Eldri fréttir - Mars 2004


Sjójeppi !

(
Leiðrétt frétt) Sveinn Snæland sendi Fréttasíðunni tvær skemmtilegar myndir af merkilegu farartæki sem var í eigu föður hans, ásamt meðfylgjandi orðsendingu:Þetta eru myndir af sjójeppa sem faðir minn keypti af ameríska hernum ´48 eða ´49 og gerði upp. Þetta var innrásartæki með drifkerfi úr venjulegum jeppa og hafði verið notað við innrásina í Ítalíu. Það komu þrír svona bílar til landsins, eða öllu heldur hræ, og þennan keypti pabbi og gerði upp til að verða fjölskyldubíllinn! Hinir urðu ekki að bílum held ég. Hann gekk ca. 5 mílur á sjó en var svaka "spíttkerra" á landi og lá eins og klessa. Á þessum myndum er hann á ytri höfninni að taka á móti Gullfossi þegar hann kom nýr. Pabbi fór á honum hringinn kringum landið norður fyrir en komst bara að Jökulsá á Breiðamerkursandi, sem þá var í vexti, og varð að snúa við. Sjójeppinn brann með bílaverkstæði pabba á Hálogalandi 1950. Það hefði verið gaman að eiga hann í dag ! [29.03]jslChryslerþróun í fjóra áratugi

Walter P. Chrysler stofnaði Chrysler-fyrirtækið í júní árið 1925 og hóf framleiðslu samnefndra bíla. Síðar hófst framleiðsla á DeSoto og Plymouth-bílum, jafnframt því sem Chrysler keypti Dodge-verksmiðjurnar í Detroit. Styrkur fyrirtækisins var mikill framan af, en eftir 1970 fór að síga á ógæfuhliðina. Þá kom Lee Iacocca til sögunnar og bjargaði fyrirtækinu frá glötun. Aftur tók að síga á ógæfuhliðina undir lok 20. aldarinnar, en þá komu Þjóðverjar til skjalanna og björguðu dæminu. Hér er skemmtileg myndasyrpa með Chrysler bílum á tímabilinu 1930 til 1969. [26.03]ös"Amerískir" glæsivagnar í austrinu

Kalda stríðið var ekki eins kalt á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar eins og margir halda. Skemmst er að minnast bandalags stórveldanna gegn Þýskalandi þriðja ríkisins í síðari heimsstyrjöldinni, en án þessa bandalags hefðu Þjóðverjar að öllum líkindum unnið stríðið. Á stríðsárunum fengu Rússar framleiðslulínur frá Packard-bílaverksmiðjunum í Detroit og lengi voru framleiddir í Sovétríkjunum glæsilegir ZIS-Packardar (sjá myndir), sem líkjast mjög elsta forsetabílnum okkar. Þessir bílar eru í dag meðal eftirsóttustu fornbíla austursins. Eftir daga Stalíns, sem varð bráðkvaddur árið 1953, hlýnaði vel í samskiptum stórveldanna. Hátindur þessara samskipta var án efa bandaríska iðnvörusýningin í Moskvu árið 1959, þar sem nútíma eldhústæki og krómaðir glæsivagnar léku stórt hlutverk. Þessum hlýnandi samskiptum lauk síðan skyndilega með Kúbudeilunni árið 1962. [25.03]ösAMC stofnað á þessum degi árið 1954

Í dag, 24. mars 2004, eru nákvæmlega 50 ár síðan að bandarísku bílaframleiðendurnir Hudson og Nash sameinuðust og stofnuðu American Motors Corporation, en AMC reyndist eini sjálfstæði bílaframleiðandinn sem lifði af samkeppnisstríð sjötta áratugarins. AMC átti á brattann að sækja fyrstu árin, enda höfðu bæði Hudson og Nash-fyrirtækin verið rekin með tapi í nokkur ár. Árið 1958 hætti AMC endanlega framleiðslu á Hudson og Nash-bílum, en einbeitti sér þess í stað alfarið að framleiðslu Rambler-bíla. Þeir voru minni og ódýrari en bílar keppinautanna, sem kom sér vel þegar bakslag hljóp í efnahagskerfi Bandaríkjanna árið 1958, en þá seldust Rambler-bílarnir eins og heitar lummur. Stórhagnaður varð af rekstri AMC þrjú ár í röð og fyrirtækið rétti vel úr kútnum og átti framundan nokkur björt ár. Hér er skemmtileg myndasíða tileinkuð Hudson, Nash og AMC: www.summerville-novascotia.com/AmericanMotors/ [24.03]ösFornbílasýning á Hjaltlandseyjum í sumar!

Ein af stærstu fornbílasýningum Bretlandseyja verður haldin helgina 5. - 6. júní nk. í Leirvík á Hjaltlandseyjum, en þar má vænta fjölda fornbíla, vélhjóla og dráttarvéla. Hjaltlandseyjar eru eitt helsta fornbílahreiður Bretlands og talið er að þar séu fleiri fornbílar á hvern íbúa en annars staðar í Evrópu. Vegna góðrar tengingar Norrænu milli Íslands, Færeyja og Hjaltlandseyja er það von sýningarhaldara að fornbílamenn frá Íslandi og Færeyjum láti slag standa og mæti með bíla á sýninguna í Leirvík. Þeir sem vilja nánari upplýsingar er bent á að senda línu til Maurice Mullay í netfang hans: msmullay@aol.com. Hér eru svipmyndir frá síðustu sýningu sem haldin var fyrir tveimur árum. [22.03]Shetland Islands Tourism       


Eru dekkin í lagi fyrir sumarið?

Þar sem óðum styttist í sumardagskrá FBÍ með tilheyrandi keyrslum og rúntum, er þá ekki komin tími til að skoða hvernig dekkin eru. Vandamálið við fornbíla og aðra bíla, sem eru notaðir part úr ári, að dekkin er oft fyrir löngu orðin ónýt þó að lítið sjáist á munstri þeirra. Bílar standa lengi óhreyfðir og þegar þeir eru teknir út þá eru þau orðin flöt, þó að manni finnst þau jafni sig eftir stutta keyrslu geta dekkin verið komin út jafnvægi. Allir þekkjum við það að nota sílíkon til að fá glans og dekkin líta vel út, en ertu búinn að skoða dekkin hinumegin, þar geta verið komnar sprungur. Það getur verið dýr sparnaður ef þetta er ekki í lagi. Sérfræðingar t.d. vilja meina að líftími dekkja á fornbílum sé 5-7 ár. Flestir fornbílar okkar félaga eru stórir og þungir og það eru nú einu sinni bara fjórir lófastórir fletir sem snerta malbikið á ferð. Hérna er blaðagrein um dekk. [19.03]jsl


Markaður aftur virkur !!!

Nú er Markaður aftur virkur og er með nýju útliti. Nokkuð miklar breytingar er með þessum nýja Markaði. Það helsta er að skrá þarf nýjan notenda til að setja inn auglýsingu og eins er hægt að breyta og eyða þeim af notenda. Stærsta viðbótin er að nú geta notendur sett inn sjálfir mynd í öllu flokkum. Tími sá er auglýsingar standa er tveir mánuðir, en hægt er að framlengja þann tíma um aðra tvo mánuði ef þarf. Auglýsingakerfið er á íslensku (enska gæti komið á sumum stöðum þar sem þetta var þýtt á stuttum tíma) og á að skýra sig sjálft. Allar auglýsingar frá áramótum eru inni. [18.03]jsl


FBÍ vantar mynd af bílnum þínum!

Nú er allt félagatalið komið á netið og rúmlega 200 myndir af bílum félagsmanna, en ennþá vantar mikið af myndum. Óskað er eftir því að þeir sem ekki hafa séð mynd af sínum bíl(um) sendi okkur mynd, eins ef upplýsingar eru ekki réttar um bílaeign og ástand. Þeir sem eru á höfuðborgarsvæðinu geta einnig óskað eftir því að við komum og tökum mynd og á það sérstaklega við um alla þá ný-innfluttu bíla, hvort sem viðkomandi er félagi eða ekki. Viljum við benda á að myndir og upplýsingar um ástand er það fyrsta sem er skoðað vegna val á bílum á fornbílasýningu í júní 2004. Hægt er að hafa samband við Jón í síma 892 0045 og e-mail myndir@jsl210.com


 
Fyrsti bíll Jay Leno

Fyrir nokkru bentum við á grein um bílasafn Jay Leno´s, en hann hefur verið að safna bílum og hjólum í nokkur ár og er safnið komið í rúmlega 160 stykki. Hann er með starfsmenn sem sjá um að halda þessu öllu gangandi og til að gera upp þá eldri. Nýlega var lokið við uppgerð á fyrsta bíl Leno´s sem er Buick Roadmaster 1955. Fallegur bíll að sjá og mikið í hann lagt, en þegar skoðað er undir húddið, þá sést að þetta er ekki venjulegur Buick. Hérna er hægt að skoða þessa grein. [15.03]jsl


 
Rolls og Royce

Á þessum degi árið 1906 var stofnað fyrirtækið Rolls-Royce Ltd. af Charles S. Rolls og F. Henry Royce. Árið 1904 var Henry Royes byrjaður að smíða bíla undir sínu nafni, en sama ár hittir hann Charles Rolls sem seldi bíla í London. Tókust með þeim samningar um að Royce Limited mundi ramleiða bíla sem væru í einkasölu hjá C.S. Rolls & Co. og bæru nafnið Rolls-Royce. Fljótlega eftir stofnun fyrirtækis þeirra kom á markaðinn hinn frægi Silver Ghost með sex strokka 40 hestafla vél. Bresk blöð voru yfir sig hrifin og útnefndu hann sem "besta bíl heims". Fram að fyrri heimsstyrjöld var aðal áherslan á framleiðslu Silver Ghost, en í byrjun stríðs var farið að hanna og framleiða flugvélahreyfla og er seinni heimsstyrjöld skall á var Rolls-Royce orðinn einn af stærstu framleiðendum flugvélahreyfla. Árið 1931 yfirtók Rolls-Royes bílaframleiðslu Bentley og hafa bæði þessi merki alla tíð verið samnefnari fyrir handgerða lúxus bíla. Árið1971 var Rolls-Royce skipt upp í tvö fyrirtæki, bílaframleiðslu og flugvéladeild vegna erfiðrar stöðu og komu inn nýir eigendur. Í dag er bíladeildin í eigu BMW. Oftast koma bílar upp í huga fólks þegar Rolls-Royce er nefnt, en næst þegar þú ferð með Flugleiðum horfðu þá á hreyflana, því allar vélar Flugleiða eru með Rolls-Royce hreyfla. Rolls síða [15.03]jslFátt klæðir fornbíla betur en hvítir hringir!

Það sem skilur fornbílana okkur frá brúksbílum samtímans er glæsileg hönnun, króm og hvítir hringir á dekkjum. Einn af helstu útgjaldaliðum fornbílamanna eru dekkjakaup, en nú er svo komið að hvítir hringir, einkum breiðir, eru ekki lengur fáanlegir. Dekk með inngreiptum hring þarf að sérpanta frá Bandaríkjunum og eru þau óheyrilega dýr. Því hafa margir fornbílamenn hreinilega neyðst til að keyra um á svörtum dekkjum. Til að snúa þessari vondu þróun við hafa íslenskir fornbílamenn í samvinnu við efnaverkfræðinga endurbætt níðsterka gúmmímálningu þannig hægt er að mála hvítan hring beint á dekk. Margföld teygjugeta efnisins og einstök viðloðun gerir það að verkum að hringurinn springur hvorki né flagnar, hvort sem um er að ræða nælon- eða radíaldekk. Nú geta fornbílamenn á ódýran hátt sett breiða, jafnt sem granna, hvíta hringi á dekkin, líkt og tíðkaðist í gamla daga. Þegar svo ekið er óvart utan í gangstéttarkant, þarf ekki lengur að kljást við krumpaðan eða rifin hring, heldur er málaði hringurinn einfaldlega þrifinn með Undra, hinu magnaða íslenska hreinsiefni. Dósin af dekkjamálningunni kostar einungis 1000 kr. og tekið er við pöntunum í síma 895-2400 eða í netfangi: orn.sigurdsson@edda.is, en þangað má einnig senda fyrirspurnir vegna þessarar nýjungar. [12.03]ösBílabúð Benna í gærkvöldi

Í gærkvöldi var farið í heimsókn í Bílabúð Benna og mætti þar stór hópur félaga. Benni og starfsmenn hans tóku vel á móti okkur og sýndu nýjustu bílana frá Porsche, GM Daewoo og Musso. Verslunin var líka skoðuð vel og pöntunarþjónusta kynnt, en eftir að Bílabúð Rabba rann inn í fyrirtækið koma sendingar tvisvar í viku frá US. Eins og allir vita hefur Benni verið lengi í öllu sem tengist bílaíþróttum og þó að hann sé oftast á Porsche í dag þá lumar hann á tveimur fornbílum, Pontiac GTO 1964 með sixpack og TransAm 1977. FBÍ félagar geta séð fleiri myndir hér. [11.03]jsl


Mustanginn fertugur í dag!

Fyrsti Mustang sögunnar var framleiddur á þessum degi árið 1964 og var síðan kynntur almenningi 16. apríl sama ár. Með Mustanginn rættist draumur Ford um að smíða smáan en knáan bíl og nógu ódýran til að meðal-Jóninn gæti fjárfest í einum. Faðir Mustangsins er án efa Lee Iacocca sem í þá daga var yfirmaður hjá Ford, en fékk síðar það viðamikla verkefni að bjarga Chrysler frá gjaldþroti. Mustanginn var þó ekki eins nýr eins og margir halda, því hann var í raun Ford Falcon með nýrri yfirbyggingu. Á fyrstu tveimur árum framleiðslunnar halaði Mustanginn inn 1,1 milljarða dollara í hagnað fyrir Ford, enda urðu menn vitni að einni öflugustu markaðssetningu í bílasögunni. Hér er ágrip af sögu Mustangsins: www.powerpassion.nl/mustang [10.03]ösMerkilegur bíll fluttur til landsins

Vegagerðin hefur flutt til landsins Ford T árgerð 1927. Bíllinn er samskonar og sá sem fyrstur fór yfir Sprengisand í frægum leiðangri árið 1933. Tilefnið þá var að sumarið 1929 lét Vegagerðin ryðja bílfæra leið um Kaldadal milli byggða vegna Alþingishátíðarinnar 1930. Síðla sumars það ár ákváðu nokkrir aðilar að fara vegleysur frá Gullfossi um Bláfellsháls og í kjölfarið vaknaði áhugi hjá þeim að reyna að aka norður um Sprengisand. Frásögn af ferðinni birtist í fréttabréfi Vegagerðarinnar (október 2003) og í bókinni Íslenska bílaöldin, en lýsingin er afar ævintýraleg. Og nú er bíll sömu gerðar kominn til landsins og verður hann færður til varðveislu á samgönguminjasafnið að Skógum. [08.03]ös


Eitthvað til að skoða um helgina

Fréttasíðan rakst á góða síðu með mikið af bílamyndum, allt frá aldamótum til dagsins í dag. Þarna er að sjá marga fallega bíla, einnig eru smá upplýsingar um hvern fyrir sig og tengill á bílabækur sem fjalla um viðkomandi tegund. www.seriouswheels.com [05.03]jsl


Grand Prix - Formula 1

Þar sem Formula1 tímabilið er að hefjast er ekki úr vegi að skoða sögu Grand Prix og þróun kappaksturs í gegnum árin. Allt frá því að menn fóru að setja einhvers konar vélar á grind, eða hvað sem er svo lengi sem það gat borið vélina uppi, og tengja síðan við hjól, hafa menn verið að keppast um hver fer hraðast, lengst án viðgerða eða keppa um hvað sem er. Fyrsta skipulagða keppni sem vitað er um var haldin 1894 frá París til Rouen (var reynt fyrst 1887 en bara einn mætti). Keppt var um áreiðanleika á "hestlausu farartæki". Urðu viðkomandi "bílar" að vera "öruggir, auðveldir í stjórnun og ekki dýrir í rekstri". Menn þeystu þessa 126 km. á óhugnanlegum 17 km hraða og fyrstur í mark var Count de Dion á De Dion traktor, en þar sem hann þótti ekki götuhæfur fengu næstu tveir, Peugeot og Panhard-Levassor, að skipta með sér fyrsta sæti. Hérna er síðan hægt að lesa meira um hvernig þetta þróast yfir í þá keppni sem við þekkjum í dag. [04.03]jsl


Bækur, myndir og fl.

Duke Video í Englandi er með mikið úrval af bílaefni bæði í bókarformi og eins myndir, bæði DVD og VHS. Þarna ættu bílaáhugamenn að geta fundið ýmislegt fyrir sig, svo sem fornbílabækur, bílamyndir, formula 1og fl. Heimasíða Duke Video. [03.03]jsl

Autorama Show

Í Detroit hefur verið haldin fornbílasýning í 52 ár sem kallast Autorama og var hún haldin dagana 27-29 febrúar. Margir fallegir bílar voru þarna til sýnis, en eins og venjulega í USA er mikið um króm og breytta bíla. Hérna er hægt að sjá myndir frá þessari sýningu. [02.03]jsl


Meira um auglýsingar

Árið 1959 fór í gang auglýsingaherferð hjá Volkswagen sem vakti mikla athygli. Þetta voru öðruvísi auglýsingar en áður höfðu sést og fengu þær margar viðurkenningar. Fyrir nokkrum árum kom út bók um þessa herferð og hægt er að sjá nokkrar af þessum auglýsingum á netinu. www.greatvwads.com [01.03]jsl