Eldri fréttir - September 2003

66 ár frá falli stórhöfðingja

Í dag eru nákvæmlega 66 ár síðan síðasti glæsivagninn af Duesenberg-gerð var smíðaður í Auburnborg í Indianaríki. Þetta gerðist í miðri heimskreppu, nánar tiltekið 30. september árið 1937. Duesenberg-bílar voru rómaðir sem mestu lúxusbílar heims, handsmíðaðir fyrir útvalda kaupendur, einkum auðmenn og kvikmyndastjörnur. Að lokum varð þessi merkilegi bílasmiður einn af þekktari píslarvottum heimskreppunnar, sem fór óvægum höndum um hinn vestræna heim á fjórða áratug síðustu aldar. Í gömlu verksmiðjunum í Auburn-borg er að finna merkilegt bílasafn sem tileinkað er þessum glæsivögnum: www.acdmuseum.org [30.09]ös


Dísel-vélin 110 ára.

Í dag eru 90 ár liðin frá láti Rudolf Diesel (1858 - 1913). Árið 1885 setti Diesel upp verkstæði sitt og hóf tilraunir með uppfinningu sína. 1893 sýndi hann frumgerð af díselvél en það var ekki fyrr en 1896 sem hann sýndi vél sem var orðin nógu góð til nota og framleiðslu. Ári seinna var díselvélin komin í framleiðslu og 1898 var Rudolf Diesel orðin milljónamæringur af uppfinningu sinni. Diesel var mikill áhugamaður um tungumál, listir og verkfræði almennt. Nokkrum árum áður hafði Diesel fengið taugaáfall eftir miklar deilur og gagnrýni um áframhaldandi þróun díselvélarinnar. Eftir það varð hann þunglyndur mjög og þann 29. september 1913 hvarf Diesel fyrir borð af ferju á Ermarsundi, og er talið að hann hafi stokkið sjálfur. [29.09] jsl


Kjósum fornbíl vikunnar

Nú er um að gera að kjósa fornbíl vikunnar á vef Detroit News. Þegar þetta er skrifað virðist baráttan einkum standa á milli Pontiac 1941 alþýðubíls, Rolls Royce 1952 greifavagns og Lamborghini 1970 sportbíls. Úrslitin eru í þínum höndum, kjóstu hér .[26.09]


Hvað kom fyrir bílaborgina?

Fjölmenni var á kvikmyndasýningu Fornbílaklúbbsins í gærkvöldi, en þar var sýnd heimildarmynd um hundrað ára sögu Cadillac. Í myndinni sáust mörg myndskeið frá gullaldarárum Detroit-borgar, þegar allt iðaði þar af mannlífi og göturnar voru fullar af bílum. Í dag er þessi borg orðin að rannsóknarverkefni skipulagsfræðinga og borgarlandfræðinga, sem kanna hvað fór úrkeiðis, hvernig blómleg borg gat orðið svo niðurnídd. Árið 1950 var íbúatala borgarinnar 1,8 milljónir, en nú búa þar 900.000. Hlutfall hvítra og svartra hefur breyst gríðarlega á þessum tíma, en árið 1950 voru hvítir 84% íbúanna, en eru einungis 12% í dag. Á meðfylgjandi heimasíðu eru myndir frá borginni, m.a. af verksmiðjum fyrrum helsta samkeppnisaðila Cadillac, Packard.[25.09]


Víða stórafmæli á árinu

Það eru mörg stórafmælin á þessu ári eins og fornbílamenn vita. Eitthundrað ára afmæli fagna þrír af helstu bílaframleiðendum Bandaríkjanna, Ford, Cadillac og Buick, og sportbíllinn frá Chevrolet, Corvettan, hélt nýverið upp á fimmtugsafmælið. Nokkrir Fornbílaklúbbsfélagar skruppu til Dearborn í júní til að fagna aldarafmæli Ford-verksmiðjanna, en eitthvað fór minna fyrir hinum afmælunum. Fornbílaklúbburinn mun minnast Cadillac og Corvettunnar á kvikmyndasýningum í vetur og verður sú fyrsta einmitt á miðvikudagskvöldið. Meðan ekkert gott kvikmyndaefni finnst um Buick, er þó ávallt hægt að ylja sér við glæsilegar ljósmyndir. [22.09]ös


Eitthvað fyrir safnara að skoða um helgina.

Richard Kughn hefur verið að safna öllu mögulegu nánast allt sitt líf. Nú hefur hann ákveðið að tími sé til að selja og er fyrsta uppboðið um helgina. Safn hans er ótrúlegt að stærð, t.d. á hann um 400 bíla, sem eru geymdir í nokkrum húsum hans. Einnig er þarna “Tucker O-360” sem var tilraunavél, líklega ein af þremur. Richard ætlar að halda eftir 40 bílum og ýmsu smádóti en allt annað verður selt. Í uppboðinu um helgina verða 36 bílar, gömul leikföng, myndir, gamlar bensíndælur, leikfangalestar og fl. og fl. Það þýðir samt ekkert að rjúka til og kaupa farseðil þar sem uppboðið er bara fyrir boðsgesti ! Sjá frétt. [19.09] jsl.


Mótorhjólasafn brennur.

Síðasta þriðjudag kom upp eldur í National Motorcycle Museum sem er í Birmingham. Safn þetta var með rúmlega 800 mótorhjól til sýnis, það elsta frá 1898 og síðan fram til 1990. Áætlað virði þeirra 400 hjóla sem urðu eldinum að bráð er um 1.1 milljarður króna. Talið er að sígarettu glóð (frá starfsmanni) hafa komist í stæðu af pappakössum og síðan breiðst út um húsið. Menn geta aldrei of varlega farið í umgengni verðmæta. Þetta ættu fornbílamenn og aðrir að hafa alltaf efst í huga í meðferð elds eða annars sem getur valdið íkveikju.Í þessu sambandi er vert að benda á, að almennt í heimilis brunatryggingum (getur þó verið misjafnt eftir félögum) er ekkert tryggt í bílskúrum. Bílar sem eru í kaskó eru tryggðir, annað þarf að tryggja sérstaklega. [18.09] jsl.


Bílasafn bandaríska fornbílaklúbbsins

Nú er er bandaríski fornbílaklúbburinn (AACA) búinn að opna bílasafn sitt í Hersheyborg í Pennsylvaníuríki. Undirbúningur þess hefur staðið yfir töluvert lengur en safns FBÍ í Elliðaárdal, og hafa Íslendingar horft nokkuð á þá aðferðafræði sem notuð var við fjármögnun safnsins. Var áheitum safnað á nokkuð merkilegan hátt og má reikna með því að sú aðferð verði einnig notuð hér. Á meðfylgjandi heimasíðu er að finna nokkrar ljósmyndir frá hinu nýja safni í Hershey: www.aaca.org/museum [15.09]


Ferðin í gærkvöldi.

Síðasta ferð sumars var farin í gærkvöldi. Hófst hún með keyrslu um vesturbæinn, en síðan var stefnan tekin út á Seltjarnarnes þar sem Lyfjafræðisafnið var skoðað. Lauk síðan ferðinni á Kaffi Prestó, Kópavogi. Þrátt fyrir leiðinda veður var ágætis þátttaka eins og oft hefur verið í ferðum sumars. Nú geta fornbílamenn og konur, farið aftur að telja dagana fram að skoðunardegi 2004 ! Nokkrar myndir .[12.09] jsl.


Lundúnataxar vestur um haf

Eins og flestir vita er London höfuðborg heimsins og þar er að finna allt það sem finna má annars staðar, hvort sem er í söfnum, verslunum eða mannlífi þessarar iðandi stórborgar. Nú ber hins vegar svo til að einkennishlutir Lundúnaborgar eru óðum að ryðja sér til rúms á öðrum og fjarlægari stöðum. Bandaríkjamenn sem ferðast hafa til borgarinnar hafa tekið eftir því hversu Taxarnir í London er vel hannaðir og rúmgóðir. Larry nokkur Smith fór í ferðalag með fjögurra manna fjölskyldu sinni og lenti í því að mannskapurinn og farangurinn komust rétt með herkjum í límósínu vestra. Þegar komið var til Lundúna var ekkert mál að koma bæði fólki og farangi fyrir í breskum Taxa. Nú hefur Smith flutt inn þrjá Lundúna-Taxa til Detroit og munu þeir leysa trogin af í flugvallarkeyrslunni. Orðspor þeirra svörtu hefur reyndar borist víðar, því nú hefur ríkisstjóraefnið Arnold Schwarzenegger fest kaup á einum, auk þess sem heill floti hefur verið keyptur á leigubílastöðvar í Boston, Miami, Los Angeles og Washington DC. Nú er bara spurning hvenær Þórólfur lætur Strætó BS fjárfesta í nokkrum tveggja hæða rauðum! Nánar um þetta hér.[09.09]


Ljósanótt og Varahlutamarkaður.

Um síðustu helgi var nóg um að vera fyrir fornbílamenn. Á laugardegi voru mættir nokkrir fornbílar á Ljósanótt í Reykjanesbæ, ekið í gegnum bæinn og síðan sýning á SBK plani. Mikill mannfjöldi var í Hafnargötunni þegar fornbílar og mótorhjól fóru þar í gegn, var greinilega mikill áhugi á að sjá þennan fríða hóp. Um 23 bílar mættu og rúmlega 100 mótorhjól, og komu víða að, t.d. frá Borgarnesi og að austan. Það verður að viðurkennast að hjólafólk er duglegt að mæta á uppákomur ýmsar, þótt raki sé í lofti. Þegar sýningu var lokið fór partur af hópnum heim til Magnúsar (ferðanefndarmanns) og Jóhönnu. Eftir að hafa grillað var haldið niður í Hafnargötu og fylgst með tónleikum og flugeldasýningu. Á sunnudegi var næst síðasta ferð fornbílamanna og var mætt á Esjumel, þar sem hinn árlegi Varahlutamarkaður var haldinn. Bílageymslur voru opnar, vöfflur og kaffi handa öllum. [08.09] Myndir Ljósanótt - Myndir Varahlutamarkaður


Áttræður Rolls Royce í Íslandsheimsókn!!

Í morgun renndi Rolls Royce árgerð 1923 í hlaðið hjá Sverri Ingólfssyni safnstjóra á Ystafelli. Að vonum hélt Sverrir að um ofsjón væri að ræða, enda ekki á hverjum degi sem slíkur eðalvagn rennir þar í hlað. Um er að ræða blæjubíl af Silver Ghost gerð í eigu Bandaríkjamannsins Frederich Brown. Er hann hér í viku heimsókn ásamt dóttir sinni og voru þau að koma frá Seyðisfirði, en ætlunin er að keyra hringinn. Eru mæðginin í hnattferð á þessum forláta fornbíl og er Ísland fertugasta landið sem þau heimsækja. Reikna má með því að bíllinn komi suður til Reykjavíkur nú um helgina og eru fornbílamenn beðnir um að hafa augun opin og reyna að festa gripinn á filmu. Að sögn Sverris er bíllinn blár á litinn með drapplita blæju. Munu væntanlega birtast myndir af honum hér á heimasíðunni í næstu viku. [05.09]


Duesenberg 1935 á 100 milljónir.

Nýlega var haldið uppboð hjá RM Classics á eðalfornbílum. Þar voru margir fallegir fornbílar sem seldust á heldur hærra verði en við hérna á skerinu erum vanir, enda fágætir bílar og í toppstandi. Hæst fór Duesenberg Model J Convertible Coupe 1935, á 825 þúsund dollara, sem mundi þýða um 100 milljónir kominn á götu hér. En ekki voru allir bíla á þessu verði, þarna var hægt að ná í góðan bíl fyrir 3-4 milljónir eða svo. Myndir frá uppboði.[02.09]


Fatadagur.

Laugardaginn 30. ágúst var fatadagur hjá FBÍ. Eftir að hafa safnast saman á Essó Skógarseli, héldu fornbílamenn og fjölskyldur þeirra austur fyrir fjall. Byrjað var að aka hring í Hveragerði, en þaðan haldið að Gullfossi. Stutt stopp var gert þar, en haldið síðan á Hótel Geysi, þar sem hádegisverður var snæddur. Eftir að hópurinn hafði skoðað sig þar um eftir matinn, var haldið til baka í gegnum Þingvöll. Næsta stopp var á Tungubökkum í Mosfellsbæ, en þar tóku á móti okkur nokkrir (fornbíla-) félagar í Flugklúbbi Mosfellsbæjar. Boðið var í kaffi og síðan öllum sem vildu í stutta flugferð. Ekki var farið eins víða og flugmenn höfðu áætlað vegna lítils skyggnis, en þrátt fyrir það höfðu allir gaman af þessu boði Flugklúbbsins. Var svo ferð slitið þar um kl. 19. Félagar voru uppátækjasamir í fatavali eins og áður og vöktu mikla athygli, sérstaklega höfðu ferðamenn gaman af þessum skrítna hópi. Nokkrar myndir. [01.09]