Eldri fréttir - Október 2003

Dekk fyrir fornbíla.

Oft er erfitt að finna “orginal” dekk á fornbíla og eins dekk með hvítum hringjum. Coker Tire Co í US sérhæfir sig í framleiðslu á allskonar dekkjum fyrir bíla, mótorhjól og önnur tæki. Þetta fyrirtæki er eitt það stærsta í US og hefur náð að safna að sér eldri mótum og mynstrum frá framleiðendum. Hérna er hægt að lesa meira um Coker Tire Co og heimasíðu þeirra www.coker.com [31.10]jslViðurkenningar afhentar í gærkvöldi.

Ferðanefnd afhenti viðurkenningar fyrir mætingar í ferðir sumars í gærkvöldi. Rúnar Sigurjónsson, sem formaður ferðanefndar, afhenti þeim 26 félögum sem fengu viðurkenningu. Jóhann Þorsteinsson var sérstaklega heiðraður fyrir mætingu í allar ferðir sumars, jafnt skipulagðar sem aukaferðir, en hann eignaðist sinn fornbíl síðasta vetur, Ford Thunderbird 1964.

Aðrir sem fengu gullviðurkenningu voru Árni Páll Ársælsson, Árni og Guðný, Hans Gíslason, Jón S. Loftsson, Magnús Magnússon og Rúnar Sigurjónsson. Silfurviðurkenningu hlutu Guðbjartur Sigurðsson, Hróbjartur Örn Guðmundsson, Jens Kr. Jensson, Steingrímur og Guðný, Sævar Pétursson, Guðmundur Halldórsson og Rudolf Kristinsson. Bronsviðurkenningu fengu Davíð Hansson, Sigurbjörn Helgason, Sigurður Sigtryggsson, Þórður Sveinsson, Örn Sigurðsson. Aðalheiður Arnljótsdóttir, Flóvent og Nína, Gunnar og Sigrún, Hinrik Thorarensen, Ingibergur Bjarnason, Jóhann Árnason og Sveinn Þorsteinsson. [30.10]jsl


The Bruce Weiner Microcar Museum.

Eftir seinni heimsstyrjöld varð til sérstök tegund af "bílum" sem höfðu allir það sameiginlegt að vera þriggja hjóla og sambland af bíl og mótorhjóli. Þessir "bílar" urðu til af hugviti manna sem urðu að notast við fátæklegt úrval af efnum og allt varð að spara. Þessir "bílar" urðu margir ekki lengi í framleiðslu, en sumir náðu samt nokkrum vinsældum og eru safngripir í dag. Hérna er skemmtileg síða safns sem sérhæfir sig í "Microcars" www.microcarmuseum.com og síðan upplýsingar og myndir .[28.10]jsl


2600 bílar á Frankenmuth Auto Fest.

Samkoma þessi byrjaði árið 1983 með 80 – 85 bíla, en er núna komin í 2600 bíla. Þarna koma saman allskonar bílar og er hætt við að “orginal menn” mundu fá fyrir hjartað að sjá suma þeirra. En það er ekki hægt að líta fram hjá því að margir þessara “breyttu” bíla er listasmíð. Hérna er hægt að sjá 40 myndir frá þessari samkomu. [27.10]jsl


Bíllinn fór í fljúgandi fartinni

Hingað á Ísafjörð kom fyrst bíll vorið 1921. Sá var til vöruflutninga. Þótti sumum sem hann væri alls óþarfur í svona litlum bæ, en brátt sást að hann kom Hnífsdælingum vel í hald til flutninga héðan að innan. Vorið 1923 færði eigandi bílsins út kvíarnar og bætti við sig öðrum til að flytja mannfólkið. Þá kom nú heldur en ekki líf í tuskurnar. Bíllinn fór í fljúgandi fartinni, langt fyrir ofan allan mælikvarða, fram og aftur um bæinn, troðfullur af strákum og stelpum, þakinn utan og aftan af hangandi krökkum, en eftir fylgdu allir bæjarins hundar, geltandi og gjammandi á harðahlaupi. [Skutull 1927 og Íslenska bílaöldin 2003]. [24.10]ös


Heimsókn í Bílanaust.

Í gærkvöldi var farið í heimsókn í Bílanaust, Borgartúni. Þótt FBÍ félagar séu vel kunnugir þessari varahlutaverslun þá eru ekki margir sem hafa séð það sem bakvið er. Félagar fengu stutta tölu um starfssemi Bílanausts og framtíðaráform, síðan var skoðaður lager og önnur starfssemi. Í lokin var boðið í kaffi og gátu félagar skoðað sig um að vild. Nokkrar myndir .[23.10]jsl


Einn af okkar elstu Hot-Rod-bílum er ættaður frá Þingeyri

Margir fornbílamenn muna eflaust eftir Ford Victoria árgerð 1934 sem Eyjólfur Brynjólfsson í Jöfri átti í mörg ár og breytti á sínum tíma í „mildan“ Hot-Rod, með sportfelgum og sanseruðu grænu lakki, án þess þó að skemma útlit bílsins að öðru leyti. Nú hefur komið í ljós að þessi bíll er ættaður vestan af Þingeyri og var þar sannkölluð drossía á sínum ungdómsárum. Var hann meðal annars notaður sem viðhafnarbíll fyrir Friðrik krónprins Dana (síðar konungur) þegar hann heimsótti Vestfirði árið 1936. Nú hafa Þingeyringar sett inn áhugaverðar upplýsingar og myndir um þennan bíl og sögu hans á heimasíðu sína: www.thingeyri.com[22.10]ös


Árshátíð á Hótel Sögu.

Síðasta laugardagskvöld hélt Fornbílaklúbbur Íslands árshátíð fyrir sína félagsmenn, var hún haldin annað árið í röð á Hótel Sögu. Fríður hópur félaga og maka mætti prúðbúin og skemmti sér fram á nótt. Sævar Pétursson formaður setti hátíðina, síðan tók Georg Theodórsson við sem veislustjóri. Jóhannes Kristjánsson eftirherma skemmti eins og hann einn kann, happadrættið var á sínum stað og í lokin tók við dans við undirleik Tarnusar. Eitt sem er vert að nefna, nýir félagar og eins margir eldri eru ekki nógu duglegir að mæta á svona fagnaði. Árshátíð, vorfagnaður og aðrar samkomur er góður staður til að kynnast félögum og mökum þeirra og skemmta sér saman. Meðalaldur í FBÍ er ekki nema 50 ár svo ekki ættu þeir sem yngri eru að vera hræddir um að þetta séu allt “gamlir kallar”. Verum öll dugleg að mæta á fundi og skemmtanir og tökum þátt í þessum góða og fjölbreytta félagsskap. Myndir frá árshátíð .[20.10]jsl


Ólíft vegna ryks og olíusvækju

Bifreiðarnar eru vafalaust þarfaþing, en vitanlega er því eins varið um þær og margt annað sem þarflegt er, að þær má misbrúka. Bifreiðaferðir um bæinn eru að verða hreinasta plága. Finna menn einkum til þess nú í þurkunum þegar göturnar eu þannig, að ef síðklædd kona gengur um þær, þá stendur aftur af henni rykstrókurinn. Þegar bifreið fer um, má heita ólíft á götunni í hálftíma á eftir bæði vegna ryks og olíusvækju. Og þegar nú bifreiðarnar í bænum eru orðnar 30, þá geta menn sagt sér það sjálfir, að það er ekki langur tími á degi hverjum, sem líft getur kallast á aðalgötunum. [Vísir 1917 og Íslenska bílaöldin 2003]. [17.10]ös


Greenfield Village´s Old Car Festival.

Nýlega var sú sýning í Dearborn, Michican. Þar gat að líta marga fallega og fágæta bíla. Hérna er hægt að sjá nokkrar myndir frá þessari sýningu og er ekki annað hægt en að dáðst að þessum elstu bílum. [16.10]jsl


Í dag fyrir 37 árum.

Versti ökumaður í sögu Ameríku, kemur frá McKinney, Texas. 75 ára maður náði að fá 10 sektir, ók öfugu megin 4 sinnum, stakk af frá 4 ákeyrslum og olli 6 árekstrum, allt á 20 mínútum. Þetta hefur greinilega ekki verið hans dagur. Aftur á móti hefur Mrs. Turner verið ánægð með að hafa náð bílprófinu loksins þennan dag 1978, eftir aðeins 103 tilraunir !!! [15.10]jsl


Moskvich síða.

Það er alltaf gaman að sjá menn gera upp bíl sem er ekki einn af þessum “vinsælu” fornbílum, og ennþá skemmtilegra að sagan sé sett á netið. Sjón er sögu ríkari : http://arni.sigurdsson.bei.t-online.de/index1.html [14.10]jsl


Glæsivagnar í Windsor

Windsor-borg er syðsta borgin í Kanada og liggur handan Detroit-borgar við samnefnt sund. Þaðan er gott útsýni yfir skortsteina iðnaðarborgarinnar, sem oft spúðu svörtu á síðustu öld, þegar nýir bílar streymdu daglega þúsundum saman af færiböndunum. Nú er yfirbragðið öllu rólegra og menn hafa helgað sig fornbílaáhugamálinu báðum megin sundsins. Nýlega var haldin gríðarlega mikil fornbílasýning í Windsor og mættu þar margir glæsivagnar. Í meðfylgjandi frétt er fjallað um þessa sýningu og þar er auk þess að finna möppu með 60 fornbílamyndum. [10.10]ös


Myndasýning í tilefni af 70 ára afmæli Sprengisandsleiðangurs

Þess var minnst í ágúst sl. að 70 ár voru liðin frá fyrstu ökuferðinni yfir Sprengisand. Í tilefni þessa afreks verður opnuð myndasýning í hálendismiðstöðinni við Hrauneyjar á morgun, föstudaginn 10. október kl. 14.00, en þar mun Ómar Ragnarsson greina frá þessum merka leiðangri. Er félögum Fornbílaklúbbsins boðið að mæta á fornbílum sínum og þiggja kaffiveitingar að launum. Þess má geta að malbikað er alla leið og vegalengdin rétt um 150 km. Sýningin verður opin til næsta vors. Hér eru nánari upplýsingar um leiðangurinn 1933 á heimasíðu hálendismiðstöðvarinnar: www.hrauneyjar.is [09.10]ös


Nýjar bílagreinar á heimasíðu Leó M.

Leó M. Jónsson er manna iðnastur við að kynna sér bílasöguna og snara henni yfir á okkar ylhýra móðurmál. Nýlega birtust á heimasíðu hans tvær athyglisverðar greinar um sögu Willys-jeppans, sem er flestum Íslendingum að góðu kunnur, enda markaði hann upphaf hérlendrar jeppamenningar. Auk þess eru nýjar greinar um Chevrolet Corvair og Porsche 911. Nú er bara spurning hvenær Leó safnar saman öllu sínu athyglisverða bílaefni og gefur út í einni myndskreyttri bók, okkur fróðleiksþyrstum fornbílamönnum til ánægju og yndisauka. Hér er lesningin: www.leoemm.com [08.10]ös


Fimm þúsund fornbílar skiptu um eigendur á fimm dögum!

Nú er nýlokið fimm daga fornbílauppboði í Auburn í Indianaríki, sem er fæðingarbær glæsivagnanna Auburn, Cord og Duesenberg. Þar seldust hvorki fleiri né færri en 5000 fornbílar og fór þar fremstur í flokki Duesenberg Town cabriolet árgerð 1930, sem seldist fyrir heila 535.000 dali, eða sem samsvarar 42 milljónum kr. Næstir í röðinni voru Mercedes Benz 300 SL árgerð 1955 sem fór á 326.000 dali og Packard Victoria convertible á 135.000 dali. En þarna voru einnig ódýrir fornbílar og var til dæmis hægt að gera mjög góð kaup í mörgum glæsilegum eftirstríðsárabílum. Hér eru myndir frá uppboðinu. [06.10]ös


Skjaldarmerki á bílum.

Alltaf er hægt að finna eitthvað nýtt á netinu. Ellis Hillinger hefur það sem áhugamál að rekja merki bílategunda eins og skjaldarmerki eða “coat of arms”. Það eru ekki allar tegundir komnar inn hjá honum, en það er samt ýmislegt sem er hægt að fræðast um uppruna merkja. [03.10]jsl


Ítölsk hönnun í hávegum höfð

Eins og flestir fornbílamenn vita hefur ítölsk hönnun lengi verið í hávegum höfð og hafa margir bílaframleiðendur leitað í hugmyndasmiðjur Pininfarina og Ghia, svo dæmi séu tekin. Margir af eftirminnilegustu eftirstríðsárabílum vestanhafs voru t.d. hannaðir af Ítölum. En Ítalir eru mistækir eins og aðrir og þakka margir almættinu að sumar hugmyndir þeirra náðu ekki á framleiðslustig. Á meðfylgjandi slóð er að finna frásögn og myndir af sýningu sem haldin var nýlega í garðinum hjá Edsel sáluga Ford í Detroit og tileinkuð var ítalskri bílahönnun: [02.10]