Eldri fréttir - Júní 2004


Tveir bræður á ferð

Í gærdag var farið að sækja Chevrolet 1949 sem Kristján Steindórsson, sonur Steindórs leigubílakóngs, átti og notaði sem sinn einkabíl. Fjölskylda Kristjáns hefur gefið hann til Samgöngusafnsins að Skógum og átti vel við að kranabíll klúbbsins væri notaður til að sækja hann og koma í geymslu þar sem hann fær smá yfirhalningu, en hann var síðast notaður 1991. Eins og flestir félagar vita var kranabíll FBÍ áður í eigu Steindórs og var í notkun við að sækja þá leigubíla sem biluðu, en fyrir 1950 var hann notaður sem rúta til fjölda ára og síðan breytt í kranabíl. [29.06]jslByggðasafnið á Akranesi

Síðasta laugardag var farin aukaferð á Akranes og Byggðasafnið heimsótt. Ferðamenn fengu alveg ágætt veður allan tímann, fyrir utan smá rigningu í byrjun ferðar. Hópnum var boðið í léttan hádegisverð á Maríu-kaffi, sem er á Byggðasafninu, eins og í fyrra var okkur frábærlega vel tekið og vel veitt. Eftir mat nýttu félagar og fjölskyldur þeirra tímann til að skoða safnið, en tvær nýjar sýningar hafa bæst við, sýning frá Landmælingum Íslands um kortagerð og Steinaríki Íslands, mjög skemmtilega uppsett sýning. Í lokin var farinn rúntur um Akranes og síðan haldið heim. Að lokum vill Ferðanefnd þakka Byggðasafninu og Maríu-kaffi góðar móttökur. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins fleiri fyrir félaga. [28.06]jslKvöldkeyrsla

Í gærkvöldi var farið í fyrstu kvöldkeyrslu sumars, þótt það hafi ekki verið sumarlegt um kvöldið. Mæting var á miðbakka og var ekið beina leið upp á Vatnsendahæð og farið að lundi, sem kenndur er við Guðmund í BYKO, fyrir ofan Heimsenda (hesthúsabyggð). Þar var félögum boðið að gróðursetja plöntur í boði Skógræktarfélags Kópavogs og Vinnuskóla Kópavogs. Kannski er þetta byrjun á "Fornbílareit" ? Eftir þetta var haldið til Hafnarfjarðar, um Heiðmerkurveg,og farið var í kaffi á Súfistanum. Myndir eru komar á myndasíðu og eins fyrir félaga hér. [25.06]jslHeimasíða fornbílasafnsins á Ystafelli

Hið stórmerka fornbílasafn á Ystafelli, sem feðgarnir Ingólfur og Sverrir stofnsettu árið 1998, heldur úti skemmtilegri heimasíðu þar sem meðal annars eru kynnt þau tæki og tól sem finna má á safninu. Auk þess er þar að finna sögu safnsins og fréttir af því sem er að gerast hverju sinni. Fornbílamenn sem hyggja á ferðalag um Norðurland í sumar mega alls ekki sleppa því að heimsækja safnið og safnvörðinn Sverri Ingólfsson, sem er mikil fróðleiksnáma um bíla og sögu þeirra. Fram að heimsókn er kjörið að skoða heimasíðuna: http://ystafell.is [23.06]ösEkið um heimsborgina í draumavagni!

Það getur verið gaman að vera íslenskur fornbílamaður á ferð í útlöndum, en það fékk Þröstur Harðarson, Lincoln-eigandi í Hafnarfirði, að reyna fyrir skömmu þegar hann var á ferð í London ásamt Kristínu konu sinni. Meðan á uppgerð bílsins stóð setti hann sig í samband við eigendur Lincoln-bíla af árgerðum 1928-30 og urðu til við það góð kynni við menn um heim allan. Einn þessara manna er Derek Brown, sem býr í London, en hann á Lincoln árgerð 1929. Keyrði hann Þröst og frú vítt og breitt um borgina í eðalvagninum og hafa fáir Íslendingar fengið betri farkost í heimsborginni. Derek þessi á einnig Hispano árgerð 1928 sem hann er að gera upp, en þeir bílar eru afar verðmætir, jafnvel metnir á tugi milljóna króna. [22.06]ös


Íslenskur bílavefur

Það eru fleiri áhugasamir um heimasíðugerð en umsjónarmenn fornbill.is. Magnús Sigurðsson heldur úti vefnum www.bilavefur.tk þar sem kennir margra grasa. Er þar meðal annars að finna fínar myndir af fornbílum á miðbakkanum 17. júní sl. og frá bílasýningu sem haldin var við Víðistaðakirkju í Hafnarfirði sama dag, en þar gat meðal annars að líta eitt af flaggskipum fornbílaflotans, hinum nýuppgerða Lincoln 1930, í eigu Þrastar Harðarsonar. [21.06]ösÞjóðhátíðarakstur

Í gær var farin hefðbundin þjóðhátíðarakstur í frábæru veðri og var mikil stemning í fornbílamönnum. Þeir 50 bílar sem leyfi var fyrir í akstur niður Laugaveg, lögðu af stað kl. 13 frá Kjarvalsstöðum, strax á eftir fóru um 20 bílar út á Hringbraut og héldu á leið niður í miðbæ. Mættust síðan báðir hópar í Lækjargötu og enduðu á miðbakka, þar sem bílum var stillt upp í sýningu er stóð til kl. 16. Fjöldi fólks fylgdist með þegar ekið var í gegnum miðbæinn, sama var að segja um sýningu á miðbakka. Myndir frá því í gær eru komnar á myndasíðu FBÍ og eins fyrir félaga hér. [18.06]jslFerð síðasta laugardag

Í þriðju ferð sumars, síðasta laugardag, var farið í fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Síðustu þrjú ár hefur verið farið í garðinn en í ár er fyrsta skipti sem þetta er skipulögð ferð. Mæting var nokkuð góð þrátt fyrir þungbúið veður, og fengu félagsmenn sýnishorn af öllum tegundum veðurs, nema snjó. Sú breyting var á uppröðun bíla að við fengum allan garðinn til afnota og var hægt að sjá bíla um allan garð. Hekla tók þátt í þessum degi með nokkrum stórum vinnuvélum til að sýna nýja og eldri tíma, eins fengu pabbarnir að prufa gröfu. ET lagði til flutning á tækjum og sýndi einnig bíla. Félagsmönnum sem mættu með bíla, var boðið í léttan hádegisverð og síðan voru grillaðar pylsur fyrir þá yngri. Frítt var í tæki fyrir börnin. Vegna veðurs var frekar fátt um fólk í garðinum, má í raun segja að við höfðum hann fyrir okkur og var ekki að heyra annað en félagar hafi verið mjög ánægðir með þennan dag. Myndir eru komnar á myndasíðu og eins fyrir félaga stærri og fleiri. [14.06]jsl


ný kominn til landsins
Lincolninn kominn suður!

Hinn stórglæsilegi Lincoln árgerð 1930, sem Þröstur Harðarson í Hafnarfirði festi kaup á vestur í Bandaríkjunum á síðasta ári, er kominn suður á ný frá Sauðárkróki. Þar var hann í uppgerð og sprautun hjá Birni Sverrissyni fornbílavölundi, sem tók sér ekki nema nokkra mánuði til verksins, enda efniviðurinn afbragðsgóður. Yfirbygging þessa Lincolns er öll álklædd, en þetta var með dýrustu bílum á markaðnum árið 1930, kostaði tíu sinnum meira en A-Ford. Eins og sjá má á þessum fyrir og eftir myndunum er þetta óhemju glæsilegur bíll og verður án efa eitt af flaggskipum íslenska fornbílaflotans. Því miður lauk uppgerðinni ekki fyrir en eftir fornbílasýninguna í Laugardalshöll, en bíllinn kom suður síðasta þriðjudag, að öðrum kosti hefði hann verið ein af stjörnum sýningarinnar. [11.06]ös


Ak-Inn rúntur frá öðru sjónarhorni

Í gærkvöldi var bílasamkoma á Ak-Inn eins og venjulega á fimmtudagskvöldum og bauðst fréttasíðu að taka myndir yfir svæðið úr 7-8 metra hæð. Það var félagi okkar Bjarni Þorgilsson hjá Armar ehf sem skutlaði okkur í þessa hæð, en hans fyrirtæki var með vinnulyftu stadda á Ak-inn. Hérna er hægt að sjá myndir frá því tækifæri.[10.06]jslLíflegri fornbílasýningar?!

Nú að aflokinni viðamikilli fornbílasýningu er gott að líta um öxl. Einhverjum fannst nóg um krómi slegna kagga frá sjötta áratugnum og nokkrir kvörtuðu sáran um skort á austantjaldsbílum, sem flestir eru reyndar komnir undir græna. Svo voru nokkrir að rifja upp nýafstaðna sportbílasýningu, en þar gat að líta léttklæddar stúlkur innan um rennilega bíla. Kannski það sé lausnin að hafa fleiri stúlkur á svona sýningum og láta þær kasta af sér klæðum innan um teinafelgur, krómtennt grill og vængjuð bretti? [09.06]ösMyndir frá sýningu

Nú er búið að setja inn nokkrar myndir frá sýningu FBÍ á "Myndir úr starfi". Félagar geta hins vegar séð stærri og fleiri myndir á lokuðu svæði, alls 156 myndir. [08.06]jsl


Buick model 60 árg 1932 eigandi Þórður Sveinsson Jaguar E type 1971 eigandi Sigfús B. Sverrisson Dodge Coronet 1958 eigandi Höður Guðlaugsson og Soffía Auður Diego Packard 180 1942 Ford T 1914 eigandi Pétur Björnsson Þórður, Sigfús, Soffía og Sævar
Verðlaun á fornbílasýningu

Gestir á fornbílasýningu gátu kosið um fallegasta og eins athyglisverðasta bílinn, í lok sýningar voru afhent þau verðlaun. Fyrstu verðlaun í "Fallegasti bíllinn" hlaut Buick model 60 árg 1932, eigandi Þórður Sveinsson, önnur verðlaun hlaut Jaguar E type 1971, eigandi Sigfús B. Sverrisson og þriðju verðlaun hlaut Dodge Coronet 1958, eigandi Höður Guðlaugsson og Soffía Auður Diego. Fyrstu verðlaun í "Athyglisverðasti bíllinn" hlaut Packard 180 1942 (forseta Packardinn) og tók Sævar Pétursson á móti þeim, önnur verðlaun hlaut Ford T 1914 (Coca Cola) eigandi Pétur Björnsson og þriðju verðlaun hlaut Buick model 60 árg 1932, eigandi Þórður Sveinsson. Myndir frá sýningu verða væntanlega komnar á myndasíðu FBÍ í lok dags. [07.06]jslLokadagur sýningar

Í dag, sunnudag, er lokadagur fornbílasýningar í Laugardalshöll. Þar eru sýndir 65 bíla allt frá 1914 til 1974. Aðsókn hefur verið mjög góð sem af er og gestir mjög ánægðir með hana, sérstaklega hversu gott er að mynda og skoða bílana vel þar sem rúmt er um þá og ekkert afgirt. Í dag er opið frá kl. 11 til 21. [06.06]jslFornbílasýning í Laugardalshöll

Í dag opnar stórsýning á fornbílum í Laugardalshöll kl. 17.00, í tilefni 100 ára afmælis bílsins á Íslandi. Margir sjaldséðir bílar verða sýndir þar og eins nokkrir nýuppgerðir. Unnið var að uppstillingu í gærkvöldi og er óhætt að segja að sjaldan hafa verið jafn margir flottir eðalvagnar saman komnir undir einu þaki hér á landi. Sýningin verður opinn í dag frá kl. 17 til 22, laugardag kl. 11 til 22 og sunnudag frá kl. 11 til 21. Aðgangseyrir er aðeins 800 kr. og fyrir félaga FBÍ 400 kr., frítt er fyrir börn yngri en 12 ára. Félagar eru hvattir til að koma á fornbílum sínum á sýninguna, þar sem vaktað bílastæði er frátekið fyrir þá. [04.06]jsl


Aðgangsorð að heimasíðu

Nú eru Skilaboð FBÍ fyrir júní og júlí að detta inn um bréfalúgur félagsmanna og með því kemur blaðið okkar "Fornbíllinn". Eins og flestir félagar hafa tekið eftir þá er aðgangsorð að lokuðum síðum FBÍ (myndasíður og félagaskrá) birt í Skilaboðum og verður það framvegis svoleiðis. Í júní er tekið upp nýtt aðgangsorð og mun það eldra hætta að virka eftir miðjan mánuð. Nýja orðið verður ekki gefið upp í síma svo við ráðleggjum félögum að halda til haga nýjustu Skilaboðum, eða skrifa það niður hjá sér. [03.06]jslFornbíll í bítið

Nú er verið að kynna og auglýsa um allan bæ, sýningu Fornbílaklúbbsins sem verður haldin næstu helgi í Laugardagshöll. Partur af þessu er viðtal við Sævar Pétursson, formann FBÍ, í þættinum "Ísland í bítið" á Stöð 2 í morgun, og var einum af sýningarbílunum komið fyrir í studio í gærkvöldi. Á næstu dögum verður umfjöllun í blöðum og útvarpi, auglýsingaplakötum hefur verið dreift víða um bæinn og nágranna sveitarfélög, svo þessi sýning ætti ekki að fara framhjá mörgum. Annað kvöld (fimmtudagskvöld) verður síðan auglýsingarúntur og eru þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í honum beðnir að mæta á miðbakka kl. 20, ekið verður í smá hópum á ýmsa staði í höfuðborginni. [02.06]jslFréttasíðunni barst eftirfarandi frá félaga okkar Bjarna Þorgilssyni um Volvo sem fékk dapran endi.

Ég var að aka upp að Húsafelli nú um daginn og rakst þá á flak af bíl. Var þar um að ræða Volvo 262C Bertone, annan tveggja að ég held sem var fluttur inn um 1977-1978. Það voru aðeins smíðaðir 6622 svona bílar og var mjög mikið lagt í að gera þessa bíla ríkulega búna að innan með póleraðri valhnotu og leðri, ásamt því að meðal staðalbúnaðar var vökvastýri og loftkæling, svo eitthvað sé nefnt. Þessi bíll var meðal annars með 9cm lægra þak heldur en hefðbundnir Volvoar og var klætt svörtum vinyl. Volvo kynnti þessa bíla fyrst á bílasýningunni í Genf árið 1977, en þá átti Volvo 50 ára afmæli. Þessi bíll kostaði Volvo mikla blóðtöku, enda var framleiðslu þessara bíla hætt 1981. Volvo reyndi þó aftur að smíða 2ja hurða “sportbíl” nær 10 árum seinna með 780 bílnum, en það fór á sömu leið, seldist illa og var hætt fljótlega. Ef ég man rétt þá sýndi Brimborg svoleiðis bíl um 1990, en ég held að hann hafi verið sendur aftur úr landi. Loks tókst þeim þó að gera sportara um 1995 en þá birtist C70 sem var einnig til með blæju ! Þessi 262C bíll var smíðaður á Ítalíu af Bertone, en hann var byggður á 264 undirvagni og var þyngdin nánast sú sama og á hefðbundnum 4ra hurða bíl. 1980 árgerð svona bíls kostaði jafn mikið og 2 stk. Volvo 264 og fyrir þá upphæð gátu menn fengið nýjan Jaguar XJS ! Þessi bíll varð víst eldi að bráð þegar kviknaði í innréttingu hans og var hann þá klæddur allur að innan með bláleitu plussi sem er enn í hræinu. Eitthvað hefur þó ryð náð að skemma þennan bíl einnig, eins og myndirnar sýna, og er bíllinn nú má segja ónýtur. Hinn bíllinn ku vera staðsettur nærri Akureyri og hefur mikið verið lagt í uppgerð hans er mér sagt, reglulega kemur eigandi þess bíls og verslar hluti í hann í Brimborg og er víst orðin dágóð summan sem verslað hefur verið af varahlutum í bílinn. [01.06]Bjarni Þorgilsson