Eldri fréttir - Ágúst 2004

Aukin þægindi með rafrænum Skilaboðum

Umsjónarmönnum Skilaboða og heimasíðu klúbbsins hafa borist ábendingar frá fjölmörgum félögum, sem telja heppilegra að fá Skilaboðin send til sín rafrænt. Ef boðið verður upp á slíka þjónustu verða Skilaboðin send á netfang viðkomandi félaga um leið og þau hafa verið skrifuð, getur hann þá valið um að lesa þau beint af skjánum eða prenta þau út. Þetta yrði ekki einungis til hægðarauka fyrir viðkomandi félaga, heldur myndu síhækkandi burðargjöld klúbbsins lækka um tugi eða hundruði þúsunda króna á ári, ef næg þátttaka fæst. Þegar er hægt að skoða eldri Skilaboð mörg ár aftur í tímann, árin 1997 til 2004 eru komin á netið undir Starfsemi FBÍ - Skilaboð FBÍ (sama lykilorð og fyrir önnur lokuð svæði). Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu verkefni og láta senda sér Skilaboðin rafrænt, eru beðnir um að fylla út viðkomandi form sem fyrst. Ekki á að þurfa að taka fram að netföng þau sem félagar gefa upp verða eingöngu notuð til að senda Skilaboð og breytingar á auglýstri dagskrá. [31.08]jsl/ösFatadagur

Síðasta laugardag var hinn árlegi fatadagur Fornbílaklúbbsins, um 30 bílar mættu að þessu sinni, og þrátt fyrir leiðinlegt veður við upphaf ferðar var hið fínasta veður eftir hádegi. Að venju voru þátttakendur flestir uppáklæddir í stíl við árgerð síns bíls og vakti það athygli annarra vegfarenda, sem vissu ekki alveg á hvaða ári þeir voru staddir.Að þessu sinni var haldið inn í Hvalfjörð og farið í hádegishlaðborð á Hótel Glym, en þaðan var haldið til Akraness, tóku þá félagar okkar Hlynur og Hanna við fararstjórn og var byrjað á að skoða Bílaverkstæði Daníels sem hefur verið nánast óbreytt í tugi ára. Eftir þá skoðun var bílum lagt á Akratorgi, en því hafði verið lokað fyrir okkur til að leggja á, og voru þar til sýnis meðan hópurinn fór að skoða Sementsverksmiðjuna og eftir það var farið í kaffi á Barbró. Enduðum við síðan daginn á stórum rúnti um Akranes. Nokkrar myndir eru komnar á myndasíðu en fleiri á félagasvæði eins og venjulega. [30.08]jslLjóti andarunginn

Þennan dag árið 1957 rúllaði út af færibandinu fyrsti bíllinn af nýrri línu frá Ford, bar hann nafn sonar Henry´s, Edsel Bryant Ford. Samkvæmt könnun Ford á markaðnum 2-3 árum fyrr, þá vildi fólk fá bíl með krafti, vængi, meiri liti og sveigðar rúður. En Ford fann það fljótt að viðhorf kaupenda og tíska breytist fljótt og Edsel náði aldrei vinsældum og þótti ljótur og eins var frágangur oft ekki nógu góður, enda kom fljótt þýðing á Edsel = Every Day Something Else Leaks. Einungis 110.847 voru smíðaðir og í dag þykir mörgum þetta vera merkilegur bíll og hefur náð því að vera eftirsóttur af fornbílamönnum. [26.08]jslWoodward Dream Cruise

Síðustu 10 ár hefur verið skipulagður rúntur í Detroit, sem er kenndur við Woodward Avenue. Í gegnum árin hefur þetta verið vinsæl gata til að rúnta á og taka einstaka spyrnu, þegar löggan er ekki nálægt, en breytist síðan í skipulagða sýningu / rúnt / bílahátíð. Síðasta helgi var 10. skiptið og voru um 40.000 bílar mættir þarna og áætlaður fjöldi fólks var 1.5 milljón. Eins og alltaf fer fólk í tvo hópa, með og á móti, en borgaryfirvöld eru hin ánægðustu, áætlaðar tekjur af þessari helgi er 3.5 milljarðar!! Margir taka þátt í þessum rúnti þó að þeir eigi ekki eldri bíla eða "hotrod", þeir einfaldlega leigja bíl yfir helgina, kostar frá 60 - 120 þúsund. Fyrirtæki og einstaklingar leigja einnig út bílastæði og garða sem standa við þessa leið undir bíla til sýninga, sölutjöld og eins fyrir þá sem vilja fylgjast með. Öll almenn umferð er beðin að halda sig frá um þessa helgi og eru stífar reglur frá lögreglu gefnar út um hvað má og má ekki. Hvenær skyldu bílaáhugamenn hér á landi fá götu til umráða yfir helgi, t.d. Miklubraut ? Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessari helgi. [25.08]jslFatnaður á fatadag

Þar sem hinn árlegi fatadagur FBÍ er á næsta laugardag, eru örugglega margir félagar að skoða í sína skápa og geymslur til að finna rétta "dressið". Margir hafa komið í gegnum árin í mjög svo skemmtilegum fatnaði, sem hæfir árgerð síns bíls og eins bara öðrum til skemmtunar. Oft hafa félagar fundið föt á mörkuðum og safnað að sér hinu og þessu sem tilheyrir. Til að auðvelda þeim sem ekki hafa komið sér upp "dressi", og eins nýjum félögum, hefur verið rætt við búningadeild Borgarleikhússins og geta félagar mætt þar kl. 14.00 næsta fimmtudag, (gengið inn um starfsmannainngang sem snýr að Morgunblaðshúsinu) og fengið föt leigð fyrir þennan dag okkar. Fötum verður að skila hreinsuðum og að sjálfsögðu í lagi, leiguverð er breytilegt eftir gerð fatnaðar. [24.08]jsl


Renault AX 1914 í uppgerð

Fréttasíðu var nýlega bent á að í uppgerð sé Renault AX 1914 hér á landi. Var hann fluttur inn til landsins árið 1926, en þótti strax vera vélarvana og var þá skipt um vél. Stuttu síðar gaf hún sig og bílnum lagt. Þar sem mikill húsnæðisskortur var í bænum á þessum tíma var hann tekinn í sundur og geymdur í hlutum á tveimur stöðum, síðar brann annað húsnæðið og hlutar úr bílnum með. Ásgeir Sæmundsson, raftæknifræðingur, hefur verið að vinna í uppgerð á þessum bíl, en hann hefur átt hlutdeild í honum í meira en 60 ár, og er mikill áhugi að koma honum á minjasafnið að Skógum. Arnar og Guðmundur í varahlutaverslun B&L hafa verið að aðstoða Ásgeir við að finna hluti í bílinn og er nú óskað eftir aðstoð fornbílafélaga ef þeir hafa einhverjar upplýsingar um leiðir eða tengiliði í Frönskum klúbbum við þessa leit. [23.08]jsl


Vetrarstarf FBÍ

Þar sem senn líður að því að Húnabúð vakni aftur sem félagsheimili okkar, þá er kominn tími til að huga að dagskrá vetrar. Eftir sumarið eru félagar búnir að vera á þvælingi um víðan völl og hafi þeir myndir eða videó af bílasýningum, eða öðru sem viðkemur bílum, sem þeir hafa áhuga á að leyfa öðrum félögum að njóta, þá er óskað eftir því efni til sýningar í vetur. Eins eru allar uppástungur um merkilega staði sem hægt væri að fara á sem fræðsluferð vel þegnar. Hægt er að senda póst á tillaga@jsl210.com og taka fram um hvað efnið er og síma viðkomandi. [20.08]jsl


Skemmtileg grein

Nýlega birti Leó M. Jónsson, vélatæknifræðingur, á heimasíðu sinni upprifjun um bílaprófanir sem hann hefur gert fyrir bílablöðin Ökuþór og Bíllinn. Fer hann yfir ýmislegt sem kom upp á þessum ferli og tekur fyrir þá bíla sem eru minnisstæðastir, en einnig fá nokkrar góðar sögur að fljóta með : "Þrælavinna en skemmtileg" . [18.08]jslStartari fundinn upp

Við getum þakkað Charles F. Kettering fyrir það að vera ekki allir handlama við að snúa alla bíla í gang, þar sem hann fékk fyrir 93 árum einkaleyfi á "rafmagns sjálf-startara fyrir bíla". Charles ásamt Edward A. Deeds stofnuðu fyrirtækið Delco (Dayton Engineering Laboratories Company) og komu með margar nýjungar og endurbætur fyrir bíla svo sem : rafkerfi, blýbensín, öryggisgler, bremsubúnað, sjálfskiptingu o. fl. Cadillac varð fyrst til að koma með startara og Delco var síðar eitt af fyrirtækjum GM samsteypunnar. Áður en Charles snéri sér að bílabransanum þá fann hann upp fyrsta rafmagns búðarkassann, einnig var hann fyrstur manna með loftkælingu á heimili sínu.

"An inventor is simply a fellow who doesn't take his education too seriously." Charles F. Kettering
(uppfinningamaður er einfaldlega sá sem tekur lærdóminn ekki of alvarlega) [17.08]jslGrillferð í gær

Í gærdag var farið í hina árlegu grillferð klúbbsins. Mættu um 40 félagar og fjölskyldur þeirra, alls um 100 manns. Byrjað var á að setja bensín á bílana í boði Essó, en ekið síðan til Nesjavalla þar sem stöðvarhúsið var skoðað. Eftir skoðun bauð Orkuveitan hópnum í kaffihlaðborð í Nesbúð. Að loknu stoppi var haldið í átt að Reykjavík um Grafning og endað í Laxnesi þar sem félagi okkar Þórarinn tók á móti hópnum, en í Laxnesi bauð klúbburinn til grillveislu. Nokkrar myndir eru komnar á myndasíðu en fleiri og stærri á félagsvæði. [16.08]jslPeking til Paris kappakstur

Í dag fyrir 97 árum lauk einum mesta kappakstri í bílasögunni, Peking til París, 8.000 mílur og stóð í 62 daga. Sigurvegarinn var Prins Borghese frá Ítalíu og keyrði hann eins og vitlaus maður um Asíu og Evrópu. Keppendur lentu í skógareldum, festust í mýrlendum og ótrúlegustu svaðilförum, vegir voru ekki þekktir, eða ekki til, ekki nein vegakort og engar bensínstöðvar voru fyrstu 5.000 mílurnar. Prinsinn var stoppaður af lögreglu í Belgíu og vildu þeir ekki trúa því að hann væri í keppni í stað þess að vera keyra of hratt !! Árið 2007 er áætlað að endurtaka þessa keppni og verða bílar ræstir þann 20. maí það ár. Nú er bara spurning hvort einhver frá Íslandi taki þátt ? Hérna er hægt að lesa meira um þessa keppni. [11.08]jslKeppni á bílum eldri en menn oft halda

Oft halda menn að bílakeppnir ýmiskonar sé eitthvað sem menn fundu upp löngu eftir að bílar komu fram, en staðreyndin er sú að bílar þróast út frá þessum keppnum. Henry Ford var til dæmis svo upptekinn við að setja ný met í hraðakstri að fyrsta fyrirtæki hans fór á hausinn. Rallý var t. d. fyrst haldið á þessum degi árið 1901 á Írlandi af Irish Automobile Club, frá Dublin til Waterford og tóku 12 bílar þátt. Eins og í dag var keppt um að keyra vissar leiðir, með leiðsögumanni, á sem bestum tíma. Lengsta rallið var hins vegar haldið árið 1977, London til Sidney, 19.239 mílur. Myndin er hins vegar af 1901 Panhard et Levassor DS 6670 - í London til Brighton fornbílarallinu árið 2002. [10.08]jslUm helgina

Síðasta laugardag voru rúmlega 30 fornbílar mættir í Þorlákshöfn til að taka þátt í "Hafnardögum". Voru bílar hafðir þar til sýnis meðan félagar þáðu kaffiveitingar, en eftir það var haldin smá sýningarspyrna á fornbílum félaga. Hafði verið fengið leyfi til að loka einni götu og var "keppt" á 100 metra kafla. Vakti einna mesta athygli þegar tveir Dodge Weapon mættu og tóku þátt. Um kvöldið var grillað heima hjá einum félaga okkar, Grími Víking, í Þorlákshöfn og horft á video frá ferðum á Daytona. Þeir sem fóru heim fyrir grillið misstu þar af mjög góðu kvöldi. Myndir frá þessum degi eru komnar á myndasíðu og eins fleiri á félagasvæði.[09.08]jslKvöldrúntur í gærkvöldi

Í gærkvöldi var farinn þriðji og síðasti kvöldrúntur sumars og var ekið um Garðabæ að þessu sinni. Tæplega 40 bílar mættu á þessu fína síðsumarskvöldi og eftir að hafa ekið um stóran part Garðabæjar var gert stutt stopp við Tónlistarskóla Garðabæjar og minjar Hofstaða voru skoðaðar, en fyrir nokkrum árum fundust þær þegar grunnur Tónlistarskólans var tekinn. Þar mun vera næst stærsti skáli sem hefur fundist á Íslandi frá tímum landnáms. Eftir þá skoðun var ekið út á Álftanes og þaðan inn í Hafnarfjörð og farið í kaffi á Fjörukránni. Nokkrar myndir eru komnar á myndasíðu og eins fyrir félaga. [06.08]jsl