Eldri fréttir - Júlí 2004


Bílar félaga koma víða við sögu

Í gærdag var Mustang Sigfúsar Sverrissonar, félaga okkar, notaður við myndatökur á kynningar og aukahlutabækling vegna nýs mótorhjóls frá Yamaha, sem verður kynnt í haust. Hefur erlent myndatökulið verið við tökur síðustu daga hér og þar um landið. Fréttasíðan fær vonandi að sjá í haust hvernig til tókst og munum við birta eitthvað af myndum þar sem bíllinn kemur við sögu. Fréttasíðan er komin í smá frí yfir helgina og verða næstu fréttir þann 04. ágúst. [29.07]jslGamlar handbækur og auglýsingar

Oft vill handbók og önnur gögn sem fylgja bílum glatast í gegnum árin, oft er hægt að fá partabækur og handbækur á cd en það getur verið dýrt ef númer eða upplýsingar vantar yfir einn eða tvo hluti. Á þessari vefsíðu, sem fréttasíðan rakst á, er hópur manna sem safnar handbókum, upplýsingabæklingum og partabókum til birtingar á netinu og fá þeir efni sent frá ýmsum aðilum sem styrkja þetta verkefni. Ekki er hægt að ganga að öllum árgerðum og tegundum sem vísum þarna, en stöðugt bætist í safnið. Ef menn finna eitthvað sem nýtist þeim þarna, þá er ekki svo vitlaust að menn sendi inn efni sem þeir eiga til baka. [28.07]jslFornbílar í Stuðmannamynd

Í síðasta viku voru Stuðmenn að taka upp atriði í nýjustu mynd sinni og voru notaðir 2-3 fornbílar í því atriði. Þröstur Harðarson og Þórður Sveinsson mætu þar með Lincoln og Bucik, og sendi Þröstur okkur þessar myndir. [27.07]jslDagsferð í gær

Í gærdag, sunnudag, var farin ferð um bæinn og var mætt á miðbakka eins og venjulega. Þaðan var farinn stór rúntur út á Seltjarnarnes og um vesturbæinn. Seinni part dags var síðan Sögusafnið í Perlunni skoðað. Dagurinn endaði síðan á Ruby Tuesday þar sem snæddur var kvöldverður. Nokkrar myndir eru komnar á myndasíðu og eins myndir á félagasvæði. [26.07]jslSafnið í Stóragerði

Í júní var Véla- og samgönguminjasafnið í Stóragerði opnað. Feðgarnir Þórður Eyjólfsson og Gunnar Þórðarson hafa þar til sýnis bílaflota sinn sem þeir hafa eignast í gegnum árin ásamt ýmsum öðrum hlutum. Sigurbjörn Helgason, félagi okkar, var þar á ferð nýlega og tók nokkrar myndir sem við birtum hér [22.07]jslChrysler endurheimtir lögreglubílamarkaðinn

Hann er mörgum í fersku minni, sem séð hafa bandarískar kvikmyndir frá árunum í kringum 1970, allur sá aragrúi Dodge- og Plymouth-lögreglubíla sem þar sáust akandi um götur og torg. (Reyndar segir sagan að Plymouth hafi gefið kvikmyndaiðnaðinum slatta af þessum bílum, sem seldust frekar teglega vegna slælegs útlits). Nú bregður svo við að Chrysler-fyrirtækið hyggst ná aftur til sín lögreglubílamarkaðnum, sem Ford hefur nær því einokað vestanhafs á liðnum áratugum. Hér er meira um þetta. [21.07]ös


Gamlar auglýsingar

Mörgum finnst gaman að eiga gamlar auglýsingar um sína bíltegund eða frá vissum árum. www.adclassix.com sérhæfir sig í sölu eldri auglýsinga, hægt er að leita eftir tegund og ári á þeirra síðu. Svo er bara almennt gaman að skoða svona síður fyrir okkur sem hafa söfnunaráhuga. [20.07]jsl96 ára saga undir einu þaki

General Motors hefur opnað sögumiðstöð, GM Heritage Center, í tæknimiðstöð sinni nærri Detroit, en þar er safn 180 bíla frá ýmsum tímum, skjalasafn og fræðslumiðstöð, eins og glöggt má sjá hér: http://www.detnews.com/2004/autosinsider/0406/13/b01-180780.htm. Nú er bara spurning hvenær ferðanefnd Fornbílaklúbbsins leggur land undir fót og skipuleggur ferð til bílaborgarinnar, þar sem hvert safnið liggur við annað; Ford í Dearborn, Chrysler í Auburn og GM Heritage Center, svo ekki sé nú talað um allar gömlu bílaverksmiðjurnar vítt og breytt um borgina. [19.07]ösKvöldferð í gær

Önnur kvöldferð sumars var farin í gærkvöldi í glampandi sól og hita. Safnast var saman á miðbakka eins og venjulega, en ekið var síðan til Kópavogs og rúntur tekinn þar bæði í vesturbæ og síðan austurbæ. Haldið var síðan að Smáralind þar sem félagar fengu smá tíma til að kíkja í tívolið sem er þar, þaðan var farið í kaffi á Café Prestó. Nokkrar myndir eru komnar á myndasíðu og eins á félagasvæði. [16.07]jsl


Borgward

Leó M. Jónsson hefur tekið saman grein um Carl Borgward sem framleiddi bíla í Þýskalandi um og eftir stríð. Eins og oft áður, er hægt að fræðast heilmikið af þessari grein Leós. Borgward: Saga hugsjónamanns [15.07]jsl


Fornbílasýning í Birmingham

Í október er ein stærsta fornbílasýning í Englandi ár hvert, og er hún haldin á NEC sýningarsvæðinu í Birmingham. Í ár ætla nokkrir fornbílaáhugamenn að kíkja á þessa sýningu (ásamt undirrituðum), sem væntanlega verður með 1000 bíla til sýnis, og er þetta gott tækifæri til að sjá meiri breidd í bílasögunni en fyrir vestan haf. Sýningarsvæðið er eitthvað um 42000m2 og mikil aðsókn hefur verið að þessari sýningu síðustu ár. Stefnt er að gista á hóteli sem er á sýningarsvæðinu en þar sem búast má við ásókn í það tilboð, verður að bóka það sem fyrst. Búið er að taka saman helstu upplýsingar um verð og ferðaáætlun og er hægt að nálgast hana hér. [13.07]jslLandsmót-helgarferð

Síðustu helgi var farið í helgarferð, sem jafnframt var landsmót FBÍ. Safnast var við Essó Ártúnshöfða þar sem bensín var sett á bílana í boði Essó. Haldið var síðan austur fyrir fjall og bílum safnað saman á Essó Selfossi, þar sem bílar voru fylltir í boði Essó. Lá síðan leið til Hvolsvallar þar sem Siggi Harðar. fornbílafélagi tók á móti okkur og lá síðan leið til Heylækjar þar sem mótið var haldið, en Siggi og Vippa, eiginkona hans, hafa staðið í trjárækt þar síðustu 11 ár. Föstudagskvöldið notuðu félagar í að koma sér fyrir en á laugardeginum var farið í bílaþrautir. Var keppt í tímabraut þar sem menn urðu að leysa nokkrar þrautir á sem bestum tíma. Um kvöldið var sameiginlegt grill og hlöðuball í gamalli hlöðu sem þau Siggi og Vippa nota við ýmiskonar tækifæri, hafa þau komið þar fyrir ýmsum skemmtilegum munum til skreytingar. Einnig var farið í leiki um kvöldið og sýndu margir góð tilþrif í þeim. Á sunnudeginum var farið í heimsókn á safnið að Skógum, þar sem félagar sýndu bíla sína og safnið skoðað. Var síðan haldið heim á leið seinni part dags. Fengu félagar frábært veður, smá rigningarúði laugardagskvöldið en heitt og fínt alla helgina. Ferðanefnd þakkar Sigga og Vippu fyrir frábærar móttökur. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins fleiri fyrir félaga. [12.07]jsl


Nýtt baráttumál komið í leitirnar!

Eftir áralanga baráttu við kerfið varðandi númera- og tollamál og farsælar lyktir þeirra, er komið upp nýtt mál sem stjórn klúbbsins þarf að takast á við. Hér er um hið svokallaða úrvinnslugjald að ræða, sem allir eigendur yngri bíla en 15 ára þurfa að greiða. Nú ber hins vegar svo til að sífellt stærri hópur fornbílaeigenda þarf að greiða þetta gjald, jafnvel þó að bílar þeirra séu orðnir hálfrar aldar gamlir. Ástæðan er sú að það þurfa að líða heil 15 ár frá því að ökutækið er skráð hérlendis þar til gjaldið fellur niður. Nú vill svo til að þeir sem flytja inn fornbíla erlendis frá, hafa í hyggju að varðveita þá um ókomin ár og eru því lítt áhugasamir um að greiða þetta ósvífna gjald. Af þessum sökum þurfa okkar ágætu stjórnarliðar í Fornbílaklúbbnum að bretta upp ermarnar og knýja enn einu sinni á dyr stjórnkerfisins. [09.07]ös


Helgarferð - Landsmót Fornbílaklúbbsins um helgina!

Nú styttist óðum í landsmót klúbbsins sem haldið verður að Heylæk í Fljótshlíð um næstu helgi, 9. til 11. júlí. Mæting er við Essó Ártúnshöfða kl. 17.00, á morgun, föstudag, þar sem verður sett bensín á bílana í boði Essó. Þaðan verður ekið austur að Hvolsvelli, með viðkomu á Selfossi þar sem aftur verður bensín áfylling í boði Essó. Klúbbfélaginn Sigurður Haraldsson tekur á móti fornbílamönnum á Hvolsvelli og leiðir þá að býli sínu Heylæk í Fljótshlíð, þar sem dvalið verður yfir helgina. Á laugardeginum verður farið í bílaþrautir, um kvöldið verður síðan sameiginlegt grill og hlöðuball. Farið verður í heimsókn að Skógum og safnið þar skoðað, væntanlega á sunnudag. Á sérstakri netsíðu er hægt að sjá helstu upplýsingar um staðinn og eins gistimöguleika í nágrenni Heylækjar, en eitthvað er ennþá laust í gistingu. Ath. að dagskrá helgarinnar getur breyst eftir því hvorn daginn viðrar betur til leikja. Ferðanefnd klúbbsins vonast til að sem flestir félagar sjái sér fært að mæta og taka þátt í hinu árlega landsmóti. [08.07]ös/jslMerkilegur Pontiac!

Á fornbílasýningunni stóru í síðasta mánuði var merkilegur bíll sem lét ekki mikið yfir sér, en á sér einstaka sögu. Um er að ræða Pontiac árgerð 1939 sem Magnús Ingjaldsson keypti í Bandaríkjunum árið 1988. Þennan bíl hafði einstaklingur í Michigan-ríki keypt nýjan, en varð fyrir því óláni að vera kallaður í herinn og endaði í votri gröf í Atlantshafinu. Ekkjan syrgði manninn og geymdi bílinn óhreyfðan í bílskúrnum næstu 20 árin, eða allt þar til hann var settur á safn. Þegar safnið var lagt niður var bíllinn sendur til næsta erfingja og þar sá Magnús bílinn. Sagðist hann hafa smitast af fornbílabakteríunni um leið og keypt bílinn snarlega. Eftir heimkomuna til Íslands var bíllinn sprautaður, en að innan er hann með upprunalega sætaáklæðið og aðra klæðningu, sem vart sér á, enda bíllinn einungis keyrður 33.000 km frá upphafi. Er vonandi að Magnús leyfi innréttingunni að njóta sín um ókomna tíð, enda einstakt að bílar haldi henni svo lengi. [07.07]ösUm síðustu helgi

Meira var gert en að mæta í Árbæjarsafn um síðustu helgi, en fjölskyldu skemmtun í tilefni þjóðhátíðar Bandaríkjanna var haldin 3. júlí. Nokkur fjöldi félaga mætti þar með bíla sína og stilltu upp til sýningar, einnig tóku nokkrir þátt í skrúðgöngu fyrr um morgunin. Miklu fleiri félagar höfðu skráð sig í þessa ferð en mættu og er það miður, má jafnvel búast við að ferðanefnd taki ekki að sér að skrá niður og vera tengiliður í ferðum á völlinn í framtíðinni. Síðustu ár hefur allt eftirlit verið hert til muna á vellinum og listi yfir þá sem vilja þiggja heimboð varnarliðsins verður að vera tilbúinn 10 dögum fyrir heimsókn. Einnig hefur verið farið fram á lista yfir farþega og ýmislegt annað sem ferðanefnd hefur sagt að komi ekki til greina. Allt þetta tekur tíma og ferðanefnd hefur nóg annað að gera en að skipuleggja ferð sem margir skrá sig í en mæta ekki í ef smá rigningarúði er í lofti. FBÍ mun koma á framfæri frétt um svona ferð, en síðan verður hver fyrir sig að senda skráningu um sig og sína gesti. [ 06.07]jslÁrbæjarsafn

Í gær var haldinn hinn árlegi fornbíladagur í Árbæjarsafni og mættu 42 bílar að þessu sinni, og var þeim stillt upp um allt svæðið. Mikill fjöldi gesta kom í Árbæjarsafn til að skoða bíla og safnið, og var mikið verið að ræða við eigendur um þeirra bíla og almennt um fornbíla. Veður var hið besta, fyrir utan smá skúr í byrjun, var þetta vel heppnaður dagur að öllu leyti. Myndir eru komnar á myndasíðu, og svo eins á félagasvæði. [05.07]jsl


Samgönguminjasafnið í Stóragerði

Feðgarnir Þórður Eyjólfsson og Gunnar Þórðarson opnuðu safn í kringum bílaflota sinn um síðustu helgi. Nokkrir tugi bíla sem eru í fullu fjöri er uppistaða safnsins, en einnig eru í þeirra eigu allmargir sem bíða uppgerðar. Í gegnum árin hefur verið komið við í Stóragerði þegar ferðir klúbbsins hafa legið á þessar slóðir, og menn gefið sér tíma til að skoða flotann. Nú bíður fréttasíðan bara eftir myndum frá þessari opnun svo hægt sé að birta hér. [01.07]jsl