Eldri fréttir - Janúar 2004

Það byrjaði allt á auglýsingum

Margir Fornbílaklúbbsfélagar minnast þess að áhugi þeirra á gömlum bílum hafi byrjað við skoðun á erlendum glanstímaritum þar sem finna mátti glæsilegar bílaauglýsingar. Margir hafa eflaust klippt þessar myndir út og skoðað þær oft og iðulega, þangað til boðskapurinn hafði skilað sér rækilega og gert menn að gallhörðum fornbílamönnum. Efist einhver um þessa fullyrðingu er honum bent á að skoða þessar glæsilegu Lincoln auglýsingar: www.classiclincolns.com/vintageads [30.01]ös


Margir góðir Kádiljákar

Líkt og Buick og Ford, fagnaði Cadillac hundrað ára afmæli á síðasta ári, en þessi virðulegasta drossía Detroitborgar (sem heitir reyndar eftir fyrsta landnemanum þar) stendur enn uppi sem flaggskip bandarískrar bílaframleiðslu. Hér eru tvö skemmtileg myndasöfn tileinkuð Cadillac: www.pevomuc.de/100-Cadillac og http://home.no.net/ayla/Cadillac [29.01]ös


Lincoln-flaggskipið tilbúið fyrir sumarið!

Nú er orðið ljóst að tilvonandi flaggskip íslenska fornbílaflotans, Lincoln árgerð 1930 í eigu Þrastar Harðarsonar í Hafnarfirði, verður tilbúið á götuna fyrir sumarið, eftir hraða og örugga uppgerð, sem framvæmd er af Birni Sverrissyni fornbílavölundi á Sauðárkróki. Eins og flesta rekur minni til flutti Þröstur þennan mikla bíl inn frá Bandaríkjunum síðasta vor og var hann jafnframt fyrsti fornbíllinn sem kom til landsins eftir aðflutningsgjaldalækkunina. Bíllinn var sýndur opinberlega á landsmóti Fornbílaklúbbsins á Selfossi síðasta sumar og síðan fluttur norður til uppgerðar. Hér eru glæsilegar Lincoln-ljósmyndir: www.classiclincolns.com [28.01]ös


Trukkar nútímans eiga rætur í fortíðinni

Óvenju hagstætt gengi Bandaríkjadals virðist hafa hleypt nýju lífi í innflutning bandarískra bíla og við lækkun vörugjalda á pallbílum úr 45% niður í 13% eru þeir að verða verulega hagkvæmur innflutningskostur, eins og sjá má á spánýjum Ford 150 og Dodge Ram sem farnir eru að sjást oftar í reykvískri umferðinni. En eins og allt annað nýtt og gott þá á það sér uppruna í gömlu og enn betra (eins og flestir fornbílamenn vita) og trukkar nútímans eiga sér sterkar rætur í fortíðinni ens og glöggt má sjá hér [26.01]ös


Deiliskipulag samþykkt!

Nú er nokkra ára baráttu Fornbílaklúbbsins við skipulagsyfirvöld borgarinnar lokið, því nýtt deiliskipulag fyrir Elliðaárdalinn var loks samþykkt síðasta miðvikudag. Þar er gert ráð fyrir bílasafni og félagsheimili Fornbílaklúbbsins og því er fátt til fyrirstöðu að ljúka endanlegri hönnun hússins. Sem fyrr er áætlunin sú að húsið verði reist á þessu ári. [23.01]ös


Stjórn klúbbsins í Borgarnesi 24. janúar

Stjórn Fornbílaklúbbsins verður í Borgarnesi næsta laugardag og mun funda með félögum klúbbsins á Vesturlandi og öðrum bílaháhugamönnum. Sýndar verða myndir úr safni klúbbsins, meðal annars frá fjölbreyttu félagsstarfi, sumarferðum ofl. Eru vestlenskir bílaáhugamenn, og þeir sem vilja kynnast starfi Fornbílaklúbbs Íslands, hvattir til að mæta á fundinn sem verður haldinn í Félagsbæ, Borgarbraut 4, Borgarnesi, milli kl. 16 og 19. [22.01]


Grein um Skoda

Oft höfum við bent á góðar greinar eftir Leó M. Jónsson, véltæknifræðing, sem hann birtir á heimasíðu sinni. Enn ein greinin er nýkomin frá honum, saga Skoda. Eins og oft áður er það vel þess virði að lesa þessar greinar. [21.01]jsl


Opel bræður

Fyrir 105 árum ákváðu Opel bræður (þeir voru 5) að breyta saumavéla og reiðhjólaverksmiðju þeirra svo hægt væri að hefja bílaframleiðslu. Fyrsti bílinn var Opel-Lutzmann, en síðar var farið að framleiða fyrir Darracq. 1902 kemur síðan þeirra eigin hönnun á markað. 1929 ver stór breyting á Opel þegar GM eignast 80% hlut í þessu þýska fyrirtæki. Síðar eignast GM allt fyrirtækið og í dag er Opel með 25% af sölu bíla í Þýskalandi. Hérna er hægt að lesa um sögu Opel. [20.01]jsl


Margir glæsilegir Bjúkkar

Buick-fyrirtækið í Flint í Michiganríki fagnaði 100 ára afmæli á síðasta ári og fornbílamenn fögnuðu víða, enda vörumerkið vel þekkt. Íslendingar komust snemma í kynni við Buick, en fyrstu áratugina annaðist Jóhann Ólafsson innflutning þeirra áður en Sambandið rændi af honum umboðinu í stríðslok. Hér er skemmtilegt myndasafn tileinkað Buick. [19.01]ös


Fyrsta "Vettan"

Fyrsta "Vettan" Í dag 51 ári kynnti Chevrolet nýjan bíl sem nánast strax varð klassískur. Engin annar bíll var á götunni sem líktist Corvettuni og síst að af öllu með fiberglass body. Eitthvað var talað um að Corvettan væri kraftlítil, en það hafði ekki áhrif á sölu. Þriðja kynslóð Corvettunar, sem kom fram 1969, er samt sú sem flestir þekkja og muna eftir þegar minnst er á Corvettu. Margar "Vettur" hafa verið, og eru, hér á landi og er synd hvað fáar eru sjáanlegar á götunni. Hérna er hægt að lesa meira. [16.01]jslHeimsókn í Vélasvið Heklu í gærkvöldi

Í gærkvöldi komu rúmlega 40 FBÍ félagar í hið nýja hús Vélasviðs Heklu í Klettagörðum. Var vel tekið á móti hópnum af yfirmönnum Vélasviðs og forstjóra Heklu, Tryggva Jónssyni. Eftir að hafa skoða allt húsið var félögum boðið upp á veitingar og smá fyrirlestur um Vélasvið Heklu og framtíðaráform. Nokkrar myndir frá gærkvöldi. [15.01]jsl


Nýtt í sumar

Félaganefnd mun bjóða uppá SMS áminningu um ferðir í sumar til prufu. Sent verður SMS til þeirra sem óska eftir því. Vegna kvöldferða verður sent út um hádegi sama dag, vegna dagsferða verður sent út daginn áður. Þeir sem óska eftir þessu sendi skráningu á keyrsla@jsl210.com merkt "Áminning". Síðasta sumar var oft verið að biðja um fornbíla (af öllum stærðum og gerðum) á ýmsar uppákomur, oft með stuttum fyrirvara. Ferðanefnd óskar hér með eftir bílum á lista sem hægt væri að kalla til í þær aukaferðir sem til falla. Hægt er að fá SMS eða e-mail og þurfa félagar síðan að svara til baka svo hægt sé að sjá hvort nægur fjöldi náist í viðkomandi ferð. Þeir sem hafa áhuga, sendi skráningu á keyrsla@jsl210.com merkt "Aukaferðir" og taki fram GSM númer og tegund bíls eða bíla. [13.01]jsl


Nýtt útlit á fornbill.is

Eins og þið sjáið er búið að breyta útliti á heimasíðu Fornbílaklúbbs Íslands. Vonandi eru þessar breytingar til bóta, en margar kvartanir hafa komið í gegnum tíðina um að valhnappar á undirsíður hafi ekki virkað hjá öllum. Ákveðið var að um leið og því væri breytt að taka sumt út, færa annað og bæta við. Stærsta viðbótin er félagatal ásamt bílum félagsmanna. Undir "Bílar félagsmanna" er búið að bæta inn ca. 120 myndum af bílum félagsmanna, en til að geta séð stærri mynd og upplýsingar um viðkomandi bíla þarf að vera félagi í FBÍ. Ef valið er "Félagaskrá" opnast sér svæði með félagaskrá (listi), bílar félagsmanna (eftir tegundum) og síðan félagar og bílaeign (upplýsingar um félaga og bílaeign eftir árgerð). Með því að hafa þetta á netinu er hægt að búa til nokkurs konar "lifandi bók" sem hefur að geyma eigandasögu og aðrar upplýsingar um þá fornbíla sem félagar eiga eða átt hafa. Þær upplýsingar sem eru komnar inn eru byggðar á félagatali frá 1996 og skráningum í ferðir, má búast við að villur séu þarna og annað vanti. Vonum við að félagar taki vel við sér með að koma nýjustu upplýsingum til okkar, og eins myndum, en gaman væri að hafa eldri myndir með og eins þegar bílar hafa verið í uppgerð. Það má ekki gleyma því að félagar eru í þessum klúbbi til að varðveita fornbíla og annað sem tengist sögu bíla hér á landi. Eigandasaga og annað sem tengist viðkomandi bíl getur oft glatast ef ekki er haldið til haga og er þessi skrá hugsuð til þess. Þessar síður eru lokaðar öðrum en félagsmönnum og er lykilorð að finna í Skilaboðum, er póstlagt var síðasta föstudag. Sama lykilorð gildir til að komast inn í "Myndasíða JSL" en þar eru allar myndir sem undirritaður hefur, og mun taka, í ferðum FBÍ, 2002 og 2003, eitthvað um 1100 myndir. Undirritaður hefur unnið í þessum breytingum og félagaskrá, en Sigurbjörn Helgason hefur veitt mikla aðstoð við bílaskrá. [12.01] Jón S. Loftsson


Einstakt safn listrænna bílamynda

Á meðfylgjandi heimasíðu er að finna einstakt safn listrænna bílamynda, teknar af atvinnuljósmyndurum. Þeir sem hafa næmt auga fyrir formi og ánægju af fögrum hlutum munu án efa gleyma sér yfir þessum myndum, enda fátt glæsilegra en útlit fallegra fornbíla, mælaborða og húddfígúra liðins tíma: northstargallery.com [09.01]ös


Hægri eða vinstri?

Stundum er deilt um hvort betra sé að aka í vinstri eða hægri umferð. Íslendingar sveigðu yfir á hægri akgreinina árið 1968, en fjölmargar þjóðir aka enn á þeirri vinstri og ætla sér að gera það um aldur og ævi. Hér er áhugaverður listi yfir heimsskiptinguna í þessum efnum: [08.01]ös


Aldrei verið betra en nú!

Gengi bandaríkjadals hefur ekki um margra ára skeið verið eins lágt gagnvart íslensku krónunni og þessa dagana og elstu menn muna vart eftir 69 krónum í þessu sambandi. Minnast menn þess frekar þegar dalurinn rauk yfir 100 kallinn fyrir réttum tveimur árum. Enginn veit hvað núverandi ástand ríkir lengi, en eitt er víst að nú er gósentími að flytja inn fornbíl. Eins og flestir muna var vörugjaldið lækkað niður í 13% á síðasta ári, þannig að 5000 dollara bíll kostar hingað kominn með frakt (140.000 kr) og gjöldum (vörugjald og vsk) einungis 680.000 kr. Til að fá smá nasasjón af markaðinum er best að hoppa á þessa heimasíðu og velja sér rétta tegund: collectorcartraderonline.com eða náttúrulega á e-bay. [07.01]ös


Glæsilegt fornbílasafn í Sviss

Þeir sem hyggja á ferðalag um meginland Evrópu næsta sumar ættu að kíkja á Jean Tua bílasafnið í miðborg Genfar. Þar er að finna 140 fornbíla, sem flestir eiga evrópskan uppruna, meðal annars Hispano-Suiza, Voisin, De Dion-Bouton, Fiat, Delage, Citroën og Mercedes-Benz. Einnig er að finna þarna nokkra bandaríska bíla, eins og Buick, Packard og Plymouth. Hér eru myndir frá þessu merkilega safni. [06.01]ös


Meira um ferð til Svíþjóðar

Áætlað verð er komið í Svíþjóðarferð, sem stendur til næsta sumar (sjá betur frétt neðar) Tilboðsverð er ca. 53.000.- með öllum sköttum, miðað er við 4 nætur og tveir í herbergi. Rútuferðir eru ekki í þessu verði enda ekki vitað hversu margir koma til með að fara. Gist verður á Hotel Birger Jarl. Næsta miðvikudagskvöld í Húnabúð mun Guðbjartur Sigurðsson (Baddi), sem verður fararstjóri, vera með nánari kynningu á þessari ferð og svara spurningum. [05.01]jsl


Nýtt ár og nýjar áherslur

Nú þegar nýtt ár er gengið í garð er oft gott að skoða það sem áður hefur verið gert og gera kannski enn betur. Með nýju ári verða smá breytingar gerðar á félagsstarfi FBÍ. Félaganefnd mun koma með nokkrar nýjungar í vetrardagskrá sinni, verða þær kynntar síðar. Ferðanefnd og félaganefnd munu starfa meira saman í sumardagskrá og verður lögð áhersla á gott upplýsingaflæði til félaga um ferðir og dagskrá. Að síðustu munu félagar fljótlega sjá breytingar á vefsíðu FBÍ, er hafa verið í vinnslu undanfarið. Á síðasta ári var mjög góð mæting í Húnabúð yfir vetrarmánuði og góð þátttaka í ferðum síðasta sumars, væntum við ekki síst minni áhuga hjá félögum á starfi FBÍ á þessu ári. [02.01]jsl