8.890. Til að nálgast bókina á þessu tilboðsverði er hægt að hafa samband við formann klúbbsins, Sævar Pétursson, í síma 587 3885 og 895 8195. [26.11]jsl100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi gefin út

Í gær kom út bókin "Þá riðu hetjur um héruð -- 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi" eftir Njál Gunnlaugsson ökukennara og bílablaðamann. Mótorhjól eru heillandi faratæki burt séð frá aldri þeirra eða tegund. Hér er fjallað um íslenska mótorhjólakappa og þeirra fáka frá öndverðu. Í bókinni er farið yfir 100 ára sögu mótorhjólsins á Íslandi í máli og myndum og komið víða við. Byrjað er á sögu fyrsta hjólsins og síðan fjallað um hjólin sem komu í kjölfarið. Fjölmargir einstaklingar koma við sögu. Margir þeirra fóru fyrstir ýmsar leiðir á vélknúnum ökutækjum og ruddu þannig brautina. Sérstaklega er fjallað um mótorhjól lögreglunnar og hernámsliðsins. Í bókinni eru yfir 200 myndir af mótorhjólum sem margar hafa aldrei birst áður á prenti. Njáll Gunnlaugsson hefur lengi haft áhuga á mótorhjólum, akstur þeirra og skrifað kennslubók um mótorhjólaakstur. Njáll byrjaði ritferilinn sem umsjónarmaður Sniglafrétta árið 1993 og hefur síðan skrifað óslitið um mótorhjól í dagblöð og tímarit. Bókin er í stóru broti og mikið til hennar vandað, 168 blaðsíður. Á föstudaginn e. kl. 13 verður hægt að nálgast bókina á sérstöku kynningarverði hjá útgáfunni Pjaxi ehf. Suðurlandsbraut 6, þar sem Njáll mun einnig árita bókina. [25.11]jsl


Fornbílauppboð í USA

Nýlega var haldið fornbílauppboð í Auburn, þar sem ekkert lágmark var sett á bílana og voru margir sem náðu sér þar í góðan fornbíl fyrir lítið. Hérna er hægt að lesa meira um þetta uppboð og eins nokkrar myndir af bílum sem voru á uppboðinu. [24.11]jslFleiri bílar að koma

Einn af þeim bílum sem eru að koma til landsins er Plymouth Sport Fury 1959. Það er félagi okkar Karl M. Karlsson sem er eigandi af honum, en hann á fyrir Ford Galaxie 1962. Bíllinn er með V-8 361 CI 395 Golden Commando vél, sjálfskiptur (takkaskipting) og er rauður með hvítum topp, rauðu og gráu áklæði, og með snúningssætum að framan. Eingöngu fjórir eigendur hafa verið að bílnum og fær hann númerið G 296. Við óskum Karli til hamingju með hann. [22.11]jslPontiac að vestan

Pontiac árgerð 1959, sem nefndur var hér á heimasíðunni í gær, er í eigu Ólafs Gunnarssonar rithöfundar, sem á einnig Cadillac árgerð 1964. Með kaupunum lét Ólafur gamlan draum rætast, en ´59 árgerðin af Pontiac hafði lengi verið á óskalistanum. Ólafur hefur í nokkur ár verið í góðu sambandi við fornbílamann vestur í Bandaríkjunum, sem kallaður er Boneyard Stan, en eins og nafnið gefur til kynna á hann öflugan bílakirkjugarð. Jafnframt tekur hann að sér að leita uppi fornbíla í góðu ástandi og fann téðan Pontiac í Coloradoríki. Ritnefndarmenn óska Ólafi til hamingju með nýja fornbílinn og vonast til að sjá hann sem oftast í ferðum Fornbílaklúbssins á næstu árum. [19.11]ös


Fornbílar á leið í vetrarkuldann

Mörgum kann að virðast núverandi árstími ekki vera beint sá hentugasti fyrir innflutning fornbíla, en staðreyndin virðist vera önnur. Samkvæmt upplýsingum sem borist hafa til eyrna ritstjóra heimasíðunnar, þá bíða að minnsta kosti þrír fornbílar tollafgreiðslu þessa dagana: Cadillac árgerð 1958 (2 dyra hardtop), Pontiac árgerð 1959 (4 dyra hardtop) og Chrysler Imperial árgerð 1964. Allar frekari ábendingar um aðra nýkomna eða væntanlega fornbíla eru vel þegnar. [18.11]ösÞað snjóar víðar en hér!

Vetur konungur minnti vel á sig í gær og fornbílarnir okkar mega prísa sig sæla að þurfa ekki lengur að ösla krapann og elginn, en njóta þess í stað góðrar inniveru. En þeir hafa ekki alltaf fengið svo góða aðhlynningu eins og glöggt má sjá í meðfylgjandi grein og myndamöppu um snjókomu og ófærð liðinna áratuga í bílaborginni Detroit. [17.11]ös


Bílnúmer allra þjóða

Íslenskir fornbílamenn þekkja orðið vel til sögu eigin bílnúmera, sérstaklega eftir að þeir fengu leyfi til að velja númer að eigin vali á fornbíla sína. Á meðfylgjandi heimasíðu eru upplýsingar um bílnúmer allra þjóða, sögu þeirra og sérkenni. Það vekur athygli að í kaflanum um Ísland er mynd af emeleraðri plötu frá 1937 og Steðjaplötu, sem að vísu er sögð vera frá 1945 en eins og flestir vita þá byrjaði sú plötugerð ekki fyrr en árið 1949. www.worldlicenseplates.com [16.11]ösGamli Citroëninn kominn norður á Ystafell

Hinn merkilegi guli Citroën af árgerð 1923, sem Jón E. Björnsson verkfræðingur gerði upp á sínum tíma, er kominn alla leið norður á samgönguminjasafnið á Ystafelli. Jón eignaðist þennan bíl fyrir nokkrum áratugum og gerði síðan upp eftir myndum, en hann var orðinn verulega illa farinn og yfirbyggingin nær óþekkjanleg. Sverrir Ingólfsson á Ystafelli hefur af mikilli elju náð til sín mörgum sögulegum fornbílum að undanförnu og núna í sumar hófst hann handa við undirbúning á nýjum sýningarskála við safnið. Hér er heimasíðan með myndum m.a. frá því þegar handmokað var á fornvörubíla og ekið í grunninn á nýja skálanum: www.ystafell.is [15.11]ös


Saga bílsins á Íslandi 1904-2004 Erna Gísladóttir Sigurður Hreiðar Hreiðarsson Finnbogi Eyjólfsson og Sigurður Hreiðar Frorsetanum afhent eintak Hr. Ólafur Ragnar Grímsson
Steingrímur, Rudolf, Ingibergur, Sævar og Þórður
Saga bílsins á Íslandi 1904 - 2004

Í gær var formlegur útgáfudagur á bókinni Saga bílsins á Íslandi 1904 - 2004, af þessu tilefni var þeim aðilum sem standa að bókinni og helstu heimildarmönnum boðið til móttöku í Ásmundarsafni, þar sem forseta Íslands Hr. Ólafi Ragnari Grímssyni var afhent eintak af bókinni. Bók þessi er gefin út í tilefni af 100 ára afmæli bílsins á Íslandi, og er Fornbílaklúbbur Íslands einn af þeim fjölmörgu aðilum sem standa að gerð bókarinnar. Sigurður Hreiðar Hreiðarsson er höfundur hennar, en margir hafa lagt honum til efni og myndir, margar hverjar sem ekki hafa birst áður. Þess má geta að Sigurður mun kynna bókina fyrir félagsmönnum í Húnabúð um næstu mánaðarmót og verður það kynnt nánar hér á fréttasíðunni. Hérna er hægt að lesa meira um bókina og eins er hægt að panta hana hér. [12.11]jslGM bílamyndir til sölu

Á þessari síðu, sem okkur var bent á, er hægt að kaupa myndir af GM bílum, nýjum jafnt sem gömlum. Margar af þessum myndum hafa verið notaðar í sölubæklingum eða auglýsingum frá GM. Nú ef það er ekki áhugi á að eignast mynd, þá er alltaf hægt að njóta þess að skoða þá bíla sem hafa heillað viðkomandi mest. www.gmphotostore.com [11.11]jsl


Ferðafélagar, Árni, Rósa, Jens, Jón, Hróbjartur, Ævar ásamt tveimur fornbílamönnum frá Írlandi. Heiðursgestir, eiginkona Moss, Kristbjörn, Norman Dewis testdriver hjá Jaguar milli ´50 og ´70 , Moss og veislustjóri. Kristbjörn, Norman og Moss Moss og undirritaður
Meira um sýninguna í Birmingham

Þar sem smá bið var á að fá myndir úr framköllun er hér smá framhald af frétt um ferð nokkra félaga á fornbílasýningu í Birmingham nýlega. Á laugardagskvöldinu var sameiginlegur kvöldverður fyrir þá sem gistu á hótelinu þar sem heiðursgestur var Sir Stirling Moss, kappaksturshetja breta. Þegar gestir voru að koma sér fyrir á sínum borðum kom í ljós að eitt sæti var laust hjá Moss, fór veislustjóri þá að leita eftir einum gesti sem yrði boðið að sitja með heiðursgesturm. Þegar fréttist að þarna væru gestir frá Íslandi þótti það upplagt að fá einn frá okkar borði, og var það Kristbjörn Hauks. sem hreppti það. Eftir kvöldverðinn svaraði Moss spurningum úr sal og var gaman að heyra hann lýsa ýmsum atvikum frá sínum keppnisferli, eins var hann ekkert að fela sínar skoðanir á ýmsum bílategundum sem hann hafði ekið um ævina. Var þetta hið besta kvöld og skemmtileg viðbót við sýninguna. [10.11]jsl


Bílasafn Rockefeller

John D. Rockefeller, stofnandi Standard Oil, var einn ríkasti maður Bandaríkjanna og er Rockefeller nafnið alltaf nátengt auði og stórhug. Afkomendur hans hafa haldið nafninu við og hafa komið víða við í viðskiptum. Á Rockefeller ættarsetrinu er að finna bílasafn afkomenda hans, þó safnið sé ekki stórt þá eru þarna merkilegir og sjaldgæfir bílar. Hérna er hægt að lesa meira um þetta bílasafn og eins að sjá myndir frá því. [08.11]jslSýning í Birmingham

Eins og áður hefur komið fram, fór undirritaður ásamt nokkrum félögum á fornbílasýningu í Birmingham í síðustu viku. Þarna voru um 1000 bílar til sýnis á 40.000 m2, og var hægt að sjá marga fallega bíla sem eru ekki algengir á götum hér. Fyrir utan að skoða bílana var hægt að kaupa þarna varahluti, merki á bíla, lista, allar gerðir af skrúfum og festingum, minjagripi og fl. Einnig var hægt að fá að fara í smá rúnt á sinni uppáhalds bíltegund. Gist var á Hilton hóteli sem er á sýningarsvæðinu og er ekki laust við að ferðafélagarnir séu ennþá með hugann þarna úti. Á laugardagskvöldinu var sameiginlegur kvöldverður fyrir þá sem gistu og verður sagt frá því kvöldi síðar. Myndir sýna aldrei fullkomlega frá svona sýningu en hér er hægt að sjá 160 myndir frá þessari helgi. [05.11]jsl


Lítil framför í bílum

Oft kemur fyrir að fornbílamenn hafa verið að ræða við fólk um bíla og þá kemur í ljós að margir halda að bílar hafi þróast mikið síðustu 20-30 árin, en það hefur í reynd verið lítið um nýjungar í bílum síðustu 60-70 árin. Allt sem fólk þekkir í bílum í dag, og er orðið staðalbúnaður (þótti jafnvel lúxus fyrir nokkrum árum), hefur verið boðið í bílum áður fyrr. Margt náði ekki fótfestu vegna kostnaðar eða þótti ekki hagkvæmt í rekstri. Þar á meðal er loftkæling (air-conditioning) sem var sýnd fyrst þennan dag árið 1939 á sýningu í Chicago. Búnaðnum hafði verið komið fyrir í tilraunabíl frá Packard, fyrir aftan aftursætin var komið fyrir tveimur elementum, annað sem kældi og hitt sem hitaði. Allt sem þurfti að gera var að stilla hitastigið sem óskað var eftir að hafa í bílnum. Sérstök rist var til að hleypa lofti inn á kælikerfið og þegar ekið var á hraðbraut gat kerfið annað kælingu sem svaraði 1.5 tonni af ís á 24 tímum. Kerfið vakti mikla athygli á sýningunni en þótti alltof dýrt og liðu nokkrir áratugir þar til loftkæling var almennt orðin til í bílum. [04.11]jslFleiri söfn

Ef maður er á annað borð í London er tilvalið að skella sér til Hendon og skoða RAF (Royal Air Force) flugminjasafnið. Þar eru um 100 vélar til sýnis og skemmtilega settar upp með gínum og hljóðum. Það tekur ekki nema um 25 mínútur að fara frá Oxford Street með neðanjarðarlest til Hendon, síðan 5 mínútna labb frá stöð að safninu. Hérna eru nokkrar myndir frá RAF Hendon. [03.11]jsl


Imperial War Museum

Í síðustu viku var undirritaður, ásamt sex öðrum félögum, á ferð í London eftir að hafa verið á fornbílasýningu í Birmingham. Eitt af þeim söfnum sem við fórum á var Imperial War Museum í Lambeth, London. Margar sérsýningar eru settar þarna upp á hverju ári og er oft hægt að hitta á skemmtilegar sýningar. Að þessu sinni var safnið sjálft skoðað og síðan genginn stuttur spölur að Thames og að Westminster þar sem London Eye er. Þaðan er stutt yfir ánna að St. James´s Park þar sem Cabinet War Rooms safnið er. Að þessu sinni birtum við nokkrar myndir frá IWM safninu. [02.11]jslÁrshátíð síðasta laugardag

Um helgina var haldin árshátíð Fornbílaklúbbsins að Hótel Örk. Var fríður hópur félaga mættur til að skemmta sér saman og voru flestir sem nýttu sér tilboð á gistingu og fengu sér smá frí í leiðinni. Skemmtiatriði voru öll á vegum félaga og slógu Rúnar og Örn í gegn með söngatriði sínu. Ýmislegt annað var til skemmtunar og var ekki annað að heyra en allir hafi haft gaman af þessu kvöldi. Eftir dagskrá var sameinast balli, sem haldið var á Örk, ásamt öðrum árshátíðum sem voru haldnar þetta kvöldið á hótelinu. Formaður Félaganefndar vill að lokum þakka öllum sem komu að þessari árshátíð og gerðu eins góða og hún varð. Einnig vill nefndin koma því á framfæri að ekki var staðið við öll þau loforð af hendi Hótel Arkar og vantaði nokkuð upp á að allt gengi upp eins og til stóð. Er það miður þar sem nefndarmenn fóru tvívegis austur til að fara yfir öll atriði, en við þessu er lítið að gera þegar á reynir og viðkomandi viðsemjendur láta ekki sjá sig á staðnum. En félagar í klúbbnum kunna að skemmta sér saman þótt eitthvað sé ekki alveg eftir dagskrá. Nokkrar myndir eru komnar á myndasíðu og eins fyrir félaga hér. [01.11]jsl