Eldri fréttir - Janúar 2003

Citroen 1956 Citroen 1966
Citroenbílar orðnir níræðir 

Um þessar mundir er þess minnst að 90 ár eru síðan framleiðsla Citroenbíla hófst í Frakklandi. Andre Citroen hóf framleiðsluna í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar og fór framleiðslan hægt af stað. Þegar hann lést árið 1935 hafði hann hins vegar innleitt fullkomna fjöldframleiðslu í anda þeirra stóru og umfram allt, markaðssett hinn byltingarkennda Traction Avant, þann framhjóladrifna, sem átti eftir að hafa veruleg áhrif á gervallan bílaiðnaðinn. Var hann framleiddur í nærri milljón eintökum næstu 23 árin og varð hálfgerður tákngervingur fyrir Frakkland ásamt Parísarturninum. Áður er framleiðslu bílsins lauk hafði Citroen kynnt annan sögufrægan bíl, braggann, og síðan kom DS bíllinn árið 1955, en hann þótti einn nútímalegasti bíll heims á sínum tíma. Lesið meira um sögufræga Citroenbíla hér og skoðið skemmtilegar myndir. [31.01]Endurgerðin betri en frumgerðin! 

Fornbílamenn hafa löngum haft horn í síðu endurgerðra bíla (replica), enda ekki um orginal bíla að ræða og oftar en ekki bölvaðar hrákasmíðar. Undantekningin frá þessu er hinn gullfallegi Ford V-8 árgerð 1934 sem Timmis Motor í Kanada hefur framleitt allar götur síðan árið 1969. Sá bíll þykir betri smíð en frumgerðin, enda hefur salan verið jöfn og góð þrátt fyrir myndarlegan verðmiða. Leó M. Jónsson hefur kynnt sér þessa bíla í ræðu og riti og segir þessa vagna hafa mjög góða aksturseiginleika og þá megi jafnvel keyra vandræðalaust á 150 km hraða. Árið 1985 kostaði Timmis Ford V-8 heila 42 þúsund dollara og ef að líkum lætur kostar hann ekki undir 60 þúsundum í dag og fá víst en vilja! Kynnið ykkur málið hér og skoðið glæsilegar myndir af þessum óvenjulegu „fornbílum“: www.timmismotor.com [29.01]


Hraðbrautarmet allra tíma 65 ára í dag!

Í dag eru heil 65 ár síðan að mesti hraðakstur á venjulegum akvegi átti sér stað. Þann 28. janúar árið 1938 ók Rudolf Carracciola (1901-1959) á 5,8 líta Mercedes Benz kappakstursbíl sínum á 438 kílómetra hraða á klukkustund á hraðbrautinni milli Frankfurt og Darmstadt í Þýskalandi. Nokkrum klukkustundum síðar reyndi ungur ökumaður Bernd Rosemeyer að slá met Rudolfs á sömu hraðbraut, en lét lífið þegar hann missti stjórn á Auto Union bíl sínum á 400 km hraða. Akstursmet Rudolfs Carracciola á venjulegri hraðbraut hefur enn ekki verið slegið, 65 árum síðar, þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Þeir sem vilja kynna sér betur þennan einstæða ökumann og sjá myndir af þessu hraðskreiða ökutæki er bent á eftirfarandi heimasíðu, þar sem finna má nokkrar myndir frá gullöld kappaskstursbílanna. [28.01]


Bílasagan við hvert fótmál

Það þarf ekki endilega að fara í bílasöfn til að sjá sögulegar minjar um bíla og bílaframleiðslu. Það má einnig heimsækja borgir þar sem bílasagan liggur svo að segja við hvert fótmál. Ein þessara borga er bílaborgin Detroit, þar sem þessa dagana er verið að leggja aukna áherslu á minjagildi rústa og yfirgefinna bygginga sem tengjast bílasögunni. Hér má sjá áhugaverða grein um þetta efni og merkilega myndamöppu með sögulegum myndum frá T-Ford verksmiðjunum í Highland Park, en þar voru yfir 2000 bílar framleiddir á dag árið 1916. Þessar byggingar standa enn í dag, að vísu með neglt fyrir alla glugga, en bílamenn vonast til þess að einn góðan veðurdag verði þær opnaðar almenningi á nýjan leik. [24.01]


Myndir frá stjórnarfundi á Selfossi í janúar 2003 Myndir frá stjórnarfundi á Selfossi í janúar 2003 Myndir frá stjórnarfundi á Selfossi í janúar 2003 Myndir frá stjórnarfundi á Selfossi í janúar 2003 Myndir frá stjórnarfundi á Selfossi í janúar 2003
Stjórnarferð til Selfoss

Stjórn Fornbílaklúbbsins heimsótti félaga klúbbsins á Selfossi síðasta laugardag og hélt þar fund og myndasýningu. Mættu yfir 60 á fundinn, enda Selfyssingar og nærsveitungar meðal ötulstu fornbílamanna landsins. Fyrir fundinn heimsóttu stjórnarliðar nokkra athafnastaði fornbílamanna á Selfossi. Fyrst var komið við á bílasafni Sverris Andréssonar, sem á marga merka fornbíla. Síðan var vélsmiðja Valdimars Friðrikssonar heimsótt, en þar vinnur formaður Fornbílaklúbbsins ásamt fleirum að smíði Meiller palls á forláta Mercedes Benz vörubíl. Að lokum var komið við í bílskúr þar sem unnið er að uppgerð á Dodge pickup árgerð 1942. Voru stjórnarliðar Fornbílaklúbbsins afar ánægðir með móttökurnar á Selfossi og þann mikla áhuga sem heimsóknin vakti. [23.01]


Toyota
Merkilegt safn í austurvegi

Í síðustu viku var minnst á merkilega heimasíðu GM þar sem rakin er saga bílamerkja stórfyrirtækisins. Fjölmargir bílaframleiðendur leggja nú aukna áherslu á sögu sína og eldri framleiðslu og hafa margir þeirra öfluga útgáfustarfsemi þar að lútandi, eða reka söfn í framleiðsluborgum sínum. Eitt þessara fyrirtækja er risinn í austri, Toyota, sem á myndarlegt safn með eldri bílum sínum og fjölmörgum öðrum sögulegum bílum. Það er gaman að sjá hvernig þessir japönsku snillingar taka á fornbílamálunum, en á heimasíðu þeirra er hægt að fara í svokallaða „sýndargöngu“ (virtual walk), en þar er hreinlega hægt að ganga í gegnum safnið á tölvuskjánum, sem er vissulega ódýrara en að fljúga til Japans. [22.01]


Opel 1939
Pelinn kominn á annað hundraðið!

Í dag eru hvorki meira né minna en 105 ár síðan Opelbræðurnir fimm hófu að breyta saumavéla- og reiðhjólasmiðju sinni yfir í bílaverksmiðju, enda Þjóðverjar þá búnir að keyra bíla í meira en áratug. Fyrsti eiginlegi Opelbíllinn var þó ekki orðinn almennilegur fyrr en árið 1902, en það var tveggja strokka smábíll. Eftir það varð vegur Opel farsæll og oft á tíðum var þar unnið mikið brautryðjendastarf. Í dag er Opel að öllu leyti í eigu GM stórveldisins og framleiðir fjórðung af öllum bílum í Þýskalandi. Ritstjóri heimasíðunnar stundar ekki sólarlandaferðir, en finnst þeim mun skemmtilegra að eiga sólskinsstundir við bakka Rínarfljóts í miðhluta Þýskalands, þar sem menningin svífur um götur og torg. Skemmtir hann sér m.a. við að telja nær endalausa járnbrautarvagna yfirfulla af Opelbílum, sem líða áfram meðfram Rín á leið sinni norður til hafnar í Hamborg frá verksmiðjunum í Russelheim. Þeim sem vilja kynna sér sögu Opel nánar og skoða fornbílamyndir er bent á þessa heimasíðu [21.01]


Kaiser-Frazer
Síðan ógnin við Detroit 57 ára í dag

Í dag eru slétt 57 ár síðan að fyrstu bílarnir af Kaiser og Frazer gerðum voru fyrst kynntir á Waldorf-Astoria hótelinu í New York. Þetta sögulega bílafyrirtæki var stofnað af skipasmiðnum Henry J. Kaiser og bílamanninnum Joseph W. Frazer, sem þá var forstjóri Graham-Paige bílaverksmiðjanna. Þeir kumpánar fengu til umráða stærsta hús heims, Willow Run í Ypsilanti nærri Detroit, þar sem Henry Ford hafði smíðað 20 sprengjuflugvélar á dag í stríðinu, til hægt væri að ná böndum yfir Þjóðverja. Framleiðsla Kaiser-Frazer gekk afspyrnuvel fyrstu árin, enda bandaríska þjóðin að verða hungurmorða eftir nýjum bílum að stríði loknu og allt seldist á fjórum hjólum sem framleitt var. Eftir 1950 fór gamanið að kárna með aukinni samkeppni og svo fór að lokum að Kaiser-Frazer fyrirtækið skalaði sig niður og sameinaðist Willys-Overland og hélt áfram að framleiða jeppa, þangað til AMC yfirtók þá búgrein árið 1970. Í bókinni „The last onslaugt on Detroit“ (síðasta ógnin við Detroit) er smá grein um Kaiser bíla sem framleiddir voru í Ísrael og voru meðal annars seldir til Íslands í skiptum fyrir fisk. Sögumaður segir svo frá að Íslendingar hafi kvartað sáran yfir fiskifýlu í nýju bílunum sínum, en þar gátu þeir sjálfum sér um kennt, því bílarnir fóru með sömu skipunum til baka og komið höfðu með trosið suður til Ísraels. Hér eru myndir af þessum sérstæðu bílum sem þó nokkuð var til af hér á skérinu forðum daga, en ónýtir vegir, selta og regn hjálpuðust að við að leggja í rúst. [20.01]


Stjáni 1948 Stjáni 1948 Stjáni 1948
Íslenskur huldubíll af árgerð 1948!

Íslendingum hefur löngum verið ýmislegt til lista lagt varðandi bíla og áttu meðal annars sín gullaldarár í yfirbyggingasmíði, þegar byggt var yfir fleiri hundruð Willysjeppa, rútur og vörubíla, svo dæmi séu tekin. Hönnun og smíði bíla hefur þó verið öllu sjaldgæfari, en hefur greinilega ekki verið með öllu óþekkt. Ritstjóri heimasíðunnar rakst nýlega á myndir af þessum listilega smíðaða smábíl ásamt höfundinum, Kristjáni nokkrum Sigurðssyni (Stjána Sig.) á Suðureyri við Súgandafjörð, en myndirnar eru teknar á Súganda árið 1948 af séra Jóhannesi Pálmasyni. Önnur skil kann ritstjórinn ekki á tilurð þessa ökutækis, en biður alla þá sem vita betur að senda sér línu hið fyrsta. Netfangið er orn.sigurdsson@edda.is [17.01]


Flott sögualbúm fyrir GM fólk og aðra fornbílamenn!

Í gær var minnst á 50 ára afmæli Corvettunnar, en á meðfylgjandi heimasíðu General Motors, er að finna stórglæsilegt yfirlit yfir sögu þessa merka fyrirtækis. Bílaframleiðendur hafa á liðnum árum vaknað til vitundar um sögu sína og um leið veitt auknu fjármagni í fornbíla og fornbílasögu, okkur fornbílamönnum til óblandinnar ánægju. Helginni verður vel varið við skoðun á þessari síðu, en þar skiptast á textar og myndir, auk þess sem hægt er að horfa á kvikmyndabúta. [17.01]


Vel heppnuð heimsókn til ET

Í gærkvöldi heimsóttu yfir 50 fornbílamenn fyrirtækið ET og kynntust því í máli og myndum. Er uppbygging fyrirtækis með eindæmum og tala trukkarnir 45 sínu máli, en á þessum bæ virðast menn geta leyst öll flutningaverkefni, bæði stór og smá, og þó ekki síst þau allra sverustu. Hér eru ljósmyndir frá heimsókninni. [16.01]


Corvettan fimmtug í dag!

Í dag 16. janúar er slétt hálf öld síðan GM kynnti fyrsta ameríska sportbílinn, Corvettuna. Kynningin fór fram á merkasta hóteli New Yorkborgar, þar sem glæsistyttur Nínu Sæmundsdóttur, „afreksandar“ tróna yfir aðalinnganginum. Nýja Corvettan þótti einnig glæsilegt hönnunarverk og varð klassískur bíll á svipstundu, enda steyptur í plexigler, sem var einsdæmi á þessum tíma. Bíllinn fékk þó fljótlega viðurnefnið „sauður í úlfsgæru“, þar sem sex strokka vélin og sjálfskiptingin þóttu ekki til mikilla átaka, einkum í samkeppni við gamla evrópska keppinauta. En núna er hægt að kaupa nákvæma eftirlíkingu af afmælisbarninu og núna er komin 5,7 lítra (350 cu) V-8 vél undir húddið. [16.01]


Merkileg grein um V-8 Fordinn

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur er með merkilega heimasíðu og hefur nýlega skrifað og birt vandaða grein um V-8 Fordinn, sem fyrst leit dagsins ljós árið 1932. Frægastur varð fyrsti V-8 Fordinn sennilega fyrir að vera í eigu Bonnie og Clyde, sem enduðu lífdaga sína í slíkum bíl, sem finna má sundurskotinn í flestum bílasöfnum vestanhafs, eða eins og Leó segir sjálfur um þetta efni í bráðskemmtilegri grein sinni: „Hefði ekki verið fyrir kvikmyndina um Bonnie og Clyde hefði þessa náunga varla verið minnst nema væri fyrir bréfið sem hann [Clyde Barrow] skrifaði Henry Ford I. Það hljóðaði eitthvað á þessa leið með mál- og stafsetningarvillum: „Ég hef ekinn engum annarrum en Ford þegar mér hefur tekist að stela einum. Hraðskreður og lauss við bilanir hefur Fordinn flatt út alla aðra bíla og jafnvel þó mitt starf hafi ekki verið algjerlega löglegt skaðar ekki allt að segja þér hvað fínan bíl þú hefur í Ford V8.“ Henry Ford hljóp með bréfið í blöðin og úr varð mikil auglýsing fyrir Ford, eins og áður sagði, en kannski minni fyrir skólann sem kenndi Clyde Barrow að skrifa! En Bonnie og Clyde áttu eftir að auglýsa Ford V8 enn betur þótt það yrði með sérstökum hætti. Þegar þeim var gerð fyrirsát í Norður-Lousiana í maí 1934 voru þau á drapplitum og gráum „Desert Sand“ V8 Fordor DeLuxe sem þau höfðu stolið í Topeka í Kansas 23 dögum áður og náð að aka 7500 mílur (12 þús. km). Þótt þau færu mikinn áttu þau enga möguleika og voru sölluð niður með rifflum og hríðskotabyssum flokks lögreglumanna. Auglýsingin? Í blöðunum var m.a. sagt frá því að eftir að lík þeirra skötuhjúanna hefðu verið fjarlægð hefðu fundist 107 skotgöt á bílnum. Engu að síður hefði V8-vélin dottið í gang á fyrsta starti!“ Lesið alla söguna hér: www.leoemm.com/roadster.htm [15.01]


Buick '38Buick '59
Grimmir Bjúkkar á aldarafmæli

Nú er þess minnst um gjörvalla heimsbyggð að 100 ár eru síðan fyrstu Bjúkkarnir litu dagsins ljós, en þeir áttu síðar eftir að verða einn aðal hornsteinninn í bílaframleiðslu GM og gengu Cadillac næst í aðalstign. Nýlega var haldin glæsileg bílasýning tegundinni til heiðurs og þar mættu margir glæsivagnar frá öllum aldursskeiðum. Meðal þeirra var furðulegt tæki, nefndur Buick Blackhawk, sem við fyrstu sín lítur út fyrir að vera afskræmdur Hot Roddari, en reynist við nánari athugun vera spánýr, en með sterk svipbrigði af fyrirrennara sínum af árgerð 1939. Hér gefur að líta skemmtilega frétt sem inniheldur verklega myndamöppu, þar sem renna má myndrænt í gegnum aldarsögu Buick. [13.01]Merkileg grein um Jagúar

Hinn afkastamikli bílaskrifari og véltæknifræðingur Leó M. Jónsson hefur birt afar athyglisverða grein um sögu Jagúar á heimasíðu sinni og lagt áherslu á MK II. Þar gefur meðal annars að líta myndir af nákvæmlega eins bíl og sá sem Halldór heitinn Laxness spókaði sig um á fyrir rúmum 30 árum, en sá bíll er nú í eigu íslensku þjóðarinnar og geymdur í bílageymslum Fornbílaklúbbsins. Margt athyglisvert kemur fram í greinininni, meðal annars er greint frá tveimur stórbrunum hjá Jagúar árin 1947 og 1957, en í síðara skiptið brann heill floti af nýjum bílum og sjá má ógeðfellda mynd frá þeim atburði. Greinina má lesa hér:www.leoemm.com/jaguar.htm [10.01]


Afmælisdagur japanskra í vesturheimi

Í dag eru nákvæmlega 45 ár síðan fyrstu japönsku bílarnir komu fyrir almenningssjónir í Bandaríkjunum. Voru Toyota og Datsunbílar sýndir á Imported Motor Car Show í Los Angeles og vöktu þessir smábílar töluverða athygli. Þegar til átti að taka reyndust þeir hrapalega í hinu hraðskreiða samfélagi, enda voru þessir bernskubílar Japana ákaflega frumstæðir og vélavana. En Japanir voru fljótur að læra og á næstu árum þróuðu þeir betri og hraðskreiðari bíla og nú eru japanskir bílar framleiddir í massavís í Bandaríkjunum og reyndar um heim allan, enda virðast þeir hafa yfirburðastöðu á markaðnum. Á meðfylgjandi slóð má sjá hvernig þessir frumstæðu frumherjar litu út. [09.01]


Fornbílaakstur aldarinnar!

Í tilefni af aldarafmæli Fordbílsins verður farinn sérstakur leiðangur á 42 T-Fordum þvert yfir Bandaríkin frá Los Angeles til Detroit, sem er 4800 km leið. Leiðangurinn hefst 24. maí og ekið verður í 6 tíma á dag, samtals í 20 daga. Meðalhraðinn er 56 km á klukkustund og ekið verður jafnt í rigningu sem sólskini, en ætlunin er að renna í hlað í Detroit fimmtudaginn 12. júní þegar hátíðarhöldin hefjast. Þeir sem vilja kynna sér þetta merkilega áhald betur og sjá aragrúa af myndum af því við leik og störf er bent á þessa slóð: www.mtfca.com/ [08.01]


Stórhátíð í vændum

Eins og greint var frá hér á heimasíðunni í gær fagnar Ford fyrirtækið 100 ára afmæli í ár, en aðal hátíðahöldin verða dagana 12. til 16. júní, þegar búist er við 100.000 gestum til Dearbornborgar. Reyndar teygja hátíðarhöldin sig inn til Detroit, þar sem verið er að breyta gömlu 20.000 fermetra T-Ford verksmiðjunum við Highland Park í safn, en þangað hefur1000 gestum verið boðið sérstaklega. Þegar Ford stóð á hátindi síns ferils runnu 1000 T-Fordar af færiböndunum við Highland Park, þar sem 100.000 verkamenn störfuðu undir sama þaki. [07.01]


Nú er það svart!

Eins og flestir vita þá verður Ford fyrirtækið 100 ára á þessu ári og í tilefni þess verður mikið um dýrðir í Fordborginni Dearborn, sem er skammt frá Detroit. Verið er að leggja síðustu hönd á gríðarlegar endurbætur á safninu í Greenwich Village og nú er ráðgert að endurframleiða T-Fordinn í takmörkuðu upplagi, fyrir þá sem treysta sér til að keyra þann ágæta vagn. Síðan kemur ný afmælislína af nýrri gerðum, sem að sjálfsögðu verða allir svartir, en það var uppáhaldslitur Henry Ford sáluga. Þegar framleiðslan á T-Fordinum var sem mest á árunum fyrir 1920, var svarti liturinn sá eini sem þornaði nógu hratt fyrir færibandavinnuna, þannig að Henry varð að gefa út þá yfirlýsingu að menn gætu fengið hvaða lit sem væri á T-Fordinn, svo framarlega sem hann væri svartur! Hér er athyglisverð grein um nýju svörtu bílana frá Ford. [06.01]


Indjánabíllinn 77 ára í dag

Þann 3. janúar árið 1926 kynnti stórfyrirtækið GM nýjan bíl sem framleiða átti í Oakland bílaverksmiðjunum í Pontiacborg í Michiganríki. Bíllinn var nefndur eftir borginni og indjánahöfðingjanum Pontiac, sem fyrr á öldum hafði barist gegn yfirráðum franskra landnema við nýlendubæinn D´troit, sem síðar hét einfaldlega Detroit og varð þekktari fyrir ýmislegt fleira en franska landnemann Cadillac. Á árunum eftir 1920 tók GM upp þá stefnu að setja upp systurtegundir með helstu bílgerðum sínum. Cadillac hóf til dæmis framleiðslu á LaSalle, Buick framleiddi Marquette, Oldsmobile Viking og Oakland hóf að framleiða Pontiac. Það undarlega við þessa upptalningu er, að allar þessar systurgerðir létu í minnipokann fyrir þeim eldri, nema Pontiacinn. Hann náði þvílíkum vinsældum að á endanum var ákveðið að láta Oakland gamla róa, en GM hafði keypt þá verksmiðju árið 1909, og segja má að þessi ákvörðun sé einsdæmi í bifreiðasögunni. Fyrir þá sem vilja kynna sér Pontiac nánar geta skoðað meðfylgjandi grein sem inniheldur glæsilega myndamöppu. [03.01]