Eldri fréttir - Júní 2003

Merkur bílasagnfræðingur á Íslandi

Fyrir skömmu dvaldi hér á landi þýski bílasagnfræðingurinn Walter Zeichner, sem skrifað hefur nokkra tugi bílabóka í heimalandi sínu, en hann er auk þess starfsmaður skjalasafns BMW í München. Ferðaðist Zeichner um landið ásamt konu sinni og skoðaði meðal annars bílasafnið á Ystafelli. Ritstjóri heimasíðunnar hefur haft nokkur samskipti við Zeichner á liðnum misserum, meðal annars vegna upplýsingaöflunar um þýska bíla sem komu hingað til lands fyrir stríð. Ofarlega á lista þar er Mercedes Benz bíll þýska sendiherrans Werners Gerlach og fyrsti jeppinn sem kom til landsins, en sá hét Tempo. Fjallað verður um báða þessa bíla í viðamikilli bílasögu sem nú er í smíðum. Zeichner og frú enduðu góða Íslandsför sína í grillveislu heima hjá heimasíðuritstjóranum þar sem mikið var rætt um hina áhugaverðu bílasagnfræði. Hefur Zeichner áhuga á að koma aftur til landsins þegar fornbílasafn klúbbsins er risið í Elliðaárdal og mun þá halda fyrirlestur um fag sitt. [30.06]Falir fornbílar í Danmörku

Valdimar Haraldsson fornbílakappi í Danmörku er iðinn við að finna bíla sem hann bíður nú Íslendingum til sölu, enda hefur hann greinilega fengið vitneskju um lækkandi vörugjald fornbíla. Í boði eru meðal annars Ford Thunderbird árgerð 1963 í fínu ásigkomulagi með V-8 390 sem kostar aðeins 45.000 danskar eða 540.000 íslenskar. Mustang blæjubíll árgerð 1973 kostar 70.000 danskar og síðan eru nokkrir óverðmerktir, meðal annars tveir Cadillac ´59 stélfákar. Þeir sem vilja hafa samband við Valdimar er bent á netfang hans: ponyman@ofir.dk. [27.06]


Myndir frá spyrnu.

Vinir okkar í Kvartmíluklúbbnum, láta ekki spyrnu framhjá sér fara án þess að mynda hana. Á myndasíðu þeirra eru stuttar video myndir af spyrnu Fornbílaklúbbsins á Selfossi. Þarna eru líka margar eldri myndir af bílum sem hafa skreytt götur hér áður fyrr. [26.06]


Mikið um að vera á aldarafmælinu

Nú er nýlega yfirstaðin mikil afmælishátíð í Dearbornborg við Detroit, en tilefnið var hundrað ára afmæli Fordverksmiðjanna. Sett var upp viðamikil sýning í borginni, en framvegis verður lögð aukin áhersla á þjónustu við ferða- og fornbílamenn og má geta þess að á næsta ári verður á nýjan leik tekið á móti gestum í sjálfri verksmiðjunni. Heyrst hefur að Guðmundur Bjarnason, Fordáhugamaður númer eitt á Íslandi, og nokkrir félagar hans hafi verið í Dearborn og tekið þátt í afmælisfagnaðinum. Hér er frétt og myndir. [25.06]


Þegar kaupa á fornbíl

Nú þegar frábært landsmót og sýning er afstaðin, má gera ráð fyrir því að margir séu með hugann við að fá sér fornbíl. Enn það getur verið löng leit að réttum bíl, og eins er margt að varast ef leitað er á netinu. Hér fyrir neðan er vísað á síðu sem fer yfir mörg þau atriði sem þarf að varast, eins eru tenglar á síður sem gefa góðar upplýsingar fyrir kaupendur. Oft getur líka borgað sig að skoða á mörgum stöðum, það er ekki bara E-Bay sem er með uppboð. [24.06] www.buyclassiccars.com/Vel heppnað landsmót

Nú er landsmót Fornbílaklúbbsins afstaðið og þótti það takast með miklum ágætum. Mættu um 100 fornbílar á staðinn og hefur sjaldan sést föngulegri hópur fornbíla á einum stað hérlendis. Landsmótið var formlega sett á brún gömlu Kambana á föstudagskvöldið og gengu menn og óku niður gömlu vegina, þann elsta sem lagður var fyrir aldamótinn 1900 og þann yngri sem var í notkun frá 1943-1972. Á laugardeginum voru fornbílarnir til sýnis á tjaldstæði Selfossbæjar, en þar var einnig haldinn varahlutamarkaður. Síðan var haldið kassabílarallý og spyrnukeppni fornbíla. Mikinn fjölda gesta bar að garði til að taka þátt í hátíðinni og skoða glæsilega farskjóta, enda var veðrið með allra besta móti. Þó var gagnrýnt að engin dagskrá skyldi vera á sunnudeginum, en þá var nokkuð um að fólk kæmi frá Reykjavík til að skoða fornbíla sem þá voru á bak og burt. Er sjálfsagt fyrir mótshaldara að athuga þetta næst, sérstaklega þar sem mótið er haldið svo nærri höfuðborgarsvæðinu og lítil ástæða til reikna með langri heimferð. Hér eru margar skemmtilegar myndir frá landsmótinu. [23.06]Myndir frá landsmóti

Nokkrar myndir frá landsmótinu á Selfossi um helgina eru komnar í ljósmyndakaflann. [22.06]


Landsmót sett

Fjölment var við settningu Landsmóts á Kambabrún. Geir H. Haarde fjármálaráðherra setti mótið, og var honum síðan ekið niður gömlu Kamba á Ford 1930 af Sœvari formanni. Um 20 bílar fylgdu á eftir þeim, ásamt stórum hópi fólks sem fór á eftir fótgangandi undir leiðsögn Þórs Vigfússonar. Var síðan haldið á tjaldsvœði Selfossar þar sem um 40 bílar eru mœttir. Frábœrt veður var í gœrkvöldi, og er eins í dag. Er von á stórum hópi af FBÍ félögum (ásamt bílum) í morgun, enda stutt að fara frá Reykjavík. Dagskrá byrjar um kl. 12, og heldur svo áfram fram undir kvöld. [21.06]17. Júní – Akstur og sýning miðbakka

Um 70 bílar mættu í hinn árlega 17. júní akstur og sýningu, þrátt fyrir úrhellisrigningu á köflum. Fornbílamenn létu það ekki á sig fá, og gekk allt upp eins og sögu, vegna góðs skipulags ferðanefndar. Reynt var nýtt skipulag á uppröðun í akstur og sýningu, og virkaði það mjög vel. Ekið var niður Laugaveg, Bankastræti, Austurstræti og síðan út á miðbakka. Þegar þar var komið stytti fljótlega upp, og kom hið besta veður. Voru síðan bílar til sýnis til kl. 16. og var mikið af fólki að skoða allan tímann. Hér eru nokkrar myndir frá því í gær. [18.06]FBÍ félagar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum

Félagar fjölmenntu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn síðasta laugardag, og var veðrið eins og pantað fyrir okkur. Mætt var á um 20 bílum, sem voru til sýnis meðan félagar, og fjölskyldur þeirra, gerðu sér glaðan dag í garðinum. Boðið var uppá kaffi og kleinur, og miða í öll tæki, sem börn (og eldri) nýttu sér og höfðu gaman af. Var mikil ánægja með þessa heimsókn, og má búast við góðri mætingu næsta sumar, þar sem heimsókn í garðinn verður partur af sumardagskrá 2004. Hérna er hægt að sjá myndir frá þessum degi og segja þær allt sem þarf. [16.06]


Söfn í London

Þegar London er heimsótt, er alltaf gaman að skoða einhver söfn. Eitt þeirra sem oft gleymist er London Transport Museum, Covent Garden. Þarna eru sýndir gamlir leigubílar, rútur, strætó og lestar. Mikið af myndum og skemmtileg uppsetning. Það fara allir, sem koma til London, í Covent Garden, því ekki að eyða klukkutíma í að skoða þetta safn í leiðinni. Annað safn sem er gaman að skoða er Science Museum, þar er hægt að sjá sögu og þróun véla, farartækja, skipa og margt fleira. Best að taka daginn snemma til skoða það, svo um eftirmiðdaginn er hægt að rölta niður Brompton Road, og fara í te í Harrods á Terrace Bar 4 hæð. og í leikfangadeild sem er á sömu hæð er mikið úrval modelum af eldri bílum. [12.06]


Munaðarleysingjarnir í Ypsilanti

Um síðustu mánaðarmót var haldin árleg sýning á munaðarleysingjum úr bílastétt, en svo eru gjarnan nefndir þeir bílar sem ekki eru lengur framleiddir. Meðal þeirra eru glæsivagnar á borð við Packard, Hudson, Studebaker, DeSoto, Nash og Kaiser. Sýningin var haldin í borginni Ypsilanti, rétt vestan við Detroit, en þar eru meðal annars hinar gríðarstóru Willow Run verksmiðjur, þar sem Kaiser og Frazer bílar voru framleiddir um miðja síðustu öld, en í dag eru þar Hydra-Matic sjálfskiptingaverksmiðjur GM. Í Ypsilanti bjó og starfaði forðum daga Preston nokkur Tucker, sem frægur varð fyrir samnefndan bíl sinn, og þar starfar enn hinn rótgróni Hudson bílasali Jack Miller, sem ritstjóri heimasíðunnar hefur gerst svo frægur að heimsækja. Hér er skemmtileg frásögn af sýningunni ásamt 57 mynda möppu. [11.06]


Bílategundir og bíla auglýsingar

Margar bílategundir hafa fengið á sig "ný" nöfn í gegnum tíðina, og hafa þau mörg heppnast vel. Oft hafa menn verið með góðar þýðingar, sem hafa jafnvel fest sig í daglegu tali á milli bílamanna. Hérna er hægt að skoða lista yfir mörg þeirra, er þín tegund hér? www.web-cars.com/humor/acronyms.html Eins væri gott að geta lesið á milli lína í bíla auglýsingum. www.web-cars.com/humor [10.06]


Fyrsta kvöldkeyrsla

Fyrsta kvöldkeyrsla sumars var í gærkvöldi, og mættu um 50 bílar. Frá miðbakka var ekið um Laugaveg og miðbæ, síðan var haldið inn í Elliðaárdal og Rafheimar skoðaðir. Kynnt var staðseting á væntanlegu félagsheimili FBÍ við hlið Rafheima. Fjölmennt var á kaffihús í lokin. Myndir frá gærkvöldinu er hægt að sjá hér .[06.06]


Jay Leno skrifar um bíla.

Eins og þeir vita sem horfa á Jay Leno, þá er hann með mikla bíladellu, og hefur hann skrifað nokkrar greinar í Popular Mechanics. Þar skrifar hann um 10 uppáhldsbílana sína, eldri bíla, næstu kynslóð fornbíla og fl. Þetta er ágætis lesning og fróðleg. [03.06]


Nýtt félagsskírteini!

Nú er samvinnu Fornbílaklúbbsins og Olíufélagsins varðandi útgáfu félagsskírteina klúbbsins endanlega lokið, eftir að hafa gengið brösulega síðustu misserin. Í stað þeirra hafa verið gerð ný félagsskírteini handa öllum félögum klúbbsins og fylgja þau Skilaboðunum sem borin verða út til félagsmanna í dag í sérstöku umslagi, en þar fylgir einnig plastvasi, sem félagar eru beðnir um að setja skírteinin í. Aftan á hverju skírteini er nafn viðkomandi félagsmanns ásamt félagsnúmeri. Síðan er um að gera að hafa skírteinið ávallt í veskinu, því oft þarf að hafa það við hendina, t.d. þegar verslað er við þjónustuaðila sem veita afslætti. [02.06]