Eldri fréttir - Apríl 2003


Góðar hugmyndir í Studebaker safni

Nú þegar undirbúningur Fornbílasafns Íslands í Elliðaárdal stendur sem hæst er sjálfsagt að líta til allra átta eftir góðum hugmyndum. Studebakersafnið í South Bend í Indianaríki er gott dæmi um skemmtilegt safn, þar sem fléttað er saman gömlum bílum, ljósmyndum og gínum til að gera safnið sem mest lifandi. Fátt er leiðinlegra en bílasöfn sem minna á lífvana bílageymslur, en á hinn bóginn eru þau söfn eftirminnileg sem skreyta sig með skemmtilegum sviðsmyndum, bensíndælum, auglýsingaskiltum og ljósmyndum liðinna tíma. Skiptir stærð og bílafjöldi í raun minna máli en lífleg og efnismikil uppsetning, enda vita fornbílamenn að það er betra að eiga fáa og góða fornbíla en marga lélega. Hér eru góðar myndir frá Studebakersafninu. [30.04]


Hinn verðmæti Lincoln

Á mánudaginn var birt frétt um hinn stórglæsilega Lincoln árgerð 1930 sem kom nýlega til landsins. Nú hefur ritstjóri heimasíðunnar fengið ábendingu um það hversu dýr þessi bíll var þegar hann var nýr, en þá kostaði hann heila 4700 bandaríkjadali. Til samanburðar má nefna að A-Ford og Chevrolet kostuðu nýir tæpa 500 dali, sjö manna Buick 1900 dali, sjö manna Packard 3800 dali og sjö manna Cadillac 4300 dali. Það fer því ekki á milli mála að til landsins hefur borist afar merkilegur fornbíll! [30.04]Merkilegur fornbíll kemur til landsins

Fyrsti fornbíllinn sem fluttur er til landsins á lágu aðflutningsgjöldunum birtist nýlega á götum Hafnarfjarðar. Um er að ræða sjö manna Lincoln model L árgerð 1930 og er eigandi hans Þröstur Harðarson. Hér er um gríðarlega merkilegan bíl að ræða, sem einungis hefur verið keyrður rétt rúmlega 50.000 km frá upphafi. Hefur hann alið lengstan sinn aldur í Arizonaríki og er því algerlega óskemmdur og ótrúlega heillegur af 73 ára bíl að vera. Undir húddinu er upprunalega tæplega 400 kúbitommu V-8 vélin sem skilar 90 hestöflum. Það sem vekur mesta furðu við þennan bíl er yfirbyggingin sem er öll klædd áli, en undir er hefðbundin trégrind sem einkenndi bíla frá þessum árum. L-gerðin frá Lincoln var framleidd nær óbreytt allan þriðja áratuginn og árið 1930 þóttu þessir bílar orðnir verulega gamaldags, enda voru þeir leystir af hólmi með K-gerðinni árið 1931. Bíll Þrastar í Hafnarfirði nýtur þess hins vegar að vera gamaldags og virðulegur og fullyrða má að þegar búið er að sprauta hann svartan á ný og endurklæða innréttinguna verður þessi bíll án efa mesta flaggskip íslenska fornbílaflotans. [28.04]
Kalli fornbílamaður eykur þjónustu við íslenska fornbílamenn!


Fyrir skömmu kynntum við til leiks Íslending sem búsettur er í Bandaríkjunum og býður þjónustu sína við kaup á bílum. Eftir vörugjaldslækkun á fornbílum og fall dollarans (aðeins 76 kr. í dag) hefur hann ákveðið að stórauka þjónustu sína við núverandi og væntanlega fornbílaeigendur á Íslandi. Er hann með sér fornbílakafla á heimasíðu sinni, en þar bætast reglulega inn nýjar myndir af fornbílum til sölu. Meðal þeirra eru nokkrir glæsilegir Chrysler bílar, t.d. af árgerðum 1947 og 1956 og Mercedes Benz 220S árgerð 1957: www.kalli.us/FornbilaSafn.html og svo er hér einn stórglæsilegur Jagúar MK7 árgerð 1961: www.kalli.us/Bakjag.html [25.04]


Nærri aldarlangri samvinnu lokið

Fyrir nokkrum dögum lauk 97 ára viðskiptasögu Ford bílaverksmiðjanna og Firestone dekkjaframleiðandans. Áratuga farsæl samskipti þeirra hófust með þéttu handtaki Henry Ford og Harvey Firestone en enduðu með blóðugustu málaferlum viðskiptasögunnar, þar deilt var um það hver bæri ábyrgð á dauða 270 einstaklinga og hundraðra slasaðra eftir dekkjabilanir á Ford Explorer jeppum. Þegar Henry Ford smíðaði fyrsta bíl sinn árið 1896 útvegaði Harvey Firestone dekkin og tíu árum síðar pantaði Ford 20.000 sett af dekkjum, en þann dag hófust risavaxin viðskipti, sem stóðu samfellt í 97 ár. Árið 1948 kvæntist sonarsonur Henry Ford, Willam Clay Ford, stúlku að nafni Martha Parke Firestone, en hún var sonardóttir Harvey Firestone og jók það enn á samskipti fyrirtækjanna. Núverandi yfirforstjóri Ford fyrirtækisins er William Clay Ford jr., en langafar eru Henry Ford og Harvey Firestone. Nánari umfjöllun og myndir. [23.04]Fágætt fornbílasafn

Eins og lesendur heimasíðunnar tóku eftir í síðustu viku er hluti af einu merkasta fornbílasafni í einkaeigu hérlendis til sölu. Einkafornbílasafn Rudolfs Kristinssonar er án efa eitt það verðmætasta á Íslandi, þó hann komist ekki með tærnar þar sem Richard Kughn í Dearborn hefur hælana, en hann seldi nýlega 70 fornbíla úr safni sínu, en samt sá ekki högg á vatni. Afgangurinn er enn til sýnis í gamalli keiluhöll í útjaðri Detroit, ásamt myndarlegu leikfangasafni, en Kughn þessi er jafnframt eigandi Lionel leikfangalestafyrirtækisins. Hefur hann hleypt nýju lífi í sölu leikfangalesta, meðal annars með því að endurgera lestir sem vinsælar voru fyrir miðja síðustu öld. Þegar gamlir hlutir ganga í endurnýjun lífdaga gleðjast fornbílamenn og aðrir áhugamenn um sögulegar minjar, og staðreyndin er sú að þessi hópur er stærri en margur ætlar. Og eitt er víst að leikfangalestarnar komust aftur á rétt spor. Hér gefur að líta góða grein um safn Richard Kughns vestur í Michiganríki og stóra myndamöppu sem gaman er að skoða í páskafríinu. [16.04]


Um systurtegund Buick

Á dóta- og verkfærakvöldinu í síðustu viku fengu gestir að spreyta sig á ljósmyndagetraun og var sammerkt með þátttakendum að þeir flöskuðu allir á Marquette bíl af árgerð 1930. Hér er um að ræða systurtegund Buick, sem framleidd var í Flintborg á árunum 1912-1930. Fáir vita hins vegar að svoleiðis bíll er til hérlendis, sem íslenskum bifreiðasmiðum tókst því miður að afskræma í útliti á afar ófrumlegan hátt, eins og þeim einum var lagið. Þeim sem vilja kynna sér þessa merku en lítt þekktu bifreiðategund er bent á meðfylgjandi heimasíðu, en því miður fannst ekki mynd af þeim íslenska, en ef einhver lumar á einni slíkri af honum er sá hinn sami beðinn um að senda ritstjóranum afrit í tölvupósti sem allra fyrst. [14.04]


Volvo 1964
Góður kveðskapur um Volvó

Gunnar H. Ingimundarson landfræðingur og Volvó-isti sendi heimasíðunni eftirfarandi kveðskap um Volvó, sem hafður er eftir séra Þóri Stephensen staðarhaldara í Viðey.

Áfram veginn í VOLVOnum ek ég,
einn í vaxandi kvöldskuggans þröng,
ventlabanksins bölvaði kliður,
hávær blandast við gírkassans söng.

Og í vatnskassa vælir og sýður,
sem í vítisglóð púströrið heitt
en í drifinu draugslega urgar,
því að "Druslan" hún vinnur ei neitt.

Höfundur vísunnar er líklega vörubílstjóri Vegagerðarinnar Guðmundur Kr. Gunnarsson, en hann ók Volvó vörubíl um 1950 sem kallaður var Druslan. [11.04]
Vel heppnað dóta- og verkfærakvöld!

Í gærkvöldi var árlegt dóta- og verkfærakvöld Fornbílaklúbbsins og mættu óvenju margir til leiks, eða rúmlega 60 manns. Sýndir voru gripir á mörgum borðum og kenndi margra grasa, allt frá vel með förnum leikföngum fyrri tíma til furðulegra verkfæra. Jafnframt var haldin myndarleg ljósmyndagetraun, þar sem reyndi vel á þekkingu fornbílamanna á bílategundum horfinna tíma. Sá sem stóð uppi sem sigurvegari var Sigurður Haraldsson T-Fordeigandi í Kópavogi, en hann átti jafnframt merkilegasta sýningargripinn, æfaforna standborvél. Þegar Fornbílasafn Íslands rís í Elliðaárdal verður sett þar upp sérstakt verkfærahorn og vísir að leikfangasafni, þar sem félagar klúbbsins geta lánað klúbbnum muni til sýnis. Á meðfylgjandi slóð eru myndir frá gærkveldinu. [10.04]Merkilegt safn fornbíla til sölu

Eins og þeir sem lásu nýjustu skilaboð klúbbsins tóku vafalaust eftir, þá eru stórmerkilegir fornbílar til sölu þessa dagana og fullyrða má að hérlendis hafi svo stór fornbílabiti aldrei verið boðinn til kaups í einu lagi, en verðmæti hans er yfir 10 milljónir króna. Rudolf Kristinsson gjaldkeri klúbbsins auglýsir til sölu fimm uppgerða bíla úr safni sínu; tvo Overland frá árunum 1924 og 1926 og tvo Ford model A af árgerðum 1929 og 1930. Allir þessir bílar kosta 2 milljónir króna stykkið. Fimmti bíllinn sem Rudolf auglýsir til sölu er Buick árgerð 1949, en hann prýddi forsíðu Fornbílablaðsins árið 2001. Verð hans er 2,5 milljónir kr. Allir þessir bílar eru uppgerðir og í 100% ásigkomulagi og þarf ekkert annað að gera en að keyra þá og veita þeim gott húsaskjól. Þetta er því einstakt tækifæri fyrir þá sem ekki eru tilbúnir í skítverkin, en vilja njóta þess að eiga glæsilega fornbíla! Áhugasamir eru beðnir um að hringja í Rudolf í síma 565-7715 eða 565-9100. [09.04]


Merkileg fornbílakona kveður

Það er skammt stórra högga á milli í Köldukinninni, en um helgina lést á Ystafelli Kristbjörg Jónsdóttir ekkja Ingólfs Kristjánssonar fornbílamanns, sem féll frá í febrúar sl. Kristbjörg, eða Bibba eins og hún var nefnd í daglegu tali, stóð eins og klettur við hlið manns síns og studdi hann með ráðum og dáðum í söfnunarstarfinu. Enginn fornbílamaður ók þar um garð án þess að kynnast velgjörðum Bibbu og áttu fjölmargir fornbílamenn skemmtilegar stundir í eldhúsi þeirra sæmdarhjóna á Ystafelli. [07.04]


Dagskrá langferðar Fornbílaklúbbsins 2003

Langferðin næsta sumar verður farin um Austfirði dagana 12. til 20. júlí. Dagskrá hennar er sem hér segir: 1. 12. júlí Reykjavík-Akureyri 389 km 2. 13. júlí Akureyri-Vopnafjörður 233 km 3. 14. júlí Vopnafjörður-Egilsstaðir 173 km 4. 15. júlí Egilsstaðir-Borgarfjörður eystri-Egilsstaðir 148 km 5. 16. júlí Egilsstaðir-Seyðisfj.-Mjóifj.-Egilsstaðir 147 km 6. 17. júlí Egilsstaðir-Reyðarfj.-Eskifj.-Neskaupst.- Egilsstaðir 132 km 7. 18. júlí Frjáls dagur á Egilsstöðum 8. 19. júlí Egilsstaðir-Djúpivogur. Ferðarslit 221 km 9. 20. júlí Frjáls heimferð - R.vík 554 km Ávallt er gist á þeim stað sem síðast er nefndur í upptalningu hvers dags. [07.04]Vestur-íslenskur fornbílamaður með glæsilega heimasíðu!

Heimasíðunni barst í vikunni bréf frá vestur-íslenskum fornbílamanni, John Long að nafni, sem búsettur er í Kanada. Hann er mikill áhugamaður um Tatra bíla og á sjálfur T-87 árgerð 1947, sem hann hefur ferðast á vítt og breitt um Norður Ameríku. Hann kom til Íslands fyrir nokkrum árum í leit að uppruna sínum og núna hefur hann áhuga á að koma aftur, taka Tötruna með og koma í ferð með Fornbílaklúbbnum. Ef hann lætur verða af þessu yrði það sannarlega lyftistöng fyrir klúbbinn að fá erlendan bílaáhugamann í heimsókn með bíl sem fæstir klúbbfélagar hafa augum litið. Þeir sem hafa áhuga á að kasta kveðju á John Long er bent á netfang hans johnlong@istar.ca, en stórglæsileg heimasíða hans er www.openthinkinc.com/tatra og hana verða allir að skoða! [04.04]


Slökkvilið Ford hættir störfum

Eftir 85 ára starfsemi hefur Ford tekið þá ákvörðun um að leggja niður slökkvilið fyrirtækisins. Það var stofnsett árið 1918 til að hemja elda í hinum gríðarstóru bílaverksmiðjum í Dearborn og öllu sem þeim fylgir. Hér er nánari umfjöllun um sögu slökkviliðsins og myndir af nokkrum glæsilegum slökkvibílum, sem að sjálfsögðu eru allir Fordarar. [03.04]


Aprílgabb Fornbílaklúbbsins

Í gær var fyrsti apríl eins og flestir vita og þá hlupu margir apríl eins og sagt er, meðal annars nokkrir fornbílamenn sem ætluðu sér að skoða nýinnflutta fornbíla við félagsheimili klúbbsins í Skeifunni. Að sjálfsögðu var hér um gabb að ræða enda fornbílatíminn ekki byrjaður og þó eflaust eigi margir fallegir og ódýrir fornbílar eftir að berast til landsins á næstu mánuðum, þá er heldur skammt liðið frá vörugjaldslækkuninni svo hægt sé að halda góða sölusýningu. [02.04]
Sölusýning fornbíla í kvöld 1. apríl

Í tilefni af lækkun vörugjalds af fornbílum verða nokkrir fornbílar sem nýlega eru komnir til landsins til sýnis og sölu við félagsheimili klúbbsins Skeifunni 11 í kvöld 1. apríl, en þeir eru allir verðlagðir undir milljón króna múrnum. Boðið verður upp á kaffi og kökur í félagsheimilnu og Rudolf gjaldkeri mun gefa öllum gestum gluggamerki klúbbsins. Meðal bíla sem sýndir verða er glæsilegur Cadillac árgerð 1959, sem kom til landsins í síðustu viku. Það má enginn missa af þessari uppákomu sem hefst klukkan 20.30 og munið eftir að taka vini og vandamenn með! [01.04]