Eldri fréttir - Febrúar 2004

Gamlar bílaauglýsingar til sölu

Það getur verið gaman fyrir fornbílamenn að eiga upprunalegar auglýsingar frá þeim tíma þegar bílarnir þeirra voru nýir, og þá sérstaklega af þeirra eigin tegund og árgerð. Hér er fyrirtæki sem sérhæfir sig í sölu gamalla upprunalegra auglýsinga og virðist verðlagning þeirra vera hófstillt, eða um 15 dalir fyrir eintakið. Hér er heimasíðan hjá Ad-Classics [27.02]ösSafnarakvöld

Í gærkvöldi á opnu húsi var haldið safnarakvöld, þar sem félagar gátu komið með sýnishorn af sínum söfnum. Nokkrir félagar mætu með brot að sínum munum og var margt skemmtilegt að sjá hjá þeim. Svona kvöld verður aftur á dagskrá næsta vetur og vonandi fáum við að sjá fleiri söfn, þar sem vitað er að margir félagar í FBÍ er að safna munum og eiga merkileg söfn. FBÍ félagar geta séð fleiri myndir hér. [26.02]jsl


Er komið nóg af Ford?

Nokkrir Chevrolet-áhugamenn fundu fyrir ónotum og meltingartruflunum eftir síðustu kvikmyndasýningu klúbbsins, en þar var Henry Ford settur á stall með himnaföðurnum og niðjar hans og framleiðsluvörur dásamaðar og lofaðar í hástert, þannig að mikinn skugga bar á aðrar gerðir. Til að bera smyrsl á sár þeirra sem af einhverjum ástæðum hafa horn í síðu Ford, þá er hér góð myndasyrpa með gömlum Lettum: http://home.no.net/ayla/Chevrolet [25.02]ös


Fornbílum flogið heim!

Nú hafa þau undur og stórmerki gerst að ódýrara er orðið að fljúga heim með fornbíla frá Bandaríkjunum en að senda þá með skipi. Ritstjórar heimasíðunnar létu segja sér þetta þrisvar, en þetta er víst staðreynd. Þótti flestum nóg um lækkun aðflutningsgjalda úr 45% niður í 13% og þann stórhug bandarískra ráðamanna að fella gengi bandaríkjadollars, að því er virðist gagngert fyrir íslenska fornbílamenn. Og nú hafa þeir eignast bandamann í New York sem heitir Lárus Ísfeld, en hann er sonur Hauks Ísfelds, sem er einn af eldri kempum klúbbsins. Lárus rekur fyrirtækið ICEXPRESS, sem sér um að ná í bíla hvar sem þeir eru í sveit settir vestra og flugfrakta þeim síðan heim fyrir litla 2000 dali, sem er lægra gjald en skipafélögin taka fyrir sína frakt. Þeir sem vilja kynna sér nánar þetta ágæta fyrirtæki geta skoðað meðfylgjandi heimasíðu: www.icexpress.is/ [23.02]ös


Fornbílasala Íslands?

Meðan á heimsókn fornbílamanna í Fornbílasetrið á Selfossi stóð síðasta miðvikudagskvöld var þeirri hugmynd varpað fram við Sverri Andrésson, eiganda setursins, að hann opni sérstaka bílasölu, þar sem einvörðungu fornbílar væru til sölu. Þar gætu menn haft bíla sína á söluskrá og leyst þannig úr vanda þeirra sem eru á höttunum eftir fornbílum, svona áður en þeir þurfa að ráðast í slík kaup í öðrum heimsálfum. Falir fornbílar í góðu ásigkomulagi gætu þá einnig verið sýningargripir á setrinu. Er vonandi að Sverrir gerist brautryðjandi á þessu sviði, eins og svo mörgum öðrum. Hér er dæmi um fornbílasölu á erlendri grund: www.gullwingmotorcars.com [20.02]ös


Packard síða

Heimasíðuritstjórar fengu góð viðbrögð við frétt mánudagsins, þar á meðal ábendingu þess efnis að bandaríski Packard-klúbburinn sé með gríðarlega glæsilegan myndabálk sem enginn sannur fornbílamaður má missa af. Hér er tengillinn inn á þetta glæsilega myndasafn undir hliðartenglinum „showroom“: www.packardclub.org [11.02]ös


Víðar ljósmyndasöfn en hjá FBÍ

Ljósmyndasafnið hér á heimasíðunni hefur vaxið dyggilega og er í raun orðið á heimsmælikvarða eftir að Jón Loftsson bætti þar við myndum sínum og lagði ómælda vinnu í allskyns skráningu þar að lútandi. Ekki eru margir klúbbar sem státa að slíkri frammistöðu, en systurklúbbur okkar vestanhafs AACA hefur skemmtilegan fornbílamyndabanka, eins og sjá má hér: www.aaca.org [09.02]ös


Fornbílasýning í London

Í síðustu 28 ár hefur verið haldin fornbílasýning í Alexandra Palace í London. Núna er hún haldin dagana 20 - 21 mars (laug. og sun.). Þessi sýning er eðlilega með árherslu á breska og evrópska bíla, en oft eru nokkrir amerískir með. Margir sölubásar eru þarna með ýmiskonar varning, bæði notað og nýtt, en það er ekki neinn sérstakur varahlutamarkaður. Það er gaman að skoða þessa sýningu, sérstaklega til að sjá öðruvísi bíla en þessa amerísku sem er hægt að sjá allstaðar. Ekki skemmir fyrir að Alexandra Palace er 30-40 mín. ferðalag frá Oxford Street og alltaf hægt að finna sér eitthvað til að skoða og gera í London. Heyrst hefur að nokkrir félagar FBÍ séu búnir að panta ferð eða eru að skoða það, væri gaman að heyra í þeim sem ætla eða hafa áhuga á að fara. Þess má geta að um þessa helgi er fornbílasamkoma á flugminjasafninu í Duxford og einnig eru tveir antik markaðir í London á sama tíma. Fyrir þá sem hafa áhuga að kynna sér þetta betur, þá eru hérna fyrir neðan nokkrir linkar.[06.02]jsl www.classiccarslive.com www.londontown.com www.virtual-london.co.uk www.whatsonwhen.com


Yfir 100.000 heimsóknir á heimasíðu klúbbsins!

Frá því að heimasíða Fornbílaklúbbsins var tekin í gagnið fyrir tæpum tveimur árum hefur hún verið heimsótt 100.000 sinnum, ef marka má óbilandi teljarann á forsíðunni, en það eru að meðaltali um 140 heimsóknir á dag. Stærsti dagurinn í sögu heimasíðunnar var 12. janúar sl., með 306 heimsóknir, en þá var lokið við að endurhanna síðuna og miklu myndasafni bætt inn. Hafa nokkrir framsýnir félagsmenn jafnvel fullyrt að heimasíða klúbbsins hafi nú endanlega leyst glanstímarit klúbbsins af hólmi, Fornbíllinn, sem áður kom út einu sinni á ári, enda ómælt fleiri myndir og efni að finna á heimasíðunni á ársgrundvelli! [05.02]ösGlæsivagnar frá Packard í tilefni dagsins!

Fornbílaklúbbsfélagi númer 200 og Packard-maður númer eitt á Íslandi, Sigurbjörn Helgason, er fertugur í dag 4. febrúar og í tilefni dagsins er fréttasíðan tileinkuð þessum fyrrum glæsivagnaframleiðanda (þ.e.a.s. Packard). Því hefur verið hvíslað að umsjónarmönnum heimasíðunnar að afmælisbarnið verði í félagsheimilinu í kvöld og fái sér kaffi með félögum sínum í klúbbnum og hver veit nema drengurinn hafi afmælistertu með í farteskinu? Til hamingju með daginn Sigurbjörn!! Packard síða  [04.02]ös/jsl


Saga mótorhjóla á Íslandi

Njáll Gunnlaugsson félagi í Vélhjólafjelagi Gamlingja, er um þessar mundir að skrifa sögu mótorhjóla á Íslandi, og hefur hann grun um að fornbílamenn geti lagt til ýmislegt í þá sögu. Njáll óskar eftir nánast öllu sem tengist þessari sögu, t.d. myndir, sögur eða aðrar heimildir. Njáll hefur t.d. verið að setja saman lista yfir eigendur og tegundir mótorhjóla á Íslandi og er nú svo komið að yfir 800 fornhjól eru á þessum lista. Hægt er að lesa meira um þetta á www.sniglar.is. [03.02]jsl Hægt er hafa samband við Njál í síma 898 3223 og e-mail okukennsla@simnet.is


Bílar félagsmanna

Eins og félagar tóku eftir þá var sett inn félagatal og bílaeign með nýrri útgáfu af fornbill.is. Nú er unnið í því að setja nánari upplýsingar um bíla félagsmanna og er alltaf verið að bæta við af myndum. Margir hafa sent inn sögu og mynd, en það eru samt en mikið að myndum sem vantar. Þeir sem hafa ekki tök á að senda stafræna mynd geta sent okkur ljósmynd, negatífu eða slidesmynd og munum við skanna hann inn. Einnig óskum við eftir myndum af ný-innfluttum bílum, hvort sem menn eru félagar eða ekki. Nýtt í "Félagaskrá", nú er hægt að sjá félaga eftir landshlutum í póstnúmera röð. [02.02]jsl

e-mail : myndir@jsl210.com  
bréfpóstur : Jón S. Loftsson, P.O. Box 171, 212 Garðabær.