Eldri fréttir - Júlí 2003

Benz síða á MSN.

Um daginn var fjallað um svokallaða hópa á MSN, Rúnar Sigurjónsson heldur þar úti síðu um Benz (hvað annað). http://groups.msn.com/Ponton [30.07]


Góður til sölu.

Nú er bíl sem við flestir þekkjum til sölu ef rétt verð næst, Oldsmobile 88 1956 með V8 324. Hann er með númerið Ö 90 og eigandi Magnús Magnússon, betur þekktur sem Maggi Hotrod. Hann vill fara að kíkja á eitthvað annað, (vantar eitthvað verkefni í skúrinn), og er tilbúinn að selja hann ef um semst. Hægt er að fá nánari upplýsingar í síma 869 6326. [29.07]


Bæjarferð.

Síðasta sunnudag var farinn svokölluð bæjarferð. Var ekið frá miðbakka kl. 14:30 um miðbæ inn að Klettagörðum og haldið út í Viðey. Fyrst var komið við í kirkjunni og var farið yfir sögu Viðeyjar. Sigrún Einarsdóttir var leiðsögumaður okkar og var farið víða um Viðey og sögu hennar, en Sigrún er fædd í Viðey. Um kl. 18 var farið í Smáralind og flugsýning skoðuð þar. Endaði dagurinn svo á TGI Friday´s þar sem hópurinn snæddi kvöldmat. Myndir. [28.07]


Myndir frá langferð.

Hér er hægt að sjá nokkrar myndir sem Guðbjartur Sigurðsson tók í langferð 12. – 20. júlí. [28.07]


Heimsókn í Reykjanesbæ.

Nokkrir fornbílar mætu á sumarhátíð í Reykjanesbæ í dag (26.07.) í frábæru veðri. Bílum var stillt upp í Hafnargötu, ásamt torfærujeppum og mótorhjólum, milli 12 – 14. Um kl. 14 var keyrður rúntur um bæinn og endað á Hótel Keflavík þar sem var boði uppá skemmtun og grill. Þar var valinn fallegasti fornbílinn og hlaut Ólafur Björgvinsson bikar, með Studebaker President 1955, í öðru sæti var Magnús Magnússon með Oldsmobile 88 1956 og í þriðja var Jón S. Loftsson með Dodge Royal Monaco 1976. Hér er hægt að sjá myndir frá deginum. [26.07]


Hringferð Fornbílaklúbbs Íslands.

Farin var hringferð dagana 12. – 20. júlí, og var fararstjóri Sævar Pétursson. Farið var til Akureyrar á fyrsta degi og þar haldin sýning á Essó. Vopnafjörður var næsti áfangi á degi 2, og þaðan haldið til Egilsstaða, þar var tjaldað í fjórar nætur. Á Egilsstöðum var haldin sýning, einnig hjá Essó. Þar hitti hópurinn mikinn áhugamann um fornbíla og tæki, Valdimar Benediktsson, sem rekur Véltækni hf. Valdimar bauð öllum að koma og skoða safn sem hann hefur komið upp í rúmgóðu húsi. Þar bauð hann ferðafélögum upp á léttar veitingar, og sendi síðan konfektkassa niður á tjaldsvæðið. Vilja ferðalangar þakka Valdimari fyrir sérstaklega góðar móttökur. Farið var víða frá Egilsstöðum, en haldið á Djúpavog þann 19. og ferð slitið þar. Ferðin tókst vel í alla staði, og má það þakka samstilltum hópi fornbílamanna og kvenna. Sérstakar þakkir fær Essó fyrir að styrkja þessa ferð. [24.07]


Notið netið.

Fyrir þá sem eru mikið "on-line" vita hvað netið hefur opnað marga möguleika fyrir þá sem hafa áhuga á fornbílum. En ef menn hafa brennandi áhuga á einhverjum vissum tegundum eða árgerð eða hverju sem er, þá getur verið sniðugt að stofna eða gerast meðlimur í hóp sem hefur sömu áhugamál. Einn staður sem er mikið með hópa er groups.msn.com og er hægt að finna nokkur þúsund af hópum þar um allt mögulegt. Þar geta menn rætt saman, sett inn myndir og fengið upplýsingar frá öðrum. Einn sem hefur sett upp hóp er Packard maður okkar Sigurbjörn Helgason, og er hans síða hér groups.msn.com/Packardcars . Gaman væri að fá að heyra um fleiri hópa sem "okkar" menn eru með, og er hægt að koma upplýsingum um það til jsl@itn.is [23.07]


Smábílar.

Þeir í Ameríku hafa aldrei verið mikið fyrir smábíla, heldur vilja stóra og mikla bíla. En það er samt til mikið af smærri bílum sem hafa verið þar á götu, nýlega sýndu félagsmenn í tveimur klúbbum bíla sína og er hægt að lesa góða grein um það hér og eins er myndir af nokkrum smábílum. [21.07]Fréttir af langferð og fleira.

Núna eru langferðamenn með frídag á Egilsstöðum, og í morgun var hópurinn að skemmta sér með hljómleikum sem samanstóðu af harmonikku og sög ! Á morgun verður haldið til Djúpavogs og ferðinni slitið þar og haldið til Reykjavíkur. Heyrst hefur um að smá bilanir hafa verið að koma upp, gírkassa vesen hjá einum, púst undan einum, stillingar vandamál og önnur smá vandamál. Fornbílmenn hafa verið duglegir að nota bíla sína í þessu frábæra veðri sem hefur verið, og virðist eiga að vera fram yfir helgi. Góð mæting var á Ak-Inn bæði á miðvikudags og fimmtudagskvöldi, og var farinn rúntur í miðbæinn og endað á miðbakka bæði kvöldin. [18.07]


Hjólbarðar í hnotskurn

Á meðfylgjandi heimasíðu er áhugaverð lesning á íslensku um hjólbarða, sögu þeirra og sérkenni, en það er ýmislegt sem við vitum ekki um þessa nauðsynlegu hluti. Þar er til dæmis greinagóð skilgreining á talnadótinu á hliðinni á dekkjum sem flestir hafa klórað sér í hausnum yfir: [16.07]


Saga Michelin hjólbarða á íslensku!

Bílasagan á sér margar merkar hliðar. Ein þeirra er saga hjólbarðanna, því án þeirra yrði aksturinn heldur endaslepptur. Eitt af merkilegri hjólbarðafyrirtækjum heims er franska Michelin fyrirtækið sem nú framleiðir dekk um allan heim og útvegar meðal annars mörgum Formúluliðum trausta barða. Á meðfylgjandi heimasíðu er saga þessa merkilega fyrirtækis rekin á skemmtilegan hátt á íslensku og þar kemur margt athyglisvert í ljós, meðal annars þetta: "1930: Michelin finnur upp og tekur út einkaleyfi á hjólbarða með innbyggðri slöngu, sem auðvitað er fyrirrennari slöngulausra hjólbarða eins og við þekkjum þá í dag". [14.07]


Lagt upp í langferð.

Í morgun (laugardag) lögðu um 15 fornbílar í langferð um Austurland. Var lagt af stað til Akureyrar frá Essó Ártúnshöfða, en þar var bensín í boði Essó. Þegar þetta er skrifað kl. 13, var hópurinn að rúlla framhjá Bifröst. Áætlað er að um 20 bílar verði í hópnum þegar þangað er komið, og verða þeir til sýnis milli 19 og 20, á Essó Leirum. Gist verður á Akureyri í nótt, en haldið til Vopnafjarðar á sunnudag. Von er síðan á nokkrum bílum sem bætast í hópinn fyrir norðan, og eins fyrir austan. [12.07]


Bók í smíðum.

Eins og margir hafa tekið eftir, í Morgunblaðinu í dag, er verið að auglýsa eftir myndum í nýja bók, Bílaöldin, sem Örn Sigurðsson fyrrverandi formaður og Ingibergur Bjarnason (stjórnarmaður og sér um myndasafn FBÍ) eru að vinna að. Myndir eru aðalefni hennar með upplýsingum um viðkomandi bíla, og verður farið yfir sögu bíla á Íslandi síðustu 100 ár. Nú vantar myndir af bílum við ýmsar aðstæður frá áttunda og níunda áratug, aðallega japönskum og amerískum. Þeir sem eiga góðar myndir frá þessum árum, og hafa áhuga á að leggja lið, eru beðnir að hafa samband við höfunda. [10.07] orn.sigurdsson@edda.is sími 522 2000 Ingibergur Bjarnson sími 564 2522


Stefnir í ofurlangferð 12.–19. júlí

Fyrirhuguð langferð um Austurland verður farið 12. til 19. júlí. Mæting er við Essó Ártúnshöfða laugardaginn 12. júlí klukkan 10.00, en þar verður tankað bensín í boði Olíufélagsins og síðan ekið sem leið liggur til Akureyrar (389 km). Á sunnudeginum verður ekið til Vopnafjarðar (250 km) og mánudeginum til Egilsstaða (173 km), en þar verður höfð bækistöð fram á laugardag. Þriðjudaginn 15. júlí verður ekið um Borgarfjörð eystri (148 km), á miðvikudeginum til Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar (147 km), en á fimmtudeginum um Fjarðarbyggð (132 km). Frjáls dagur er á föstudeginum (til að safna kröftum fyrir heimferðina) en síðan verður ekið til Djúpavogs á laugardeginum (221 km) og ferðinni formlega slitið þar, en þaðan verður ekið til Reykjavíkur (554 km). Ritstjórar heimasíðunnar munu verða í góðu sambandi við ferðalangana og birta reglulega fréttir af gengi þeirra eystra. Samtals verða eknir 2014 km í þessari ofurlangferð og verður spennandi að fylgjast því með hvað margir fornbílar gefa upp öndina í slíkri þolraun! [09.07]


Fornbílamenn fá góða einkunn.

Í Sunnlenska Fréttablaðinu kom frétt um gífurlega umferð á Selfossi helgina sem landsmót var haldið, og er haft eftir lögreglu um fornbílamenn og bifhjólaklúbba “Eins og við var að búast fór allt vel fram þar sem félagar þessara klúbba fóru enda eru þeir yfirleitt fyrirmynd í umferð”. Annars sjá þeir á blaðinu líka fyrir sér nýja þjónustu hjá Esso. [08.07]


Góður fornbíladagur í Árbæjarsafni

Það rættist úr fornbíladeginum í gær, þó það væri rigningarlegt framan af. Lítið varð þó úr rigningunni og mæting fornbíla var góð og gestir streymdu að um miðjan daginn. Sem fyrr var bílunum raðað vítt og breytt um safnasvæðið nálægt sögufrægum húsum, en segja má að hvergi fái fornbílar betur notið sín en á Árbæjarsafninu. Meðal sjaldséðra bíla á sýningunni var Packard árgerð 1938 og Mercury árgerð 1946 sem áður var í eigu Péturs Kristóferssonar í Hvalfirði. Núverandi eigandi þess bíls er Halldór Gíslason stjórnarmaður í Fornbílaklúbbnum. Hér eru myndir frá fornbíladeginum.[07.07]Merkilegt bílaafmæli

Núna í júlímánuði eru 50 ár síðan fyrstu Ponton-Benzarnir runnu af færiböndunum suður í Stuttgartborg, en þeir mörkuðu upphafið að nýju blómaskeiði hjá Daimler Benz, sem allt frá stríðslokum hafði framleitt nær óbreytta fyrirstríðsbíla og barist í bökkum fjárhagslega. Nýju bílarnir þóttu nútímalegir með sjálfberandi grind og var sérstök áhersla lögð á öryggi ökumanns og farþega, til dæmis með tvöföldum hurðalæsinum, þó öryggisbeltin væru enn ekki komin til sögunnar. Ponton-Benzarnir seldust eins og heitar lummur og fjárhagur fyrirtækisins tók mikinn kipp upp á við, en í dag er það eitt af fjársterkustu fyrirtækjum heims. Pontoninn er án efa hornsteinn þessarar velmegunar og er hálfrar aldar afmælisins minnst víða um heim, meðal annars á meðfylgjandi heimasíðu: www.mbzponton.org/ [04.07]


FIAT bílar sem Opel, Chevrolet og Suzuki ?

Risinn á Ítalíu virðist vera endanlega að falla, og er álit manna í US að á næsta ári verði GM búinn að eignast FIAT Auto. Hérna er tengill á alla fréttina.[03.07]