Eldri fréttir - Nóvember 2003

Ford í flugvélaframleiðslu.

Þegar Japanir réðust á Pearl Harbor, 7. desember 1941, fór allt á fullt í hergagnaframleiðslu hjá Bandaríkjamönnum. Undirbúningur fyrir stríð og eins aðstoð við Breta, hafði staðið yfir í nokkur ár, en heimurinn hafði aldrei áður séð hvað Bandaríkjamann geta gert þegar allir standa saman og með eitt markmið. Margar verksmiðjur voru teknar undir hergagnaframleiðslu og þar á meðal var samið við flesta bílaframleiðendur um framleiðslu á ýmsum hergögnum. Ford var þar á meðal og var stærsta verksmiðja heims byggð í Ypsilanti, Michigan, til framleiðslu á B-24 Liberator sprengjuflugvélum. Nýtti Ford sér þá kunnáttu sem þeir höfðu við framleiðslu á bílum á færibandi og þennan dag fyrir 61ári rúllaði fyrsta B-24 af línunni hjá Ford. Markið var sett á 500 stk. á mánuði og var því náð þegar bandamenn lentu á ströndum Vestur Evrópu, og í júlí 1944 var ein B-24 framleidd á klukkutíma. Í allt voru framleiddar 8.500 B-24 hjá Ford og án efa hafði þessi gífurlega framleiðslugeta Ford og annarra mikil áhrif á allan stríðsrekstur bandamanna. [28.11]jsl


Öðruvísi bílasafn.

Ef þú ert hrifinn af einhverjum af þeim tæplega 300 bílum sem eru sýndir á Volo Auto Museum, þá einfaldlega kaupir þú hann. Þetta safn er líka sýningarsalur fyrir fornbíla, þar sem flestir þeirra eru til sölu. Inn á milli eru sýningarbílar settir upp í umhverfi sem hæfir þeim. Hérna er hægt að lesa meira um þetta sölu/safn og eins sjá myndir frá því. [27.11]jsl


Ford Model A 76 ára.

Í dag fyrir 76 árum kynnti Ford nýjan bíl sem kallaðist Model A, fyrsti nýi bílinn frá Ford síðan T modelið "Thin Lissy" kom fram 1908. T modelið olli reyndar byltingu í bílaframleiðslu og seldist í ótrúlegum fjölda, 15 milljón bílar, þessi 19 ár sem hann var framleiddur, sem er að meðaltali 2.150 bílar á dag! Í nokkurn tíma hafði Henry Ford lagst gegn því að koma með nýtt model en að lokum varð hann að horfa á þá staðreynd að keppinautar hans voru að koma með bíla á markaðinn sem fólk vildi frekar en Ford T, enda orðin langur tími frá því að hann var settur á markað fyrst. Til marks um þrjósku Henry Fords, á breytingum og nýju útliti, sagði hann oft "fólk getur fengið hvaða lit sem er á bílinn, svo lengi sem hann er svartur". Á næstu fimm árum seldi Ford fimm milljón bíla af Model A í nokkrum útfærslum, þar til að framleiðslu Model A var hætt 1932. [26.11]jsl


Gamlar bílamyndir á opnu húsi á morgun!

Í tilefni af útkomu bókarinnar Íslenska bílaöldin eftir Örn Sigurðsson og Ingiberg Bjarnason munu þeir félagar halda myndasýningu með bílamyndum úr safni Ingibergs og Bjarna Einarssonar föður hans, en eins og flestir vita átti Bjarni stærsta bílamyndasafn landsins. Myndirnar, sem hafa verið skannaðar í hárri upplausn, verða sýndar með sýningargræjum klúbbsins og varpað á vegg. Fornbílaklúbbsfélögum er boðið að eignast Íslensku bílaöldina á sérstöku tilboðsverði, 6.900 kr., en sölumaður frá Forlaginu verður á staðnum og eru greiðslukort velkomin. Myndasýningin hefst stundvíslega klukkan 21.00 á morgun, miðvikudagskvöldið 26. nóvember. Húsið verður opnar klukkan 20.00. Góðar kaffiveitingar verða í hléi. [25.11]


Bílasafn í Sviss.

Jean Tua Museum í Genf er eitt af mörgum söfnum í Evrópu sem er þess virði að skoða. Yngsti bíllinn er frá 1960 og eru margir sérstakir bílar þarna til sýnis, en myndir segja allt sem þarf. [24.11]jslÍ dag í Smáralind.

Örn Sigurðsson og Ingibergur Bjarnason kynntu í dag bókina “Íslensku bílaöldina” í Smáralind. Sala bókarinnar hófst formlega þegar Örn afhenti fyrstu eintökin þeim Sævari Péturssyni, formanni Fornbílaklúbbs Íslands, og Geir H. Haarde, fjármálaráðherra sem er barnabarn Steindórs “leigubílakóngs”. Bókin verður kynnt alla helgina í Smáralind. Myndir frá þessu tilefni. [21.11]jsl


Heimsókn í Vegagerðina.

Í gærkvöldi fóru fornbílamenn í fræðsluferð til Vegagerðarinnar, Borgartúni. Þar á bæ var vel tekið á móti okkur og hófst heimsóknin á myndasýningu og sögufræðslu um fyrstu ferðina yfir Sprengisand 1933, sem var farin á óyfirbyggðum Ford 1927. Þjónustuver var einnig skoðað, en þaðan er fylgst með ástandi vega. Að því loknu var mönnum boðið að skoða nokkra bíla í porti Vegagerðarinnar. Boðið var síðan í kaffi og endað með myndasýningu og fræðslu um starf Vegagerðarinnar. Nokkrar myndir frá því gær. [20.11]jsl


Ökuhraði bifreiða

Brrr Brrr. Eins og örskot og með andskotann á hælunum þjóta bifreiðarnar eftir götum bæjarins, en eina bótin er að Akureyringar eru menn liðugir og snöggir í snúningum, því öðrum er vart fært að hætta sér út á göturnar, ef þeir vilja ekki eiga á hættu að missa líf og limi. Í bleytum eru borgarar heldur ekki öruggir á gangstéttunum, því bílarnir þjóta í pollana og skirpa þeim á undan sér upp á gangstéttarnar en bót er í máli, að þetta eykur atvinnu skraddara og efnalauga. [Dagur 1932 og Íslenska bílaöldin 2003]. [19.11]ös


Staða bílaiðnaðarins

Að sögn Leó M. Jónssonar er enginn iðnaður jafn alþjóðavæddur og bílaiðnaðurinn. Þrátt fyrir sviptingar með uppkaupum og samruna í sífellt stærri samsteypur er ekkert lát á. Framundan eru enn meiri breytingar bæði á fyrirtækjum, markaðstökum og tækni. 20. öldin var öld bílsins. Á fyrstu árum hennar urðu bílar að algengum farartækjum. 1907 hófst fjöldaframleiðsla á T-Ford sem leiddi til þess að almenningur í Bandaríkjunum gat eignast bíl og hönnun VW-bjöllunnar 1945 gerði enn fleirum kleift að eignast bíl upp úr miðri öldinni. Að undanskilinni tölvutækninni voru allir helstu hlutar bíls, eins og við þekkjum þá nú, komnir fram um 1940. Sem tæknilegur hlutur hefur bíllinn verið í stöðugri en hægfara þróun - a.m.k. í samanburði við þróun tölvunnar. Ódýrt eldsneyti (einkum í Bandaríkjunum) hefur ekki hraðað þróuninni. Árið 1950 framleiddu 9 bandarísk fyrirtæki 6,6 milljón bíla. Árið 2001 framleiddu 8 fyrirtæki um 12,8 milljón bíla í Bandaríkjunum, 4 þeirra í eigu Japana og eitt í eigu Þjóðverja. Framleiðslan hefur því nærri tvöfaldast á 51 ári. Á árinu 2001 voru framleiddir 55,7 milljón bílar í veröldinni;19,8 milljónir í Evrópu, 17,5 milljónir í Asíu og 15,8 milljónir í Norður Ameríku, 1,9 milljónir í Suður Ameríku og 700 þúsund annars staðar. Bílaframleiðsla minnkaði um 3,9 % á milli áranna 2000 og 2001 mest í Bandaríkjunum (10,6%). Þrátt fyrir það jókst sala GM-bíla árið 2001 eftir langt samdráttartímabil. Hér er meira um þetta áhugaverða efni: www.leoemm.com/bilaidnadur.htm [17.11]ös


"Old Betsy"

Í dag eru 89 ár frá því að John og Horace Dodge luku við sinn fyrsta bíl sem bar vinnuheitið "Old Betsy". Sama dag var hann prufukeyrður og sendur til síns nýja eiganda. Þeir bræður byrjuðu að framleiða reiðhjól árið 1897, snéru sér síðan að framleiðslu véla og bíla parta fyrir t.d. Ransom Olds og Henry Ford. Árið 1910 var Dodge Brothers Company orðið eitt það stærsta á sínu sviði í US og 1914 var stofnað Dodge Brothers Motor Car Company sem framleiddi bíla. Dodge bílar urðu fljótt þekktir fyrir gæði og áráðanleika og voru þeir bræður orðnir með ríkustu mönnum í Ameríku 1919. Báðir létust 1920 með nokkra mánaða millibili. Nokkru síðar eignast banki fyrirtækið og selur það síðan árið 1928 áfram til Chrysler Corporation. [14.11]jsl


Grein um Corvair

Chevrolet Corvair var einn af þessum bílum sem fékk aldrei tækifæri hjá kaupendum í US. Rakkaður niður af neytendafélögum og fékk á sig slæmt orð frá byrjun frá misgáfuðum kaupendum sem kunnu ekki að keyra nema eina útgáfu af bílum. Philip Powell skrifar hér ágætis grein um Corvair sem honum finnst vera einn af fallegri bílum eftirstríðsáranna. [13.11]jsl


Jeppar á Íslandi

Í kvöld sýnir Fornbílaklúbburinn heimildarkvikmynd um þróun jeppans, en eins og fram kom í frétt gærdagsins voru Íslendingar stórir viðskiptavinir Willys-verksmiðjunnar í Toledo í Ohio-ríki. Þetta vita bandarískir jeppaáhugamenn og hafa þeir sótt fróðleik til íslenskra jeppakarla og hafa víða birst myndir og efni um „jeppann óstöðvandi“. Hér eru tvær heimasíður og er önnur þeirra upprunin frá Hjalta Jóhannessyni landfræðingi og fornjeppamanni á Akureyri: www.thecj2apage.com    www.film.queensu.ca [12.11]ös


Jeppar á kvikmyndakvöldi á morgun.

Þriðja kvikmyndakvöld vetrarins verður á morgun, miðvikudagskvöldið 12. nóvember, en þá verður sýnd heimildarmynd um sögu jeppans. Sagt er frá hönnun herjeppans og framleiðslu hans, sem var í höndum Bantam, Willys og Ford. Eftir stríðið hélt Willys áfram að framleiða jeppann, sem nú var orðinn landbúnaðarjeppi og seldur bændum víða um heim. Eftir því var tekið að Íslendingar keyptu nokkur þúsund slíka gripi og fljótlega urðu Willys-jeppar algengustu bílar landsmanna. Kvikmyndin er einungis 55 mínútna löng og því gefst nægt tækifæri til að spjalla og drekka kaffi, bæði fyrir og eftir sýninguna, sem hefst stundvíslega klukkan 21.00. Fyrir þá sem vilja taka forskot á sæluna og skoða myndir af þessu sögulega ökutæki er bent á eftirfarandi heimasíðu [11.11]ös


Varist að kaupa köttinn í sekknum!

Eflaust hefur marga dreymt um að kaupa fornbíl frá Bandaríkjunum, eru jafnvel búnir að finna þann eina rétta á netinu og spara fyrir kaupunum. Þá er bara að stíga skrefið til fulls. En hér brestur marga kjarkinn, enda mikil áhætta fólgin í því að kaupa gamla bíla óséða frá annarri heimsálfu. Lausn þessa vandamáls er í höndum fyrirtækis sem heitir Automobile Inspections LLC. Þetta bílaskoðunarfyriræki er með 500 skrifstofur um gjörvöll Bandaríkin og ábyrgist nákvæma og örugga skoðun innan 72 klukkustunda. Gjaldið fyrir slíka skoðun er á bilinu 269-369 dollarar, sem getur verið fljótt að borga sig, því oft leynist flagð undir fögru skinni. Heimasíða Automobile Inspections LCC er: www.automobileinspections.com/ [10.11]ös


Góð bílasölusíða

Það er víða hægt að skoða fornbíla til sölu og höfum við netverjar bent á nokkrar góðar heimasíður á liðnum misserum. Hér er ein góð vestanhafs, sem vert er að skoða vel, enda má reikna með því að margir fornbílamenn noti vetrarmánuðina til að velja sér fornbíl fyrir næsta sumar og ekki spilla lág aðflutningsgjöld og hagstæður dollar: www.classicar.com/ [07.11]


Ýmislegt hægt án jeppa!

Fleyg er saga af presti nokkrum sem kom að máli við Magnús Jónsson dósent skömmu eftir að hann tók við formennsku í Fjárhagsráði árið 1947 og taldi sig nú aldeilis eiga hauk í horni, þar sem Magnús, fyrrverandi guðfræðiprófessor, var. Hann bar upp erindið, sem var að fá leyfi fyrir jeppa. Þetta mun hafa verið stutt ýmsum skynsamlegum rökum eins og gengur og gerist, en Magnús kvað hafa andæft að venju. Þar kom að prestur varpaði fram þeirri röksemd, sem átti að gilda, að hann gæti alls ekki sinnt kristnihaldi í sóknum sínum, svo að lag væri á, nema að hann fengi jeppa. En Magnús, sérfróður í Páli postula, svaraði að bragði: „Ekki man ég betur en Páli postula hafi tekist að kristna töluverðan hluta Rómaveldis – og hafði hann þó engan jeppa!“ [Íslenska bílaöldin bls. 171]. [06.11]


Hver var hvað í bílabransanum?

Automotive Hall of Fame hefur allt frá árinu 1967 heiðrað lykilmenn bílasögunnar, jafnt lifandi sem látna, og á lista þeirra er að finna alla helstu aðila þessarar miklu iðnaðarsögu. Á meðfylgjandi heimasíðu er að finna stuttar en hnitmiðaðar umsagnir um þessa aðila, þar sem hægt er að fræðast um marga merka brautryðjendur: www.automotivehalloffame.org [05.11]


Margt gerðist í trukkaferðum um miðja síðustu öld

„Um miðnætti voru allir gengnir til náða, mettir og dauðþreyttir eftir fagran og viðburðaríkan dag í faðmi íslenskra öræfa. Guðmundi Jónassyni, sem bjó um sig í svefnpoka á palli Vatnaljóts, varð þó ekki svefnsamt; fór eitthvað illa um hann í pokanum, en við nánari athugun kom á daginn, að hann hafði gleymt að taka upp úr honum ferðaborðbúnað og áhöld, sem hann geymir þar jafnan. Reyndust einhverjir af ferðafélögunum, sem einnig höfðu hreiðrað um sig á pallinum, honum hjálplegir, og drógu upp úr pokanum potta og pönnur og annað þessháttar, en alltaf þegar þeir héldu að pokinn væri tómur af öllu nema Guðmundi, reyndist þar eitthvað eftir sem gerði honum erfitt að festa svefninn og gekk svo lengi nætur. Það var ekki fyrr en um fjögurleytið, þegar þeir félagar höfðu fundið mikinn og flugbeittan slíðrahníf slíðurlausan undir þjóum Guðmundar, að hann féll í væran svefn.“ [Íslenska bílaöldin bls. 187]


Þeir bresku vekja sífellt meiri athygli

Það hefur nokkuð borið á þeirri umræðu meðal bílamanna hérlendis að breskum fornbílum sé lítið gert undir höfði. Er nokkuð til í því og er það miður, þar sem Bretinn hefur löngum þótt afar góður hönnuður, eins og Jagúar Nóbelsskáldsins og Aston Martin í þjónustu James Bond vitna vel um. Fyrir skemmstu var haldin 21. sýning Bretabíla í Sterling Heights í Michiganríki þar sem samankomnir voru 400 breskir bílar og 150 vélhjól. Fallegasti bíllinn var kjörinn Vauxhall árgerð 1934, stórglæsilegur blæjubíll. Hér gefur að líta frásögn af sýningunni ásamt myndamöppu með 26 bílum. [03.11]