Eldri fréttir - Desember 2002

Glæsivagnar á einkauppboði

Jólin eru tími fagurra hluta og falla fornbílarnir okkar vel inn í þá mynd. Fyrir skömmu var haldið mikið uppboð í Dearbornborg í Michiganríki á fornbílum í eigu hjónanna Richard og Lindu Kugn. Þar voru 372 bílar boðnir upp og seldust 238, sem er mjög hátt hlutfall. Það söfnuðust líka margar milljónir í kassann, en besta sala uppboðsins var á Packard Darrin blæjubíl árgerð 1942, sem fór á rúmlega 20 milljónir króna. Meðal annarra glæsivagna má nefna Chrysler Imperial árgerð 1931 (15,7 milljónir), Cadillac árgerð 1941 (11,6 m), Mercury 1946 (8 m), Cord 1937 (7,1 m), Packard 1939 (6,2 m) og síðast en ekki síst Edsel blæjubíll árgerð 1960 sem seldist á heilar 6 milljónir kr. Í meðfylgjandi grein er að finna glæsilega myndamöppu með 69 bílum, sem vel er hægt að orna sér við fram yfir áramót! [20.12]


Fornbílar í kvikmyndum

Fornbílar hafa lengi spilað stórt hlutverk í kvikmyndum og er skemmst að minnast íslenskra mynda á borð við Bíódaga, Djöflaeyjuna og nú síðast Mávahlátur, en í öllum þessum myndum voru félagar í Fornbílaklúbbnum iðnir við að lána bíla sína, svo leikmyndin yrði sem raunverulegust. Í vesturheimi eru árlega gerðar margar tíðarandakvikmyndir þar sem fjölmargir fornbílar koma við sögu og eru mörg fyrirtæki sem sérhæfa sig í að safna slíkum bílum saman. Eitt slíkt er í Kanada og hefur gert skemmtilega heimasíðu þar sem getur að líta bíla af öllum stærðum og árgerðum, jafnt lögreglubíla sem alþýðuvagna. [19.12]


Hvalfjarðargöng fornbílanna

Það kemur einstaka sinnum fyrir að Hvalfjarðargöngin þjóni okkar ágætu fornbílum í hópakstri til og frá höfuðborgarsvæðinu. Virðist þá mörgum sem tíminn hafi snúið til baka, en efast um leið um getu mannsins til slíkra stórframkvæmda á æskuárum bílsins. Því fer þó fjarri að mannskepnan hafi verið óhæf til slíkra verka á árum áður, eins og glögg má sjá í meðfylgjandi grein, þegar „Hvalfjarðargöng“ milli borganna Detroit og Windsor voru byggð á árunum 1928-30. Við gerð gangnanna var meðal annars níu 250 feta löngum stálhólkum sökkt í fljótið milli borganna, en hver þessara hólka vigtaði 8000 tonn. Af myndunum að dæma mætti ætla að okkar ágæti Fornbílaklúbbur sé mættur til leiks: [18.12]


Alvöru fornbílalitir!

Fjölmargir kannast við það vandamál að eiga í vandræðum með að finna rétta litinn á fornbílinn eftir uppgerð, en þá finnst mönnum náttúrulega eðlilegast að hafa litinn sem upprunalegastan. Á meðfylgjandi heimasíðu er að finna litaspjöld yfir langflesta fornbíla og er þeim raðað niður eftir tegundum og árgerðum. Enn eina ferðina reynist netið sannkölluð fróðleiksnáma fyrir fornbílamenn: www.autocolorlibrary.com [17.12]


Hann á afmæli í dag!

Þann 16. desember árið 1949 leit fyrsti bíllinn frá sænsku flugvélaverksmiðjunum SAAB (Svenska Aeroplan Aktiebolaget) dagsins ljós. Fyrsti Saabinn bar þess glögglega merki að vera hannaður af flugvélaverkfræðingum, þar sem straumlínan var allsráðandi og mælaborðið sagði sína sögu. Sagt er að ekkert hafi vantað á þessa bíla nema vængina, svo þær gætu tekið flugið. Saabinn var lengi vel vinsæll á Íslandi, enda traustur bíll, þægilegur og framdrifinn. Hér má sjá myndir af þessu merkilega afmælisbarni. [16.12]


Síðasti tveggja sæta þrumfuglinn

Í dag fyrir sléttum 45 árum, árið 1957, rúllaði síðasti tveggja sæta Ford Thunderbirdinn af færibandinu. Smíði þessa tveggja sæta bíls hófst árið 1955 og sló hann um leið allar söluvæntingar hjá Ford og valtaði gersamlega yfir Corvettuna frá Chevrolet, sem lengi vel gekk undir heitinu „sauður í úlfsgæru“. V-8 vélin frá Ford gerði gæfumuninn og verða ´55-57 T-Birdarnir lengi í minnum hafðir. ´58 árgerðin hlaut viðurnefnið „squarebird“, en hann var 4ra sæta, hálfum metri lengri og hálfu tonni þyngri en forverinn. Nýi þrumufuglinn stóð vel undir nafni, með 300 hestafla V-8 vél undir húddinu og sölutölurnar risu einnig þrátt fyrir efnahagslægðina árið 1958. Hér er hægt að skoða glæsilegar myndir af þessum sögulegu bílum: www.thunderbirds.org [13.12]


Myndabanki fyrir fornbílamenn

Ritstjóri heimasíðunnar rakst á þennan erlenda myndabanka þar sem mikið er af fornbílamyndum, einkum af breskum, amerískum og sovéskum bílum, en þær síðastnefndu eru frekar sjaldgæfar. Þar gefur meðal annars að líta myndasyrpu af ZIS bílum, sem eru snoðlíkir íslenska forseta Packardinum. Sjón er sögu ríkari: www.pimix.com [12.12]


Crawford bílasafnið í Cleveland

Um daginn var aðeins minnst á tilvonandi bílasafn Fornbílaklúbbsins í Reykjavík, en undirbúningur þess hefur kostað miklar rannsóknir á erlendum söfnum, jafnt vestanhafs sem austan. Í Clevelandborg í Ohioríki er að finna merkilegt fornbíla- og flugvélasafn sem tileinkað er þeirri miklu iðnaðarframleiðslu sem fram fór á þessum slóðum á fyrrihluta síðustu aldar. Þar voru meðal annars framleiddar fjölmargar bílategundir svo sem Winton, Hoffman, White, Hupmobile, Chandler, Cleveland, Stearns-Knight, Jordan Playboy, Rollin og Peerless. Safnið var stofnað árið 1938 þegar Fred Crawford keypti Duryea bíl árgerð 1910 og byggði safn umhverfis þennan eina bíl, en í dag eru þar nokkur hundruð bíla og telst eitt merkilegasta fornbílasafn Bandaríkjanna. Sjá nánari umfjöllun hér og glæsilega myndamöppu. [11.12]


Þeir dýrustu á söluskrá

Það er gaman að virða fyrir sér uppboðsskrá yfir glæsilegustu fornbíla heims. Sem betur fer þarf enginn að svekkja sig yfir verðlagningu þessara miklu bíla, því verð þeirra er hvergi nefnt. Á hinn bóginn er ekki annað hægt en að dáðst að þessum miklu og ótrúlega glæsilegu farskjótum liðins tíma. Óvíst er til dæmis hvort nokkur komist fyrr eða síðar með tærnar þar sem Delahaye hafði hælana í útlitshönnun. [06.12]


V-8 Fordarnir eru sjötugir í dag!

Í dag eru 70 ár síðan fyrstu V-8 bílarnir frá Ford voru kynntir. V-8 vélin frá Ford var fyrsta vél sinnar gerðar sem steypt var í einu lagi. Hún var flathaus, flat-head, og átti eftir að einkenna Fordbíla næstu tvo áratugina. Þrátt fyrir góða sölu á V-8 bílunum var Ford fallinn af hæstu hæðum T-Ford tímabilsins og barðist nú á markaðnum við hina risana, GM og Chrysler. Ein snyrtilegasta heimasíða í öllum fornbílageiranum er tileinkuð afmælisbarninu. [05.12]


Enn má skoða fögur söfn og njóta hagmæltra orða

Hugurinn er enn við fornbílasöfnin og að þessu sinni er haldið til Evrópu, nánar tiltekið Stuttgart þar sem hinar ágætu Mercedes Benz bifreiðar hafa streymt af færiböndunum um langan aldur. Í nýju íslensku orðabók Eddu útgáfu (sem á að vera til á hverju heimili) er Stuttgartborg nefnd Stóðgarður, sem er sennilega hið forna germanska heiti þessarar miklu iðnaðar- og menningarborgar. Af þessu tilefni bárust heimasíðunni eftirfarandi kviðlingar:

Í Stóðgarði er fagurt safn,
sækjum við þangað tíðum.
Á Ísalandi kúrir svartur sem hrafn,
ponton sveipaður kufli síðum.
---
Það er geðugt fyrir grín og glens
og ekki annar nokkur séns
en að verða aldrei alveg lens
og aka um á gömlum Benz.

Hér getur að líta nokkra fríða úr safninu fína. [04.12]Safnahugmynda leitað í mörgum heimsálfum

Í gær áttum við kost á að skyggnast inn í Studebaker safnið í South Bend í Indiana. Fornbílasafn Íslands í Reykjavík verður heldur smærra í sniðum, áætlað fyrir 25-30 fornbíla auk félags- og fundaraðstöðu. Heimasíðuritstjóri rakst á myndarlegt safn í þeim stærðarflokki í Suður Afríku, þar sem vinir Skúla fógeta búa við feitan kost. Þeir eru einnig hrifnir af Mercedes Benz bílum eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi myndum og er vart skömm að því. [03.12]


Studebaker stórafmæli!

Á þessu ári eru 150 ár síðan að Studebakerbræður hófu smíði hestvagna sem áttu eftir að marka þáttaskil í innflytjendasögunni vestra. Flestir vagnarnir með hvítu blæjunni, sem við höfum séð í vestramyndum, voru smíðaðir hjá Studebaker, enda voru þeir bræður með afkastamestu vagnasmiðum. Þegar bílaöldin hélt innreið sína brást Studebakersmiðjan rétt við og fyrsti Studebakerbíllinn rann af færibandinu árið 1902. Voru Studebakerar framleiddir í mikli magni í borginni South Bend í Indianaríki allt fram á sjöunda áratug 20. aldarinnar, þegar verksmiðjurnar gáfu upp öndina eftir mögur lokaár. Í South Bend snérist lífið um Studebaker og þar er í dag að finna myndarlegt safn um þennan merkilega vagna- og bílaframleiðanda. Á heimasíðu safnsins er mikið af góðum upplýsingum og sögulegum myndum: www.studebakermuseum.org [02.12]