Eldri fréttir - Október 2004

Hálf öld frá síðasta Detroit-Hudsoninum

Í dag eru nákvæmlega 50 ár liðin frá því að síðasti alvöru Hudsoninn rann af færiböndunum í Detroit. Hudson-fyrirtækið var stofnað árið 1909 og var orðið þriðja stærsta bílafyrirtæki heims árið 1929, en rétt lifði síðan af heimskreppuna. Eftir stríð varð fyrirtækið undir í samkeppninni við hina þrjá stóru og sameinaðist að lokum Nash í American Motors árið 1954 og flutti alla framleiðslu til Kenosha í Wisconsin-ríki. Frægasti Hudsoninn var án efa "kjallarinn" sem framleiddur var frá ´48-´54, en sá bíll hafði sjálfberandi grind og bar höfuð og herðar yfir aðra bíla á árdögum NASCAR-kappakstursins. Hér er slatti af góðum Hudson-myndum. [29.10]ös


Íslenskir auðmenn í röðum fornbílamanna

Þeim hefur fjölgað ört íslensku auðmönnunum sem keypt hafa fornbíla á liðnum misserum. Fyrir nokkru keyptu Nóatúns-systkinin Mercury ´54 og Buick ´50 og nú fyrir skemmstu keypti sjálfur Jóhannes í Bónus Chevrolet Bel Air ´54, sem flestir kannast við sem happdrættisbíl DAS. Forstjóri Íslensk-Ameríska hefur lengi átt Buick ´55 og svona mætti eflaust lengi telja. Nú er bara spurning hvenær einhverjum tekst að smita Björgólfs-feðgana af fornbílabakteríunni? [28.10]ös

Pontiac í aldaspegli

Í gær var aðeins minnst á Pontiac GTO-bíla og hvernig eftirspurn safnara hefur orðið kveikjan að fölsun þeirra. En það voru til fleiri flottir Pontiac-bílar en GTO. Kraftaskeið þessara GM-bíla hófst árið 1957, en fjölmargir glæsilegir Pontíakar runnu af færiböndum fyrirtækisins allt frá upphafsárinu 1926. Á meðfylgjandi myndasíðu má virða fyrir sér margra áratuga þróun þessarar bílgerðar. [26.10]ös


Falsaðir fornbílar í umferð

Það hefur lengi tíðkast í fornbílabransanum að eilítið sé fiktað við útlitið (með fleiri krómlistum eða stærri vélum) og verðmæti bílsins þannig aukið. Eftir að kraftabílar sjöunda áratugsins urðu vinsælir safngripir hafa þessar falsanir aukist til muna. Venjulegir Pontiac-bílar eru allt í einu orðnir GTO og verkamanna-Mustangar umreytast í "orginal" Cobrur og verðmiðinn gildnar að sama skapi. Margir seljendur eru heiðarlegir og viðurkenna að bílar þeirra séu klónaðir (Clone), en alltof marga ber hins vegar að varast, eins og fram kemur í meðfylgjandi grein. [25.10]ösBílabúð Benna með Chevrolet

Um helgina verður Bílabúð Benna með sýningu á nýjum bílum frá Chevrolet og af því tilefni voru nokkrir eldri Chevrolet bílar fengnir til að mæta svo hægt sé að sýna þróun bílana í gegnum árin. Sá elsti er frá 1926 og nýjasti 1991. Það má með sanni segja að alltaf sé að verða vinsælla að hafa fornbíla með í hinum og þessum uppákomum. [22.10]jsl


Miðasala á árshátíð

Í gærkvöldi hófst formlega sala á miðum á árshátíð okkar á Hótel Örk þann 30. október, en aðalmiðasla verður næsta miðvikudagskvöld. Aldrei hafa eins margir miðar verið pantaðir fyrirfram og gæti þetta orðið ein stærsta árshátíð okkar hingað til, miða er hægt að panta í síma 535 9056 (Ingi). Margir hafa pantað herbergi og er nú búið að loka fyrir pantanir í gistingu. Hótelið er þegar orðið fullt, þar sem nokkrar árshátíðir verða þetta sama kvöld. Stefnt er að því að þeir sem gista mæti um og eftir kl. 14.00 og eitthvað verði gert saman fram á eftirmiðdag. Rúta fer frá Húnabúð kl. 18.00 og aftur í bæinn um kl. 02.00. Um kl. 18.40 (eða þegar rútufarar koma) verður boðið upp á fordrykk í glænýjum sal á þriðju hæð þar sem matur verður síðan framborinn og dagskrá okkar fer fram. Eftir miðnætti opnast síðan stóri salurinn á fyrstu hæð þar sem sameiginlegt ball verður með öðrum árshátíðargestum, þar leikur hljómsveitin Þúsöld fyrir dansi fram á nótt. Minnum á að þema árshátíðar er "Höfuðfatnaður" og allir mæti með eitt slíkt. [21.10]jsl


Ljósmynd:New Complete Book of Collectible Cars 1930-80.
Vísun í grein

Ný grein eftir Leó M. Jónsson, vélatæknifræðing, er komin á heimasíðu hans og fjallar hún um ekki minni bíla en AUBURN, CORD OG DUESENBERG á árunum 1925 - 1937. Smelltu hér til að lesa greinina. [20.10]jslBíll vikunnar

Í hverri viku er valið um bíl vikunnar á Fornbílaspjallinu, að þessu sinni stendur valið um fjóra bíla frá árinu 1919. Til að geta kosið, og eins til að taka þátt í spjallinu, þarf viðkomandi að vera skráður á spjallinu og er það gert svo ekki sé hægt að kjósa oftar en einu sinni. Einfalt er að skrá sig á spjallið, velja sér nafn og búa til sitt eigið aðgangsorð. Spjallið er líka kjörinn vettvangur til að koma með fyrirspurnir til félaga eða láta skoðun sína í ljós á nánast hverju sem er, náttúrulega tengt áhugamáli okkar allra. [19.10]jslMyndir frá Hershey

Eins og áður hefur komið fram á fréttasíðu fór 10 manna hópur á Hershey markaðinn nýlega, við höfum fengið myndir frá þessari ferð og birtast nokkrar þeirra hér. Stefnt verður að sýna fleiri myndir á einhverju kvöldinu í Húnabúð í vetur og þá með ferðasögum þeirra félaga. Eins og oft vill verða þá myndast sérstakar hefðir í svona ferðum og ein þeirra er sú að nýliðar fá þá vígslu að á sýningarsvæðinu er þeim bent í áttina að hótelinu og þeim sagt að koma sér þangað, en á milli svæðið og hótels er þéttur skógur sem menn verða að berjast við. okkur tókst að komast yfir mynd af ónefndum aðila sem komst í geng og kom loks auga á hótelið. [18.10]jslGóðveðurshelgar fráteknar fyrir fornbíla

Á ferð sinni vestur um haf á dögunum skyggndist greinarhöfundur að sjálfsögðu um eftir gömlum bílum, enda viðraði vel til fornbílaaksturs. Ekki bar vel í veiði framan af, en þegar kom að helgi þá fjölgaði þeim umtalsvert á götunum. Líkt og hér eru sólríkar helgar notaðar til að viðra fornbíla og sást víða til þeirra á keyrslu. Chevrolettinn á myndinni stóð við götu í miðbæ Alexandríu, sem er fallegur gamall bær frá nýlendutímanum í Virginíuríki. [15.10]ösFræðsluferð í gærkvöldi

Í gærkvöldi var farið í fyrstu fræðsluferð vetrarins. Að þessu sinni var farið til Rúnars Sigurjónssonar fonbílavölundar, en hann vinnur nú hörðum höndum við að klára uppgerð á Mercedes Benz árgerð 1955. Mættu rúmlega 30 félagar til skoða í bílskúr Rúnars og var mikið rætt um uppgerð þessa og Rúnari hlýtt yfir um ýmsa þætti hennar. Þáðu félagar síðan kaffi og var þetta hið besta kvöld. [14.10]jslMerkileg söfn

Þeir sem eiga leið vestur um haf til Baltimore eru eindregið hvattir til að kíkja á höfuðborgina Washington. Þar eru hin heimsfrægu Smithsonian-söfn, sem standa sitthvorum megin við langa breiðgötu. Stærst eru þjóðminjasafnið og náttúrugripasafnið auk flug- og geimferðasafnsins (Air and space) sem jafnframt er þeirra vinsælast. Þar getur að líta fjölmargar flugvélar og margvíslegt geimdót, bæði frá Bandaríkjamönnum og Rússum. Frá safninu eru síðan rútuferðir í gríðarstórt flugskýli skammt frá borginni sem inniheldur mikið magn stórra flugvéla, m.a. Concord og B-17. Þar er einnig hægt að skoða eina geimskutlu í krók og kima. [12.10]ösSjaldnast fara magn og gæði saman!

Í síðasta mánuði var greinarhöfundur staddur í Washington-borg og leit þar við á nokkrum söfnum Smithsonian, m.a. sjálfu þjóðminjasafninu. Þar gat að líta nýja sýningu sem nefnist "America on the move", en þar er fjallað um samgöngusögu bílaþjóðarinnar. Þarna voru þó ekki nema 25 bílar, en sjálf umgjörðin var einstök og lyfti sýningunni á hærra plan. Mátti m.a. sjá 20 metra langan kafla af sjálfum móðurveginum, þjóðvegi 66. Á öðrum stað var búið að útbúa bílasölu frá 1950 og á þeim þriðja var agnarsmátt vegahótel frá 1940, allt ljóslifandi vitnisburðir liðins tíma, sem hægt var að ganga í gegnum og endurupplifa. Svona eiga bílasöfn að vera! [11.10]ös


Skilaboð send út

Nú er verið að senda út Skilaboð, mánaðarleg tíðindi FBÍ, og í fyrsta skipti sent í e-mail til þeirra sem óskuðu eftir að fá Skilaboð á þann máta. Eins eru nýjustu Skilaboð aðgengileg fyrir félaga á lokuðu svæði á netinu, undir Starfsemi/Skilaboð. Þar sem þetta er í fyrsta skipti væri gott að þeir sem óskuðu eftir rafrænum Skilaboðum láti okkur vita ef þau hafa ekki skilað sér til þeirra. Hægt er að senda athugasemd á jsl@itn.is.[07.10]jslKvikmyndataka síðustu nótt

Um síðustu nótt voru tökur á atriði í myndinni "A little trip to heaven" sem er í vinnslu hér á landi, en hún á að gerast í Bandaríkjunum árið 1985. Hlemmi var breytt í götu í Bandarískum smábæ og að sjálfsögðu þurfti bíla í þessar tökur, eins og flestar aðrar í þessari mynd. Um 20 bílar voru notaðir að þessu sinni, bæði lagt í stæði og eins notaðir í keyrslur. Nokkrir félagar ásamt undirrituðum stóðu bílavakt í nótt og eins til taks til að aka bílum í atriðinu. [06.10]jsl


Ferðalangar í US

Að venju fór 10 manna hópur á flóamarkaðinn í Hershey, Pennsylvania, en þetta er einn stærsti varahlutamarkaður í US. Margir eru búnir að fara á þennan markað ár eftir ár og eru að finna hluti í nýjasta verkefnið sitt. Fréttasíða hefur verið að bíða eftir myndum frá þessum ferðum og er von til þess að við fáum nokkrar til birtingar við heimkomu ferðalanga. Ein gömul mynd fannst af Sævari formanni FBÍ við leit af varahlutum í forseta-Packard, en eins og menn vita var oft erfitt að finna hluti í hann. [05.10]jsl


Breytingar á Bílageymslu- og varahlutanefnd

Um þessi mánaðarmót verða þær breytingar á formensku Bílageymslu- og varahlutanefndar, að Guðmundur Halldórsson hættir störfum að eigin ósk, en Guðmundur hefur starfað í þessari nefnd síðustu árin. Við formensku tekur Rúnar Sigurjónsson, sem lengi var í Ferðanefnd. Þeir sem vilja panta pláss fyrir bíl, eða vegna annars sem snýr að geymslum FBÍ, er bent á að hafa samband við Rúnar í síma 897 8597. Guðmundur vill þakka meðnefndarmönnum sínum fyrir samstarfið og eins öðrum félögum. Stjórn FBÍ þakkar Guðmundi fyrir vel unnin störf fyrir klúbbinn.[04.10]jslMercury Meteor Ridaeu Victoria !?

Fyrir skömmu héldu Kandamenn upp á 100 ára afmæli Ford-bílaverksmiðjanna í Windsor-borg í Kanada með viðamikilli sýningu á 175 fornbílum af öllum stærðum og gerðum. Þarna gat meðal annars að líta kandadíska fornbíla sem fáir kannast við hér á landi, t.d. Mercury Meteor Ridaeu Victoria hardtop, sem er efstur á blaði í meðfylgjandi frétt, en þar er að finna glæsilega myndamöppu frá sýningunni: [01.10]ös