Eldri fréttir - Maí 2004


Sá lengst að komni!

Fyrir skömmu barst til landsins glæsilegur fornbíll, sem fullyrða má að sé sá bíll á Íslandi sem lengst er að kominn, bæði fyrr og síðar. Kjartan Ólafsson bjó um nokkra ára skeið á Nýja-Sjálandi, sem eins og flestir vita er það land sem lengst er allra landa frá Íslandi. Sögðu menn forðum, ef kartöfluuppskéran brást, að þær hlytu að hafa komið upp á Nýja-Sjálandi, enda landið andfætis Íslandi á hnettinum. Kjartan kom heim með Ford af árgerð 1936 sem er í gríðarlega góðu ástandi og verður hann einn fjölmargra fornbíla sem frumsýndir verða á aldarafmælissýningu Fornbílaklúbbsins 4. til 6. júní nk. [28.05]ös


La Salle 1927 La Salle 1927 Ford 1928 Hudson 1929
Þriðji áratugurinn markaði upphaf nútíma bílhönnunar

Þegar T-Fordinn var settur til hliðar árið 1927 má segja að tími hins aldna útlits í bílheimum hafi runnið sitt skeið. Þegar A-Fordinn kom á markaðinn 1928 hófst bylting hjá Ford á sama tíma og mikil stakkaskipti urðu hjá General Motors með tilkomu eins manns, Harley Earl. Fyrsta hönnun hans var LaSalle árgerð 1927, en hún hafði mótandi áhrif á iðnhönnunina til frambúðar. Blómatími verkfræðinganna í bílaverksmiðjunum var liðinn og blómaskeið hönnuðanna runnið upp. Hér er frekari fróðleikur um efnið. [27.05]ös


1932 1933 1937 1941 1947
Forseta-Packardinn frumsýndur á aldarafmælissýningu

Nú lítur út fyrir að fyrsti embættisbíll Forseta Íslands, Packard 180 árgerð 1942, verði frumsýndur á aldarafmælissýningu Fornbílaklúbbsins helgina 4. til 6. júní nk. Uppgerð bílsins, sem staðið hefur í nokkur ár, er lokið og eins og vænta má er bíllinn stórglæsilegur í alla staði. Þeim sem ekki þekkja til framleiðandans, skal bent á að um rúmlega hálfrar aldar skeið var Packard einn þekktasti framleiðandi lúxusbíla í heiminum og átti meðal annars í harðri samkeppni við Cadillac. Framleiðslan hófst árið 1899 en leið undir lok árið 1958. Packard var í embættisbílaflota Forseta Íslands vel fram yfir 1960, en síðasta bíll embættisins af þessari gerð var af árgerð 1957. [26.05]ösGamall Willys-jeppi í uppnámi

Þorvaldur nokkur Stefánsson hefur nýlega fest kaup á jörðinni Otradal við Arnarfjörð, en þar í sveit stendur nú yfir hreinsunarátak á vegum sveitarfélagsins og verður allt járnarusl fjarlægt. Í vélaskemmunni hjá Þorvaldi stendur yfirgefinn Willys-jeppi af árgerð 1946, sem fjarlægður verður og eyðilagður endanlega, nema einhver fornbílamaður gefi sig fram og bjargi gripnum. Síminn hjá Þorvaldi er 456-2073 og netfangið tf3mm@simnet.is . [25.05]ösAðalfundur FBÍ

Í gær var haldinn aðalfundur Fornbílaklúbbs Íslands á Grand Hóteli. Eftir venjuleg fundarstörf var gengið til kjörs þriggja stjórnarmanna, en þeir eru: Ingibergur Bjarnason, Rudolf Kristinsson og Steingrímur E. Snorrason er buðu sig í áframhaldandi stjórnarsetu og hlutu þeir allir kosningu fundarmanna. Emil Guðjónsson, og Jón S. Loftsson buðu sig áfram sem varamenn og einnig Sigfús Sverrisson, en Emil og Jón hlutu kosningu. Eftir kaffihlé voru ýmis önnur mál rædd og þar á meðal áformuð bygging félagsheimilis og safns FBÍ, kom þar fram að áætlað er að hefja framkvæmdir í haust,þegar rólegra er á verktakamarkaðnum. Eftir fundarlok var önnur keyrsla sumars og var ekið í gegnum miðbæ Reykjavíkur og endað á miðbakka, þar sem menn og bílar nutu sín í blíðviðrinu. Myndir frá gærdeginum eru komnar á myndasíðu FBÍ og eins fyrir félaga stærri útgáfa. [24.05]jsl


Leigubílstjórar í New York

Í kvikmyndum eru leigubílstjórar í New York oft sýndir sem snarbrjálaðir ökuníðingar og sérfræðingar í dónaskap. Ekki ætlum við að dæma þá hér, en það getur verið eitthvað til í að þeir séu ökuníðingar. Árið 1899 í New York var Jacob German, leigubílstjóri hjá Electric Vehicle Company, stoppaður fyrir glæfralegan hraðakstur. Var hann handtekinn og dæmdur í sekt, en missti ekki ökuskírteinið þar sem þau voru ekki tekin í notkun fyrr en tveimur árum seinna (heppinn þar). Þessi ofsakeyrsla hefði getið endað með ósköpum þar sem hann var tekinn á 19 km hraða. [19.05]jslAk-Inn aftur í sumar

Nú er Húnabúð komin í hvíld í sumar og mun Ak-Inn verða samkomustaður fornbílamanna frá og með næsta miðvikudegi. Eins og venjulega eru menn að mæta þar eftir kl. 20.00. Sú nýbreytni verður í sumar að ferða- og félaganefndarmenn (og í raun hver sá sem vill stinga uppá rúnti) munu standa fyrir léttum hópakstri þegar veður leyfir. Verður lagt af stað um kl. 22.30 og tekinn léttur rúntur um bæinn.[18.05]jslVeist þú hvaða tegund þetta er?

Frá því að FBÍ-spjallið opnaði hefur verið vikuleg myndagáta og eins kosning um flottasta bíl vikunnar. Svar við myndagátu er birt í lok vikunnar og nafn þess sem var fyrstur með rétt svar. Einnig er á spjallinu könnun um hverskonar landsmót félagar mundu vilja hafa í framtíðinni og þá hvar. Skoðið nýja spjallið og takið þátt í umræðum og áðurnefndum atriðum. [17.05]jslSýningargluggi bílasögunnar

Háskólinn í Ann Arbor í Michigan-ríki hefur í samvinnu við Henry Ford-safnið opnað sérstakan sýningarglugga bílasögunnar, þar sem fá má nasasjón af þróun bílsins og þau miklu áhrif sem hún hefur haft á aðrar iðngreinar. Sýndir eru helstu áhrifavaldar bílasögunnar, til dæmis T-Fordinn, Cordinn og Tuckerinn, sem á byltingarkenndan hátt reyndi að raska markaðsstöðu hinna þriggja stóru, en var kæfður í fæðingu. ´49 Fordinn hafði álíka mikil áhrif á starfsemi Ford-fyrirtækisins og Mustanginn 15 árum síðar; um báða þessa bíla léku ferskir vindar nýrra tíma og öðrum fremur styrktu þeir risa á brauðfótum. Hér má skyggnast inn um sýningarglugga bílasögunnar: www.thehenryford.org/exhibits. 14.05]ös


1964 1/2 1966 1966 1967 1969 1970
Mikill Mustangáhugi um heim allan

Íslenskir fornbílamenn hafa ekki farið varhluta af skyndilegri fjölgun Mustang-bíla að undanförnu, en þessir sportlegu fólksbílar slógu rækilega í gegn þegar þeir komu á markaðinn árið 1964. Fyrstu bílarnir báru hið merkilega ártal 19641/2, og fagna því fertugsafmælinu á þessu ári. Einn "sextíu og fjögur og hálft" Mustang kom til landsins fyrir skömmu og er hann í eigu Stefáns Magnússonar. Á fyrstu 18 mánuðum framleiðslunnar voru smíðaðir yfir milljón Mustang-bílar og er það sögulegt met, en á þessum 40 árum hafa samtals verið smíðuð 7,7 milljón eintök. Um heim allan eru 250 Mustang-klúbbar, en slíkur klúbbafjöldi á sér enga hliðstæðu. Mustangáhuginn er að vonum mestur í vesturheimi, eins og glöggt má sjá hér. [13.05]ösGlæsilegur Lincoln á götum borgarinnar

Nýlega barst til landsins gullfallegur Lincoln blæjubíll árgerð 1962, sannkallaður Kennedy-Lincoln, og hefur sést til hans akandi um borgina á góðviðrisdögum með blæjuna niðri og segja má að þá falli skuggi yfir flesta aðra bíla. Eigandi bílsins er Fornbílaklúbbsfélaginn Sigfús Sverrisson, sem einnig á glæsivagna á borð við Jaguar E árgerð 1971 og Ford Mustang árgerð 1966. Í gær sýndum við myndir af Impölu Sveins Árnasonar, sem hann keypti á e-bay, en sá bíll var einnig til sölu á: www.hotautoweb.com, sem er mjög traustur fornbílasali að sögn Sveins. [12.05]ösSold to Iceland!

Þessi setning sést orðið æ oftar á bandarískum netsölusíðum, enda streyma fornbílarnir til Íslands þessa dagana, þökk sé hagstæðum bandaríkjadal og stjórnarliðum Fornbílaklúbbsins sem náðu í gegn lækkun aðflutningsgjalda á síðasta ári. Þessi glæsilegi Chevrolet Impala árgerð 1960 kemur flugleiðis til landsins í dag, en eigandi hans er Sveinn Árnason á Neskaupstað sem keypti bílinn á e-bay. Netverjar óska Sveini til hamingju með þennnan glæsilega fornbíl, sem fengið hefur skráningarnúmerið U-180, en það er að sjálfsögðu sérsmíðað steðjanúmer frá Fornbílaklúbbnum. Þeir sem eru að flytja inn fornbíla þessa dagana eru endilega beðnir um að senda myndir og línu til: orn.sigurdsson@edda.is [11.05]ösSkoðunardagur og vorferð

Síðasta laugardag var fyrsti skipulagði ferðadagur FBÍ í sumar. Hófst hann á hinni árlegu skoðun bíla félagsmanna og var það gert að þessu sinni hjá Frumherja. Að venju var sól og gott veður allan daginn og félagsmenn nutu þess að vera komnir á bíla sína eftir vetrarsetu. Eftir skoðun og pylsupartý var haldið til Hafnarfjarðar og lagt hjá Fjörukránni og var strax komin mikil umferð af fólki að skoða bílaflotann. Á Fjörukránni var snæddur léttur hádegisverður, að honum loknum var farið í stutta gönguferð um álfabyggðir næsta nágrennis undir leiðsögn Sigurbjargar Karlsdóttur, sagnakonu. Í lokin var farið í smá keyrslu um Hafnarfjörð og stefnan tekin á miðbæ Reykjavíkur og endað á miðbakka. Nokkrar myndir frá deginum eru komnar á myndasíðu FBÍ, en félagar geta séð stærri og fleiri myndir hér. [10.05]jslDagbók uppgerðar bíls

Nokkuð er um það að fornbílamenn haldi úti vefsíðum um uppgerð síns bíls. Fornbílafélagi okkar, Rúnar Sigurjónsson, hefur haldið úti síðu um verkefnið sitt, og er nokkuð langt kominn. Áður hefur verið bent á þessa síðu, en þar sem þessi síða er alltaf uppfærð reglulega er upplagt að kíkja á verkefnið aftur. Ef fleiri eru með síður um bílskúrsverkefni sín eða hafa áhuga á að fá fréttasíðu FBÍ í heimsókn til að mynda og sýna hér á vefnum, hafið þá samband við okkur í e-mail jsl@itn.is. [06.05]jsl


Skráning í ferðir sumarsins

Nokkrar ferðir og aukaferðir sumars eru þess eðlis að félagar þurfa að skrá mætingu bíla sinna. Hér til hliðar er kominn nýr valhnappur, "Ferðaskráning", opnast þá ný síða þar sem taldar eru upp þær ferðir sem eru með skráningu og helstu upplýsingar um þær. Hægt er að opna skráningarform fyrir hverja ferð og senda hana inn. Endatími skráninga er mismunandi, en óskað er eftir að félagar sendi inn skráningu eins fljótt og hægt er, til að auðvelda skipulag ferða. [05.05]jslNokkrir fróðleiksmolar um DAS-bílana

Eins og fram kom á heimasíðunni síðasta mánudag þá er Happdrætti DAS búið að kaupa Chevrolet Bel Air árgerð 1954, sem er nákvæmlega eins og sex fyrstu vinningsbílar happdrættisins voru fyrir sléttri hálfri öld. Fyrsti vinningshafinn var Böðvar Sigurðsson bóksali í Hafnarfirði, en annar í röðinni var enginn annar er Jóhannes Þorsteinsson leigubílstjóri á BSR og núverandi félagi í Fornbílaklúbbnum. Hann sést á annarri mynd frá hægri hér að ofan, einungis 23 ára gamall, glaðbeittur við hliðina á glæsilegum Bel Air-bílnum, sem átti eftir reynast honum vel sem atvinnutæki fram yfir 1960. Nú ekur Jóhannes hins vegar um á fagurrauðum Ford Thunderbird af árgerð 1964. [03.05]ös