Eldri fréttir - Ágúst 2003

Hallsteinn myndhöggvari lýsir eftir Willys!

Hallsteinn Sigurðsson myndhöggvari hefur átt ´63 árgerðina af Willys jeppa í þrjátíu ár, en núna er vélin farin að brenna olíu umfram það sem eðlilegt getur talist. Myndhöggvarinn þarf að eiga duglegt tæki til að draga kerru og af þeim sökum lýsir hann eftir vel uppgerðum Willys jeppa sem þarf að vera í góðu standi og ekki mikið eldri en 20-25 ára gamall. Gamli Willysinn verður til sölu ef annar finnst sem honum líkar og ræður við að kaupa. Þeir sem geta leyst úr málum Hallsteins eru beðnir um að hafa samband við hann í síma 557-7245 eða netfang hallsteinn.s@li.is. Þess má geta að höggmyndirnar sem eru á holtinu austan við Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi eru allar eftir Hallstein. [26.08]


Bílasíða.

Ýmislegt efni um bíla er hægt að finna á netinu, þar á meðal er þessi síða www.thehistoryofcars.com Þar er stutt yfirlit yfir flestar bílategundir og ýmislegt skylt efni. T.d. hvað vita margir að Isuzu byrjaði að smíða trukka árið 1934, og fólksbíla frá 1968. Eða að fyrsta verksmiðja Kia framleiddi reiðhjól 1944. Það eru ekki bara bandarískar bílategundir sem hafa langa sögu. [25.08]


Gamlir lögreglubílar.

Lögregluvefurinn er með nokkuð skemmtilega myndasíðu af eldri lögreglubílum, og nýjum. Þarna er hægt að sjá bíla sem menn eru búnir að gleyma úr umferðinni, eins bílategundir sem maður átti ekki von á að hefðu verið notaðir sem lögreglubílar. [21.08]


Bílasíða.

Margir hafa lesið greinar og umsagnir eftir Leó M. Jónsson vélatæknifræðing, en hann hefur líka góða heimasíðu með mörgum góðum greinum og ráðum. Nokkrar tegundir fornbíla fá þar úttekt á sögu sinni, eins er hægt að finna greinar um allt mögulegt þar. www.leoemm.com/ [20.08]


Allt stórt í henni Ameríku.

Þegar menn fara á rúntinn í Ameríku, þá er ekki verið að tala um nokkra bíla. Á hverju ári er haldinn stór rúntur í Michigan fylki, sem er kenndur við Woodward Avenue í Detroit. Í ár var áætlað að 30.000 bílar hefðu tekið þátt í “Woodward Dream Cruise” og ekki minna en 1.2 milljón manns fylgdist með. Reyndar tóku færri þátt núna í ár vegna rafmagnsleysis og rigningaskúra, en hátíð þessi var um síðust helgi. Hér er svo hægt að lesa meira um þessa hátíð og sjá myndir: Frétt 1, frétt 2, myndir 1, myndir 2, myndir 3, myndir 4.[19.08]


Grillferð FBÍ félaga.

Síðasta sunnudag fjölmenntu fornbílamenn og fjölskyldur þeirra á Þingvöll, þar sem slegið var upp grillveislu. Um 50 bílar mættu í þessa ferð og var glæsilegt að sjá þennan bílaflota á ferð í frábæru veðri. Var haldið inn í Bolabás og haldið til þar. Meðan grillið hitnaði fór partur af hópnum niður að Valhöll og sýndi sig þar í smá stund. Þegar líða fór á daginn kom smá rigningarúði, sem kom þó ekki að sök, þar sem búið var að grilla og allir notið góðra veitinga. Hér eru svo myndir frá deginum. Einnig eru nokkrar myndir frá “Rock and Roadshow” þar sem nokkrir fornbílar mættu á síðasta laugardag. Þrátt fyrir rigningu þegar lagt var á stað frá Reykjavík, rættist úr því og var þetta ágæt ferð. [18.08]


Nýr íslenskur Mercedes-Benz vefur.

Nýlega var opnuð íslensk síða tileinkuð Benz bílum, www.stjarna.is/ . Þar verður farið yfir sögu Benz og myndir af Benz bílum hér og erlendis. Stefnt er að hafa spjall síðu, Benz tenglasafn og fréttir af Benz. Virðist vera lagt mikið í að safna saman upplýsingum og sögu og verður örugglega mikinn fróðleik að hafa þar. [14.08]


Buick 100 ára.

Í júlí (23.-26.) komu saman 2000 eigendur Buick bíla til að halda upp á að 100 ár eru liðin frá því að fyrirtæki var sett upp í Flint til að framleiða bíla hannaða af David Dunbar Buick. Hérna er hægt að sjá meira um þessa samkomu [13.08]


Erlend fornbílagifting á Íslandi

Heimasíðunni barst um helgina bréf frá Michael nokkrum í Danmörku sem gifti sig nýlega hér á Íslandi og var ekið um í gulum Chevrolet árgerð 1952, sem er í eigu Guðnýjar Sigurðardóttir, en bílstjórinn var maður hennar Árni Þorsteinsson stjórnarmaður í klúbbnum. Michael þessi á glæsilegan Buick árgerð 1958 og hafði lofað Árna að senda upplýsingar um heimasíðu sína svo hann og aðrir íslenskir fornbílamenn gætu skoðað þennan mikla vagn. [11.08]


Akranes 09. ágúst.

Um 25 eigendur fornbíla og fjölskyldur þeirra fóru í heimsókn á Fornvéladag, sem haldinn var á Akranesi um helgina. Var vel tekið á móti okkur og var þetta í heildina góður dagur þrátt fyrir mikla rigningu (regnhlíf er orðin staðalbúnaður í okkar bílum). Safnasvæðið á Akranesi stóð að þessum Fornvéladegi og var frítt inn á safnið fyrir fornbílamenn og eins buðu þeir í Hvalfjarðargöngin. Safnið er mjög vel sett upp og er það vel þess virði að skoða það. Síðan var hópnum boðið í kaffihlaðborð í Maríukaffi, sem er í safninu. Vel var veitt og nutu allir þess í góðu umhverfi. Að lokum vilja fornbílamenn þakka sérstaklega fyrir góðar veitingar Maríukaffis. Myndir [11.08]


Heimsókn til Strætó bs.

Í gærkvöldi var farið í kvöldkeyrslu og síðan í heimsókn til Strætó bs. Þar var okkur sýnd þeira aðstaða og farið með hópinn í smá keyrslu á elsta og svo á nýjasta vagninum. Var svo boðið í kaffi þar sem Ásgeir Eiríksson framkvæmdarstjóri fór létt yfir sögu SVR og Strætó bs. Hér eru svo nokkrar myndir frá því í gærkvöldi. [08.08]


Þar sem rúmur mánuður er liðinn frá stærsta landsmóti Fornbílaklúbbs Íslands, er rétt að farið sé yfir ýmsa liði varðandi mótið.

Landsmótið sem var haldið á Selfossi dagana 20. til 22. júní, er án efa eitt best sótta mót sem FBÍ hefur haldið. Fjöldi bíla sem komu (um 110), nálægð við Reykjavík, góð aðstaða og ekki síst frábært veður, allt þetta gerði mótið að því sem það varð. En ekki má gleyma því sem á bakvið er, fjöldi fólks vann óeigingjarnt starf við undirbúning þessa móts. Það er ekki nóg að mæta á staðinn og allt gangi upp. Byrjað var að skipuleggja mótið fljótlega upp úr áramótum, og var tekin upp samvinna við Fornbílafélag Suðurlands, sáu þeir um aðstöðu á Selfossi og fleira. Bílageymslu- og varahlutanefnd sá um undirbúning og varahlutamarkað (ekki má gleyma Rudolf gjaldkera og Árna, sem stóðu vaktina ásamt fleirum). Ferðanefnd sá um allt sem viðkom akstri austur og dagskrá á Selfossi, Keppnis- og dómnefnd sá um keppni og verðlaun og margir aðrir góðir sem yrði of langt að telja upp. Einn var þó sem lagði einna mest af mörkum, Einar J. Gíslason og fyrirtæki hans ET flutningar, sem flutti varahlutagám og bíla endurgjaldslaust. Einnig voru menn á launum frá þeim alla helgina til aðstoðar. Einar bar þungann af skipulagi síðustu dagana fyrir mót og síðan framkvæmd mótsins, útvegaði hátalarakerfi og margt fleira, sá einnig um að allt væri klárt á tjaldsvæði. Framlag Einars skipti öllu máli og á hann ekkert nema hrós skilið. Ýmislegt er hægt að læra af svona stóru móti og margt má betur fara, en annað er vel heppnað. Nú þegar er búið að ræða og fara yfir þau atriði sem félagsmenn hafa bent á, og verður farið eftir því á næsta móti (sem verður án efa haldið í nálægð Reykjavíkur). Að lokum vill formaður og stjórn þakka öllum sem komu að þessu móti.[05.08]