Eldri fréttir - Febrúar 2003


Glæsilegir fjórhjóladrifnir Ford Marmon Herrington!

Í gærkvöldi flutti Guðbjartur Sigurðsson áhugaverðan fyrirlestur um sögu fjórhjóladrifinna bíla. Einna mesta athygli vöktu timbraðir stationbílar frá Ford, upphækkaðir með drifi á öllum, en þessar útfærslur voru gerðar af fyrirtækinu Marmon Herrington. Guðbjartur birti myndir af þessum glæsilegu bílum, sem minna töluvert á jeppavæðingu nútímans á Íslandi, þar sem fjölmargir aka einmitt um á upphækkuðum stationjeppum. Hér eru myndirnar. [27.02]


Bílabíóið 65 ára í dag

Þann 25. febrúar árið 1938 var fyrsta bílabíóið opnað á Miami í Flórídaríki. Brátt fylgdu fleiri í kjölfarið vítt og breitt um Bandaríkin og var hámarkinu náð árið 1963, þegar 3502 voru starfrækt. Eftir það fór að halla undan fæti, en segja má að þetta fyrirbæri sé eitt af megineinkennum bandaríska samfélagsins eftir síðari heimsstyrjöldina, áður en þjóðin settist endanlega fyrir framan sjónvarpstækin og hljóp í spik. Nú er spurning hvort að Fornbílaklúbbur Íslands tekur upp gamlar hefðir og varpar bíómynd á vegg næsta sumar í einhverri fornbílaferðinni? Sögulegur fróðleikur og yfirlit yfir öll bílabíó Bandaríkjanna á meðfylgjandi heimasíðu, þannig að þeir sem hyggja á ferð vestur geta valið sér nálægt bíó og upplifað stemmninguna: www.driveinmovie.com [25.02]Gamlar íslenskar bílamyndir á alþjóðlegri fornbílasíðu!

Á alþjóðlegu Ponton-síðunni hafa verið birtar myndir og frásögn af fyrstu bílasýningunni á Íslandi, sem Daimler Benz hélt í samvinnu við Ræsi í júlí 1954. Í framhaldi af sýningunni var nokkrum bílum ekið út á land og þeim reynsluekið við miserfiðar aðstæður. Þjóðverjarnir vildu auka viðskiptin við gjaldeyrislitla Íslendinga með því að skipta á 300 hestum og 25 Benzum, sem þýddi að einn bíll samsvaraði 12 hrossum. Sjáið áhugaverða frásögn hér: www.mbzponton.org [24.02]


Mustang Shelby

Á þriðjudaginn var aðeins rætt um nýja Mustanginn sem ber sterkan svip af fyrstu kynslóðinni. Sennilega hefur ´67 Shelbyinn verið ofarlega á blaði hjá hönnuðum Ford, eins og glöggt má sjá hér.


Hin árlega Motorrama sýning

Í dag hefst Motorrama bílasýningin í Cobo sýningarhöllinni í Detroit, en hún er haldin árlega í kjölfarið á Norður-Ameríku bílasýningunni. Hefur þessi sýning verið haldin árlega frá árinu 1953 og hefur þema hennar verið breyttir fornbílar, þ.e. gamlir bílar með nútímaþægindum. Sitt sýnist hverjum varðandi þetta áhugamál að afskræma upprunalega bíla á ýmsa vegu, en hinu ber ekki að leyna að gríðarleg vinna liggur að baki þessum breytingum, enda eru þessir bílar oftar en ekki meðal þeirra allra dýrustu á markaðnum. Nánari upplýsingar og myndir.[21.02]


Góð Auto-Glym kynning hjá Filtertækni

Í gærkvöldi heimsóttu um 40 fornbílamenn fyrirtækið Filtertækni í Kópavogi, sem meðal annars flytur inn bónvörur frá Auto-Glym. Fengu gestirnir góða kennslu í notkun þessara úrvalsefna og má reikna með mörgum vel bónuðum fornbílum í sumar. Hér eru nokkrar myndir frá heimsókninni. Filtertækni hefur einnig umboð fyrir hinar þekktu olíu og hreinsivörur frá STP, sem hafa verið á markaðnum í nærri hálfa öld. Umræða spannst um uppruna þessa vörumerkis og vildu nokkrir meina að Studebaker-Packard bílafyrirtækið ætti þar allan heiðurinn. Sannleikurinn er hins vegar sá að S-P tók ekki við framleiðslu STP fyrr en árið 1961, eins og lesa má nánar hér. [20.02]Rússajeppinn gengur í endurnýjun lífdaga

Í gær var minnst á nýjan Mustang, sem líkist verulega fyrstu kynslóðinni frá miðjum sjöunda áratugnum. Nú hafa rússarnir tekið sig til og framleitt nýja gerð af gamla góða rússajeppanum, sem Íslendingar minnast frá dögum mikilla Sovétviðskipta sem hófust um miðjan sjötta áratuginn. Á heimasíðu GAZ verksmiðjanna í Rússlandi má finna myndir af nýjum og gömlum bílum, sem runnið hafa þar af færiböndum, en þessi gamalgróna verksmiðja í Gorkí stendur á 500 hektara lóð og hefur rúmlega 80.000 menn í vinnu. [19.02]Nýr Mustang ber ættarsvipinn með sóma!

Það er afar ánægjulegt fyrir fornbílamenn og aðra smekkmenn að sjá hvernig bílafyrirtækin eru að endurhanna nýju bílana sína með svipbrigðum þeirra gömlu og glæsilegu. Við þekkjum PT Crusierinn frá Chrysler, nýju bjölluna, nýja minibílinn og Thunderbirdinn svo örfá dæmi séu tekin. Núna er Ford að hefja framleiðslu á nýjum Mustang sem svo sannarlega líkist fyrstu kynslóð þessara bíla (1965-1969), sem flestir eru sammála um að hafi verið þeir allra fallegustu. Skoðið þessa komandi kynslóð Mustangbíla hér. [18.02]


Góður fornbílamaður kveður

Einn ötulasti fornbílasafnari landsins, Ingólfur Kristjánsson á Ystafelli, er látinn. Ingólfur fæddist í Reykjavík 27. september 1921 og var því orðinn 81 ára þegar kallið kom. Hann fluttist norður í Köldukinn skömmu eftir stríð, en kona hans Kristbjörg Jónsdóttir var ættuð frá Ystafelli. Fyrir nokkrum árum hófu Ingólfur og Sverrir sonur hans uppbyggingu bílasafns á Ystafelli, sem í dag er eitt merkilegasta samgönguminjasafn landsins. Félagar í Fornbílaklúbbi Íslands votta Kristbjörgu og Sverri samúð sína vegna fráfallsins og minnast um leið margra góðra stunda með Ingólfi á Ystafelli. [14.02]


Bilaðir Citroen tengingar, en augnakonfekt í sárabæti!

Þrátt fyrir gott útlit og ýmsar tækninýjungar áttu Citroenbílar til að bila svolítið. Nú kemur í ljós að Citroensíður Leó M. Jónssonar, sem vísað var á í dag og í gær, eru með öllu óvirkar og biðjumst við velvirðingar á því. Í staðinn eru hér myndir frá síðustu Concors d´Elegance fornbílasýningu þar sem sýndir voru glæsilegustu fornbílar heims. Segja má um þessi djásn fyrri tíma að þau sé sannarlega hægt að kalla augnakonfekt. [14.02]


Gyðjan sem gjörbyllti bílaheiminum

Í gær var rætt um Citroen Traction Avant, en þessi framhjóladrifni bíll hafði áhrif um gjörvallan bílaheiminn. Annar bíll frá Citroen, DS gerðin, kom fram árið 1955, en DS er skammstöfun á franska orðinu „Déesse“ sem þýðir gyðja eða dís. Þessi gyðja hafði sannarlega byltingarkennd áhrif á hönnun bíla um heim allan. Leó M. Jónsson er sérfræðingur í Citroenbílum og hefur skrifað lærða grein um þessa bíla. Þar segir m.a.: „Citroën DS skar sig úr öllum öðrum fjöldaframleiddum bílum. Hann var í sjálfu sér formbylting í bílahönnun, tæknibylting í vélbúnaði, bylting í öryggis- og aksturseiginleikum bíla auk þess sem hann setti nýja staðla, sem enn gilda að einhverju leyti, um þægindi, búnað og innra rými fólksbíla. Margir myndu hiklaust skrifa undir það að Citroën DS hafi verið 20-30 árum á undan sínum samtíma og myndi standast flestar kröfur sem nú (2003) eru gerðar til nýrri bíla.“ Lesið afar fróðlega grein um þessa bíla. [14.02]


Framhjóladrifna tækniundrið

Um daginn var aðeins rætt um 90 ára afmæli Citroen og þar var að sjálfsögðu minnst á hinn stórmerka Traction Avant, hinn framdrifna Citroen, sem lengi hefur verið einn af tákngervingum Frakklands. Leó M. Jónsson hefur skrifað lærða grein um þennan bíl, enda átti hann einn slíkan á árunum 1959-60, um það leyti sem hann fékk bílpróf. Leó segir um Traction Avantinn: „Aksturseiginleikar þessa Citroën voru einstakir á sínum tíma: Hann lá eins og tyggjóklessa, hallaðist lítið sem ekkert í beygjum, var þýður og sérstaklega hljóðlátur, uppgefinn hámarkshraði var 115 km/klst en það þýddi að fáir, ef nokkrir bílar í svipuðum verðflokki, höfðu roð við honum og á malarvegum áttu fáir bílar möguleika á að fylgja honum eftir.“ Lesið athyglisverða grein Leós um þennan merka bíl. [13.02]Nýr fornbíll bætist í flotann!

Þórir nokkur Waagfjörð hefur flutt inn merkilegan fornbíl frá Bandaríkjunum. Um er að ræða Mercury Turnpike Cruiser árgerð 1957, sem er heillegur bíll en hefur staðið óhreyfður í nokkra áratugi og því aðeins farinn að láta á sjá. Nú hyggst Þórir ásamt föður sínum gera bílinn upp og eru þeir þessa dagana að viða að sér varahlutum. Allir sem vita um einhverja slíka eru beðnir um að senda Þóri tölvupóst sem allra fyrst í netfang thorirw@landspitali.is . Þótt bíllinn sé heillegur eiga þeir feðgar engu að síður mikið verk fyrir höndum og þiggja því fegins hendi alla aðstoð. [12.02]Hudson geitungurinn sem stakk hina þrjá stóru

Í dag, 10. febrúar, eru nákvæmlega 52 ár síðan að Marshall Teague vann glæstan sigur á 250 km langri Daytona brautinni í Flórída á Hudson Hornet bíl sínum (Hornet þýðir geitungur) og hóf þannig þriggja ára samfellda sigurgöngu Hudson á NASCAR. Árið 1948 hóf Hudson framleiðslu á hinum sögufræga „step-down“ eða kjallarabílnum, sem hafði sjálfberandi grind og mun lægri þyngdarpunkt en bílar samkeppnisaðilana. Þetta bætti aksturseiginleikana til muna og ekki var verra að hafa 308 kúbika (5 lítra) sex strokka línusleggju, sem skilaði þessum bílum vel áfram, að vísu með skelfilegri eldsneytisbrennslu. Í kjölfar sigursins hjá Teague lögðu forsvarsmenn Hudson mikla áherslu á stuðning við þá NASCAR keppendur sem brúkuðu Hudsonbíla og nýttu sér síðan orðstýrinn óspart í auglýsingum. Því miður dugði það skammt í samkeppninni við V-8 vélarnar sem tröllriðu öllu vestanhafs um miðjan sjötta áratuginn. Hér er góð myndasyrpa með Hudson Hornet. [10.02]


Hin opinbera verðskrá fornbíla

Ritstjóra hefur borist góð ábending um merkilega heimasíðu þar sem hægt er að sækja nýjustu verð yfir fornbíla á ameríkumarkaði. Um er að ræða svokallaða GOLD BOOK, en þar getur maður einfaldlega slegið inn nafn bíls, árgerð hans og undirtegund og þá eru gefin upp fjögur verð eftir ástandi, hvort hann er þokkalegur, góður, frábær eða hreinlega sýningargripur. Nú er bara að skoða og sjá hve mikils virði draumabíllinn raunverulega er og bera saman við verðlagninu bjartsýnna sölumanna. Hér er slóðin: www.manheimgold.com/ [07.02]


Mercedes-Benz 300SL
Mávavængurinn nálgast fimmtugt

Í dag 6. febrúar eru nákvæmlega 49 ár síðan sögufrægasti sportbíll allra tíma var kynntur almenningi, en það er 300 SL mávavængurinn frá Mercedes Benz. Frumgerð þessa bíls var smíðum árið 1952 og notuð í nokkrum kappökstrum m.a. í Mexico. Sá bíll vakti áhuga fjölmargra og því var tekin ákvörðun um að endurhanna hann og fjöldaframleiða. Var sett í hann 6 strokka vél sem skilaði bílnum upp í heila 250 km á klukkustund, ef menn höfðu á annað borð taugar til að keyra um á slíkum hraða. Samtals voru framleiddir 1400 mávavængir, en þeir voru síðan leystir af hólmi árið 1957 með hefðbundnum 300 SL blæjubíl. Hér má sjá myndir af þessum einstæðu bílum. [06.02]


Imperial heimasíða

Hlynur Eggertsson fornbílaklúbbsfélagi á Akranesi vill kynna alþjóðlegu Imperial heimasíðuna fyrir íslenskum fornbílamönnum, en bíllinn hans, Imperial árgerð 1962, er eini bíllinn þeirrar gerðar sem skráður er á þessa heimasíðu. Hann spyr jafnframt hvenær Fornbílaklúbburinn ætli sér að setja inn læsta félaga- og bílaskrá á heimasíðu klúbbsins. Ritstjórinn hefði helst vilja hafa slíka skrá inni og þá jafnvel ólæsta, enda getur það varla verið mikið leyndarmál hverjir eru í klúbbnum og hvaða fornbíla þeir eiga. Hér er Imperialsíðan hans Hlyns og nú er að sjá hvernig hún stenst samanburð við okkar síðu: www.imperialclub.com/ . [05.02]


Meirháttar bílar að sögn Leó Emm

Um daginn var fjallað lauslega um Kaiser-Frazer bíla hér á heimasíðunni, en nú hefur hinn virti bílasérfræðingur Leó M. Jónsson skrifað lærða grein um þennan framleiðanda og þar er m.a. að finna ágætar upplýsingar um sögu þessara bíla hérlendis. Í greininni hælir Leó þessum bílum og telur þá hafa verið að mörgu leyti á undan sinni samtíð. Þar stendur m.a.: „Á meðal áhugamanna um bílasögu seinni hluta 20. aldar eru margir þeirrar skoðunar að 2. kynslóð af Kaiser, þ.e. árgerðir 1951 til og með 1955, sé einstakur á meðal amerískra bíla. Bíllinn frá 1951 var í grundvallaratriðum óbreyttur þegar framleiðslu hans var hætt 1955. Þegar hann kom fyrst fyrir sjónir manna vakti hann ekki síst athygli fyrir fallega hönnun en þar kom Howard „Dutch“ Darrin enn við sögu og er talinn hönnuður bílsins þrátt fyrir að hann og H. J. Kaiser færu í hár saman þegar Darrin sætti sig ekki við breytingar á hönnuninni, sem gerðar voru að honum forspurðum og að undirlagi H. J. Kaiser, og lét m.a. í fússi, fjarlægja merkið „Darrin Design“ af skottloki bílanna.“ – Lesið þessa athyglisverðu grein hér: www.leoemm.com/kaiser.htm [04.02]


Fornbílamenn hvergi bangnir yfir vetrartímann 

Þegar vetur geysar í norðurhéruðum er eina ráðið að færa sig suður á bóginn til að höndla með fornbíla. Dagana 15. til 19. janúar var Barrett-Jackson fornbílauppboðið haldið í 32. sinn í Scottsdale í Arizonaríki. Þar voru hvorki fleiri né færri en 706 fornbílar boðnir upp og seldust 90% þeirra. Á uppboðinu var haldið sérstaklega upp á áttræðisafmæli Carroll Shelby, sem hannaði og framleiddi hina merku Shelby Cobru á sínum tíma. Samtals mættu 165.000 fornbílamenn á uppboðið, sem segir okkur að það er ástæðulaust að slá slöku við þrátt fyrir stöðu dagatalsins. Margt merkra gripa skipti um hendur, en sérstaka athygli vakti Edsel skutbíll frá 1958, sem seldist á heila 40.000 dali, sem er víst hæsta verð sem fengist hefur fyrir bíl þessarar gerðar. Lesið meira hér og skoðið flottar myndir. [03.02]