Eldri fréttir - Desember 2003

Fornbílasýning næsta sumar í Svíþjóð

Motorhistoriska Marknaden í Tullinge í suðurhluta Stokkhólms er ein stærsta fornbílamessa í Skandinavíu. Í fyrra komu 6000 gestir og voru 600 sölumenn með varhluti og annað tengt gömlum bílum. Auk þess gaf þar að líta um 1000 fornbíla. Árið 2004 er markaðurinn haldinn 30-31 júlí (föstud-laugard) Verið er að kanna flug og gistingu og hvort áhugi sé fyrir ferð til Stokkhólms á þessum tíma. Það yrði þá flogið út t.d. á þriðjudegi, skoðuð söfn og annað í Stokkhólmi, síðan farið á markaðinn í lok vikunar. Flogið heim á sunnudegi. Þeir sem hafa áhuga á slíkri ferð geta haft samband við Badda, netfang : gsbad@simnet.is eða gsm 894 6086, fyrir 15 jan.2004. [22.12]


Saga Land Rover

Oft höfum við bent á góðar greinar á heimasíðu Leó M. Jónssonar, nú hefur hann bætt einni við safnið, saga Land Rover-jeppans 1947 - 1983. Þar rekur Leó sögu þessa jeppa og þróun hans. [19.12]jsl


Hraðamet á landi

Fyrsta heimshraðamet á landi var sett árið 1898, af Gaston de Chasseloup-Laubat greifa (já reyndu að segja nafnið hratt nokkrum sinnum) í Acheres garði nálægt París. Náði hann 39.24 mílna hraða á Jeantaud bíl sínum, sem var með rafmagnsmótor og alkaline rafgeyma. Jeantaud er talinn fyrsti bíllinn sem var með stýrishjóli, í staðinn fyrir stýrisstöng. [18.12]jsl


Stór dagur í sögunni

Í dag fyrir 100 árum voru 12 sekúndur einar þær merkilegustu í sögu farartækja. Þennan dag, snemma morguns, tókst tveimur bræðrum það sem menn höfðu dreymt um í margar aldir. Orville og Wilbur Wright höfðu verið í nokkur ár að skoða hugmyndir margra manna að flugvélum, eftir margar tilraunir með vængi í ýmsum útfærslum, tókst þeim að smíða flugvél sem þeir trúðu að gæti flogið.Þann 14. desember var fyrsta tilraun hjá Orville, en mótorinn gaf sig í flugtaki og flugvélin laskaðist og næstu þrír dagar fóru í viðgerðir. Þann 17. desember var reynt aftur og í þetta skipti fór Orville í loftið í heilar 12 sekúndur og flaug 120 fet. Ekki þarf að fara nánar út í hverskonar bylting þetta var í öllum samgöngum næstu áratugina. Til gamans má geta að lengd þessa fyrsta flugs er nálægt því að vera sætaröð 1 - 18 í Boeing 747. [17.12]jsl


Nýr sænskur bíll

Í dag fyrir 54 árum hóf sænskt fyrirtæki framleiðslu á sínum fyrsta bíl. 1937 var Svenska Aeroplan AB stofnað, fyrst og fremst sem partur af ákvörðun Sænsku stjórnarinnar að koma upp betri heimavörnum. 1938 hefur SAAB komið upp nýrri verksmiðju í Trollhättan og fékk framleiðslu leyfi á Junkers Ju86k sprengjuvélum fyrir Sænska herinn. Næstu árin er SAAB í framleiðslu á herflugvélum ýmsum, en 1944 prufa þeir að framleiða sína fyrstu farþegavél. Eftir WWII er ákveðið að fara í bílaframleiðslu eins og svo margir, og árið 1949 kemur bíll frá SAAB sem er þróaður útfrá þekkingu flugvélaverkfræðinga og tilraunum í vindgöngum. SAAB 92 setti línuna fyrir bíla frá SAAB næstu 30 árin. 1969 var SAAB-Scania stofnað, en alltaf var SAAB fyrst og fremst í framleiðslu herflugvéla og flugskeyta. 1990 er síðan Saab Automobile stofnað í samvinnu við General Motors. Hér er hægt að sjá nokkra bíla á SAAB safninu í Trollättan. [16.12]jsl


Gleymdir bílakirkjugarðar

Oft verða til staðir sem gömlum bílum er safnað saman á, annað hvort til að geyma þá þar til hægt sé að nýta hluti úr þeim eða bara ekki komist í framkvæmd að farga þeim. Eftir nokkur ár verður til bílakirkjugarður sem stækkar og stækkar og verður fyrir rest svæði sem enginn vill vita af. Þegar nógu mikið er komið af "draslinu" þá er svæðinu lokað og menn rífast í nokkur ár um hver eigi að bera kostnað af hreinsun og svæðið gleymist. Hér er heimasíða sem Ásgrímur Þórhallsson sendi okkur og sýnir einmitt nokkra bílakirkjugarða. [15.12]jsl


Það eru til fleiri fornbílar en fólksbílar

Flestir fornbílamenn hafa einbeitt sér að söfnun og varðveislu fólksbíla, en vörubílarnir eiga einnig stóran hóp áhugamanna. Í tilraunabyggingu Auburn-bílaverksmiðjanna sálugu í Indianaríki er starfrækt merkilegt bílasafn sem hefur helgað sig söfnun fornvörubíla, en þar er reyndar einnig að finna slatta af fallegum fólksbílum. Aldur bílanna nær allt aftur til 1908, en flestir þeirra voru þó framleiddir eftir síðari heimsstyrjöld. Hér eru myndir frá þessu merkilega safni. [12.12]ös


Rammgöldróttir bílar

Eftir áhugaverðan fyrirlestur Ómars Ragnarssonar um sögu Plymouth í gærkvöldi sáu fornbílamenn ´58 Fury laga sig sjálfan eftir illa meðferð vondra drengja. Árið 2007 mun hins vegar einhver góður drengur vinna splunkunýjan Plymouth Belvedere, sem mörgum kann að þykja harla undarlegt þegar litið er til þess að síðasti Plymouth-bíllinn rann af færibandinu 28. júní 2001 og síðasti Belvederinn árið 1970. Jú þessir bílar eru greinilega magnaðir, því að einn þeirra, af árgerð 1957, hefur legið neðanjarðar í Tulsaborg í Oklahomaríki, spánýr og ókeyrður, allt frá árinu 1957 og verður ekki grafinn upp fyrr en á fimmtugsafmælinu árið 2007. Um er að ræða getraun borgarinnar, sem haldin var árið 1957, og eignast sá (eða afkomendur hans) bílinn sem næst komst því að spá fyrir um íbúatölu borgarinnar eftir 50 ár, þ.e. árið 2007. Hér eru myndir frá þeim dögum þegar bíllinn var „jarðsettur“ og að sjálfsögðu verðum við með myndir hér á heimasíðunni af uppgreftinum 15. júní 2007. [11.12]ös


Ómar Ragnarsson kynnir Fury í kvöld!

Fornbílafélaginn Ómar Ragnarsson mun mæta á sýningu kvikmyndarinnar Christine í kvöld og halda stutta tölu um Plymouth Fury ´57-´59 áður en sýning myndarinnar hefst. Ómar er sérfræðingur í bílum þessa tíma og hefur sérstakan áhuga á Virgil Exner og þeim bílum sem hann hannaði hjá Chrysler, en Plymouth Fury er einmitt einn af þeim. Það er alltaf gaman að fá Ómar Ragnarsson í heimsókn, enda sjaldfundinn fróðari og skemmtilegri bílamaður. Því er um að gera að mæta á sýninguna í kvöld, en þá verður prufukeyrt nýtt hágæða DVD-tæki sem skilar skýrari mynd en áður hefur sést. [10.12]ös


Glæsivagnar á fornbílauppboði vestra

Nú fer að líða að þeim tíma þegar íslenskir fornbílamenn fara að huga að innkaupum fyrir næsta sumar og margir eru að verða spenntir að sjá hvaða fornbílar birtast nýir í næstu aðalskoðun. Í Michiganríki var á dögunum haldið gríðarlegt fornbílauppboð þar sem yfir 150 bílar skiptu um eigendur. Dýrasti vagninn var LaSalle árgerð 1937 sem seldist á 80.000 dollara. Þarna var líka hægt að gera reifarakaup , eins og t.d. í Corvair blæjubíl árgerð 1966 sem seldist á litlar 1400 dollara, en slíkur bíll myndi skila sér hingað á rétt rúmlega 300.000 kr. með frakt og öllum gjöldum. Flottur Mercury árgerð 1946 fór á litla 3500 dollara, glæsilegur ´54 Pontiac, 2 dyra hardtop, fór á einungis 7500 dollara, virðulegur ´41 Buick á 8500 og Cadillac frá árinu 1934 seldist á 14.000 dollara, sem eru smáaurar fyrir slíkan glæsivagn í toppstandi. Hér eru myndir frá uppboðinu [08.12]ös


Slegist um Íslensku bílaöldina!

Rit fornbílafélaganna Arnar og Ingibergs, Íslenska bílaöldin, hefur selst í yfir 2000 eintökum á innan við tveimur vikum og er það met í flokki fræðirita. Ákveðið hefur verið að prenta nýtt 3000 eintaka upplag svo hægt verði að mæta aukinni eftirspurn, en útgefandinn gerir sér vonir um selja að minnsta kosti 5000 eintök af bókinni fyrir jól. Óhætt er að fullyrða að þessi mikli áhugi almennings á íslensku bílasögunni sé að hluta til afrakstur blómlegs starfs Fornbílaklúbbsins á liðnum árum og er óskandi að á meðal fjölmargra lesenda leynist verðandi meðlimir í klúbbnum. Gleymið svo ekki að taka þátt í bílagetrauninni hjá Eddu útgáfu. [05.12]ös


Framtíðaráform klúbbsins í Elliðaárdal tryggð!

Á fjölmennum félagsfundi Fornbílaklúbbsins í gærkvöldi var samþykkt að veita stjórn klúbbsins fullt umboð til að halda áfram undirbúningi að byggingu nýs félagsheimilis og bílasafns í Elliðaárdalnum. Nokkur umræða spannst á fundinum um markmið klúbbsins í þessum efnum og þær fjárskuldbindingar sem framkvæmdunum fylgja. Til fundarins voru boðaðir Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi og Egill Guðmundsson arkitekt. Alfreð ítrekaði mikilvægi þess að bílasafn verði reist í borginni og hvatti fornbílamenn til að þiggja lóðina í Elliðaárdal, sem er án efa besta staðsetning innan borgarlandsins fyrir þessa starfsemi. Gengið var til atkvæðagreiðslu um málið og samþykktu 58 fundarmenn að haldið skyldi óhikað áfram, en 15 voru á móti. Borgarskipulag Reykjavíkur er þessa dagana að leggja síðustu hönd á skipulag Elliðaárdalsins, þar sem gert er ráð fyrir safnahúsi Fornbílaklúbbsins, og hönnunarvinna Egils Guðmundssonar arkiteks mun fara á fulla ferð um áramót. Gert er ráð fyrir því að húsið verði reist á næsta ári. [04.12]ös


Hinar skínandi húddfígúrur liðinnar aldar

Eitt af höfuðdjásnum fornbílanna okkar eru húddfígúrurnar, sem í allri sinni dýrð standa fremst á vélarhlífum bílanna, sem tákn um gæði og virðuleika hverrar tegundar. Um miðja síðustu öld gerði Bifreiðaeftirlitið uppreisn gegn þessu skrauti og skipaði bíleigendum að fjarlægja það vegna slysahættu. Nú er öldin önnur og fornbílar aka að vild um götur og torg með krómslegin spjót, þotur og hraðagyðjur. Hér er skemmtileg heimasíða sem sýnir hvaða húddfígúra tilheyrði hvaða bíltegund. [03.12]ös


Ertu bílatrúar eða alveg úti aka?

Nú getur þú fengið staðfestingu á því hvort þú ert alvöru fornbílamaður eða jafnvel alveg úti að aka í bílafræðunum. Á heimasíðu Eddu-útgáfu er getraun þar sem allir geta spreytt sig á 20 spurningum er tengjast íslensku bílasögunni. Þeir sem ná að svara fleiri en 16 spurningum teljast yfirburðamenn á bílasviðinu, en síðan fer að halla undan fæti eftir því sem réttum svörum fækkar. Þeir sem eru svo ólánssamir að sitja uppi með færri en 6 rétt svör ættu helst ekki að setjast undir stýri á bíl fyrr en þeir hafa lesið Íslensku bílaöldina spjaldanna á milli. Hér er getraunin. [02.12]ös