Eldri fréttir - Maí 2003


Aftur til fortíðar

Það er alltaf gaman að sjá bílaframleiðendur horfa um öxl til gullaldaráranna í leit að einhverju sem getur bjargað þeim frá einsleitum samtímanum. Nú hefur Chrysler ákveðið að endurheimta 300 bílana sína sem bættu ímynd fyrirtækisins svo um munaði á árunum milli 1955 og 1960. Nýi 300 C bíllinn á hreinlega að endurreisa fyrirtækið til fyrri upphefðar. Hann verður afturhjóladrifinn, þannig að aflið nýtist til fulls og yfir honum sveimar sambland af einfaldleika, glæsileika og hæfilegrar fortíðarhyggju, sama hvort litið er á útlit eða innréttingu. Fræðist nánar um þennan endurreisnarbíl. [30.05]


Breskir bílar

Það eru margir sem hafa áhuga á breskum bílum, þó að þeir séu ekki margir á götu hér. Bretar eru duglegir að stofna klúbba um allt og eru þeir margir um hverja bílategund. Hérna er listi yfir heimasíður hinna ýmsu klúbba og áhugamanna í UK. [29.05]


Óvenjuleg fornbílavél

Fyrir nokkru síðan hafði Jón Halldórsson félagi klúbbsins á Reyðarfirði samband við ritstjóra heimasíðunnar og vildi selja forláta vél úr Ford vörubíl, V-8 toppventlavél árgerð 1952. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi, nema að því að vélin er nánast því ónotuð, var tekin úr Fordinum árið 1953, fyllt af olíu og hefur staðið ónotuð síðan. Nú þarf víst ekkert annað en að finna henni nýtt ökutæki og reka í gang! Ástæða þessarar skammvinnu notkunar fyrir hálfri öld var sú að þáverandi eigandi vörubílsins fékk sér díselvél sem þá voru að ryðja sér til rúms í vörubílabransa landsmanna. Áhugasamir eru beðnir um að hringja í Jón í síma 474-1408. [28.05]


Nýr aðstoðarritstjóri heimasíðunnar

Jón S. Loftsson hefur verið skipaður aðstoðarritstjóri heimasíðunnar og birtust tvær fyrstu fréttirnar frá honum í lok síðustu viku, en hann hefur auk þess lagt til nokkuð af myndefni á heimasíðuna síðustu misserin. Jón er mikill áhugamaður um fornbíla og er auk þess nýsestur í stjórn Fornbílaklúbbsins. Á hann ættir sínar að rekja til merkra bílamanna, en afi hans og alnafni var um árabil umboðsmaður fyrir bíla, meðal annars Nash og Chrysler. Aðalritstjóri heimasíðunnar verður áfram Örn Sigurðsson, en verkefni hans utan þéttbýlis og á erlendri grund aukast til muna á sumrin og er því gott að hafa fleiri til að leggja fornbílafréttunum lið. Tæknistjóri heimasíðunnar er Sveinn Þorsteinsson. Þeir sem vilja senda hinum nýja aðstoðarritstjóra fréttaefni er bent á netfang hans jsl@itn.is .[27.05]


Heiðursfélagi fellur frá

Jón Kristinn Björnsson, félagi í Fornbílaklúbbnum frá árdögum og einn af þremur heiðursfélögum klúbbsins, er látinn. Jón var gerður að heiðursfélaga á síðasta ári fyrir óbilgjarnt brautryðjendastarf sitt við björgun fornbíla, en þegar árið 1960 var Jón farinn að bjarga merkilegum bílum frá varanlegri tortímingu. Merkilegasti bíllinn sem Jón bjargaði frá glötun og vann lengi við að gera upp, er án efa Cord árgerð 1936 sem eflaust telst einn verðmætasti bíll landsins. Hann var sýndur almenningi á 25 ára afmælissýningu klúbbsins á síðasta ári og vakti gríðarlega athygli. Jón var þriðji heiðursfélagi Fornbílaklúbbsins, en fyrir voru Bjarni heitinn Einarsson og Jóhann Björnsson. [26.05]


Fleiri en Fornbílaklúbburinn á Ak-Inn.

Ak-Inn "rúnturinn" er búinn að vera í þrjú ár á fimmtudögum, og þar mæta allir sem hafa áhuga á bílum, hvort sem þeir eru í klúbbi eða ekki. Þarna eru allt frá ´50 til nýjustu árgerða, og allir velkomnir. Fyrstu bílar mæta um kl. 20.30 og eru að koma til 21.30. Keyrður er "léttur" rúntur niður í bæ, og safnast síðan saman á miðbakka. Oft er stoppað þar til miðnættis, og jafnvel keyrður aftur hringur um bæinn. Hér eru nokkrar myndir frá gærkvöldi. [23.05]Ak-Inn

Góð mæting var á fyrsta Ak-Inn kvöldi. Margir mættu á sínum fornbílum í góða veðrinu í gærkvöldi og nutu góðs félagsskapar og tilboða á Ak-Inn. Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar við það tækifæri. [22.05]Gamlar ljósmyndir Ólafs K.

Á heimasíðu Morgunblaðsins er að finna margar gamlar ljósmyndir úr myndasafni Ólafs K. Magnússonar, en hann byrjaði að taka myndir fyrir blaðið árið 1947. Meðal þessara mynda eru nokkrar af götum bæjarins þar sem leynast glæsilegir bílar. Önnur myndanna hér fyrir ofan sýnir kosningadag í Reykjavík, sennilega 1959, og er hún er tekin á Bergþórugötunni við Sundhöllina. Hin sýnir Hafnarfjarðarstrætó á hvolfi út í læk skömmu eftir 1950. Hér er hægt að skoða myndasafnið. [20.05]


Ford 1930
Nýr formaður kosinn á aðalfundi klúbbsins

Aðalfundur Fornbílaklúbbsins var haldinn í gær og heppnaðist með miklum ágætum. Nýr formaður klúbbsins var kosinn á fundinum, Sævar Pétursson, en hann er einna þekktastur fyrir að stjórna vandasamri uppgerð á forseta-Packardinum. Sævar hefur starfað lengi í klúbbnum og getið sér gott orð fyrir uppgerð fallegra fornbíla og nægir að nefna Ford árgerð 1930, Mercury árgerð 1954 og Ford Galaxie árgerð 1959. Fráfarandi formaður, Örn Sigurðsson, gaf ekki kost á sér til endurkjörs, en hann hafði verið formaður samfellt frá árinu 1993. Hann mun eftir sem áður stýra útgáfumálum klúbbsins, þar á meðal þessari heimasíðu, sem notið hefur nokkurrar hylli meðal bílaáhugamanna, ef marka má aðsóknartölur. Á aðalfundinum voru einnig kjörnir þrír stjórnarmenn, Rúnar Sigurjónsson, Árni Þorsteinsson og Halldór Gíslason, ásamt tveimur nýjum varamönnunum, Jóni S. Loftssyni og Emil Guðjónssyni. Þeir stjórnarmenn sem létu af störfum auk formanns voru Ingimundur Benediktsson ritari, Gunnar Pálsson og Hans Gíslason. Hér eru nokkrar myndir frá aðalfundinum.[19.05]Aflvagnar sjötta áratugsins þeim eldri yfirsterkari

Á nýlegu fornbílauppboði hjá RM Classic Cars Vintage Motor Cars í Michiganríki kvað við nýjan tón í verðlagsmálum fornbíla, þegar aflvagnar sjötta áratugsins tóku fram úr bílum þriðja og fjórða áratugsins í verðmætum. Sölumetið sló Chrysler Newport árgerð 1950, en hann seldist á heila 66 þúsund dali og einnig má nefna Pontiac 1958 sem fór á 51 þúsund dali. Af öðrum gæðabílum má nefna Mercedes Benz árgerð 1953 sem seldist á 59 þúsund dali og Packard 1941 sem fór á tæpa 39 þúsund. En það var einnig hægt að gera góð kaup, því til dæmis fór Pontiac ´52, sem lítur út eins og nýr, á einungis 2544 dali. Slíkur bíll myndi skila sér hingað heim á litlar 460.000 kr. með flutningi og sköttum. Hér er skemmtileg umfjöllum um uppboðið og góð myndamappa. [16.05]


Blátt bann við bílum!

Í dag eru 85 ár síðan íbúar Nantucker eyju í Massacussettsríki ákváðu í atkvæðagreiðslu að leggja blátt bann við bílaeign eyjaskeggja. Þessi gamla hvalveiðieyja er í dag ein af helstu ferðamannastöðum norðausturhluta Bandaríkjanna, en á öndverðri 20. öldinni var hún úr alfaraleið og bílar þyrnir í augum íbúanna. Í dag er öldin önnur og bílaeign umtalsverð á eyjunni, þó enn sé um eins árs biðlisti eftir bílplássi í einu ferjunni sem heldur uppi samgöngum við meginlandið! Nú stendur fyrir dyrum að fá öflugri ferju til eyjunnar og þá kann bílafjöldinn að aukast til lengri og skemmri tíma. Þeim sem áhuga hafa á að kynna sér þessa merkilegu eyju er bent á meðfylgjandi heimasíðu: www.nantucketchamber.org [15.05]


Myndin er tekin á skoðunardegi Fornbílaklúbbsins í maí 2003
Enn einn glæsilegur bætist í fornbílaflotann

Nú er annar fornbíllinn kominn til landsins síðan aðflutningsgjöldin lækkuðu í mars. Fyrir nokkrum dögum var fluttur inn frá Svíþjóð Mercedes Benz 170 S árgerð 1950, sem nú hefur fengið íslenska númerið R-650. Eigendur bílsins eru bræðurnir Jón Karl og Haukur Snorrasynir, en Jón Karl er gamalgróinn fornbílamaður og á fyrir í safni sínu Volvo kryppu árgerð 1963 og Willys jeppa árgerð 1948. Það er mikill fengur af 170S bílnum, sem er elsti Benzinn í landinu, en þessir bílar voru framleiddir frá 1947 til 1954 og mörkuðu upphafið að endurreisn Daimler Benz eftir síðari heimsstyrjöldina. Nokkrir svona bílar voru á götum Reykjavíkur forðum daga, en þeir hafa ýmist horfið eða eru óuppgerð flök. Ósk fornbílamanna um fleiri, betri og fallegri fornbíla er smám saman að rætast, eins og glöggt sést á þessum bíl og Lincolninum sem kom til landsins fyrir nokkrum vikum og sagt var frá hér á heimasíðunni í lok apríl. [13.05]Sögulegt met á skoðunardegi

Það var bjart yfir fornbílamönnum á laugardaginn enda veðrið með allra besta móti og mikill vor- og mannfagnaður við Aðalskoðun í Hafnarfirði. Hvorki meira eða minna en 100 fornbílar fóru í gegnum skoðunina, sem er sögulegt met, því að á síðasta ári voru 75 bílar skoðaðir, sem reyndar var einnig metár. Aukningin milli ára er 33%, sem menn þakka fyrst og fremst góðu veðri og aukinni grósku í Fornbílaklúbbnum. Var það mál manna að hvergi sjáist á einum stað jafn margir fallegir fornbílar og á skoðunardeginum og líta margir á þennan dag sem vorhátíð klúbbsins. Eftir skoðunina renndu um 40 bílar suður í Grindavík, þar sem saltfisksetrið var skoðað, en það er afar áhugavert safn. Í myndakafla klúbbsins má skoða ljósmyndir frá laugardeginu, en einnig hér. [12.05]Kallkerfi lögreglunnar 70 ára í dag!

Fyrsta fjarskiptakerfið sem tengdi lögreglubíla við lögreglustöðvar var sett upp í bænum Eastchester í New York ríki árið 1933. Um var að ræða eitt 20 watta senditæki fyrir höfuðstöðvarnar og tvö 4,5 volta móttökutæki fyrir sitt hvorn lögreglubílinn. Eftir þetta hefur setningin „Calling all cars“ hljómað oft og víða og þá ekki síst í kvikmyndum og útvarpsleikritum. Kallkerfi lögreglunnar hafði viðlíka áhrif á 20. öldinni og sendiboðar konunga höfðu á fyrri öldum. Þeir sem vilja skoða myndir af gömlum lögreglubílum er bent á meðfylgjandi heimasíðu [08.05]DeSoto 75 ára í dag!

Chrysler verksmiðjurnar kynntu til sögunnar nýjan bíl þann 6. maí árið 1928, en það var DeSoto, sem ætlað var að keppa við bíla keppinautanna í millistærðarflokki. DeSoto var vel búinn bíll og bauð upp á ýmislegt meira en keppinautarnir, meðal annars sterkari yfirbyggingu og betri hljóðeinangrun. Fyrstu fimm árin seldust 80.000 DeSoto bílar, mun meira en gert var ráð fyrir í upphafi, og neyddist Chrysler til að byggja sérstakar verksmiðjur fyrir tegundina í vesturjaðri Detroit. Verksmiðja þessi þótti ein sú glæsilegasta í heiminum og var á tímabili einn vinsælasti ferðamannastaður borgarinnar, sérstaklega eftir að framleiðsla hófst á DeSoto Airflow árið 1934. Airflow bílarnir voru byltingarkenndir í útliti og hönnun og segja má að þeir hafi verið fyrstu bílarnir þar sem óþægilegum titringi var útrýmt með öllu úr yfirbyggingunni, sem var sjálfberandi. Þeir sem vilja sjá og fræðast um DeSoto er bent á vandaða heimasíðu samnefnds klúbbs: www.desoto.org [06.05]Vel heppnuð heimsókn til blásarans

Eins og sést glöggt á meðfylgjandi myndum heppnaðist heimsóknin til Hjalla sandblásara með miklum ágætum á miðvikudagskvöldið. Fáir fornbílamenn tóku hins vegar áskoruninni um að mæta á gömlum bílum, enda veðrið með svalasta móti. Hjalli er líkt og áður með mörg járn í eldinum og gat meðal annars að líta hjá honum blásna hluti úr Cadillac ´57 og fleira gamalt dót. [05.05]Bílaauglýsingar liðins tíma

Margir eru á því að auglýsingar tímabilsins 1930-1970 séu með þeim skemmtilegri sem gerðar hafa verið og á það ekki síst við um bílaauglýsingarnar, sem oft á tíðum voru æði litríkar og skrautlegar í orðavali. Meðfylgjandi heimasíða er tileinkuð bílaauglýsingum þessa tímabils og er gaman að bera þær saman á þessu 40 ára tímabili. [02.05]