Eldri fréttir - Mars 2003

Það styttist óðum í fornbílauppgröft aldarinnar!

Nú eru rétt fjögur ár þangað til borgarstjórinn í Tulsa í Oklahomaríki lætur grafa upp tvennra dyra hardtop Plymouth af árgerð 1957, en það ár var nýr slíkur bíll grafinn í jörðu fyrir framan ráðhúsið í Tulsa. Þar átti hann að dúsa í slétt 50 ár, til 2007, en þá verður hann grafinn upp með viðhöfn og afhentur þeim einstaklingi, sem árið 1957 komst næst því að giska á hver íbúatalan í Tulsa verður árið 2007. Nú er bara að vona að sá getspaki sé ekki kominn undir yfirborð jarðar, þá loksins Plymminn kemst upp úr henni á ný. Hér er skemmtileg heimasíða tileinkuð þessari aðgerð og myndir af þessum glæsilega bíl á leið í grafhýsið. [31.03]


Góð kveðja frá Kalla bílamanni í vesturheimi

Á þriðjudaginn birtist frétt hér á heimasíðunni af Karli nokkrum sem býr í Bandaríkjunum og útvegar Íslendingum bíla af öllum gerðum, meðal annars fornbíla. Nú hefur ritstjóra heimasíðunnar borist eftirfarandi bréf frá honum: "Sæll Örn, gott að heyra frá þér. Ég hef verið bílasali hér í USA í 10 ár og þekki orðið vel inn á markaðinn hér, bivélavirkjameistari í 30 ár. Ég er mikill áhugamaður um fornbíla og hef átt nokkuð af þeim. Ég get útvegað og fundið hvaða tegund sem er í hvaða ásigkomulagi sem er. Það væri mér ánægja að vinna með ykkur og snúa bökum saman eins og þú sagðir. Ég skal setja meira af fornbílum á síðuna til að gefa þér og þínum mönnum sýnishorn. Þetta verða að sjálfsögðu bara sýnishorn en ég get svo fundið hvað sem er. Nashinn er í ótrúlega góðu ásigkomulagi. Hann er óhreyfður og að mestu leiti óskemmdur. Verðið eftir tollabreytinguna verður rétt innan við milljón með öllum gjöldum. Ég kem til Íslands eftir tvær til þrjár vikur trúlega. Gaman væri að hittast þá. Kveðja. Kalli." Við munum að sjálfsögðu bjóða Kalla velkominn í Fornbílaklúbbinn. En þeim sem áhuga hafa á að kynna sér starfsemi hans betur er bent á heimasíðuna: http://kalli.us eða síma 001-410-499-2006, en einnig má senda honum tölvupóst: 3010@isl.is. [27.03]Íslenskur bílasali í Bandaríkjunum

Nokkur umræða hefur spunnist upp að undanförnu í kjölfar lækkandi aðflutningsgjalda á fornbílum. Metaðsókn var að heimasíðu klúbbsins í síðustu viku, yfir 1200 heimsóknir, en þar voru sýndir margir góðir og ódýrir fornbílar í vesturheimi. Upplýsingar hafa borist um Karl nokkurn sem starfar vestur í Bandaríkjunum við að útvega Íslendingum bíla, vélhjól, húsbíla ofl. Á heimasíðu hans er meðal annars að finna upplýsingar um forláta Nash árgerð 1946 og DeSoto árgerð 1955. Þeir sem hafa hug á að flytja inn bíl frá Bandaríkjunum, en leggja ekki í umstangið, geta haft samband við Karl í síma 001-410-499-2006, en einnig má senda honum tölvupóst: 3010@isl.is. Heimasíðan hans er: http://kalli.us .[25.03]


Fifty seven special!

Sumir fornbílamenn einbeita sér að ákveðnum tegundum, aðrir að ákveðnum árgerðum. Fornbílamaðurinn Glenn Patch í borginni Palm Springs í Kaliforníuríki hefur verið svo duglegur að safna bílum sem framleiddir voru árið 1957 að nú hefur hann opnað heilt safn, þar sem aðeins er að finna bíla þessarar árgerðar. Að sögn heimamanna er þetta stærsta safn bíla af þessari árgerð í heiminum. Þeir sem eiga leið um Kaliforníuríki á næstunni ættu ekki að láta þetta merkilega safn framhjá sér fara, en þarna er einnig búið að opna veitingastað, sem að sjálfsögðu er í anda sjötta áratugsins. Á heimasíðu safnsins er nákvæmt yfirlit yfir hvern einasta sýningargrip, eitthvað sem allir góðir fornbílasafnarar ættu að framkvæma. [24.03]


Og enn magnast áhuginn!

Heimasíða Fornbílaklúbbsins hefur aldrei verið jafn mikið skoðuð og þessa vikuna eða yfir 200 manns daglega, enda er gaman að vera fornbílaáhugamaður þessa dagana þegar verð á fornbílum hefur snarlækkað í kjölfar fallins vörugjalds og dollaragengið hefur ekki verið hagstæðara í heilan áratug. Heimasíðunni berast daglega fyrirspurnir vegna fornbílamarkaðarins í vesturheimi, en á miðvikudaginn sýndum við örlítið brot af markaðnum og hagstæðu gjaldi fjölmargra fornbíla, sem allir voru réttu megin við milljón krónu múrinn. Uppgefin verð eru með skipsfrakt, uppskipun, vörugjaldi og virðisauka, en innifela ekki flutning innan Bandaríkjanna, sem er eðlilega mjög misjafn eftir fjarlægð frá útskipunarhöfn. Hins vegar má reikna með því að hægt sé að prútta uppgefin bílverð niður um nokkur hundruð dollara, en slíkt mætir flutningskostnaði, sem er yfirleitt hagstæður.
Þessi Plymouth árgerð 1940 kostar 815.000 kr. hingað kominn  
Þessi glæsilegi átta stokka Oldsmobile 1941 kostar 660.000 kr.  
Chevrolet árgerð 1949 í toppstandi kostar 827.000 kr.
Ford árgerð 1951, V-8 sjálfskiptur, kostar 960.000 kr.
Pontiac árgerð 1952, átta strokka, kostar 772.000 kr.
Þessi Dodge árgerð 1952 kostar aðeins 466.000 kr.
Ford árgerð 1953, V-8 sjálfskiptur, kostar 990.000 kr.
Plymouth árgerð 1953 kostar 706.00 kr.
Chevrolet árgerð 1955 kostar 931.000 kr.
Plymouth árgerð 1955, V-8 sjálfskiptur, kostar 815.000 kr.
Ford árgerð1957, V-8 sjálfskiptur, kostar 660.000 kr.
Ford Galaxie 500 árgerð 1959, V-8, kostar 824.000 kr.
Þetta Lincoln flaggskip af árgerð 1960 kostar aðeins 695.000 kr.

Heimasíðan sem þessar upplýsingar eru fengnar af er fornbílasölusíða sem nefnist Collector Car Ads. Hér eru síðan upplýsingar um fyrirtæki sem tekur að sér að frakta bílum innanlands í Bandaríkjunum: www.dasautoshippers.com [21.03]Stóraukinn áhugi fyrir innflutningi fornbíla

Eftir síðustu tíðindi af lækkun aðflutningsgjalda hefur áhugi aukist stórum fyrir innflutningi fornbíla og hefur ritstjóri heimasíðunnar fengið nokkrar fyrirspurnir um hvar hægt sé að kaupa fornbíla og hvað þeir kosta hingað komnir. Í þessu sambandi hefur ritstjórinn einkum tekið eftir miklum áhuga fyrir amerískum bílum framleiddum á árunum 1955-56. Í gær voru sýndir tveir fornbílar sem báðir kosta um eina milljón hingað komnir og hér eru tíu dæmi til viðbótar sem falla undir milljón króna múrinn. Inni í öllum verðum er innkaupsverð, skipsflutningur með uppskipunar- og pappírskostnaði, 13% vörugjald og 24,5 virðisaukaskattur:
Þessi Chevrolet árgerð 1955 kostar hingað kominn 770.000 kr.:
Þessi Ford Fairlane V-8 árgerð 1956 kostar 926.000 kr.
Pontiac 2 dyra hardtop V-8 1956 kostar hingað kominn 822.000 kr.:
Packard Executive 2 dyra hardtop 1956 kostar 926.000 kr.:
Buick Century 4 dyra hardtop 1955 kostar 936.000
Buick Special 2 dyra hardtop 1956 kostar 717.000 kr
Mercedes Benz 220S árgerð 1959 kostar 880.000 kr.:
Buick Super árgerð 1940 kostar 814.000 kr.
Studebaker Champion árgerð 1947 kostar 990.000 kr.
Og síðast en ekki síst Oldsmobile 98 árgerð 1954, sem kostar aðeins 717.000 kr.:

Allir þessir bílar líta vel út og þarfnast ekki uppgerðar. Það segir okkur að enn er hægt að gera góð kaup í fornbílum vestanhafs. Þeir sem vilja gramsa sjálfir í hinni gríðarlegu fornbílaflóru Bandaríkjamanna er bent á vefsíðuna www.collectorcartraderonline.com/ . Góða skemmtun! [19.03]
Hvers vegna 40 ár og 13%?

Eftir að fréttir bárust út um þá ákvörðun Alþingis að lækka aðflutningsgjöld fornbíla hafa nokkrar fyrirspurnir borist klúbbnum vegna þeirra aldurstakmarkana sem getið er í lögunum. Eins og flestir vita eru aldursmörk fornbíla 25 ár, en lögin miða við 40 ár. Fyrir tæpu ári síðan átti formaður klúbbsins fyrsta fund sinn með fjármálaráðherra vegna þessa máls og þá var farið fram á algera niðurfellingu vörugjalda af fornbílum 25 ára og eldri. Þessari ósk var alfarið hafnað á þeim forsendum að 25-30 ára gamla bíla væri auðveldlega hægt að nota sem brúksbíla og því væri mikil hætta á misnotkun. Gengið var í málið öðru sinni síðasta haust og þá óskað eftir niðurfellingu gjalda af 40 ára fornbílum og eldri, á þeim forsendum að flytja þyrfti inn bíla á menningarlegum forsendum til nota á sýningum. Eftir margra mánaða baráttu og nokkrar synjanir var þetta að lokum samþykkt. Fornbílarnir voru settir inn í lagafrumvarp þar sem verið var að lækka vörugjald atvinnubíla niður í 13% og af þeim sökum var ekki hægt að fella gjaldið alfarið niður. Lækkunin er engu að síður umtalsverð og eru nú fjölmargir fornbílar komnir undir milljón króna múrinn og er það ánægjulegt. Hér er dæmi um tvo glæsilega sem hægt er að kaupa strax í dag og flytja hingað á hagstæðu gjaldi: Oldsmobile 1948 og Cadillac 1957 [18.03]


Aðflutningsgjöld fornbíla lækka!

Síðasta föstudag voru afgreidd frá Alþingi ný lög um aðflutningsgjöld bíla, en þar var vörugjald nokkurra tegunda atvinnubíla lækkað niður í 13%. Fornbílaklúbburinn hefur barist fyrir því í nokkur ár að fá vörugjaldið lækkuð af fornbílum, enda hefur mönnum þótt blóðugt að þurfa að borga 45% gjald af bílum sem engan vegin er hægt að kalla brúksbíla. Með þeim rökstuðningi að fornbílar hefðu fyrst og fremst menningarsögulegt gildi og væru einkum brúkaðir fyrir sýningar og söfn, féllst fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á að lækka vörugjald fornbíla 40 ára og eldri úr 45% niður í 13%. Eldra gjald fyrir bíla með minni vélar en 2000 cc var 30%, en verður nú einnig 13%. Eins og gefur að skilja hefur þetta umtalsverð áhrif til lækkunar á aðflutningsgjöldum og verða nefnd hér dæmi um tvo fornbíla sem keyptir eru í Bandaríkjunum á 5000 dali og 10.000 dali: Fyrrnefndin bíllinn kostar 390.000 kr. + 120.000 kr í flutning og útskipun (hjá Atlantsskipum). Tollverð bílsins er því 510.000 kr. Fyrir breytingu þurfti að borga 230.000 í vörugjald, en nú þarf einungis að borga 66.300 kr. Samanlagða talan er núna 576.300 og ofan á hana bætist virðisaukaskattur 141.200 kr. Bíllinn kostar því hingað kominn 717.500 kr., en hefði áður kostað 921.300 kr. Sparnaðurinn nemur 203.800 kr. Í síðara dæminu kostar bíllinn 10.000 dali, eða 780.000 kr. + 120.000 í flutning = 900.000 kr. Fyrir breytingu þurfti að borga 405.000 kr. í vörugjald af þessum bíl og 320.000 kr. í virðisaukaskatt. Hann hefði því kostað hingað kominn 1.625.000 kr. Í dag þarf einungis að borga af honum 117.000 kr. í vörugjald og 248.000 kr. í virðisaukaskatt. Hann kostar því hingað kominn 1.265.000 kr. Lækkunin nemur 360.000 kr. Gjald fyrir innflutta fornbíla frá Evrópu er enn lægra, þar sem flutningskostnaður þaðan er helmingi lægri en frá Bandaríkjunum. Stjórn Fornbílaklúbbsins vill sérstaklega þakka Ólafi Erni Haraldssyni alþingismannai fyrir frábæra aðstoð í þessu máli og fjármálaráðherranum Geir H. Haarde fyrir að taka af skarið í andstöðu við starfsmenn ráðuneytisins. Það er svo von stjórnar klúbbsins að félagar hans láti nú gamla drauma rætast um innflutning á myndarlegum fornbílum sem auðga munu íslensku fornbílaflóruna og gera fornbílaferðir og sýningar klúbbsins enn skemmtilegri en áður. [17.03]


ForsetaPackardinn heimsóttur

Í gærkvöldi mætti mikill fjöldi fornbílamanna á bílaverkstæði Sævars Péturssonar, en þar er Forseta-Packardinn í uppgerð. Nú er tímafrekri boddývinnu lokið og svarti liturinn kominn á, auk þess sem búið er að setja mælaborðið í. Hjá fornbílamönnum er mikill áhugi fyrir þessari vandasömu uppgerð, sem eðli málsins samkvæmt verður að vera óaðfinnanleg með öllu. Hér eru myndir sem Jón S. Loftsson tók í þessari ágætu fræðsluferð. [13.03]


Höndlaðu bíl af þessum manni og prísaðu þig sælann!

Það er ekki nóg með að bílaframleiðendur séu horfnir á vit fortíðarinnar í hönnun sinni og markaðssetningu, heldur eru bílasalarnir farnir að gera það líka. Mock Motor Sales í Flintborg í Michiganríki mætir ávallt á sýningu bandaríska fornbílaklúbbsins í Flint og setur upp gamla bílasölu með gömlum verðum. Á síðustu sýningu voru það notaðir bílar ársins 1959 ásamt viðeigandi verðum. Sumir halda því fram að Bandaríkjamenn haldi hvorki vatni né vindi yfir bílum þessa tímabils og er sjálfsagt nokkuð til í því, einkum ef litið er til þess hvernig bílar þeirra breyttust í útflött og karakterslítil trog með árunum, en reyndar hafa menn misjafnan smekk fyrir því sem öðru. Hér eru myndir af þessum litríka Mock bílasala, sem hægt er að gera góð kaup hjá, og með fylgir glæsileg myndamappa frá sjálfri fornbílasýningunni. [12.03]Fornbílar til sölu

Nú vinnur stjórn klúbbsins ásamt Ólafi Erni Haraldssyni alþingismanni og fornbílamanni hörðum höndum við að lækka aðflutningsgjöld fornbíla. Búið er að leggja fram nýtt bílafrumvarp á Alþingi, og nú er ætlunin að koma fornbílunum þar inn. Ekki er enn útséð með hvort að það tekst, en sjálfsagt er að vona það besta. Fyrir þá sem bíða og vona, er sjálfsagt að kanna markaðinn á meðan, og hér er góð heimasíða með fornbílum til sölu í vesturheimi: www.collectorcarads.com [10.03]


Lausn á ljósmyndgátu

Síðasta mánudag var spurst fyrir um bílamyndir sem Sveinn Helgason sendi klúbbnum og við birtum hér á heimasíðunni í kaflanum „gamlar myndir“. Hinn eini sanni sérfræðingur Fornbílaklúbbsins á þessu sviði, Ingibergur Bjarnason, var með rétt svör á reiðum höndum. Vörubíllinn RE-190 er Chevrolet árgerð 1928 í eigu Sigurðar Halldórssonar trésmiðs. - Fólksbíllinn RE-224 er Chevrolet árgerð 1928 í eigu Gunnars Þorkelssonar, en þess má að geta að árið 1938 var settur pallur á bílinn. - RE-628 er Nash árgerð 1929, en eigandi hans var Þóroddur Ejólfur Jónsson sem bjó að Vonarstræti 12. Heimasíðan þakkar fyrir fínar myndir og góðar upplýsingar og bendir á að allar gamlar myndir eru vel þegnar í safnið. [07.03]Formúlan á sér blóði drifna sögu!

Nú þegar Formúlan er að hefja sína árlegu göngu reikar hugurinn aftur til gullára kappakstursins þegar aflmiklir bílar geystust um brautirnar og slysin voru algengari og mannskæðari en núna. Árið 1955 varð mesta slys í sögu formúlunnar, þegar Mercedes Benz bíll lenti í árkekstri við Jagúar á ofsahraða á LeMans brautinni í Frakklandi, með þeim afleiðingum að sá fyrrnefndi flaug inn í áhorfendastúku og banaði 80 áhorfendum. Þennan svarta dag í sögu formúlunnar hættu bæði þessi bílafyrirtæki afskiptum sínum af kappaskstri og tóku ekki upp þráðinn aftur fyrr en mörgum árum síðar. Á meðfylgjandi mynd má sjá merkilega bíla á ráspól á Eifel brautinni í Þýskalandi sumarið 1937, en á bíl númer 6, sem er Mercedes Benz, er Rudolf Carracciola og á bíl númer 1, sem er Auto Union, er Bernd Rosemeyer. Ári síðar reyndi Rosemeyer að slá hraðakstursmet Rudolfs, sem var 438 km/klst, en lét lífið þegar hann missti stjórn á bíl sínum á 400 km hraða. - Hraðinn drepur! [06.03]Citroen tenglar í lagi!

Núna er loksins búið að gera við meðfylgjandi Citroen tengla, en um daginn var grein um þessa ágætu bíla, Traction Avant og DS bílinn, hér á heimasíðunni, en síðan var vísað á heimasíðu Leó M. Jónssonar, sem skrifað hefur nokkrar lærðar greinar um bíla og birt skemmtilegar myndir. Nú er hægt að taka upp þráðinn á nýjan leik og kynna sér athyglisvert efni frá Leó hér: www.leoemm.com/citroenavant.htm og www.leoemm.com/citroends.htm [04.03]


Nýjar gamlar myndir

Sveinn nokkur Helgason hefur sent heimasíðunni nokkrar myndir af gömlum bílum sem settar hafa verið inn í kaflann „gamlar myndir“. Ekki fylgdi sögunni hvaða tegundir og árgerðir eru þarna á ferðinni. Vörubíllinn, sem kemur fram á þremur myndum, þar af á einni með glæsilegt boddý, bar skráningarnúmerið RE-190, en fólksbílarnir báru númerin RE-224 og RE-628. Nú þurfa fróðir lesendur að upplýsa hvaða bílar eru hér á ferðinni og helst hverjir hafa verið eigendur þeirra. [03.03]