Eldri fréttir - September 2004

Tilkynning til þeirra sem hafa nýlega sótt um inngöngu í FBÍ

Þar sem fundist hefur bilun í póstþjóni sem sendir okkur áfram umsóknir um að ganga í klúbbinn, viljum við biðja þá sem hafa sótt um á síðustu vikum að senda aftur inn umsókn. Taka skal fram í athugasemdum að viðkomandi sé að endursenda umsókn. Eru þeir sem ekki hafa fengið félagsskírteini, en hafa sótt um sérstaklega beðnir að endursenda umsókn svo hægt sé að bera saman við þær sem hafa komist í gegn. [30.09]jsl



Old Car Festival

Í 54 ár hefur verið haldin Old Car Festival í Greenfield Village, er þetta ein elsta sýning sem sérhæfir sig í bílum sem voru framleiddir fyrir eða á árinu 1932. Að þessu sinni voru sýndir um 500 bílar, mótorhjól og önnur farartæki. Hérna er hægt að sjá tæplega 100 myndir frá þessari sýningu. [28.09]jsl


Nýr bílavefur

Nýlega birtist nýr bílavefur á netinu, er nefnist Blýfótur. Þessi vefur verður tileinkaður bílum almennt, með fréttir af nýjum bílum og ýmsar greinar. Í síðustu viku var grein um Buick 1956 sem Jón Hákon er eigandi af. Munum við vísa á aðrar fornbílagreinar sem birtast hjá Blýfæti í framtíðinni og óskum við þeim góðs gengis með þessa síðu. Í framhaldi af þessari frétt má þakka eftirtekt eins ritstjóra Blýfóts fyrir að hægt var að stoppa þjófnað af heimasíðu Fornbílaklúbbs Íslands. Undir svokölluðum bloggsíðum, hjá folk.is (Netheimar), var búið að kópera heilu síðurnar af fornbill.is og birt þar eins og viðkomandi hefði skrifað sjálfur. Við vorum ekki þeir einu sem urðum fyrir barðinu á þessum fína "vefhönnuði" heldur tók hann efni frá leoemm.com, ib.is, stjarna.is, mustang.is, toyota.is, live2cruize.com og fleirum, án þess að vísa í viðkomandi síður eða taka fram höfund efnis. Eftir að þessir aðilar sendu inn kvartanir til Netheima var þessari síðu lokað hið snarasta og viðkomandi gert grein fyrir að þetta væri stuldur á efni. Að lokum viljum við biðja félaga að láta okkur vita sem fyrst ef þeir sjá efni á öðrum síðum sem gæti hafa verið tekið í óleyfi. [27.09]jsl



Flugsýning

Í síðustu viku var fjallað um flugsýningu á Duxford og lofuðum við myndum frá sýningunni sjálfri, og hér eru þær. Sýning þessi hófst með flugi á fjórum tvíþekjum og stóð maður á efri væng hverrar vélar, meðan farið var í listflug á þeim. Að þessu loknu voru hinar ýmsu vélar sýndar í flugi, svo sem Avro Lancaster (aðeins tvær flughæfar eftir), Supermarine Spitfire, Avro Vulcan, Nimrod, Boeing 757 sem tók lágflug yfir sem gestur, þyrlur og fl. Hápunktur dagsins var 20 mín. sýning Rauðu örvanna, en þær eiga 40 ára afmæli á þessu ári. Myndir geta aldrei gert svona sýningu skil, en getur gefið hugmynd af þeirri stemningu sem er á svona sýningu. [24.09]jsl



Bíll vikunnar

Í hverri viku er kosið um "Bíl vikunnar" á Fornbílaspjallinu og að þessu sinni stendur valið um fjóra Volvo bíla. Við leit að myndum rakst umsjónarmaður á þessa heimasíðu sem rekur sögu Volvo. Þarna er hægt að skoða allar tegundir af Volvo frá byrjun og lesa stutta lýsingu um hverja tegund og eins helstu tækniatriði. [23.09]jsl



Ráðherrabíll til sölu

Fréttasíða hefur heyrt að fyrrverandi ráðherrabíll Bjarna Benediktssonar sé til sölu, fyrir rétt verð að sjálfsögðu. Þetta er Dodge Monaco 1968, keyrður um 170.000 km. ryðlaus, nýlega sprautaður og vel með farinn. Hann hefur verið í eigu Árna Gíslasonar (Bifreiðaverkstæði Árna Gíslasonar) síðan árið 1971 og ber númerið R 1314. Þeir sem hafa áhuga geta snúið sér til Árna í síma 553 3298 eða Sævars (formaður FBÍ) í síma 587 3885. [22.09]jsl



Um síðustu helgi

Í tilefni Evrópskar samgönguviku var opnuð sýning í gamla Geysishúsinu og ýmsar aðrar uppákomur voru í miðbænum. Óskað var eftir 4-6 fornbílum til að mæta á Lækjartorg og við Geysishúsið. Kranabíll klúbbsins var settur við gamla "Geysi", og átti það vel við þar sem hann var notaður sem björgunarbíll hjá leigubílastöð Steindórs, en Steindór var lengi vel með sína stöð á móti Geysishúsinu, þar sem ísbúðin við Ingólfstorg er núna. Á Lækjartorgi voru nokkrir bílar ásamt Volvo 1968 strætisvagni og tveggja sæta flugvél, átti þetta að tákna ýmsan samgöngumáta. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessu. [20.09]jsl


Chevrolet BelAir 1954 Chevrolet 1961
Fornbílaklúbburinn á vini um víða veröld

Vegir netsins eru órannsakanlegir og margir fjarlægir íbúar heims virðast hafa skoðað heimasíðu Fornbílaklúbbsins. Win U La Min er frá Burma en starfar sem forstjóri hjá skipafélagi í Hong Kong. Win er mikill fornbílasafnari og á meðal annars tvo Chevrolet Bel Air af árgerðum 1954 og 1961, svo og Packard 300 árgerð 1952 og Mercedes Benz 220S árgerð 1959. Hvort auðvelt er að afla sér fornbíla og varahluta í austurlöndum fjær skal ósagt látið. Hins vegar er alltaf gaman að komast í samband við ferska fornbílamenn á fjarlægum slóðum, en Win var einmitt að forvitnast um varahlutamál íslenskra fornbílamanna. [17.09]ös



Flugminjasafnið í Duxford

Í byrjun mánaðar var undirritaður á ferð í London og fékk tækifæri til að slást í för 70 Íslendinga sem fóru á flugsýningu í Duxford, sem er flugminjasafn á gömlum herflugvelli rétt fyrir utan Cambridge. Þar er hægt að sjá allar helstu herflugvélar sem hafa komið við sögu frá byrjun síðustu aldar til nútímans, einnig er þar sýning sem er tileinkuð seinni heimstyrjöldinni, sérstaklega sem snýr að Bretum. Skemmtilegast er að heimsækja þetta safn þegar flug eða bílasýningar eru um leið, fornbílaklúbbar eru oft með sýningar þarna á sumrin, svo meira fáist úr deginum. Sérstök bygging er tileinkuð Bandarískum vélum til minningar um þá 30 þúsund Bandaríkjamanna sem féllu í seinni heimstyrjöldinni við varnir Bretlands. Hérna er hægt að nálgast heimasíðu Imperial War Museum Duxford og hér eru nokkrar myndir frá safninu er voru teknar í þessari ferð.Síðar birtum við nokkrar myndir frá flugsýningunni sjálfri. [15.09]jsl


Húnabúð vaknar á ný

Frá og með næsta miðvikudegi, 15. september, verða rabbkvöldin á nýjan leik í Húnabúð Skeifunni 11. Stöllurnar Jenný og Ragna munu sjá okkur fyrir góðum kaffiveitingum og nýtt lesefni verðum á boðstólum. Mæting síðasta vetur var afspyrnu góð, enda dagskráin fádæma fín. Enn betri dagskrá er áætluð í vetur og því er um að gera að stunda félagsstarfið vel og mæta reglulega á rabbkvöldin, opnu húsin og í hinar einstaklega vel heppnuðu fræðsluferðir klúbbsins. [14.09]



Vel heppnaður varahlutadagur

Hinn árlegi varahlutamarkaður Fornbílaklúbbsins í bílageymslunum við Esjumel var haldinn í gær og heppnaðist með miklum ágætum. Eins og meðfylgjandi myndir vitna um, þá var mæting góð og margt nýrra fornbíla, m.a. Buick árgerð 1956 sem Grímur Víkingur í Þorlákshöfn flutti inn á síðasta ári, en er núna í eigu Jóns Guðmundssonar, gamalreynds fornbílamanns í Garðabænum. Myndir sem Rúnar Sigurjónsson tók fyrir heimasíðuna eru komnar á myndasíðu en fleiri og stærri á félagsvæði. [13.09]ös


Hvar eru framtíðarbílarnir sem okkur var lofað?

Um miðja síðustu öld, þegar tími þotna og geimferða var innan seilingar, gerðust bílhönnuðir afar djarfhuga og spáðu fyrir um gríðarlega byltingu í hönnun og tæknibúnaði samgöngutækja. Um síðustu aldamót áttum við t.d. að aka um í hálf-fljúgandi bílum og ýmsum öðrum tækjum sem nú í byrjun 21. aldarinnar virðast víðsfjarri. Olíukreppan, sem brast á fyrir 30 árum og olli efnahagslegu hruni bílaiðnaðarins, ýtti öllum þessum stórtæku hugmyndum út af borðinu. Á meðfylgjandi heimasíðu er hins vegar skemmtileg umfjöllun og myndamappa með þessum kostulegu hugmyndum. [09.09]ös


Sögulegur fornbíll til sölu!

Nú hefur verið auglýstur til sölu einn af fyrstu Trabant-bílunum sem komu til landsins árið 1964. Það ár kom fyrsta sendingin af þessum Austur-þýsku alþýðuvögnum og innihélt hún aðeins einn station-bíl. Það er einmitt þessi eini skutbíll sem núna er til sölu og hefur honum einungis verið ekið 50.000 km frá upphafi. Ástand bílsins er sagt gott og liturinn ljósbrúnn og upprunalegur. Undir bílnum eru fjögur ný dekk. Indriði Sigmundsson keypti bílinn nýjan og hefur átt hann síðan. Þeir sem hafa áhuga á að varðveita bílinn til framtíðar eru beðnir um að spjalla við Indriða í síma 552-4722. Hér er heimasíða tileinkuð Trabant og öðrum Austur-Þýskum glæsivögnum. [08.09]ös


Nóbels-Jagúarinn kominn heim!

Síðasta laugardag var safn Halldórs Laxness að Gljúfrasteini formlega opnað eftir endurbætur á húsinu. Á hlaðinu stendur síðasta glæsikerra Nóbelsskáldsins, Jagúar árgerð 1968. Var hann keyptur til safnsins fyrir tveimur árum og hefur síðan verið í umsjón Fornbílaklúbbsins, sem meðal annars hefur geymt hann í bílageymslunum við Esjumel og látið ryðbæta hann og laga. Fornbílamenn og allir áhugamenn um sögu og samtíð eru hvattir til að skoða safn skáldsins að Gljúfrasteini og virða fyrir sér glæsifornbílinn á hlaðinu. Þangað til er hægt að líta á meðfylgjandi heimasíður: www.gljufrasteinn.is   www.gljufrasteinn.is/frett [07.09]ös



Vel heppnuð ljósahátíð með fornbílum

Á laugardaginn hittust 50 fornbílar ásamt eigendum sínum og fjölskyldum á ljósahátíð í Keflavík, sem heppnaðist með miklum ágætum. Skipuðu fornbílarnir ákveðinn heiðurssess og vöktu óskipta athygli, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og fleiri á félagsvæði.sem Rúnar Sigurjónsson tók fyrir heimasíðuna. Nú er stefnt að því að heimsókn fornbíla á þessa miklu hátíð verði árviss hér eftir, en í ár gaf hún í fyrsta skipti mætingarpunkt. [06.09]ös



Thomsensbíllinn fundinn!!

Eftir margra ára leit íslenskra fornbílamanna um alla Vestur-Evrópu og allar götur suður í Tyrkjaveldi og vestur til Bandaríkjanna, hefur loksins fundist eintak af Cudell árgerð 1901 sem er nákvæmlega eins og fyrsti bíll Íslendinga, hinn svonefndi Thomsensbíll. Guðmundur Halldórsson, einn af stofnfélögum klúbbsins, var fyrir skömmu í heimsókn hjá tengdafólki sínu í Póllandi og leit við á bílasafni í höfuðborginni Varsjá. Þar blasti við honum hin ótrúlega sjón, sjálfur Thomsensbíllinn í öllu sínu veldi og tók Guðmundur meðfylgjandi myndir. Er afar skemmtilegt að þetta skyldi gerast nákvæmlega 100 árum frá því bíllinn kom fyrst til Íslands. [03.09]ös